Skip to main content

Pistlar

baldakin

Nýlega var orðinu baldakin bætt við Íslenska nútímamálsorðabók í merkingunni ‘hlíf utan um ljósastæði’. Orðið baldakín með í-i í stað i-s var þá fyrir í Íslenskri stafsetningarorðabók á vefnum sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og merkt þar sem úrelt textílorð í gagnagrunninum.

Þrír kúplar, eða baldakin, fyrir loftljós. Einn er svartur, annar hvítur og sá þriðji gylltur og flúraður.

 

Baldakin í orðabókum

Orðið er að finna í ýmsum orðabókum og af því eru til nokkuð mörg ritháttarafbrigði. Í Íslenskri orðsifjabók (1989) eru uppflettimyndirnar baldikin, baldrkinn, baldurskinn saman og merkingin er ‘silkiefni eða -tjald’. Þar er orðið sagt tökuorð úr miðlágþýsku baldekin úr fornfrönsku baldaquin, „eiginlega ‘efni eða dúkur frá Bagdad’“. Baldak er fornt heiti á borginni.

Í fornmálsorðabókinni ONP eru 32 dæmi um orðið og ritháttarafbrigði nokkur, m.a. baldikinn, baldakín, baldinkinn, baldrkinn, baldrskinn, baldskinn. Elstu dæmin þar eru talin allt frá upphafi 14. aldar.

eigi vartv þa i balldikinn ok eigi battv þa gvll a hals þer (Trójumanna saga)

alltaris klæde. käpa oc brijkar klædi medur balldur skinn (Diplomatarium Islandicum)

Orðið Baldachin er að finna sem íslenskt uppflettiorð í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík sem samið var á árunum 1734–1779. Í orðabókinni eru 48.000 íslensk orð en orðskýringarnar eru flestar á latínu.

Illlæsileg handskrift á blaði.
Ljósrit af handriti Grunnavíkur-Jóns.

Orðið Baldachìn er danskt uppflettiorð í Orðabók Gunnlaugs Oddssonar frá 1819, Orðabók, sem inniheldur flest fágæt, framandi og vandskilin orð er verða fyrir í dönskum bókum, og íslensk merking þess er þar ‘øndvegishimin’. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals, sem kom út 1923 og er nú aðgengileg á vefnum, kemur orðið baldakin fyrir í dönskum skýringum orðanna himinn (í merkingunni sængurhiminn), yfirtjald og tjaldhiminn. Auk þess er í viðbætinum frá 1963 íslenska orðið baldakinshiminn þýtt sem ‘baldakin’ á dönsku og sömuleiðis íslenska orðið bóla „yfir endataugum lampastæða“. Þá þegar er þessi notkun orðsins greinilega þekkt í dönsku. Í danskri orðabók (Den danske ordbog) er orðið sagt notað í þrenns konar merkingu: tjaldhiminn, skrautskýli og hlíf yfir ljósatengi. Í Íslenskri orðabók (2007) er uppflettiorðið baldakín og aukamyndir þess baldikinn, baldskinn, og baldurskinn. Merkingin er sögð vera ‘silkiefni frá Baldak (þ.e. Bagdad)’ og ‘vefnaður með gullþræði’ og orðið merkt úrelt.

Notkunardæmi

Þó að orðið hafi aðeins verið skýrt sem textílorð í þeim íslensku orðabókum sem hér hafa verið athugaðar þýðir það ekki að önnur notkun hafi ekki verið þekkt þar sem ýmsar ástæður geta verið fyrir því að ákveðin orð rata inn í orðabækur og önnur ekki. Til þess að sjá hvort orðið hafi verið notað í þessari merkingu í íslensku er t.d. hægt að leita á Tímarit.is og í eftirfarandi dæmum er orðið notað um tjaldhimna og skrautskýli.

„Efst er baldikinn á súlum, og á honum stendur likneskja frelsisgyðjunnar, en undir brjóstmynd Washingtons á marmarastalla.“ (Skírnir 1880)

„Þó hefði gjarnan mátt vera tjaldhimin (baldakin) uppi yfir prédikunarstólnum, því bæði prýðir það mjög, og eins kemur það því til leiðar, að betur heyrist í kirkjunni.“ (Verði ljós 1903)

„Fimmtíu og níu klefar hafa verið útbúnir handa kardínálunum. Yfir hverjum klefa er tjaldhiminn, baldakin, fjólubláir yfir klefum þeirra, sem kjörnir voru af Benedikt páfa XV, en grænir yfir þeirra, sem kjörnir voru af fyrri páfum.“ (Eimreiðin 1922)

„Fjórir sokkabandsriddarar halda baldakin yfir drottningunni í hásætinu en erkibiskupinn fer að altarinu og sækir smyrslabauk í dúfulíki og skeið.“ (Fálkinn 1953)

„Ekki kom hann fátæklega búinn ríðandi á ösnu sinni í borgina, heldur kom hann akandi í skrautlegum vagni, í háu sæti undir baldakin himni.“ (Eimreiðin 1965)

 

Úrklippa úr dagblaði sem sýnir svarthvíta mynd af stórum tjaldhimni á opnu svæði. Í kring blakta íslenskir fánar. Texti við hlið myndar: "Tjaldað og skreytt hvolfþak (Baldakin) efst á Honnörbryggjunni. Þar biðu efstu menn landsins forsetans.
Baldakin 1955.
Lesbók Morgunblaðsins

Orðið finnst líka í auglýsingum á Tímarit.is. Árið 1960 voru auglýstar „vörur til tómstundaiðju“ í Morgunblaðinu, þ. á m. „Upphalarar, sívalar snúrur, Baldakin, perustykki og annað tilheyrandi lampagerð“.

