Fréttatilkynning frá Nafnfræðifélaginu
Fræðslufundur Nafnfræðifélagsins verður haldinn laugardaginn 26. apríl 2014 í stofu 106 í Odda og hefst kl. 13.15.
Birna Lárusdóttir fornleifafræðingur heldur fyrirlestur sem hún nefnir:
Grafið í örnefni
Örnefni geta gegnt margvíslegum hlutverkum öðrum en að vera leiðarvísar og oft fela þau í sér flóknari hugmyndafræði en lýsingar á umhverfi eða atburðum. Þessi hlutverk, sem ekki blasa alltaf við á yfirborðinu, koma einna helst í ljós þegar staðir eru nefndir formlega og ekki síður þegar fólk er ósammála um nöfn og nafngiftir - hvort heldur sem er fulltrúar ólíkra samfélagshópa eða yfirvalds og almennings. Í fyrirlestrinum verður skyggnst undir yfirborðið og kynnt nokkur dæmi um umræður sem hafa skapast um örnefni og nafngiftaferli á Íslandi. Jafnframt verður velt upp spurningum um hvað það er sem gerir nafngiftir og nöfn mikilvæg í mannlegum samfélögum og hvers konar gildi örnefni geta endurspeglað.