Út er komið 16. hefti tímaritsins Orð og tunga.
Í heftinu birtast greinar um mál og málfræði auk ritfregna og frétta af ráðstefnum innan lands og utan.
Þema þessa heftis er „Málstöðlun: Tilurð, viðhald og endurnýjun staðalmálsins“ (e. Language Standardization: The origin, maintenance and renewal of the standard language) og fjalla fjórar greinanna um það efni. Heimir Freyr van der Feest Viðarsson fjallar um tilbrigði í orðaröð í 19. aldar íslensku og áhrif málstöðlunar á þróun afbrigðanna og Vanessa Isenmann skrifar grein um einkenni málnotkunar í tölvusamskiptum og veltir fyrir sér þeirri spurningu hvort þar sé að verða til sérstakt afbrigði af ritaðri íslensku. Magnus Breder Birkenes og Jürg Fleischer bera saman þróun nýnorsku og þýsku m.t.t. notkunar hvorugkyns um blandaðan hóp fólks með samanburði við íslensku. Loks fjalla Stephan Elspaß og Konstantin Niehaus um mismunandi málstaðla á víðáttumiklu málsvæði eins og því þýska með áherslu á það hvort og hvernig málheildir sem rannsóknir byggjast endurspegla tilbrigði í málnotkun á ólíkum svæðum.
Auk þemagreinanna eru í heftinu þrjár greinar um önnur efni. Ari Páll Kristinsson og Haraldur Bernharðsson birta niðurstöður rannsóknar á notkun íslensku og ensku í háskólastarfi á Íslandi. Grein Kristínar Bjarnadóttur fjallar um gerð og einkenni gagnasafnsins Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) og Jónína Hafsteinsdóttir skrifar grein um örnefnið Þveit.
Orð og tunga er gefin út af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og ritstjóri er Ásta Svavarsdóttir.
Upplýsingar um tímaritið má nálgast á vefsíðunni www.arnastofnun.is/page/timarit_ot. Þar má einnig panta áskrift að tímaritinu eða einstök hefti þess.
Ritið kostar 3.400 krónur og má panta hjá Kára Kaaber (kari@hi.is, sími 525 4010). Nánari upplýsingar um kaup og áskrift að tímaritinu má fá á vefsíðunni www.arnastofnun.is/page/arnastofnun_timarit_ot_askrift.