Skip to main content

Pistlar

Grýlukvæði

Kvæði um Grýlu eru mörg til og eru þau jafnan gífurlega löng. Í sumum þeirra eru erindin vel yfir hundrað talsins. Hér eru aðeins birt nokkur erindi úr annars löngu kvæði. Í kvæðinu segir frá því hvar Grýla og Leppalúði taka saman í teiti, eins og svo algengt er. Þá er í lokin sagt frá því hvað verður um afkvæmi þeirra.

Grýlukvæði

Grýla kallar á börnin sín,
þegar hún fer að sjóða:
„Komið hingað öll til mín,
Leppur, Skreppur, Lángleggur og Skjóða.

4. „Skreppur standa skal fyrir borðum;
Skinnvefja sé klefanum í;
virðir hún gesti vel með orðum,
væntir mig þeir gleðjist því
og svo standi alt í skorðum,
um það sjáðu Skjóða mín“.
Hún Grýla kallar á börnin sín.
Barna brýtur bein með sporðum,
breiðir á steininn hlóða.
Skreppur, Leppur, Lángleggur og Skjóða.

5. Alt var sem á augabragði,
að boðsfólkið þusti heim.
Grýla leingi þá ei þagði,
þó gekk út á móti þeim
og velkomna seggi sagði,
síðan bauð í húsið fín.
Grýla kallar á börnin sín.
Sérhver þakkir ljúfar lagði
og lofuðu vinsemd góða.
Skreppur, Leppur, Lángleggur og Skjóða.

6. Klóalángur, Bjálfi og Boli,
ber þá ei kulda andlit sveitt.
Leppalúði, Vakur, Voli,
vílar ekki hann Surtur neitt,
Giljagaur þar sat og Svoli,
Surtur og Belgur eyddu pín.
Grýla kallar á börnin sín.
Stafur og Vöndur vænti eg þoli
virðum gaman að bjóða.
Leppur, Skreppur, Lángleggur og Skjóða.

8. Þá nam Grýla gánga um beina,
geðstór mælti Lúða við:
„Eg vildi þú ættir hjá mér heima,
heillakarl með alt þitt lið;
skyldi eg víða sjálf þá sveima,
sækja börn og taka til mín -
Grýla kallar á börnin sín.
þau sem ýlur gjöra að geyma,
grenja upp og hljóða.“
Skreppur, Leppur, Lángleggur og Skjóða.

9. Við þau orðin Leppalúði
lifna tók og hýrnar geð,
síðan Grýlu sér fyrir brúði
á samri stundu fastna réð;
aldrei liðið frá þeim flúði,
flestum leizt sú virðing fín.
Grýla kallar á börnin sín.
Hvert þar öðru eflaust trúði
og iðkuðu vinsemd góða
Skreppur, Leppur, Lángleggur og Skjóða.

10. Heil fimm þúsund ára aldur,
er mér sagt að lifðu þau,
síðan dróst að dauðinn kaldur,
dísir að þeim reistu haug;
lifa þar á miði sem mjaldur,
magnlaus rétt þá sólin skín –
Grýla kallar á börnin sín.
En þegar sveipast Suðrafaldur,
sízt mega börnin hljóða,
Skreppur, Leppur, Lángleggur og Skjóða.

12. Þeirra börn og barnabörnin
björguðust við gott tilstand,
út dreifðist sú ættarkvörnin
alstaðar um þetta land,
og að aldri eins og örnin,
álfum lík í skikkan sín.
Grýla kallar á börnin sín.
Hlupu í jörð og var það vörnin
við aðgáng menskra þjóða.
Skreppur, Leppur, Lángleggur og Skjóða.

13. Hljóp þá sumt í hóla og steina,
hirti ei þar um menska drótt,
jarðarskrímsli og jólasveinar
jafnan sjást þá dimm er nótt,
elta börn, sem ýla og veina,
ekki er sú hegðan fín.
Grýla kallar á börnin sín.
Þá fótalánga flestir meina,
fátt hafa gott að bjóða.
Skreppur, Leppur, Lángleggur og Skjóða

141-143

Birt þann 9. desember 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jón Árnason og Ólafur Davíðsson, Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. 2. bindi: Skemtanir. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1898-1903. Bls. 141-143.