Handritasafn Árna Magnússonar er í hópi 35 verka sem Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, setti á sérstaka varðveisluskrá sína 31. júlí 2009. Tilgangur varðveislulistans er að vekja athygli á mikilvægi þess að varðveita andlegan menningararf veraldar með því að útnefna einstök söfn sem hafa sérstakt varðveislugildi. Í mars á síðasta ári stóðu Ísland og Danmörk sameiginlega að því að tilnefna handritasafn Árna Magnússonar til skráningar á listann, en safnið er varðveitt hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og í Árnasafni í Kaupmannahöfn.
Ákvörðun UNESCO er grundvölluð á vönduðu mati og felur í sér mikla viðurkenningu á íslenskum handritaarfi. Í rökstuðningi segir að handritasafn Árna Magnússonar geymi ómetanleg handrit um sögu og menningu Norðurlanda, og raunar stórs hluta Evrópu, allt frá miðöldum til nýaldar, og eru Íslendingasögurnar nefndar sem sérstakt dæmi um þau verk á heimsvísu sem handritin geyma. Handritasafnið geymir um 3000 handrit frá miðöldum og síðari öldum. Ákvörðun UNESCO vekur mikla athygli á mikilvægi handritanna í alþjóðlegu samhengi og sýnir að þau eiga erindi við heiminn allan.