Handritin AM 371 4to, AM 544 4to og AM 675 4to eru venjulega talin skrifuð í upphafi fjórtándu aldar og eru samtals 141 blað. Þau hafa verið kölluð einu nafni Hauksbók og eru kennd við Hauk Erlendsson riddara, ríkisráðsmann og lögmann. Ef til vill voru handritin bundin í eina bók á fyrri öldum en það er þó ekki ljóst. Hafi þau verið í einni bók hlýtur bandið að hafa verið orðið ónýtt á síðari hluta sautjándu aldar því að þá hafa blöð úr henni verið farin að tvístrast og talið er að að minnsta kosti um sjötíu þeirra hafi glatast. Árni Magnússon taldi að hér væri um eina bók að ræða og setti saman efnisyfirlit allra bókanna þriggja eins og um eina bók væri að ræða, en þegar Jón Ólafsson úr Grunnavík tók saman skrá yfir Árnasafn eftir lát hans var hún á þremur stöðum í safninu og fékk því hver hluti sitt safnmark. Bent hefur verið á að ef Árni hefði ekki sagt að aftasti textinn í þessu handriti væri Elucidarius hefði engum manni dottið í hug að tengja AM 675 4to við hinar bækurnar tvær. En ef Elucidarius-hluti Hauksbókar hefur ekki glatast úr Árnasafni, kemur ekkert annað handrit til greina en AM 675 4to.
Hauksbók kom fram á sjónarsviðið á fyrri hluta sautjándu aldar og var þá þegar kennd við Hauk Erlendsson — sennilega vegna þess að nafn hans kom fram í henni. Líklegt er að menn á sautjándu og átjándu öld hafi talið að aðalrithöndin væri hans. Um miðja nítjándu öld sýndi Peter Andreas Munch fram á að svo væri og að hann hefði skrifað tvö bréf að auki og hefur það verið haft fyrir satt síðan. Sama rithönd hefur einnig fundist á norsku Landslagahandriti.
Ekki er mikið vitað um Hauk Erlendsson en svo virðist sem hann hafi fæðst um 1260. Hann var af höfðingjum kominn og var lögmaður sunnan og austan á Íslandi, að minnsta kosti árið 1294 — hugsanlega lengur. Árið 1302 var hann lögmaður í Víkinni (Borgarþingi) en hefur sennilega fljótlega eftir það orðið lögmaður í Björgvin (Gulaþingi). Ekki er vitað hversu lengi hann gegndi því embætti en hann var a.m.k. lögmaður í Gulaþingi árið 1310. Hann var sleginn til riddara af Hákoni hálegg konungi um 1306 og tók sæti í norska ríkisráðinu árið 1309 en ekki er vitað hversu lengi hann sat í því. Hann dó árið 1334.
Efni Hauksbókar
Efni Hauksbókar er af ýmsu tagi, þ.e. Landnámabók og Kristni saga í AM 371 4to, alfræðiefni, heimsósómar, kort af Jórsölum, Völuspá, Trojumanna saga, steinafræði, Cisiojanus (upptalning á latínu í bundnu máli er var notuð til að muna helstu kirkjuhátíðir árið um kring), Breta sögur með Merlínusspá, Viðræða líkams og sálar, Hemings þáttur Áslákssonar, Hervarar saga og Heiðreks, Fóstbræðra saga, Algorismus, Eiríks saga rauða, Skálda saga, Ragnarssona þáttur og Af Upplendinga konungum í AM 544 4to og Elucidarius í AM 675 4to. Ljóst er að Hauksbók er sett saman úr nokkrum hlutum og alls ekki er víst að Haukur sjálfur hafi sett allt þetta efni saman í eina bók. Líklegt er þó að það hafi verið gert ekki síðar en um miðja fjórtándu öld, en um það leyti var Völuspá skrifuð á auðar blaðsíður í handritinu.
AM 544 4to.
Skrifarar Hauksbókar
Alls eru fimmtán rithendur á Hauksbók en ljóst er að einn skrifari hefur skrifað sýnu mest eða rúmlega 60% og flestir hinna afar lítið. Flestar rithendurnar eru íslenskar en fræðimenn hafa verið sammála um að þriðja hönd sé norsk, en hafa ekki getað dæmt um hvort fimmtánda hönd, þ.e. sú sem er á Elucidarius, sé íslensk eða norsk. Danski fræðimaðurinn Marius Kristensen hélt því fram að Færeyingur hefði skrifað fjórtán fremstu blöðin í AM 544 4to (2. hönd) en fáir fræðimenn hafa tekið undir þá skoðun með honum. Nú síðast hefur Pavel Vondřička fært nokkuð sannfærandi rök að því að skrifarinn hafi verið frá Hörðalandi í Noregi en ekki úr Færeyjum.
Eins og áður sagði hafa fræðimenn haft það fyrir satt að Haukur Erlendsson hafi sjálfur skrifað megnið af handritinu eða rúm 60% af því. Draga verður í efa að ríkisráðsmaðurinn, riddarinn og lögmaðurinn hafi setið sjálfur við skriftir. Annars vegar voru skriftir líkamleg vinna sem gat farið illa með bak, sjón og hægri hönd skrifarans og hins vegar voru handritaskrif tímafrekt starf. Það er nokkuð ljóst að aðalsmaðurinn Haukur hafi ekki setið löngum stundum við skriftir eftir að hann varð fullorðinn heldur hafi einhver annar skrifað það sem honum hefur verið eignað. Hins vegar er engin ástæða til að draga í efa að Haukur hafi látið skrifa bókina og fengið það sem hann lét ekki skrifa annars staðar að og ráðið hvað stæði í henni.
Síðast breytt 27. febrúar 2025