Skip to main content

Pistlar

þvottur og þvætti

Í þessum pistli er fjallað um samsetningar með orðinu þvottur í yfirfærðri merkingu. Orðin sem eru til umfjöllunar eru misgömul. Það elsta er hvítþvottur sem hefur verið notað sem myndlíking í a.m.k. hundrað ár en hin orðin eru yngri.

 

Hvítþvo, hvítþvottur

Hvítur litur er tákn hreinleika og heiðarleika. Að hvítþvo merkir ekki aðeins að þvo burt öll óhreinindi heldur hefur einnig merkinguna að reyna að afsaka eitthvað eða fullvissa um algert sakleysi. Hvítþvottur getur vissulega merkt ‘hvítur þvottur’ en orðið er þó langoftast notað í óeiginlegri merkingu um tilraun til að breiða yfir mistök eða misferli eða hreinsun á áburði um skaðlega eða saknæma starfshætti.

 

Blaðaúrklippa. Ljómaður texti: Fjölmiðlar og almenningur í Bretlandi trúði vart sínum eigin augum og skýrslan var kölluð hvítþvottur. Mynd af Geoff Hoon varnarmálaráðherra til hliðar.
DV

(DV 2004)

 

Peningaþvætti, peningaþvottur

Tengt hvítþvotti er orðið peningaþvætti (e. money laundering) sem kom fyrst fram árið 1992 í frumvarpi til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti. Orðið er notað um það þegar uppruni illa fengins fjár er hulinn og látið líta svo út að þess hafi verið aflað á löglegan hátt. Í athugasemdum við lagafrumvarpið 1992 kemur fram að til greina hafi komið að nota önnur orð eða orðasamband fyrir „money laundering“ og eftirtalin nefnd sem dæmi: hvítþvottur fjármuna, vöskun, peningaþvottur, fóðrun á illa fengnu fé og hreinsun. Orðið peningaþvætti varð fyrir valinu, m.a. fyrir þá kosti að það gefur möguleika á notkun sagnorðsins að þvætta og gerendaheitisins þvættir. Sögnin að þvætta þekktist í fornu máli og merkti að þvo eða þvæla. Í lagafrumvarpinu segir að sú merking þyki góð lýsing á hinum refsiverða verknaði. Orðið peningaþvætti hefur náð að festast í málinu en orðið peningaþvottur er þó stundum notað.

 

Grænþvottur

Nokkur þvottahugtök hafa síðar bæst við. Orðið grænþvottur (e. greenwashing) kemur fram upp úr síðustu aldamótum og er notað í umræðu um umhverfismál yfir það þegar fyrirtæki eða einstaklingar beita blekkingum í markaðsstarfi sínu til þess að sýnast vera umhverfisvænni eða samfélagslega ábyrgari en þau eru í raun.

Við fyrstu sýn getur virst að stofnun friðlands sé einungis grænþvottur á hvalveiðistefnu stjórnvalda og það að vernda nokkur svæði en leyfa veiðar á öðrum sé tvískinnungsháttur. (Morgunblaðið 2003)

Allmörg dæmi eru um orðið grænþvottur á Tímarit.is og í Risamálheildinni en ekkert dæmi fannst um grænþvætti eða grænþvætta.

 

Bleikþvottur, bleikþvætti

Elsta dæmi um orðið bleikþvottur (e. pinkwashing) á Tímarit.is er frá 2015 og er það notað til að lýsa því hvernig þjóðríki og fyrirtæki nota hinsegin fólk og málefni þeirra til að skapa sér jákvæða ímynd.

... orðið bleikþvottur ... lýsir því þegar fyrirtæki sjá tækifæri á að hagnýta sér skriðþunga þeirra breytinga sem hafa orðið í samfélaginu til að sýna hvað þau eru frábær og réttsýn. (Morgunblaðið 2015)

Eitt dæmi fannst um orðið bleikþvætti á Tímarit.is:

Mörgum úr hinsegin samfélaginu hefur því þótt nóg um og talið stjórn Hinsegin daga taka þátt í bleikþvætti. (40 ára afmælisrit Samtakanna '78)

 

Íþróttaþvottur, íþróttaþvætti, sportþvottur

Íþróttaþvottur, íþróttaþvætti og sportþvottur (e. sportwashing) lýsir því þegar ríkisstjórnir, fyrirtæki eða aðrir aðilar reyna að bæta ímynd sína með því að tengjast íþróttaviðburðum. Þetta hugtak var talsvert notað af vestrænum fjölmiðlum í tengslum við heimsmeistaramótið í fótbolta í Katar í fyrra. Samkvæmt gögnum Risamálheildarinnar var orðið íþróttaþvottur mest notað af þessum þremur orðum á síðasta ári.

 

Fyrirsögn á Vísi: Á bak við tjöldin á HM í Katar: Mann­réttinda­brot, í­þrótta­þvottur og spilling. Í bakgrunni er mynd af hópi fólks sem fagnar.
Skjáskot af visir.is
Vísir.is

(Vísir.is 2022)

 

Ímyndarþvottur, bláþvottur

Ímyndarþvottur (e. nicewashing) og bláþvottur (e. bluewashing) eru tvö þvottaorð til viðbótar sem bæði snúa að siðferðislegum þáttum. Ímyndarþvottur felst í því að fyrirtæki leggja meiri áherslu á að auglýsa sterk siðferðisleg gildi sín en starfa samkvæmt þeim. Með orðinu bláþvottur er átt við að fyrirtæki tengi sig við sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð (UNGC) án þess að innleiða í raun grundvallarviðmið gagnvart mannréttindum, vinnumarkaði, umhverfi og baráttu gegn spillingu. Með orðinu bláþvottur er vísað í bláan fána Sameinuðu þjóðanna.

Öll þvottaorðin sem hér hafa verið nefnd, hvítþvottur, peningaþvætti, grænþvottur, bleikþvottur, íþróttaþvottur, ímyndarþvottur og bláþvottur snúast um tilraunir til að blekkja eða afvegaleiða með röngum upplýsingum. Hvítþvottur og peningaþvætti eru rótgróin orð í íslensku og grænþvottur hefur líklega náð að festast í málinu en hin orðin eru nýrri og með óljósa framtíð.

Birt þann 27. mars 2023
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Frumvarp til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti. 1992.

Hinsegin frá Ö til A.

Íris Sigurðardóttir og Margrét Sigrún Sigurðardóttir. 2020. Samfélagsleg ábyrgð í hröðum vexti – staða samfélagslegrar ábyrgðar í ferðaþjónustu á Íslandi. Tímarit um viðskipti og efnahagsmál, 17(1), 37–54.

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Íslensk orðabók. 2002. Mörður Árnason (ritstj.). Reykjavík: Edda.

Risamálheildin. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Tímarit.is. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.