Skip to main content

Svör við fyrirspurnum um örnefni

Svör við fyrirspurnum um örnefni

Fjölmargar fyrirspurnir sem bárust til Örnefnastofnunar Íslands á árabilinu 2001-2007 eru nú birtar hér ásamt viðeigandi svörum. Hægt er að leita að einstökum efnisorðum með því að láta vefskoðarann leita að þeim eða með því að nota leitarmöguleikana á heimasíðunni.

 

16. 11, 2007
Þórður Kr. Jóhannsson

Örnefnið Hult er m.a að finna í Sandvík(eystra), Viðfirði og jafnvel í Norðfirði. Hver er merking orðsins?

Finn það ekki í tiltækum orðabókum
Sæll Þórður.
 

Orðið hult (h og kv) (flt. hultir, hultrar) merkir 'hjallakvos' eða 'hvilft í fjall' einnig 'lægð, smádokk' og kemur helst fyrir sunnan til á Austfjörðum, í Grænanesi, Sandvík og Hellisfirði, í Viðfirði og á Hálsi í Búlandshreppi. Flt. Hultir kvk er örnefni beggja vegna við Nónskarð í Norðfirði (Árbók Ferðafélagsins 2005:99, 101). Merkingin er talin hér 'hulin pláss, leyningar eða hvörf'. (Árbók 2005:83, 96, 105).

Með bestu kveðju.
Svavar Sigmundsson

13. 11, 2007
Jón Torfason

Eru til örnefnaskrár fyrir Kross á Berufjarðarströnd eystra og er þá eitthvað minnst á grafreit í þeim, bænhús eða hálfkirkju.

 
Sæll, Jón.

Í örnefnaskrá Kross á Berufjarðarströnd, sem Nanna Guðmundsdóttir skrásetti 1972, segir: " ... neðan við eina bæinn, sem nú er búið í á Krossi er Bænhúsbali (67). Þar stóð til skamms tíma heyhlaða, sem að öllum líkindum hefur [verið] byggð á sama stað og bænhús stóð áður og ef til vill í sömu tótt." Annað er ekki að finna af því sem þú spyrð um.

Jónína Hafsteinsdóttir

20. 10, 2007
Jón Torfason

Hvaða upplýsingar hafið þið um það hvenær bæjarnafnið Skálmarnesmúli kemur fyrst fyrir, í stað Múli á Skálmarnesi?

 

Sæll og blessaður Jón.

Í Íslensku fornbréfasafni er eingöngu að finna “Múla á Skálmarnesi”, og séu mál kirkjunnar til umræðu, sem oftast er, er kirkja sú “undir Múla á Skálmarnesi”. Þetta má rekja allar götur frá Kirknatali Páls Jónssonar um 1200 (“Kirkja er at Skálmarnesi undir Múla”) og fram á 16. öld (1502 DI VII, 612; 1537 DI X, 112 o.v.). Skálmarnesmúla hef ég ekki fundið fyrr en 1648. Það haust “veitti sér banatilræði Bjarni Bjarnason á Ingunnarstöðum í Skálmarnesmúla kirkjusókn” og er frá því greint í Sjávarborgarannál (Ann. IV, 285). Ekki er þó nafnmyndin fastari í sessi en svo að ári síðar segir sami annáll frá því að “8. Julii kafnaði kvensvipt í Kaldabrunni undir Múla á Skálmarnesi” (Ann. IV, 287-288). Sé flett Annálum og Alþingisbókum Íslands það sem eftir lifir aldarinnar er þar einungis Múli á Skálmarnesi og enn stendur kirkjan og bændur búa “undir Múla”.

Árið 1703 var tekið manntal á Íslandi og í prentaðri útgáfu þess (bls. 166) er fyrirsögnin Skálmarnesmúlahreppur og inngangsgrein hefst þannig: “Mannfólksregistur í Skálmarnesmúlahrepp af oss undirskrifuðum hreppstjórum sömu sveitar saman tekið og fullgjört A° 1703.” Í sjálfu fólkstalinu er bærinn hins vegar “Múli á Skálmarnesi”.

