Skip to main content

Pistlar

Fössarar og fantasíur

Orðaský með slangurorðum

Í inngangi Orðabókar um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál (1982) fjalla höfundarnir um helstu einkenni þess orðaforða sem tilgreindur er í bókarheitinu. Þeir benda m.a. á að þótt íslenskt slangur sé talsvert tengt erlendum tungum sé það „þó alls ekki allt af erlendum rótum runnið, og [hafi] ýmis séreinkenni, sem greina það bæði frá erlendu slangri og öðrum orðaforða íslenskum“ (Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson 1982:ix).

Mörður og félagar tilgreina nokkur atriði sem þeim hafi virst einkenna íslenska slangursköpun. Eitt þeirra er mikil notkun áhersluforliða (t.d. þræl-) og áhersluorða „í næsta óljósri merkingu“ (t.d. brjálaður). Þá eru nefndar styttingar þar sem skorið er aftan af orði eftir fyrsta atkvæðið (t.d. gegg). Enn fremur er nefnt að „eins konar kenningar“ séu séríslensk slangurtegund, t.d. tryllitæki ('kraftmikil bifreið') (1982:x). Fram kemur að algeng viðskeyti í íslensku slangri séu -ari (verkari), - (peningarí) og -heit (töffheit) og ekki síst viðskeytið -ó (1982:ix–x). Meðal dæma um það í orðabókinni eru nafnorðin Mosó, sleikjó, strætó og tyggjó og lýsingarorðin samfó ('samferða') og timbó ('timbraður').  

Í inngangi bókarinnar er ekki aðeins fjallað um helstu formlegu einkennin heldur jafnframt nokkra málfélagslega og málnotkunarlega þætti. Bent er á að „[n]ákvæm skilgreining á slangri [sé] allflókin, m. a. vegna þess að hún á sér bæði mállegar og félagslegar forsendur“. „Slangur nota menn í sinn hóp og síður við formlegar aðstæður, það er fyrst og fremst talmál, ekki ritmál. Það hefur beina tilfinningalega skírskotun, og er yfirleitt kraftmikið og myndauðugt líkingamál; oft eru þar ýkjur á ferð og gamansemi er eitt af megineinkennum þess“ (1982:vii).

Eldri orð fá breytt hlutverk

Í skilgreiningum og lýsingum á íslensku slangri kemur fram að gjarna sé um að ræða ný orð, nýjar samsetningar, ný afleidd orð eða ný orðasambönd, og einnig að oft séu eldri orð og orðasambönd höfð í breyttri merkingu.

Maður spúir gufuskýi til himna með sólroða í bakgrunni
Unsplash, Donn Gabriel Baleva

Hið síðasttalda virðist nokkuð algengt. Má sem dæmi nefna að Ágústa Þorbergsdóttir (2017) fjallar um ný orð um kaffibolla sem maður tekur með sér út af kaffihúsi og getur hún þar m.a. um „slanguryrðin götumál og útfararkaffi þar sem upphafleg merking er sveigð til og hártoguð“. Hinn 10. mars 1995 var safnað slanguryrðum meðal hlustenda Rásar 2 og varð allnokkur uppskera sem Margrét Blöndal tók saman og léði undirrituðum. Nokkur dæmi: fantasía 'dyravörður á skemmtistað' (síar fantana frá); gluggapóstur 'forvitinn bréfberi' (lítur inn um gluggana); rúsína 'sá/sú sem er hætt(ur) að drekka' (sbr. að rúsínur eru þurrkuð vínber); skriðbytta 'sá/sú sem hefur drukkið of mikið og þarf að skríða heim' (Ari Páll Kristinsson 1995). Þessi dæmi eru af sama tagi og kaffibollaorðin hjá Ágústu hér á undan, þ.e. sýna að breytt merking sé meðal þess sem einkennir slangur.

Nýyrðavefur Árnastofnunar er vettvangur þar sem almenningur getur lagt fram tillögur sínar um ný orð af ýmsu tagi. Sum orðanna sem þar hafa birst bera viss einkenni slangurs, svo sem gamansemi, léttúð eða kaldhæðni. Þar má nefna eftirfarandi dæmi: náyrðir 'drepleiðinlegur einstaklingur'; þarmavarmi 'sætishiti í bíl'; eimingi 'manneskja sem eimar, „veipar“ eða notar eimpípu' (hér má hafa hliðsjón af orðinu eymingi sem er tilbrigði við orðið aumingi).

Hverfulleiki

Hverfulleiki og ör endurnýjun telst meðal sérkenna á slangurorðaforða. Í sjónvarpsþáttaröðinni Orðbragði á RÚV (Brynja Þorgeirsdóttir o.fl. 2016) var m.a. umfjöllun um slangur. Í inngangi hennar sagði: „Það getur verið erfitt að fylgjast með nýjasta slangrinu. Það breytist á ógnarhraða, það sem er í tísku í dag er úrelt á morgun.“

Í þættinum voru flutt viðtöl við ungmenni á framhaldsskólaaldri, og við Einar Björn Magnússon, ritstjóra Slangurorðabókar Snöru. Einar Björn var m.a. inntur eftir því hvort orðið fössari væri „dautt“. Hann kvað fössara „gott dæmi um slangurorð sem er hægt að drepa. Það var valið orð ársins 2015. Þá var ekki lengur töff að nota það.“ Fréttin um andlát fössara virtist reyndar ýkt. Ungmennin í þættinum staðfestu í viðtölum Brynju að fössari væri enn í fullu gildi. Þau kváðust nota orðið ef þau væru „peppuð að gera eitthvað um helgina“; „föstudagur er fössari ef þú ert í gír, annars er þetta bara venjulegur föstudagur“.

