Vel þekkt eru handrit þau sem Árni Magnússon sankaði að sér á sinni lífstíð, gersemar eins og Möðruvallabók og Skarðsbók Jónsbókar. Færri vita eflaust að Árni safnaði einnig gríðarlegu magni fornbréfa, sem eru hvers kyns skjöl þar sem lýst er lagalegum gjörningum eins og kaupmálum, jarðakaupum, dómum og fleiru, en þetta eru merkar heimildir um líf fólks á fyrri öldum.
Fornbréf sem Árni Magnússon sankaði að sér eru yfir 5000 talsins, þar af rúmlega 2000 íslensk, og eru þá ótalin nokkur þúsund afrit sem Árni gerði eða lét gera eftir fornbréfum sem mörg hver hafa síðan glatast. Á meðal fornbréfanna eru þó nokkrir uppskafningar, þ.e.a.s. skinnblöð þar sem búið er að skafa eða nudda upprunalegan texta af skinninu til þess að koma þar fyrir nýjum texta. Í sumum tilfellum er um fölsun að ræða, þar sem einhver hefur tekið gamalt bréf með áföstum innsiglum manna sem voru vitni að hinum upprunalega gjörningi, fjarlægt gamla textann og sett inn nýjan, væntanlega til þess að geta notað bréfið sem sönnun á eignarhaldi sínu eða ítökum. Dæmi um þetta er AM dipl. isl. fasc. IV, 20,[1] landamerkjabréf sem samkvæmt orðanna hljóðan var ritað í Dýrafirði árið 1390 en er eftir stafagerð og stafsetningu að dæma ekki ritað fyrr en á 16. öld.
Í öðrum tilfellum hefur menn einfaldlega vantað nothæft skinn sem efnivið og hafa tekið sér til handargagns blað úr gamalli bók sem ekki hefur verið talin þörf á að varðveita, skafið skinnið og endurnýtt það. Oft eru þetta blöð úr latneskum messubókum sem misst hafa notagildi sitt eftir siðbreytinguna en einnig má finna blöð sem hafa haft texta á norrænu máli. Eitt slíkt er AM dipl. isl. fasc. LXX, 7, bréf sem varðar jarðakaupagjörning sem gerður var við Stóru-Þverá í Fljótshlíð í Rangárþingi 21. október árið 1607 en bréfið sjálft var skrifað „fáum dögum síðar“. Ekki er ritunarstaðar getið en hann hefur sennilega einnig verið í Fljótshlíð eða í það minnsta ekki víðs fjarri.
Á spássíu bréfsins hefur Árni Magnússon m.a. ritað: „Þetta er úr heilagri bók.“ Á bakhlið bréfsins má greinilega sjá votta fyrir tveimur dálkum með 37 textalínum í hvorum dálki. Í venjulegu ljósi er torvelt að greina í sundur stafina en á sjötta áratug síðustu aldar tók ljósmyndari Árnasafns í Kaupmannahöfn mynd af síðunni í útfjólubláu ljósi og tókst Stefáni Karlssyni, með liðsinni Hans Bekker-Nielsens, að lesa megnið af textanum í þessum tveimur dálkum. Textinn reyndist vera úr sögu Guðmundar góða Hólabiskups, í þeirri gerð sem eignuð hefur verið Arngrími Brandssyni ábóta (stundum kölluð D-gerð Guðmundar sögu), og svarar textinn til bls. 152, línu 1, til bls. 153, línu 31, í öðru bindi Biskupa sagna (1878).
Um textann á framhliðinni gegnir öðru máli enda drukknar hann í 17. aldar textanum. Þó má sjá að líkt og á bakhliðinni eru hér tveir dálkar með 37 línur í hvorum og að í fyrstu línu fyrri dálks (sem yngri textinn hylur ekki) stendur „mótgangs ok meingerða herra G(uðmundar) grimmiz nú upp á þá með eitr,“ sem svarar til texta á línum 2–3 á bls. 150 í Biskupa sögum II. Stefán Karlsson prentar aðeins þessa einu línu af þessari síðu í grein sinni en getur þess þó að lesa megi „fremstu stafi flestra lína í þessum dálki og lítils háttar á milli lína í bréfinu.“ Texti síðari dálks er að sögn Stefáns enn betur skafinn brott en þó megi þar greina stórt grænt „Þ“ sem eflaust markar upphaf 71. kafla sögunnar.
Seint á árinu 2023 voru sérfræðingar í fjölrófsmyndatöku (e. multispectral imaging) fengnir til Íslands í boði Árnastofnunar til að ljósmynda síður nokkurra skinnblaða og var hin torlæsa fremri síða jarðakaupabréfsins frá Stóru-Þverá á meðal þeirra sem ákveðið var að prófa tæknina á. Síðan var ljósmynduð á ólíkum bylgjulengdum ljóss. Í nær-innrauðu ljósi verður undirtextinn (þ.e. Guðmundar saga) því sem næst ósýnilegur en í nær-útfjólubláu ljósi verður hann skýrari. Það sama má segja um spássíukrot Árna Magnússonar. Bréftextinn helst aftur á móti læsilegur á öllum bylgjulengdum en verður þó aðeins gegnsærri á mynd sem tekin er í nær-innrauðu ljósi. Þetta bendir til að samsetning blekgerðanna sé ólík; texti bréfsins er líklega ritaður með innfluttu barksýrubleki en sögutextinn og texti Árna virðast aftur á móti vera ritaðir með plöntubleki sem kann að vera innlend framleiðsla, mögulega gerð úr sortulyngi, sortu og víðileggjum.
Hefði þessu verið öfugt farið — bréftextinn verið ritaður með plöntubleki en sögutextinn með barksýrubleki — væri eflaust hægt að lesa töluvert meira af undirtextanum í ljósi með bylgjulengd á bilinu 750–1400 nm, þ.e. í nær-innrauðu ljósi; plöntublekið yrði ósýnilegt en barksýrublekið skini í gegn. Því miður reyndist ekki svo vera í þetta sinn en samt sem áður var tilraunin ekki gerð til einskis því að myndir teknar í nær-útfjólubláu ljósi gera texta Guðmundar sögu skýrari, þótt hann sé enn að miklu leyti falinn undir yngri textanum. Þá er áhugavert að blekgerðirnar sem notaðar voru á ólíkum tímum eru mismunandi. Samsetning bleksins sem Árni Magnússon notaði til að rita sínar klausur á 18. öld virðist vera líkari bleki 14. aldar textans en bréftextans en annars konar rannsókn gæti skorið úr um efnisinnihald bleksins (t.d. litrófsgreining með XRF-tækni).
Bréfið frá Stóru-Þverá er síður en svo eini uppskafningurinn sem varðveittur er í handritasafni Árnastofnunar. Frekari fjölrófsmyndatökur og rannsóknir á safnkosti Árnastofnunar í framtíðinni munu án efa leiða ókunna leyndardóma í ljós og jafnvel svara spurningum sem okkur hefur ekki dottið í hug að spyrja.
[1] Skammstöfunina má leysa upp sem: Arna-Magnæani diplomatarium islandicum, fasciculus IV, nr. 20, sem merkir að þetta sé íslenskt fornbréf úr safni Árna Magnússonar, tuttugasta bréfið í böggli númer fjögur. Þrátt fyrir að fyrir löngu sé búið að sundra þessum bögglum og koma fornbréfunum betur fyrir í rúmgóðum tölusettum öskjum hafa safnmörk þeirra haldist óbreytt. Þetta tiltekna bréf er núna eitt af sex bréfum í öskju nr. 3 í fornbréfasafninu á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Síðast breytt 20. júní 2024