Skip to main content

Pistlar

Blessuð sólin elskar allt

Þessi blessuð börn eru glöðBlessuð sólin elskar allt...

Meginreglan er sú í íslensku að merkingarleg ákveðni kallar á veika beygingu lýsingarorða í nafnliðum. Hér er dæmi um slík áhrif ákveðna greinisins:

Samviskusama (veik beyging) konan gladdist.

Sömu áhrif hefur t.a.m. ábendingarfornafnið þessi:

Þessi samviskusama (veik beyging) kona gladdist.

En málið er, eins og fyrri daginn, flóknara og skemmtilegra en svo að hægt sé að binda öll tilbrigði þess í einfalda og ófrávíkjanlega reglu eins og þá að lýsingarorð sé ávallt veikrar beygingar í nafnliðum með merkingarlega ákveðni. Það er t.a.m. góð íslenska að segja samviskusöm (sterk beyging) konan gladdist en merkingin er örlítið önnur en í samviskusama (veik beyging) konan gladdist. Hér er ekki verið að tiltaka hvaða kona, úr einhverju mengi kvenna, það var sem gladdist („það var sú samviskusama en ekki sú kærulausa“) heldur er þegar ljóst við hverja er átt en verið er að lýsa konunni nánar og leggja þar áherslu á tiltekinn eiginleika hennar, samviskusemina. Í hefðbundinni greiningu er oft gerður greinarmunur á svonefndum einkunnum (sbr. samviskusama + konan) og viðurlögum (sbr. samviskusöm + konan).

Í vísuorðinu Blessuð sólin elskar allt blasir við hve ankannalegt hefði verið að nota þar veika beygingu (?blessaða sólin). Lýsingarorðið hefur einungis það hlutverk að tjá tilfinningu sem tengist sólinni fremur en að tiltaka jafnframt „hvaða sól“ það er sem elskar allt enda kemur aðeins ein sól til greina í því efni í daglegu tali.

Ég hef fengið fyrirspurn um það hvort væri réttara mál að segja Þessir blessaðir menn eða Þessir blessuðu menn. Enda þótt ábendingarfornafnið þessi valdi merkingarlegri ákveðni og kalli þar með allajafna á veika beygingu þá er reglan ekki svo algild og einföld eins og sjá mátti í dæmunum hér á undan. Svar mitt við fyrirspurninni var á þá leið að í vönduðu íslensku máli væri vel hægt að fara hvora leiðina sem væri (sterk beyging: blessaðir eða veik beyging: blessuðu).

Til stuðnings svari mínu um Þessir blessaðir menn og Þessir blessuðu menn nýtti ég mér m.a. Risamálheildina hér á vef Árnastofnunar til að komast að því hver algeng notkun væri í nútímamáli. Ég leitaði annars vegar að strengnum þessir blessaðir + kk.no.ft. og hins vegar að strengnum þessir blessuðu + kk.no.ft. Í ljós komu 60 dæmi um hið fyrra, t.d. þessir blessaðir sjálfstæðismenn, togarar, samningar...,  og 50 dæmi um hið síðara, t.d. þessir blessuðu ríkisstjórnarflokkar, hvalaskoðunarmenn, veðurfræðingar ...

Neðan við pistilinn fylgja skjáskot af hluta niðurstaðna úr Risamálheildinni.

Það er ákaflega venjulegt og eðlilegt málfar að segja blessuð börnin eru svo glöð í dag og þessi blessuð börn eru svo glöð í dag. Í báðum tilvikum er á ferðinni merkingarleg ákveðni (sbr. börnin, þessi) en henni þarf greinilega ekki að fylgja veik beyging lýsingarorðs.

Við skýringu á orðinu blessaður í Íslenskri nútímamálsorðabók er sýnt dæmið blessuð börnin eru orðin þreytt á vetrinum. Þarna fylgir einmitt sterkt beygt lýsingarorð (blessuð) nafnorði með greini (börnin). Merkingarskýring fylgir: „táknar samúð“. Í dæmum á borð við þessir blessaðir pólitíkusar (sjá skjáskotið hér fyrir neðan) er sjálfsagt stundum samúð á ferðinni en vera má að þar geti einnig fylgt hneykslunar- eða vandlætingartónn.

APK1APK2

 

(Ég þakka Einari Frey Sigurðssyni fyrir umræðu og ábendingar um efnið.)

Birt þann 24. apríl 2019
Síðast breytt 24. október 2023