Orðfræðisvið Árnastofnunar fékk í vikunni heimsókn frá rússneska sendiráðinu í Reykjavík. Sendiherra Rússlands á Íslandi, Anton Vasiliev, kom á Laugaveg 13 og með honum í för voru tveir starfsmenn sendiráðsins, þau Oxana Mikhaylova og Mikhail Zenin. Efni fundarins var kynning orðfræðisviðs á verkefnum sem varða tvær prentaðar orðabækur á milli íslensku og rússnesku, og möguleikar á birtingu þeirra á vefnum.
Í fyrsta lagi er um að ræða Íslensk-rússneska orðabók eftir Valéríj Bérkov sem hefur að stærstum hluta verið gerð leitarbær á vefnum þótt enn vanti herslumuninn. Það verkefni var unnið á Árnastofnun sumarið 2016 í samvinnu við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Nú er leitað leiða til að hægt verði að ljúka verkinu.
Í öðru lagi er um að ræða Rússnesk-íslenska orðabók eftir Helga Haraldsson sem hópur áhugamanna stefnir að, í samvinnu við stofnunina, að verði gerð aðgengileg á vefnum.
Þann 4. október á næsta ári verður minnst 75 ára afmælis stjórnmálatengsla Rússlands og Íslands, og væri við hæfi að þessar tvær orðabækur öðluðust nýtt líf af því tilefni. Ljóst er að árið 2018 munu margir Íslendingar leggja leið sína til Rússlands vegna HM í fótbolta, og gætu þessar orðabækur komið þar að gagni.