Handritið GKS 1326 4to er skinnhandrit þar sem finna má guðspjöllin fjögur í íslenskri þýðingu. Í handritaskrá Kålunds frá árinu 1900 er vitnað í lýsingu frá Konungsbókhlöðu þar sem handritið er sagt geyma „nýja þýðingu, ólíka þeim prentuðu“ („en ny oversættelse, men forskellig fra de trykte“). Flestar bækur eru liðugri í bandinu en þessi og varla vinnandi vegur að opna hana upp á gátt án þess að eitthvað losni eða rifni. Á öftustu síðu handritsins er að finna stutta klausu þar sem eigandinn merkir sér bókina: „Jón Jónsson á þessa bók með réttu en enginn annar hvör það bannar.“ Þessi eigandamerking er gerð með sams konar skrift og megintextinn og er því að öllum líkindum jafngömul. Kålund treysti sér ekki til að tímasetja handritið með meiri nákvæmni en svo að það væri skrifað einhvern tímann á 17. öld. Fleira vitum við í raun ekki með vissu um sögu þessarar merku bókar.
Skrifað og prentað
Það er alls ekki óalgengt að rekast á Biblíuhandrit frá 17. öld, jafnvel þótt Guðbrandsbiblía hafi verið prentuð árið 1584 og Þorláksbiblía á árunum 1637–1644. Með tilkomu prentverksins var síður en svo skrúfað fyrir framleiðslu handskrifaðra bóka; þvert á móti lifðu miðlarnir tveir, prentaða bókin og handritið, saman um langt skeið í dýnamísku og frjóu sambandi, líkt og Davíð Ólafsson sagnfræðingur rakti í fróðlegri grein í tímaritinu Sögu árið 2010. Ástæður þess að fólk lét skrifa upp verk sem voru þegar til á prenti gátu verið margvíslegar. Einhvern tímann rann upp sú stund að upplag hinnar prentuðu bókar kláraðist og því gat þurft að grípa til skriffæranna ef þörfin var brýn. Hagrænir hvatar gátu sömuleiðis haft áhrif; prentaðar bækur kostuðu peninga og það var ekki á allra færi á eignast stórvirki á borð við Guðbrandsbiblíu. Skrifuð bók gat gert sama gagn og prentuð en með mun lægri tilkostnaði; handrit á borð við NKS 1 8vo (skrifað 1609) og NKS 30 4to (skrifað 1688), sem bæði eru lítil pappírshandrit, kunna að vera skrifuð í sparnaðarskyni. Öðru máli gegnir hins vegar um handritið okkar, GKS 1326 4to, sem er skinnhandrit – slíkar bækur voru nær örugglega alltaf dýrari en hinar prentuðu hliðstæður þeirra, jafnvel margfalt dýrari. Hér er engu líkara en að við séum komin með sýnishorn úr bókaskáp einhvers athafnamanns sem hefur haft svo mikið umleikis að dýrasti prentgripur landsins nægði honum ekki, heldur þurfti hann eitthvað enn þá flottara. Það að hér séu einungis guðspjöllin skrifuð en ekki Nýja testamentið í heild sinni bendir sömuleiðis til þess að þetta sé viðhafnargripur fremur en heimild til fræðilegra iðkana.
Sérkenni þýðingarinnar
Hvað með textann sjálfan? Kålund fullyrðir að þýðingin sé „forskellig fra de trykte,“ og er það sönnu nær. Saga Biblíuþýðinga er vissulega ýmsum vandkvæðum háð og það er sjaldnast svo að hver ný þýðing sé algjörlega án tengsla við þá næstu á undan. Almenna reglan er sú að byggt sé ofan á þann grunn sem fyrir er og svo er einnig hér; formgerð öll og setningabygging er í meginatriðum fengin úr þýðingu Odds Gottskálkssonar en orðavali og orðaröð er víða hnikað til. Einn hluti handritsins hefur hér algjöra sérstöðu en það er Mattheusarguðspjall, hið fyrsta af guðspjöllunum fjórum. Ef við undanskiljum fyrsta kapítula, sem samanstendur að mestu af ættartölum, kemur mismunurinn vel í ljós strax í öðrum kapítula. Hér eru nokkur dæmi um orð og orðasambönd úr öðrum kapítula Matteusarguðspjalls sem eru með öðru sniði í GKS 1326 4to en í Guðbrandsbiblíu:
Guðbrandsbiblía | GKS 1326 4to |
---|---|
í austurvegi | í austurálfu |
þá skelfdist hann | þá hryggðist hann |
lét samansafna öllum |
og kallaði til sín alla kennimannahöfðingja og skriftlærða fólksins og spurði þá innilega |
heimuglega og hugartlátlega | leynilega |
höfðu kónginum heyrt | höfðu kónginum hlýtt |
því að það er eftirkomanda | því það mun ske |
sem hann hafði útspurt af vitringunum |
sem hann hafði af vitringunum heyrt |
og í draumi fékk hann |
honum var þá í svefni ávísað |
