Á dögunum urðu þáttaskil í sögu íslenskra handrita þegar sýningin Heimur í orðum var opnuð í Eddu. Á sýningunni er hægt að berja augum margar helstu gersemar úr safni Árna Magnússonar en einnig gefst nú einstakt tækifæri til að sjá nokkur handrit sem alla jafna eru varðveitt í Danmörku. Þar á meðal er eitt elsta handrit konungasagna, Morkinskinna, sem er frá seinni hluta þrettándu aldar.
Brynjólfur Sveinsson (1605–1676), biskup í Skálholti, var einn ötulasti fræðimaður og bókasafnari á Íslandi á sautjándu öld. Morkinskinna var meðal bóka sem hann átti en önnur þekkt handrit sem voru í hans eigu eru Flateyjarbók, Konungsbók eddukvæða og Konungsbók Snorra-Eddu. Bækurnar gaf hann Friðriki þriðja Danakonungi um og upp úr miðri sautjándu öld meðal annars af því að hann vonaðist til þess að textarnir yrðu þýddir og prentaðir. Öll handrit sem Brynjólfur sendi konungi voru varðveitt í Konungsbókhlöðu og urðu því aldrei hluti af handritasafni Árna Magnússonar. Þegar samið var um heimkomu íslenskra handrita úr Árnasafni komu einnig um 140 handrit úr Konungsbókhlöðu. Morkinskinna var þó eitt þeirra sem ekki kom heim og er hún því nú á Íslandi í fyrsta sinn aftur eftir um það bil 360 ár.
Þótt nafnið Morkinskinna bendi til að handritið sé eitthvað sérstaklega illa farið eða morkið er svo ekki. Handritið er nokkuð vel varðveitt, síðurnar fallegar og skriftin býsna auðlæsileg þó að sums staðar hafi greinilega komist raki að blöðum. Nokkur blöð vantar líka í bókina en hún er nú 37 blöð. Nafnið fékk hún frá Þormóði Torfasyni (d. 1719) sagnaritara og vísaði það líklega fremur til bókarkápunnar, en handritið hefur síðan verið bundið í nýtt og betra band.
Morkinskinna varðveitir samnefnt safn konungasagna en óvíst er hvernig hún nákvæmlega byrjar og endar því að það vantar bæði fremst og aftast í handritið. Í núverandi mynd hefst sagan um árið 1035 þegar Magnús góði Ólafsson verður konungur í Noregi og lýkur skömmu fyrir 1157. Líklegt þykir að hún hafi upphaflega náð til ársins 1177 þegar Sverrir Sigurðarson varð konungur en frá honum segir í Sverris sögu. Langstærsti hluti Morkinskinnu fjallar um konungana Magnús góða (ríkti 1035–1047) og Harald harðráða (ríkti 1046–1066).
Morkinskinna er ekki síst þekkt fyrir fjölmarga þætti sem fléttað er við frásagnir af konungunum og hafa verið kallaðir Íslendingaþættir. Þetta eru oft gamansamar frásagnir af mönnum sem koma til hirðarinnar og ætla sér að ganga í augun á konungi. Sumir gera það með kveðskap og sagnalist en aðrir með gjöfum. Þættirnir eiga það sameiginlegt að stækka frásögnina og skerpa lýsingar á konungunum. Má sem dæmi nefna þekkta þætti eins og Auðunar þátt vestfirska og Hreiðars þátt heimska. Morkinskinna segir að einhverju leyti frá sömu atburðum og aðrar konungasögur eins og Heimskringla og Fagurskinna. Hún sker sig þó yfirleitt frá þeim sögum fyrir sviðsetningar, jafnvel leikrænar lýsingar á köflum sem oft eru bráðskemmtilegar. Handritið er því gott dæmi um sagnaskemmtun sem stenst tímans tönn og gripurinn sjálfur færir okkur áþreifanlegt samband við fjarlæga fortíð.
Morkinskinna verður aðeins tímabundið í láni á sýningunni Heimur í orðum næstu sex mánuði áður en hún snýr aftur til Danmerkur. Nú er því einstakt tækifæri til að sjá þetta merkilega handrit og óvíst er hvenær eða hvort færi gefst á að sjá það aftur.
Frekara lesefni
Morkinskinna I–II, útg. Ármann Jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson. Íslenzk fornrit 23–24. Reykjavík: Hið íslenzka fornritafélag, 2011.
Ármann Jakobsson. Staður í Nýjum heimi. Konungasagan Morkinskinna. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2002.
Alex Speed Kjeldsen. Filologiske studier i kongesagahåndskriftet Morkinskinna. Kaupmannahöfn: Museum Tusculanum Press, 2013.
Síðast breytt 19. nóvember 2024