Orðið dillidó, sem oft kemur fyrir í vögguvísum, er líklega komið af sögninni „að dilla“ sem þýðir að vagga. Greinilega var þó ný skýring búin til um orðið, sem er prentuð í bókinni Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur frá 1898−1903.
Dillir og Dumma
Foríngjar Heródesar hétu Dillir og Dumma og stóðu þeir fyrir barnamorðinu í Betlehem. Þessvegna verður börnum ekki betra gjört en þegar þeim er sagt lát þeirra og þetta raulað fyrir þeim:
Dillir dó og Dumma.
Sástu hvergi hvítan blett
á bakinu á honum krumma?
Dillir dó og Dumma.
Á eftir fylgir lengra kvæði:
Dó, dó og Dumma.
Dagur er fyrir sunnan.
Kalt er honum krumma;
kúrir hann á fönnunum.
Það má gjöra góðan sták,
og gefa hann ríkismönnunum.
Þey, þey og haf ei hátt,
hér dunar undir;
er stigið ekki smátt
um fold og grundir.
Boli litli‘ á balanum
býsna rámur er hann;
hefir hvítt í halanum,
heim á bæi fer hann.
Boli kemur og bánkar á hurð
og biður upp að ljúka.
Við skulum ekki skyrinu öllu
úr Skagafirði ljúka,
segir hún Gunna kjúka.
Boli, boli bánkar á dyr
með bandinu sínu lánga.
Láttu ekki‘ hann Hóls-bola
heyra til þín Mánga!
Boli litli baular lágt,
býsna rámur er hann.
Eitthvað á hann ofurbágt
innan húngrið sker hann.
Boli bánkar á dyr,
ber hann á með staungum;
berja vill hann börnin þau,
sem belja fram í gaungum.
Boli, boli bánkar á dyr,
ber hann á með hnalli.
Hann vill eiga börnin þau,
sem gráta undir palli.
Síðast breytt 24. október 2023