Skip to main content

Fréttir

Gjöf til Norðmanna

Frá af­hend­ingu gjaf­ar­inn­ar. Olemic Thomm­essen, for­seti Stórþings­ins, og Ein­ar K. Guðfinns­son, for­seti Alþing­is. Ljós­mynd­ari: Åsmund Holien Mo/​Stort­in­get.

 

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, heimsótti Noreg á dögunum í boði Olemics Thommessens, forseta Norska stórþingsins, og var viðstaddur hátíðarfund í Stórþinginu í tilefni 200 ára afmælis þingsins og stjórnarskrár Noregs, sem samþykkt var á Eiðsvöllum 17. maí 1814.

Einar afhenti gjöf frá Alþingi Íslendinga til Norska stórþingsins í tilefni tímamótanna. Gjöfin er endurgerður handritshluti prentaður á kálfskinn, með texta úr Konungsbók Grágásar GKS 1157 fol., frá því um 1250. Handritið varðveitir fyrsta samning Íslendinga við erlent ríkisvald; samning við Ólaf helga Haraldsson Noregskonung frá 1016–1030 um gagnkvæm réttindi Íslendinga og Norðmanna í löndunum tveimur. Sérfræðingar, meðal annars frá Árnastofnun, sáu um endurgerðina.

Guðvarður Már Gunnlaugsson og Guðrún Nordal völdu textann, sem kveður á um rétt og skyldur Íslendinga í Noregi ásamt rétti Noregskonungs og Austmanna, þ.e. Norðmanna, á Íslandi, úr GKS 1157 fol. (bl. 88vb–89vb). Guðvarður skrifaði texta handritsins upp og gerði stutta grein fyrir handritinu en Viðar Pálsson skrifaði um lagatextann. Soffía Guðný Guðmundsdóttir bar uppskrift textans saman við handritið og las hann yfir. Jóhanna Ólafsdóttir ljósmyndaði síðurnar í handritinu en Oddi sá um prentun þeirra á kálfskinn. Hersteinn Brynjólfsson sá um nákvæma endurgerð handritshlutans og allan umbúnað gjafarinnar.