Finna má dæmi um Skálmarnesmúla árin 1712 (“dat. Skálmarnessmúla”, Alþ.b. Ísl. X, 92) og 1716 (“í Skálmarnes múlahrepp”, Alþ.b. Ísl. X, 278) og 1759 (“með ... 7 hundruðum í Skálmarnesmúla”, Alþ.b. Ísl. XIV; 352). Múli á Skálmarnesi lifir þó góðu lífi jafnhliða á 18. öld.

Í lýsingu Múlakirkjusóknar frá því um 1840 eftir sr. Ólaf Sivertsen segir: “Skálmarnesmúli, stutta bæjarleið austur frá Ingunnarstöðum, almennt nefndur Múli á Skálmarnesi.” (Sóknalýs. Vestfjarða I, 107). Segja má að hér birtist sú málvenja sem ríkt hefur síðan; bærinn heitir Skálmarnesmúli en er í daglegu tali ævinlega nefndur Múli, og er nú orðið líklega algengara að tala um Múlanes en Skálmarnes.

Vona að þetta svari spurningu þinni.

Bestu kveðjur,

Jónína Hafsteinsdóttir


11. 10, 2007
Stefán Þ Birgisson
Hvaðan kemur nafnið Fanntófell?
Kv Stefán
 

Sæll Stefán.

Nafnið er líklega dregið af fönnum (fanntóm) í fellinu sem líkjast grastóm í fjalli, af orðinu tó.

Ekki er vitað hversu gamalt nafnið er en það er a.m.k. skráð í sóknalýsingu Þingvalla- og Úlfljótssókna 1840 (Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar , bls. 175) og það er sýnt á korti Björns Gunnlaugssonar 1844.

Kveðja. Svavar Sigmundsson


30. 9, 2007
Ásta Ólafsdóttir

Er til Klukkufell (fell, ekki bæjarnafn) í Skagafirði?

Bestu þakkir,
Ásta
 

Sæl Ásta.

Við höfum ekki heimildir um Klukkufell í Skagafirði, en málið er í athugun hjá fróðum Skagfirðingum.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


17. 9, 2007
Magnús Ingimundarson

Veit einhver deili á Hyrningstöðum í Bitrufirði. Löngu farið í eyði. Gaman væri að vita hver hafi búið þar og hvenær. Kv. M.I.

 

Sæll Magnús.

Hyrningsstaðir í Bitrufirði voru farnir í eyði um 1700, skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, og þá er þar aðeins stekkur. Ekkert er okkur kunnugt um ábúendur þar, hvorki fyrr né síðar.

Með kveðjum.

Svavar Sigmundsson


11. 9, 2007
Ólafur Ág. Þorsteinsson

Á Skarðsströnd, nánar tiltekið í Villingadal er merkilegt náttúrufyrirbæri sem heitir Ártindar. Rétt neðan við áðurnefndar klettaborgir sést móta fyrir hringlaga tóft, minnir helst á dómhring. Eru til upplýsingar um þesssi náttúrufyrirbæri ?

Góðar kveðjur,
Ólafur Ág. Þorsteinsson
 

Sæll Ólafur.

Við höfum ekki nánari upplýsingar um Ártinda sem eru í landi Ár, en neðan undir þeim er Stekkur og Stekkjarhvolf, skv. örnefnalýsingu Kristins Indriðasonar.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


09. 9, 2007
Halldór Gestsson

Hefi oft velt fyrir mér mismunandi ritun bæjarnafna hér í Árnessýslu. T.d.: Kiðaberg­Kiðjaberg, Mjósyndi­Mjósund, Göltur­Gölt, Miklaholt­Miklholt. Og reyndar miklu fleiri. Hefi ekki svo ég muni séð hvað rétt er og hvers vegna.

