Skip to main content

Pistlar

Leppalúðakvæði

Til eru mörg kvæði um hjónin Grýlu og Leppalúða, og voru þau oft æði löng. Hér á eftir fylgir stysta kvæðið um Leppalúða sem prentað er í bókinni Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur frá 1898−1903.

1. Hér er kominn hann Leppalúði
leiðinlega stór.
Einn var eg staddur
innar í kór.

2. Einn var eg staddur,
og þá kom hann þar,
kafloðinn belginn
á bakinu bar.

3. Með kafloðinn belginn
kom hann þá hér.
Það var hans hið fyrsta
hann heilsaði mér.

4. Það var hans hið fyrsta
hann beiddi mig um barn.
„Þú átt að vera mér
svo gustukagjarn.

5. Þú átt að gjöra
það gustukaverk.
Varla‘ er þér það vorkennandi
velmenntuðum klerk.

6. Varla‘ er þér vorkennandi,
að veita mér þá bæn.
Gefðu mér hana Ólöfu.
Ekki‘ er hún svo væn.

7. Gefðu mér hana Ólöfu
í gráa belginn minn.
Ekki et eg meira
einsamall um sinn.

8. Ekki et eg meira,
og er það nógu frekt.“
Þá hló hann Leppalúði,
og það var skrítilegt.

9. Þá hló hann Leppalúði,
og þá hræddist eg.
Grettist hann allur
grimmilega með.

10. Grettist hann allur
og gjörði svo að tjá:
„Ekki‘ ætla‘ eg að snópa hér,
allt í frá.

11. Ekki‘ ætla eg að snópa hér,
þú eyðir frá mér;
Tíundina á eg,
að taka hjá þér.

12. „Tíundina áttu‘ ekki,“
talaði hinn það.
„Hafa máttu heldur
hundana í spað.

13. Hafa máttu heldur,
hvað sem þú vilt.
Gefa skal eg þér Björn litla,
geðugan pilt.

14. Gefa skal eg þér Björn litla,
gott áttu þá.“
Ærðist hann Leppalúði
og ólmaðist þá.

15. Ærðist hann Leppalúði.
Eg fór þá á burt;
aldrei hefi‘ eg litið
argari furt.

16. Aldrei hefi‘ eg hræddari
orðið en þá;
elti hann mig leingi,
Og ætlaði mér að ná.

17. Elti hann mig leingi,
mér óttaði það mest;
komst eg í kirkjuna
og kallaði‘ í prest.

18. Komst eg í kirkjuna,
og kom hann þá inn;
kallaði prestur
í kórdjákna sinn.

19. Kallaði prestur:
„Komdu nú hér.
Hríngdu nú Gísli minn,
Og hraðaðu þér.“

20. Hringdi‘ hann þá Gísli,
eg heyrði það sagt.
Hljóp hann inn í Búrfell
Með höfuðið skakt.

 

Birt þann 4. desember 2020
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jón Árnason og Ólafur Davíðsson, Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. 4. bindi: Þulur og þjóðkvæði. Kaupmannahöfn: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1898−1903. 155-157.