Skip to main content

Pistlar

Tólin taka völdin – sjálfvirkar leiðréttingar og óheppilegar stillingar

Spjall í samskiptaforriti þar sem orðinu "fjáranum" hefur verið skipt út fyrir "fjarnámi".
FKG

Flestir kannast við sjálfvirka leiðréttingu (e. autocorrect) og fylliritun (e. autocomplete / word completion) í snjallsímum. Í ritvinnsluforritum einkatölva er einnig oft stillt á ýmiss konar sjálfvirka leiðréttingu sem á þó ekki alltaf rétt á sér. Sjálfgefnar stillingar geta einnig stundum brotið í bága við hefðbundin viðmið um um skipan texta á síðu. Fjallað verður stuttlega um ýmislegt slíkt hér á eftir.

Óheppilegar sjálfvirkar leiðréttingar

Almenn ritvinnsluforrit eru stundum stillt á að breyta ýmsu í texta sjálfvirkt. Dæmi um slíkt er þegar litlum bókstöfum á eftir punkti er sjálfkrafa breytt í hástafi. Þetta getur verið til hægðarauka ef gleymist að hefja málsgrein á stórum staf en veldur hins vegar vandræðum ef upphafsstaf mánaðarheitis er sjálfkrafa breytt í stóran staf, til dæmis 1. mars > 1. Mars. Í ensku eru mánaðarheiti rituð með stórum staf en í íslensku með litlum.

Í ritvinnsluforritum er bandstriki stundum breytt sjálfkrafa í millistrik. Þetta er gert ef stafbil fer annaðhvort bæði á undan og eftir bandi eða eingöngu á undan. Þetta er gagnlegt til að koma í veg fyrir að bandstrik séu notuð sem þankastrik en getur einnig haft þá óheppilegu breytingu í för með sér að til dæmis -um er breytt í –um.

Stundum fer útlit tákna eftir því hvort skilgreint er að texti í skjali sé ritaður á íslensku eða öðru máli. Ef hann er merktur sem texti á ensku breytast gæsalappir til að mynda sjálfkrafa í enskar (“ ”) í staðinn fyrir íslenskar („ “). Lesa má nánar um útlit tilvitnunarmerkja hér.

Síða úr skinnhandriti með tveimur dálkum. Breiðar spássíur og tveir skreyttir upphafsstafir.
Flateyjarbók var skrifuð á 14. öld. Takið eftir spássíunum.
Handrit.is

Óheppilegar sjálfgefnar stillingar

Ýmis viðmið um stærð leturflatar, spássíur, inndrátt, línubil og svo framvegis riðluðust í einkatölvubyltingunni þegar almenningur fór sjálfur að geta hannað og prentað texta. Sumt hefur sem betur fer lagast á ný en ekki allt.

Sjálfgefinn inndráttur í ritvinnsluforritum er oft of mikill. Hann ætti að fara eftir stærð leturs og það gæti til dæmis verið hæfilegt að hafa 5 mm inndrátt ef notað er 12 punkta letur. Hægt er að stilla slíkt í forritum en þar er sjálfvirkur inndráttur oft lengri en vel fer á (til dæmis 1,25 cm).

Spássíur eru einnig oft minni í sjálfvirkum stillingum í ritvinnsluforritum en æskilegt væri. Of langar línur eru erfiðar í lestri og rúmar spássíur eru því mikilvægar. Í miðaldahandritum og gömlum bókum voru spássíur oft miklu rýmri en nú tíðkast og voru ýmsar ástæður fyrir því.1 Auka má spássíur í forritastillingum.

Línubil eru oft annaðhvort of mikil eða of lítil. Algengar stillingar á þeim eru 1,0 eða 1,5, þ.e. eitt línubil eða eitt og hálft línubil. Fyrra er of lítið og hið seinna allt of mikið. Nær lagi er 1,15 línubil sem bætt hefur verið við stillingar í nýrri útgáfum Microsoft Word.2

Ýmsar sjálfgefnar stillingar eða óheppileg sjálfvirkni er einnig hvað varðar uppsetningu á listum. Stundum fer það í bága við almenn viðmið um skipan texta, til dæmis um inndrátt og val á aðgreiningarmerki (strik, doppur, tölur eða eitthvað annað). Einnig er sjálfgefið línubil í þeim oft meira en þörf er á. Sjá nánari umfjöllun hér.

Sumt sem hér er fjallað um er minnst á í vefritinu Íslenskri réttritun.

 
1 Lesa má nánar um spássíur í miðaldahandritum til dæmis hjá Tschichold (1991).
2 Það má til að mynda fræðast um heppilegt línubil hjá Hochuli (2022).
Birt þann 5. júní 2023
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Handrit.is – Flateyjarbók, GKS 1005 fol., 145r.

Hochuli, Jost. 2022. Fínir drættir leturfræðinnar. Birna Geirfinnsdóttir, Gunnar Þór Vilhjálmsson og Marteinn Sindri Jónsson (þýð.). Angústúra: Reykjavík.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2019. Gæsalappir – um útlit tilvitnunarmerkja í íslensku. Málræktarpistill birtur 18.12.2019 (sótt 1. júní 2023).

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2021. Íslensk réttritun. 1. útg. Reykjavík. Einnig á Rafhlöðunni.

Jóhannes B. Sigtryggsson. 2022. Íslensk réttritun – nýtt rit um stafsetningu. Orð og tunga 24:123–126.

Ritreglur. Auglýsingar mennta- og menningarmálaráðuneytis nr. 695/2016 og 800/2018 með leiðréttingum (sótt 1. júní 2023).

Tschichold, Jan. 1991. Consistent Correlation Between Book Page and Type Area. Hajo Hadeler (þýð.). Í: The Form of the Book. Essays on the Morality of good Design, bls. 36–64. Hartley & Marks. [Upprunalegur titill: Ausgewählte Aufsätze über Fragen der Gestalt des Buches und der Typographie. 1975.]