 

Sæll Halldór.

Mismunandi ritun bæjarnafna stafar af því að málið hefur breyst í tímans rás. Þannig er beygingin á orðinu kið ekki lengur í eignarfalli fleirtölu kiðja heldur kiða, sbr. Kiðagil og Kiðafell. Ég er sjálfur vanur nafnmyndinni Kiðaberg í framburði en að fornu hefur hún verið Kiðjaberg. Um Mjósyndi = Mjósund er það að segja að í mæltu máli í Flóa var venjulega sagt Mjósund, en Mjósyndi hefur verið lífseig mynd í opinberum skrám. Mjósyndi kemur fyrir að fornu en skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns hét hún Mjósund "Nú almennilega kallað Mjósende", segja þeir (II. bindi, bls. 167). Ámóta tvímyndir eru á Mjósundi í Svínadal í Dalasýslu í fornum textum, þ.e. Mjósund og Mjósyndi. Göltur er upphaflega nafnið á bænum í Grímsnesi og önnur nafnmynd er ekki viðurkennd. En það er þekkt að bæjanöfn skipta um kyn og það hefur líklega gerst þar, þ.e. ef nafnið er notað í kvenkyni, Gölt. Í nafninu Miklaholt hefur það gerst að sérhljóðið a hefur fallið niður á undan h-i, þar sem kallað er hljóðgap, en það er almennt ekki viðurkennt í riti.

Örnefni geta sem sagt breyst eins og annað í málinu og er ekkert við því að segja ef menn almennt koma sér saman um breytinguna. Í því sambandi er alltaf spurning um rétt og rangt. Ef nýjung er almennt viðurkennd verður hún rétt á endanum.

Með bestu kveðju.Svavar Sigmundsson


05. 9, 2007
Ólafur Kr. Ólafsson

Hvað heitir þessi fallegi hellir sem maður gengur í gegn um á gönguleiðinni frá Hvalfjarðarbotni upp að Glym: http://flickr.com/photos/olafur/1196639512/ og http://flickr.com/photos/olafur/986671732/!

P.s. Fyrirspurnirnar mínar fengu ekki náð fyrr en ég prófaði e-addressu sem endar á ".is". Gmail.com addressur duga t.d. ekki hér (á þessum annars sniðuga vef)

 

Sæll Ólafur.

Okkur hefur tekist að hafa upp á nafninu á þessum helli og heitir hann Þvottahellir. Hann er austan við svonefndan Gamlastekk í árgljúfri Botnsár. Í þessum helli var stundum í ótíð þurrkaður þvottur, segir í örnefnaskrá sem Þórmundur Erlingsson í Stóra-Botni skráði.

Bestu kveðjur.Svavar Sigmundsson


05. 9, 2007
Guðmundur R Björgvinsson

Mikill nafnaþvælingur er einatt um Dynjanda við Arnarfjörð.Á Arnfirðingi.is eru menn jafnvel ekki með hlutina á hreinu, og á þýskri síðu t.d. http://de.wilkipedia.org þvælist rangnefnið þ.e. lýsingarorðið! Einnig inni á síðu frá Breiðuvík.

 

Efsti fossinn Dynjandi, sjálfur, um nafn hans hafa lengi staðið deildar meiningar, og lýsingarorðið fjallfoss sem kemur fram í sóknarlýsingu séra Sigurðar Jónssonar er af sumum notað sem nafnorð. Mikið hefur verið um nafnið ritað. En ljóst er að fjallfoss sem nafnorð er fyrst notað fyrir rúmri öld.

 

Sæll Guðmundur.

Ég er sammála þér um að nafnið Dynjandi er rétta nafnið en ekki Fjallfoss. En með orðinu fjallfoss er líklega átt við að hann renni af fjalli eða fjallsbrún og það er þannig lýsing á fossinum.

