Skip to main content

Pistlar

Feitletrun

Alexander Andrews

Í fyrri málræktarpistli fjallaði ég um skáletrun (Jóhannes B. Sigtryggsson 2021b). Nú hyggst ég skoða feitletrun en hún á margt sameiginlegt með henni.

Elstu dæmi um feitletur eru feitt gotneskt prentletur sem notað var í vögguprenti fimmtándu aldar í Evrópu. Ekki var hins vegar farið að nota feitletur sem leturbrigði af latínuletri fyrr en á nítjándu öld (Bringhurst 2002:103).

Feitletrun og skáletrun eru aðferðir við auðkenningu texta eða fyrirsagna eða til að sýna stigskipun kafla.

Fyrirsagnir og kaflaheiti

Feitletur er oft notað til að auðkenna fyrirsagnir betur frá meginmáli. Fyrirsagnir eru yfirleitt feitletraðar en geta einnig verið skáletraðar.

Feitletur sýnir einnig stigskipun á milli yfir- og undirkafla. Yfirkaflar eru þá yfirleitt feitletraðir en undirkaflar skáletraðir. Það er rökrétt að feitletur auðkenni frekar yfirkafla en skáletur þar sem þeir hafa meira vægi en undirkaflar sem frekar eru skáletraðir.

Ekki fer vel á því að feitletra bæði og skáletra fyrirsagnir eða kaflaheiti (Framtíð sjávarútvegs hér á landi). Í sumum heimildakerfum eða stílsniðum er þó kveðið á um slíkt. Að feitletra bæði og skáletra sama letrið er illa séð í leturfræðum (Bringhurst 2002:103–104).

Auðkenning orða og hugtaka

Nota má feitletrun til að auðkenna hugtök eða mikilvæg orð í texta. Áður fyrr var í því skyni stundum notað gleiðletur og í skrifuðum eða vélrituðum texta undirstrikun. Í öðrum löndum tíðkast einnig að nota hásteflinga (e. small capitals) til auðkenningar. Lítil hefð er því miður fyrir notkun þeirra hér á landi (Jóhannes B. Sigtryggsson 2020).

Afstæðiskenningin er mikilvæg í eðlisfræði.
Hér skipta mestu máli hugtökin frelsi og eignaréttur.
Nú hyggst ég skoða feitletrun.

Einnig er hægt að nota skáletur í þessu skyni.

Uppflettiorð í orðabókum eru einnig yfirleitt feitletruð.

Ofnotkun auðkenningar

Varast skal að ofnota feitletrun eða aðra auðkenningu í texta því að slíkt getur haft truflandi áhrif á lestur. Hafa ber í huga að feitletrun dregur frekar að sér athygli en skáletrun.

Í bókinni Fínir drættir leturfræðinnar (Hochuli 2022:44) stendur um þetta:

Annars konar áhersluaukar [en skáletrun] – hástafir, hálffeitletrun eða feitletrun, undirstrikun, stækkun leturs, annað letur, annar litur, mynstur í bakgrunni – trufla myndina og torvelda sömuleiðis lesturinn.

Greinarmerki og auðkenning

Greinarmerki fylgja aðaltexta um skáletrun eða feitletrun. Þetta þýðir að eingöngu þau greinarmerki sem eru hluti af titli, skáletraðri setningu eða upphrópun eru skáletruð eða feitletruð. Greinarmerki sem standa á milli sjálfstæðra orða eru hins vegar ekki skáletruð eða feitletruð (Jóhannes B. Sigtryggsson 2011:269).

Lýðræði, þingræði og ráðherraræði eru mikilvæg hugtök. (Komma ekki feitletruð.)
Nú hyggst ég skoða feitletrun. (Punktur ekki feitletraður.)

Sjaldgæf notkun feitletrunar

Hornklofar, innskot og feitletrun

Í fyrri reglum um greinarmerkjasetningu (Auglýsingu um greinarmerkjasetningu nr. 133/1974, 16. gr.) stóð að innskotin orð skyldi auðkenna, til dæmis með undirstrikun í skrifuðu máli og skáletri eða feitletri á prenti. Ekki er þó algengt að þessu sé fylgt í textum.

Hann sagði: „Ég óska kennaranum [þ.e. Halldóru] alls hins besta.“

Stig feitletrunar

Í ýmsum leturtegundum hafa verið hönnuð fleiri en ein tegund feitleturs, til að mynda bæði hálffeitt (e. semibold) og feitt (e. bold) letur eða jafnvel „kolaletur“ (black, ultra).

Dæmi um ólíkar feitleturstegundir í leturgerðinni Minion Pro (Minion Pro SemiBold, Minion Pro Bold, Minion STD Black, sjá https://www.linotype.com/1236/minion-family.html.

Birt þann 6. nóvember 2023
Síðast breytt 14. nóvember 2023
Heimildir

Bringhurst, Robert. 2002. The Elements of Typographic Style. Version 2.5. Hartley & Marks.

Emphasis. Wikipedia https://en.wikipedia.org/wiki/Emphasis_(typography).

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2011. Útlit texta. Í: Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstjóri). Handbók

um íslensku, bls. 267–270. JPV útgáfa.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2020. Aðeins um hásteflinga. Í: Ágústblóm lesin til heiðurs Ágústu

Þorbergsdóttur sextugri 9. september, bls. 51–53. Reykjavík: Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2021a. Íslensk réttritun. 1. útg. Reykjavík.

https://rettritun.arnastofnun.is/. [Sjá sérstaklega kafla 2.29, 2.33, 2.35, 2.36, 2.39.]

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2021b. Skáletur. Málræktarpistill. 19. mars 2021. https://arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/skaletur.

Haley, Allan. Uses of Bold Type in Text. Í: Fontology. https://www.fonts.com/content/learning/fontology/level-2/text-typography/bold-type-in-text.

Hochuli, Jost. 2022. Fínir drættir leturfræðinnar: bókstafir, stafabil, orð, orðabil, línur, línubil, dálkar. Birna Geirfinnsdóttir, Gunnar Þór Vilhjálmsson, Marteinn Sindri Jónsson (þýð.). Reykjavík: Angústúra.