Skip to main content

Röskun verður á þjónustu Árnastofnunar næstu mánuði. Sjá nánar.

Starfsfólk Til baka

Bjarni Gunnar Ásgeirsson

Bjarni Gunnar Ásgeirsson

Handritasvið
doktorsnemi
Árnagarður

Heiti doktorsverkefnis: Rannsóknir á Skafinskinnu

Markmið verkefnisins er tvíþætt: annars vegar að rannsaka stöðu Skafinskinnu (GKS 2868 4to) meðal handrita Njáls sögu, og hins vegar að gera fullkomna lýsingu á skriftarfræðilegum og stafsetningarlegum þáttum handritsins ásamt handritafræðilegri lýsingu. Handritið verður skrifað upp í XML á táknréttan, stafréttan og samræmdan hátt. Uppskriftirnar verða síðan notaðar til að finna skriftarfræðilega og stafsetningarlega þætti til þess að ákvarða aldur handritsins og fjölda rithanda. Staða Skafinskinnu meðal Njáluhandrita verður endurskoðuð en slíkt verk hefur ekki verið unnið síðan á sjötta áratug 20. aldar. Skyldleiki handritanna verður skoðaður með því að bera saman lesbrigði þeirra og nýrri textafræði verður beitt við handritafræðilegu rannsóknina og athugun á ferli handritsins. Verkefnið mun veita verðmætar upplýsingar um stöðu Skafinskinnu meðal Njáluhandrita, en Skafinskinna er eitt af aðeins tveimur handritum Njálu sem hafa verið flokkuð í Z-flokk. Texti þess flokks er ekki eins þekktur og annarra flokka enda hafa útgefendur fyrst og fremst notast við handrit X- og Y-flokks við útgáfur sínar á sögunni. Verkefnið mun auka skilning okkar á handritageymdinni og verður að miklu gagni fyrir síðari rannsóknir á handritunum og framtíðarútgáfu Njálu, og mun auk þess nýtast við rannsóknir á sögulegri málþróun íslenskunnar.

Leiðbeinandi er Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.