Kveðjur. Svavar


16. 8, 2007
Bjarki Sverrisson

Ég er að fiska eftir upplýsingum um tilurð þess að gönguleiðin úr Hvalfjarðarbotni yfir í Skorradal er kölluð Síldarmannagötur. Hvenær er þess fyrst getið og í hvaða samhengi. Það eina sem ég hef komist að til þessa er að menn leggja getum að því að þetta tengist e-ð síldveiðum í botni Hvalfjarðar. Eru til einhverjar frásagnir tengdar Síldarmannagötum?

Kv.
Bjarki

PS. Hér fyrir neðan er spurt um örnefnið Heimrahögg og hvar það sé að finna á kortum. Ég hef séð þetta m.a. á Íslandskorti fyrir Garmin GPS tæki sem og á http://atlas.lmi.is/myndaskjar/viewer.htm

 

Sæll Bjarki.

Lúðvík Kristjánsson segir í Íslenskum sjávarháttum II:383, að Síldarmannagata sé forn leið en tilfærir ekki hvenær hennar sé getið fyrst. Nafnið var í eintölu a.m.k. fram um 1840 (Sóknalýsingar Mýra- og Borgarfjarðarsýslna (2005). Það tengist síldargöngum í Hvalfjörð.

Nafnið kemur ekki fyrir í íslenskum fornum ritum, annálum eða Jarðabók Árna Magnússonar frá 18. öld. (Sjá einnig Árbók Ferðafélags Íslands 2004:108, 260).

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


15. 8, 2007
Karl Halldórsson

Hvað þýðir Soldeyjardalur? Nafnið er á dal í Ljósufjöllum (kort LMI og Árbók FÍ 1986), en kemur líka fyrir sem Sóldýjadalur í greinum um flugslys í Ljósufjöllum og víðar.

Kveðja
KH
 

Sæll Karl.

Á landamerkjum Kársstaða og Örlygsstaða í Helgafellssveit er Sóleyjardý, og segir þannig í landamerkjabók frá 1884 að milli bæjanna ráði "sjónhending úr Nóngili ofan í Sóleyjardý, þaðan ræður lækur, sem rennur í Glæsiskeldu" o.s.frv.

Í örnefnalýsingu Kársstaða sem Þorleifur Jóhannesson skráði segir að landamerkin séu "úr Geirvör í Sóleyjardý, úr dýinu í Flóalæk og þaðan í Glæsiskeldu" o.s.frv. og Sóleyjardý sé í láglendum flóa fyrir vestan Kársstaðaá.

Líklegt er því að Soldeyjardalur hafi upphaflega heitið Sóleyjardý(s)dalur eða Sóleyjardýjadalur en nafnið styst síðar. Dýið hefur verið kennt við sóleyjar.

Með kveðjum.

Svavar Sigmundsson


13. 8, 2007
Hertha W. Jónsdóttir

Lítil stúlka spurði ömmu sína: Hvað þýðir Eskifjörður? Amma hafði ekki svar og biður um aðstoð. Takk fyrir.

Hertha
 

Sæl Hertha.

Hvað þýðir Eskifjörður?

Í lýsingu Hólmasóknar í Reyðarfirði árið 1843 skrifar sr. Hallgrímur Jónsson eftirfarandi: “Eskjufjörður ... dregur nafn af hnúk nokkrum á Eskjufjarðarheiðarvarpi sem sporöskjulöguð dæld er ofan í og kallast því Eskja” (Múlasýslur, bls. 367). Einar Bragi segir um þetta: “Réttar hefði verið að orða þetta svo, að fjörðurinn drægi nafn af sporöskjunni, Eskjunni, enda var hann langt fram á 19. öld iðulega kallaður Eskjufjörður.” (Eskja I:113).

Á Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 er nafnmyndin Eskifjörður en inn af fjarðarbotni er sett nafnið Eskjur (flt.). Í örnefnaskrá er sporaskjan nefnd Askja og eru ýmis örnefni dregin af henni, svo sem Öskjuá.