Gömul úrklippa úr blaði sem auglýsir "vörur til tómstundaiðju", þar á meðal "Upphalarar, sívalar snúrur, Baldakin, perustykki og annað tilheyrandi lampagerð".
Auglýsing frá árinu 1960.
Morgunblaðið

Einnig auglýsir Raftækjaverzlunin h.f. baldakin í Alþýðublaðinu 1960 og Raftækjasalan hf. auglýsir „Baldakin, hvít og svört“ í Morgunblaðinu 1966.

Notkun orðsins er greinilega víðtækari en lýst er í orðabókinni. Í janúar 1964 birtist í Vísi gagnrýni Þorsteins Thorarensen á þá nýútkomna Íslenska orðabók og telur hann upp fjölda tökuorða í almennu máli sem honum þótti vanta í hana. Þar á meðal nefnir hann orðið „baldakin (á loftlömpum)“ en í Íslenzkri orðabók frá 1963 er orðið aðeins skýrt sem 'silkiefni frá Baldak'.

Mynd af færslu á síðu í Íslenskri orðabók en þar stendur: "Baldikinn, h, [merki fyrir úrelt orð] silkiefni frá Baldak, þ.e. Bagdad.
Íslenzk orðabók 1963.

Sigurður Skúlason skrifar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1981 um „nokkur aðskotaorð í íslensku“, m.a. baldakin, og segir að orðið merki „hásætishiminn (þak yfir hásæti), prédikunarstóll, hlíf borin yfir tignarmönnum o.fl.“.

Úrklippa úr dagblaði. Færsla um sögu orðsins "baldakin".
Lesbók Morgunblaðsins 1981.

Notkun orðsins í dag

Einhverja mynd orðsins má finna í mörgum tungumálum og merking þess oft ‘himinsæng’ eða ‘skrautskýli’. Uppruna orðsins má rekja til sérstaks textílefnis sem framleitt var í Bagdad sem útflutningsvara á miðöldum en svo virðist sem það hafi síðar verið notað um líkt efni og hluti framleidda úr slíku efni frekar en efnið sjálft. Sambærilegir hlutir úr öðrum efnum hafa síðan einnig fengið þetta heiti og loks hlífar utan um ljósatengi, a.m.k. í dönsku og íslensku.

Dæmi um að orðið sé notað um textíl í íslensku eru öll gömul eða úr umfjöllunum um gamlar heimildir, t.d. um eignir kirkna. Ný merking þess fylgir innfluttum hlutum eða einhverju sem á sér erlenda fyrirmynd. Dæmin á Tímarit.is eru oft úr frásögnum erlendis frá og notkun orðsins á 20. öld virðist líkjast mjög þeirri notkun sem lýst er í dönskum orðabókum.

Orðið virðist þó ekki vera mjög algengt í dag. Ekki fundust mörg nýleg dæmi á Tímarit.is eða í Risamálheildinni og fæstir þeirra sem höfundur spurði könnuðust við orðið (og oftast var hváð og beðið um að orðið væri endurtekið). Þó þekkti rafvirki fæddur 1960 orðið vel. Hann mundi ekki eftir að hafa notað annað orð en baldakin um hlíf yfir ljósatengi en kannaðist ekki við að orðið væri notað um neitt annað. Leit á vefnum sýnir að orðið er notað í raftækjaverslunum.

Þessi saga er dæmi um það hvernig orð geta skipt um merkingu og þróast og sýnir að ritstjórar orðabóka verða að fylgjast vel með. Silki frá Bagdad verður að hlíf utan um ljósatengi.

Birt þann 4. júní 2024
Síðast breytt 5. júlí 2024
Heimildir

Ásgeir Blöndal Magnússon (1989) Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.

Beygingarlýsing íslensks nútímamáls [https://bin.arnastofnun.is/]. Kristín Bjarnadóttir (ritstj.) og Kristín Ingibjörg Hlynsdóttir (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Maí 2024)

Gunnlaugur Oddsson, Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir. 1991. Orðabók sem inniheldur flest fágæt, framandi og vandskilin orð er verða fyrir í dönskum bókum (Ný útgáfa með íslenskri orðaskrá). Reykjavík: Orðabók Háskólans.

Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Halldóra Jónsdóttir (ritstj.) og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). (Maí 2024)

Íslensk orðabók. 2007. Mörður Árnason (ritstj.). Reykjavík: Edda.

Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. 1963. Árni Böðvarsson (ritstj.). Reykjavík: Menningarsjóður.

Íslensk stafsetningarorðabók. Jóhannes B. Sigtryggsson (ritstj.). Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. (Maí 2024)

ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog. Kaupmannahafnarháskóli.

Risamálheildin. Starkaður Barkarson, Steinþór Steingrímsson o.fl. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 2022-útgáfan.

Sigfús Blöndal. 1980. Íslensk-dönsk orðabók: (Reykjavík 1920–1924). [3. útgáfa]. Reykjavík: Íslensk-danskur orðabókarsjóður.

Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.