Skip to main content

Pistlar

Jólaleikir

Hér á eftir koma nokkur orð Ólafs Davíðssonar um jólaleiki úr Íslenzkum gátum, skemmtunum, vikivökum og þulum.

Hér þykir mér réttast að fara nokkrum orðum um þessar útlendu skemtanir, sem tíðkast á Íslandi, því það á ekki við að skipa þeim jafnhliða þjóðlegum skemtunum vorum, en ófært að minnast ekki á þær, fyrst þær eiga sér stað á annað borð. […] Eg lýsi jólaleiknum, eins og hann var leikinn í Eyjafirði í úngdæmi mínu og þaðan hefi eg líka „herrar“ eða „kavalérar“ og „dömur“, en aðrir hafa sagt mér að þeir hafi vanizt nöfnunum piltar og stúlkur. Bezt fer á því að jafnmargir kallar og konur séu í leiknum en ekkert er því til fyrirstöðu að kallar leiki konur eða konur kalla, ef á þarf að halda. „Dömurnar“ sitja í sætum sínum, ákaflega nótentátulegar og bíða biðlanna; kýs hver sér einn af „herrum“ þeim, sem eru í leiknum. Þeir eru frammi á meðan og vita ekkert hvað gjörist inni. Þegar tími er til kominn, koma þeir inn, einn í einu. Sá fyrsti geingur að þeirri sem honum þykir líklegast að hafi kosið sig og hneigir sig fyrir henni. Ef hún hefir nú kosið hann, þá hneigir hún sig aptur fyrir honum og vísar honum til sætis, en annars skellir hún saman lófunum og allar hinar „dömurnar“ með henni og reka „kavalérann“ burt, ver en sneyptan. En áður en hann fer, verður hann að gjöra svo vel að láta af hendi „pant“. Nú kemur næsti „herra“ og fer alt á sömu leið og svo koll af kolli, þángað til þeir hafa náð hver í sína „dömu“. Nú fara“dömurnar“ út, en „herrarnir“ eða „kavalérarnir“ sitja inni, snipparamannlegir mjög. Alt fer á sömu leið, nema dömurnar hneigja sig miklu greinilegar en herrarnir, alveg eins og í dansi. Þegar dömurnar eru allar geingnar út, þá er farið að dæma pantana. Einn leikmanna hefir umráð yfir þeim. Hann tekur einhvern þeirra af handahófi og spyr einhvern félaga sinna, mig minnir þann sem seinast lét pant af hendi, hvað sá eigi að gjöra sem eigi þetta. Dómarinn kveður upp dóminn og er venjulega hagað svo til, að hægt sé að gjöra það, sem til var tekið, þegar í stað. Næsta dóm dæmir sá sem seinast var dæmdur, og svo koll af kolli, þángað til pantarnir eru geingnir upp. Dómarnir eru mjög margvíslegir, eins og við er að búast. Einn á að yrkja vísu, annar að segja sögu o.s.frv. En sjaldan mun vera leikinn svo jólaleikur, að ekki séu fleiri eða færri kossadómar. Sumir kossadómarnir hafa jafnvel sérstök nöfn. Sá sem á þennan pant er dæmdur til að falla í brunninn. Hann vill falla fyrir þessari og þessari „dömu“. Hún spyr hve margar álnir hann sé fallinn. Svo og svo margar t.d. 13, og svo kyssast þau 13 kossa. Annar er dæmdur til að hánga. Eg hefi gleymt hvernig það er, en svo mikið er víst að allir leikmenn krosskyssast, svo það er eingu líkt. Þriðji er dæmdur til að telja stjörnurnar. Kossar og kossar, ekkert annað en kossar. Sumir eru aptur dæmdir alveg blátt áfram, til að kyssa þessa og þessa „dömu“ svo og svo marga kossa, en valla færri en 10, því það þykir einginn slægur í því.

[…]

Vitaskuld er það að jólaleiki og þess háttar leiki má leika, án þess að kossaflens og þess háttar keyri þar fram úr hófi, en það er að gjöra við því sem er, en ekki því sem getur verið, og þegar öllu er á botninn hvolft, virðast leikir þeir og listir þær, sem hafa tíðkazt á Íslandi frá alda öðli, eða minnsta kosti svo leingi, að þeir eru orðnir alveg þjóðlegir, eiga betur við þjóðerni vort en þessi aðskotadýr, sem flest eða öll hafa flutzt til Íslands á þessari öld, og það því fremur sem þessir útlendu leikir eru allir valdir af verra endanum.

 

Birt þann 16. desember 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jón Árnason og Ólafur Davíðsson, Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. 2. bindi: Skemtanir. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1898-1903. Bls. 18-20