Skip to main content

Fréttir

Íslensk-frönsk orðabók

Sendiráð Frakklands á Íslandi, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hafa undirritað samkomulag um undirbúning að gerð íslensk-franskrar orðabókar en slík orðabók kom síðast út árið 1950. Verkefnið hefur hlotið styrk frá efri deild franska þingsins, 10.000 evrur, sem mun standa straum af kostnaði við verkið, auk þess sem sendiráðið leggur til starfsmann.

Hugvísindaþing 2014

Hugvísindaþing 2014 verður haldið dagana 14. og 15. mars í Háskóla Íslands. Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindasviðs Háskóla Íslands þar sem fram fer það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Nánar um þingkall til Hugvísindaþings má finna hér.

Útsala á bókum

Á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur verið ákveðið að bjóða áhugasömum ýmsar bækur á tilboðsverði. Þetta eru eldri útgáfur stofnunarinnar, þ. á m. miðaldarímur, riddarasögur o.fl. textaútgáfur, afmælisrit, doktorsritgerðir, bréfasöfn, ráðstefnurit, orðasöfn og rit um handritafræði og íslenskt mál. Nokkur hefti tímarita stofnunarinnar eru einnig í boði, útgáfur á efni úr þjóðfræðisafni, póstkort og veggspjöld stofnunarinnar. Þá verður hægt að fá afmælisrit Mettusjóðs, tvö rit Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, tímaritið Són og rit Rímnafélagsins á góðu verði.