Upphafleg slanguryrði geta náð almennri fótfestu

Í Handbók um málfræði (1995) er slangurhugtakið skilgreint sem „sérstakt orðfæri bundið óformlegu talmáli, stundum af erlendum uppruna eða með gamansömu ívafi“. Nafnorðin díll ('góð kaup') og hormotta ('yfirskegg') eru þar tekin sem dæmi (Höskuldur Þráinsson 1995:144). Í kaflanum um orðmyndun og endurnýjun orðaforðans segir Höskuldur: „Slangur er ekki nothæft í formlegu málsniði og það breytist hratt og endurnýjast ört [...] Stundum geta slettur og slanguryrði líka komist smám saman inn í formlegt málsnið“ (1995:258).

Hjá Guðmundi Erlingssyni (2017), og í þeim heimildum sem hann vísar í, er að finna fleiri dæmi, ásamt greiningu á einkennum slangurs og skylds orðaforða. Guðmundur leggur (eins og Höskuldur) áherslu á að slangur geti breyst hratt („oft tengt ákveðnum tíðaranda og tísku og er því jafnan skammlíft“) en líkt og Höskuldur bætir hann síðan við: „Hluti þess tekur sér þó bólfestu í almennum orðaforða og öðlast jafnvel viðurkenningu með tíð og tíma“ (2017). Meðal dæma Guðmundar um slíkt er orðið strætó sem nefnt var hér á undan.

Í kaflanum Nýyrði í Handbók um íslensku (2011) bendir Ágústa Þorbergsdóttir einnig á að þótt slangur sé yfirleitt skammlíft geti slanguryrði stundum náð fótfestu í orðaforðanum eins og önnur nýmynduð orð: „Nýyrði geta einnig átt uppruna sinn í slangri og kveðskap og þá eiga þau það sameiginlegt að þar er leikið með tungumálið og myndrænar líkingar eru algengar. Slanguryrði lifa oft stutt en dæmi eru um að slík orð festist í málinu, t.d. möppudýr sem merkir þann sem er á valdi skriffinnskunnar“ (2011:336). Orðið möppudýr má t.a.m. finna bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og í Íslenskri stafsetningarorðabók.

Eins og fram hefur komið hér á undan geta upphafleg slanguryrði náð fótfestu í orðaforðanum án þess að þau virðist endilega bundin ákveðnum notendahópum eða málaðstæðum. Til þeirra er þá gripið í margs konar málsniðum öðrum en þeim sem sérstaklega tengjast hinum óformlegustu hversdagsaðstæðum. Notkunarsvið orðanna virðist þar með hafa færst til eða víkkað. Það sem breytist er þá fyrst og fremst mat málnotenda og hin félagslega eða málnotkunarlega virkni, en form orðsins er óbreytt.

Ekki verður annað séð en að slík tilfærsla hafi orðið eða sé langt komin hvað varðar orðin sleikjó, tyggjó og strætó, sbr. umfjöllun um slangurseiginleika þessara orða í Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál sem vísað var til í upphafi pistilsins. Orðin þrjú hafa t.a.m. fengið inni bæði í Íslenskri stafsetningarorðabók (tyggjó og sleikjó með athugasemdina „talmál“ en strætó ekki) og í Íslenskri nútímamálsorðabók (tyggjó og sleikjó án sérstakra málsniðsleiðbeininga en strætó merkt sem „óformlegt“). 

Þau lifa m.ö.o. góðu lífi í almennri, daglegri íslenskri málnotkun.

Birt þann 18. janúar 2023
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Ari Páll Kristinsson. 1995. Slangurorðasöfnun á Rás 2 í mars. Tungutak. Vettvangur umræðna um málfar. 81:4.

Ágústa Þorbergsdóttir. 2011. Nýyrði. Í: Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstj.), Handbók um íslensku, bls. 333-339. Reykjavík: JPV.

Ágústa Þorbergsdóttir. 2017. Hvernig eru nýyrði tekin inn í tungumálið? Svar á Vísindavef HÍ.

Brynja Þorgeirsdóttir o.fl. 2016. Fregnir af andláti „fössara“.

Guðmundur Erlingsson. 2017. Slangur, slettur og tökuorð. Málsgreinar.

Höskuldur Þráinsson. 1995. Handbók um málfræði. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Íslensk nútímamálsorðabók.

Íslensk stafsetningarorðabók.

Mörður Árnason, Svavar Sigmundsson og Örnólfur Thorsson. 1982. Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Reykjavík: Svart á hvítu.

Nýyrðavefur Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Slangurorðabók.