Skip to main content

Fréttir

Þrjú upplestrarkvöld á vormisseri

Skipulögð hafa verið þrjú upplestrarkvöld á vormisseri þar sem pistlahöfundar, sem skrifa í bókina Konan kemur við sögu, lesa upp úr eða segja frá þeim greinum sem þeir eiga í þessari nýjustu útgáfu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

Það fyrsta hefur þegar farið fram en 40 manns fylltu hinn hógværa sal Mengis við Óðinsgötu. Hér er frétt um upplestrarkvöldið sem fór fram 15. febrúar.

 

Tvö upplestarkvöld eru framundan:

Nýtt starfsfólk komið til starfa á nýju ári

Það sem af er árinu 2017 hafa tveir nýir starfsmenn bæst við starfsmannahóp stofnunarinnar.

 

Sigurborg Kristín Stefánsdóttir tók til starfa sem fjármálastjóri þann 1. febrúar.

Síðastliðin 16 ár hefur Sigurborg unnið að verkefnum tengdum fjármálum, áætlanagerð, starfsmannamálum og erlendum samskiptum. Fyrst hjá Vodafone og síðar hjá Stjórnarráði Íslands. Sigurborg er með B.Ed-gráðu frá Kennaraháskóla Íslands og MBA-gráðu frá Háskóla Íslands.

Sigurborg vinnur á starfsstöðinni í Árnagarði við Suðurgötu.

 

Samísk sendinefnd kom í heimsókn

Nýverið komu góðir gestir á Laugaveg 13. Málræktarsvið og Nafnfræðisvið tóku á móti fjögurra manna sendinefnd frá Samaþinginu. Þau vinna að málrækt, íðorðaþróun og nafnamálum á samíska málsvæðinu og komu til að fræðast um hliðstæða starfsemi hér á landi í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 

 

Gripla XXVII

Gripla er alþjóðlegt, ritrýnt tímarit á sviði norrænna fræða fyrri alda. Að þessu sinni er að finna í ritinu sjö fræðigreinar auk annars efnis. Shaun F.D. Hughes fjallar um handritið Icel. 32, sem varðveitt er í bókasafni Harvardháskóla í Bandaríkjunum og hefur að geyma fornaldarsögur með hendi Halldórs Jakobssonar (d. 1810) og formála Halldórs fyrir sögunum þar sem hann reynir að flokka þær eftir sannleiksgildi þeirra.

Styrkir Snorra Sturlusonar veittir í 25. sinn

Í tilefni af 750. ártíð Snorra Sturlusonar, 23. september 1991, ákvað ríkisstjórn Íslands að hefja veitingu styrkja sem kenndir yrðu við nafn hans. Samkvæmt reglum um styrkina, sem gefnar voru út 1992, skulu þeir árlega boðnir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum til að dveljast á Íslandi í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi. Styrkirnir skulu veittir í þrjá mánuði hið minnsta og miðast við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega og dvalarkostnaði innanlands.

Afmælishaust Stofnunar Árna Magnússonar í máli og myndum

 

SEPTEMBER

1. september – Afmæli sameinaðrar stofnunar í íslenskum fræðum

Þann 1. september fagnaði Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 10 ára afmæli. Þann dag árið 2006 voru sameinaðar 5 stofnanir undir nýju nafni. Í tilefni af þessum tímamótum komu saman í húsakynnum stofnunarinnar að Laugavegi 13 núverandi og fyrrverandi starfsmenn ásamt mökum, vinum og velunnurum auk þeirra sem setið höfðu í stjórn stofnunarinnar frá upphafi.