Skip to main content

Fréttir

Nemendur streyma í gegnum sumarnámskeið stofnunarinnar

Nemendur heimsóttu Alþingi.

 

Í sumar tók 41 nemandi frá 17 löndum þátt í fjögurra vikna námskeiði í íslensku máli og menningu. Nemarnir komu sumir um langan veg eins og frá Hong Kong og Japan og var eftirspurnin eftir að komast á námskeiðið meiri í ár en nokkru sinni fyrr. Allir áttu nemarnir það sameiginlegt að hafa farið í gegnum vefnámskeiðið Icelandic Online I áður en þeir byrjuðu á námskeiðinu.

 

Námið fólst meðal annars í hefðbundinni íslenskukennslu í skólastofum og heimsóknum út fyrir veggi skólans, auk þess sem farið var í tvær ferðir út fyrir borgarmörkin; að Reykholti og á söguslóðir Njálu. Tekið var vel á móti hópnum á Alþingi og í Þjóðminjasafninu. Rithöfundurinn Jónína Leósdóttir hitti einnig nemendurna og sagði frá ritstörfum sínum.

 

Stofnun Sigurðar Nordals, nú alþjóðasvið Stofnun Árna Magnússonar, hefur séð um framkvæmd sumarnámskeiðanna í íslensku 28 sinnum eða frá árinu 1989 og tóku í ár fjölmargir þátt í uppfræðslunni sem er samstarfsverkefni Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

 

Rithöfundurinn Jónína Leósdóttir sagði nemendum frá störfum sínum.