Fornbréf sem Árni Magnússon sankaði að sér eru yfir 5000 talsins, þar af rúmlega 2000 íslensk, og eru þá ótalin nokkur þúsund afrit sem Árni gerði eða lét gera eftir fornbréfum sem mörg hver hafa síðan glatast. Á meðal fornbréfanna eru þó nokkrir uppskafningar, þ.e.a.s. skinnblöð þar sem búið er að skafa eða nudda upprunalegan texta af skinninu til þess að koma þar fyrir nýjum texta.