Nafnmyndin Eskifjörður hefur því þróast af myndinni Eskjufjörður.

Með kveðju.

Svavar Sigmundsson


25. 7, 2007
Jón Benjamínsson
Sæll,

hver er helsta skýringin á nafninu Fagridalur (liggur á milli Héraðs og Reyðarfjarðar)?

Kveðja
JB

Sæll Jón.

 

Væntanlega hefur þeim sem gaf dalnum nafn þótt hann fallegur yfir að líta og þá líkast til vel grænn.

Kveðjur.

Svavar Sigmundsson


18. 7, 2007
Þorkell Örn Ólason
Góðan dag.

Mig langar að forvitnast um bæjarnafnið Kollaleiru í Reyðarfirði.

Kveðjur,
Þorkell Örn Ólason
 

Sæll Þorkell Örn.

Bæjarnafnið er talið dregið af melkollum og útfiri við fjarðarbotninn (Hjörleifur Guttormsson, Árbók Ferðafélags Íslands 2005:23).

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


12. 7, 2007
Jón Torfason
Hver er helsta skýringin á nafninu Þjórsá?
Kveðja,
JT
 

Sæll Jón.

Nafnið hefur lengstum verið skýrt sem ‘Bolafljót’, þ.e. af orðinu þjór ‘naut’. Þórhallur Vilmundarson telur nafnið hafa verið *Þjótsá, sbr. bæjarnafnið Þjótandi við ána (Grímnir 3:137). En að mínu áliti gæti áin dregið nafn af því að hún bólgnaði oft á vetrum í frostum og komu þá miklir svellbunkar í hana við Urriðafoss í Flóa, úr ie. *teu- 'sver, bólginn', skylt fornensku ðéor 'bólga, kýli', skylt þjó.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


06. 7, 2007
Sigurður Sigurðarson
Hver er skýringin á örnefninu Ölfus?
 

Sæll Sigurður.

Merking nafnsins Ölfus er umdeild. Núverandi Þingvallavatn hét áður Ölfusvatn og svo heitir enn bær í Þingvallasveit. Líklegt er því að Ölfus hafi fyrrum náð yfir núverandi Ölfus, Grafning og Þingvallasveit og afmarkast af núverandi Sogi, sem hefur þá borið nafnið Ölfusá eins og áin heitir nú eftir að Sogið fellur í hana. Skýringar á nafninu er þá líklegast að leita við Þingvallavatn. Baldur Jónsson prófessor taldi í ítarlegri grein að nafnið gæti verið dregið af orðinu *elfós, sbr. sænsku älvos, og væri þá átt við útrennsli vatnsins við Kaldárhöfða sem kalla hefði mátt ós. Hitt kæmi einnig til greina að átt væri við ósa Ölfusár við sjó.

Heimild: Baldur Jónsson, Íslensk tunga 4, 1963, 7-56.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


26. 6, 2007
Friðrik Erlings

Hver er skýring á bæjarnafninu Bár? Bár er í Flóa og einnig á norðanverðu Snæfellsnesi. Eru önnur Bár - örnefni en bæjarnöfn?

 

Sæll Friðrik.

Auk bæjanna í Flóa og Eyrarsveit (Norður- og Suður-Bár) eru klettar í landi Strandselja í Ögurhr. í N-Ís. sem heita Bár. Sú kenning hefur verið uppi að nafn bæjanna sé kennt við borgina Bari á Ítalíu og að það tengist Nikulási dýrlingi í Bár sem var verndari sjóferða m.a. Ásgeir Blöndal Magnússon hefur þessa skýringu án fyrirvara í orðsifjabók sinni (bls. 40). Hinsvegar má þetta þykja langsótt skýring, og væri hugsanlegt að orðið væri önnur mynd af bára, sbr. að alda er ekki óalgeng í örnefnum. Örnefnið í landi Strandselja á sér annan uppruna. Það er dregið af Bágur, en tveir klettar með þessu nafni sköguðu út í götu og voru til trafala áður fyrr. Bár er þar myndað af bágur eins og lár af lágur. En bæjanöfnin eru tæpast mynduð á þann hátt. Jörðin Bár í Eyrarsveit er nefnd í fornbréfi 1480 og þar er nafnið skrifað „bar“ (Íslenskt fornbréfasafn VI:295).

