Skip to main content

Hvaðan kom hrísgrjónagrauturinn?

Grjónagrautur er þekktur réttur á öllum Norðurlöndum og hefur oft verið sérstaklega tengdur jólum. Á 19. öld varð hrísgrjónagrautur vinsæll hjá borgarastéttinni í Danmörku, en þá var hann réttur af fínna taginu og því borðaður til hátíðabrigða. Hrísgrjónagrautur var dýr matur því að hrísgrjón voru innflutt vara og ekki á allra færi. Þá var mjólk af skornum skammti um vetur, því kýr báru að vori og voru mjólkaðar að sumri og fram eftir hausti, en um veturinn var kálfurinn kominn á fasta fæðu og kýrin hætt að mjólka.

Samkvæmt norskum heimildum höfðu nálægir sveitabæir gert með sér samkomulag um að skiptast á að hafa mjólkandi kú sem bar að hausti. Mjólkinni var svo skipt á milli bæja svo að allir gætu borið fram mjólkurgraut á jólunum. Það gat verið erfitt að sjá fyrir kú og kálfi yfir vetrartímann þegar allur matur fyrir bæði menn og dýr var af skornum skammti. Það þótti hins vegar mesta skömm að eiga ekki mjólk í grautinn á jólunum, svo að farsælast var að taka þátt í slíku mjólkursamkomulagi. Hjá fátækari stéttum annars staðar á Norðurlöndum var grauturinn gjarnan gerður úr byggi, rúgi eða höfrum. Á Íslandi var hann hins vegar gjarna úr byggi og mjólk með viðbættum rúsínum.

Þegar fram liðu stundir fór alþýða manna að hafa efni á hrísgrjónum í jólagrautinn, og þá þurfti að sjálfsögðu að brydda upp á einhverju nýju hjá þeim ofar settu. Yfirstéttin tók því upp á að bæta við grautinn möndlum, rjóma og fínu frönsku heiti sem varð til þess að rétturinn ris à l'amande kom til sögunnar. Þess er vert að geta að rétturinn á engar franskar rætur, fyrir utan nafnið. Möndlugjöfin, sem við þekkjum og barst til Íslands frá Danmörku, er þó að öllum líkindum upprunalega franskur siður. Þar í landi er haft fyrir sið að fela baun í köku sem er borðuð daginn fyrir þrettándann. Sá sem finnur baunina er kóngur það kvöld og fær að ráða öllu, enda er kakan kölluð galette des rois, eða kóngakaka.

Svo virðist sem jólagrauturinn hafi verið sérstakt lostæti fyrir ýmsar þjóðsagnaverur. Í Skandinavíu var grauturinn gefinn húsálfi, sem ýmist er nefndur nisse eða tomte, í því skyni að friða hann svo hann gerði ekki einhvern óskunda. Trúin á nisser og tomter á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Ef til vill kæmist þó Pottaskefill næst þeim hvað grautarþjófnað varðar, en honum finnst sérlega gott að skafa leifar innan úr pottum víða á bæjum.


 

Birt þann 16.12.2020