Skip to main content

Fréttir

Á annað hundrað manns á ársfundi 2017

Ársfundur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum fór fram í Gamla bíói að morgni fimmtu-dagsins 14. september.

Ársfundinn bar upp á afmælisdag Sigurðar Nordals en hefð er fyrir því að þann dag flytji fræðimaður, höfundur eða hugsuður fyrirlestur um menningarmál á vegum Árnastofnunar (áður Stofnun Sigurðar Nordals). Fundurinn var haldinn í fyrsta sinn í Gamla bíói þar sem eldri innréttingar setja hátíðlegan blæ á húsakynnin. Yfirskrift ársfundarins var Haustheimtur
enda gafst þar kostur á að kynnast mörgum af þeim verkefnum sem unnin hafa verið til lengri tíma við stofnunina. Gestir ársfundarins voru að þessu sinni á annað hundrað en þeir komu til að kynna sér það sem hæst ber í rannsóknum og starfsemi stofnunarinnar.

Starfið fer að mestu leyti fram á þremur starfsstöðvum í Reykjavík en teygir sig jafnframt út á land og jafnvel út fyrir landsteinana, þar sem íslenska er kennd í fjölmörgum erlendum háskólum og á hverju misseri læra um 1000 háskólanemar íslensku sem annað mál, víða um lönd.Helstu tíðindi fundarins snúa að nýlegri Verkáætlun um máltækni fyrir íslensku 2018–2022 en mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, sagði í lokaávarpi fundarins að sú áætlun yrði fjármögnuð þó að ekki sæi þess stað að fullu í fjárlagafrumvarpinu sem nú er til umræðu á Alþingi. Markmið áætlunarinnar er að íslenska verði gjaldgeng í tækjum og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. 

 

Hér má kynna sér dagskrá fundarins.

 

Ljósmyndari: María Kjartansdóttir.

 

Hluti stjórnar stofnunarinnar og þeir sem töluðu á ársfundi 2017 stilla sér upp ásamt ráðherra mennta- og menningarmála.

 

Morgunverður fram borinn.

 

Margrét Eggertsdóttir rannsóknarprófessor sagði frá nýjum viðhorfum í handritarannsóknum.

 

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti fram lokaorð fundarins.

 

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður stjórnar stofnunarinnar, flytur ávarp.

 

Heimir Freyr Viðarsson doktorsnemi sagði frá rannsókn á málstöðlun á 19. öld.

 

Guðrún Nordal forstöðumaður kynnir ársskýrslu 2016.

 

Halldóra Jónsdóttir orðabókaritstjóri segir frá tilurð vefgáttarinnar Málið.is.

 

Emily Lethbridge rannsóknarlektor fjallar um heim nafna.

 

Bjarni Benedikt Björnsson, íslenskukennari í París, ávarpar fundinn af skjá.

 

Beðið eftir ráðherra við upphaf ársfundar.

 

 

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir frá Máltækniáætlun 2018-2022.