Kveðja. Svavar Sigmundsson


05. 6, 2007
Sigurður J Jónsson
Fontur, hvað þýðir orðið?
Hvers vegna heitir oddi langanes fontur?
 
Sigurður.

Örnefnið Fontur er til á a.m.k. fjórum stöðum á landinu:

1) Ysti oddi Langaness í N-Þing. (= Langanesfontur), hömrum girtur, og er þar allhátt bjarg.

2) Endinn á fjallgarðinum við Barðsnes í Norðfirði, S-Múl. (= Hornsfontur), þar sem Hornið endar í mjóu nefi.

3) Berggangur í landi Sandvíkur í Norðfirði fyrir innan Guðrúnarskarð.

4) Strýtumynduð hæð efst á Gildrufjalli í landi Stafafells í Lóni, A-Skaft.

Merking orðsins er 'ker (á stalli), skírnarfontur'. Í eldra máli var til orðið fontvirki, eins konar stauravirki utan við kirkju þar sem kirkjuklukkur hafa hangið, sbr. máldaga Garðakirkju á Akranesi frá 1560 (Íslenskt fornbréfasafn XIII:525). Orðið fontur virðist því merkja 'stólpi, staur' e.þ.h., sbr. orðtakið: standa eins og fontur 'standa hreyfingarlaus (eins og staur)' (Íslensk orðabók (3. útg. 2002), 365). Líklegt er að örnefnin séu dregin af útliti þessara staða.

Kveðja.

Svavar Sigmundsson


30. 5, 2007
Sigríður Jörundsdóttir

Á forsíðu ykkar er þessi texti: "Sel ... þar var sel frá Kvennabrekku; seinast hafði þar í seli Sveinn, er síðast bjó á Kolsstöðum, um 1892. Haft var í seli frá Fellsenda til 1904 (líklega), og er það seinast í Suður-Dölum." -

Hvaðan eru þessar upplýsingar?
 

Sæl Sigríður.

Þessar upplýsingar eru fengnar úr örnefnaskrá um Afréttarland Kvennabrekku í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Örnefnastofnun Íslands). Þær eru komnar frá Þórði Benediktssyni, en Einar Gunnar Pétursson skráði eftir honum í ágúst 1972.

Þórður fæddist 22. júní 1888 að Svínhóli, fór að Háafelli 7 ára og var þar til 36 ára aldurs. Hann lærði örnefni af Finni Sveinssyni móðurafa sínum og Þórði Benediktssyni föðurafa sínum. (Sjá einnig Dalamenn. Æviskrár 1703-1961. I, bls. 203-204.)

Með bestu kveðjum.

Svavar Sigmundsson


23. 5, 2007
Anna María Gunnarsdóttir

Á korti finn ég örnefnið Heimrahögg í nágrenni við Möðruvelli upp í Kjós. Ekki getið þið eitthvað frætt mig um tilurð þess? Með kærri kveðju

Anna María Gunnarsdóttir
íslenskukennari
Fjölbrautaskólanum í Breiðholti
 

Anna María.

Högg í landslagi er 'horn eða stallur í fjallshlíð, klettabrún' og síðan gefur forliðurinn til kynna að Höggin séu tvö og annað nær bæ en hitt.

Ég sé ekki örnefnið á kortum sem ég hef. Fróðlegt væri að vita á hvaða korti það er.