Lausleg athugun mín leiðir í ljós að minnsta kosti þrjátíu breytingar í þessum dúr í kapítulanum sem er þó ekki nema 560 orð í heild. Skrifarinn heldur áfram á sömu braut í næstu köflum. Sumt virðist gert í þeim tilgangi að gera samhengi og framvindu textans skýrari. Í hinni prentuðu þýðingu Odds segir einfaldlega að Heródes konungur „sendi út og lét drepa“ öll sveinbörn í Betlehem en í GKS 1326 4to stendur „sendi út sitt herlið og lét drepa.“ Áhugaverðustu breytingarnar í texta handritsins eru þeir staðir þar sem virðist glitta í lærdóm og fornmálakunnáttu umfram það sem við sjáum hjá Oddi Gottskálkssyni, en Oddur þýddi að mestu eftir hinni þýsku þýðingu Lúthers. Dæmi um þetta er í sautjánda kapítula Mattheusarguðspjalls, frásögninni um það þegar Jesús gekk upp á hátt fjall með lærisveinum sínum og „auglýstist fyrir þeim“, eins og það er orðað hjá Oddi. Í handritinu okkar er talað um að Jesús hafi „ummyndast“ sem er nær gríska orðinu metemorfoþe, enda var það orðalag tekið upp á prenti frá og með Steinsbiblíu 1728. Þegar vitringarnir hafa kvatt Jesúbarnið og foreldra þess kemur berlega í ljós að skrifarinn þekkir sinn genitivus absolutus: „En að þeim í burt gengnum ...“. Oddur umorðar þetta í sinni þýðingu og notar tíðarsetningu: „En þegar þeir voru burt farnir ...“.
Breytingar á orðaröð eru býsna algengar og virðast stundum vera tómir stælar en sums staðar hittir skrifarinn í GKS 1326 4to naglann á höfuðið. Þannig er það til dæmis í dæmisögunni um verkamennina á víngarðinum sem bera „þunga og hita dagsins“ líkt og Oddur þýðir það samviskusamlega eftir Lúther sem heldur hinni upprunalegu röð gríska textans to baros tes hemeras kai ton kausona; „byrði dagsins og brennandi hitann“. Skrifarinn í GKS 1326 4to talar hins vegar um „hita og þunga dagsins“ og mun þetta vera elsta ritaða heimildin um frasann í þeirri mynd sem hann er þekktastur nú.
Leifar hins horfna?
Þegar líður á Mattheusarguðspjallið fer frávikunum frá texta Guðbrandsbiblíu að fækka og í 20.–21. kapítula eru öll meiriháttar inngrip horfin. Niðurlag verksins og hin guðspjöllin þrjú standa miklu nær hinum prentaða texta. Kannski gerðist þetta vegna þess að skrifarinn missti móðinn, ákvað að hætta stælunum og fór að skrifa textann beint upp til að spara sér tíma og áreynslu. En hvers vegna að láta einföldustu skýringuna nægja ef önnur og langsóttari er í boði? Hér komum við að gullspurningunni sem eftir stendur: Hver var Jón Jónsson, eigandi handritsins GKS 1326 4to? Haldföst vitneskja um bókina er af skornum skammti og við getum heldur ekki slegið því föstu hver af hinum fjölmörgu Jónum Jónssonum sem uppi voru á 17. öld átti hana. Við þurfum einfaldlega að beita ímyndunaraflinu í tilvikum sem þessum. Það er því rétt að vara lesendur við því að það sem kemur hér á eftir er tóm ímyndun pistlahöfundar.
Eitt vitum við fyrir víst: Um 1650 hafði Brynjólfur Sveinsson, biskup í Skálholti, áform um að prenta Nýja testamentið í nýrri heildarþýðingu sem hann hugðist vinna sjálfur upp úr hinum gríska frumtexta. Sá hængur var á að eina prentsmiðjan í landinu var á Hólum og laut stjórn Hólabiskups sem á þessum tíma var Þorlákur Skúlason. Brynjólfur mun hafa sett saman drög að þýðingu Mattheusarguðspjalls og borið hana undir Þorlák í þeirri von að ganga frá útgáfusamningi en Þorlákur slegið málið út af borðinu og talið að almenningur í landinu myndi bara ruglast í ríminu ef dreifing hæfist á bókum Nýja testamentisins í fleiri en einni þýðingu. Brynjólfur hafi þá dregið í land, hætt við öll frekari þýðingarstörf og snúið sér að öðrum verkum og þýðing hans á Matteusarguðspjalli glatast fyrir fullt og allt – nema hvað, það skyldi þó aldrei vera að hinn sérkennilegi texti handritsins GKS 1326 4to geymi leifar af þessari horfnu þýðingu Brynjólfs biskups? Við getum þá leikið okkur að þeirri hugmynd að Jón Jónsson, skráður og skjalfestur eigandi handritsins, sé Jón Jónsson prestur í Holti í Önundarfirði og prófastur í Ísafjarðarsýslu (d. 1680), einn helsti kennimaður sinnar samtíðar, þýðandi og bróðursonur Brynjólfs.
Síðast breytt 28. mars 2025