Kveðja. Svavar Sigmundsson


09. 5, 2007
Birgir Haraldsson

Í Sandgerði er að finna lægð sem ber nafnið Gullá eða Gulllág? Hvort nafnið er rétt? Ég held að þarna hafi aldrei runnið á en lágin er til staðar.

 

Sæll Birgir.

Samkvæmt örnefnaskrám er suður af Oddstóft gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar voru fiskreitir áður fyrr.

Kveðja. Svavar Sigmundsson


14. 3, 2007
Benóný Ægisson

Hvað þýðir bæjarnafnið Kleppur?

 

Sæll Benóný.

Bæjarnafnið merkir nánast 'klöpp'. Orðið sjálft getur þýtt 'kökkur', 'köggull' eða 'klepri' en sem örnefni er merkingin sem sagt 'klöpp'. Í nýnorsku getur klepp merkt 'smáklettur'.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

 

[Sjá einnig: Örnefni mánaðarins í apríl 2007: Kleppur og Kleppsvík]


06. 3, 2007
Glúmur Gylfason

Apavatn. Vil koma á framfæri tilgátu varðandi nafn Apavatns.

Nokkur ísl. örnefni eru af latneskum uppruna. Dæmi: Ríp, Purká. Apis er latneska heitið á býflugu. Tilgátan er að Apavatn þýði Bývatn. Varla er ég þó "fyrstur með fréttina"?

 

Sæll Glúmur.

Það er ekki gefið að Ríp 'klettur', 'klettasnös' sé af latneskum uppruna, þó að ripa í latínu merki 'bakki, klettsbrún'. Orðið er talið af germönskum uppruna (Ásgeir Bl. Magnússon, Íslensk orðasifjabók (1989), bls. 764). Ásgeir telur líka vafasamt að purka í íslensku sé tökuorð úr latínu porca (porcus), en líklegra að orðið hafi merkt 'e-ð lítið eða smávaxið'. Í færeysku merkir purka 'gimbur', 'smástelpa' og í sænskri mállýsku 'kubbsleg kona'. (Íslensk orðsifjabók, bls. 730). Í dönsku merkir purk 'smástrákur'.

Ekki veit ég hversvegna Apavatn ætti að vera kennt sérstaklega við býflugur. Ýmsar skýringartilgátur hafa verið uppi um nafnið (einnig Apá) en sennilegust finnst mér sú sem tengir það við fornnorska árheitið Apa í Opedal í Noregi, sem er skylt orðinu epja 'for, bleyta', sbr. Epjuteigur í landi Sandlækjar í Gnúpverjahr. í Árn. Það tengist umdeildum nafnlið í fljótum í Evrópu, *ap-, sbr. fornírsku ab 'fljót, á' (Ásgeir Bl. Magnússon í Ísl. tungu 6 (1965), bls. 98-100).

Með kveðju. Svavar Sigmundsson

 
13. 3, 2007
Glúmur Gylfason

Sæll enn, Svarvar.

Þakka svarið. Ekki að ég vilji eiga síðasta orðið, þ.e., hef ekkert á móti öðru svari, en:

1. Ríp.

Orðið virðist sömu eða svipaðrar merkingar bæði sem latnsekt eða germanskt, þ.e., dæmi um flæði mkilli skyldra málaflokka.

2. Purka sömuleiðis.

Dýranöfn - svín, naut , refur, - oft notuð sem skammar eða smækkunaryrði sem að lokum geta fengið sjálfstæða merkingu, sbr. t.d. sauður. Í færeysku er til ættarnafnið Purkhús, sem mætti þýða með svínastíu. Smá- strákur - stelpa og gimbur geta öll orðið fyrir því að vera líkt við purku/svín og hljóta sömu tvöföldu merkingu og sauður.

Purká rennur meðfram fjalli sem m.a. heitir svínsnafni, Galti = göltur.

3. Apavatn.

Undirritaður á sumarbústað við Apavatn og er þar í nábýli við býflugur. Á undanförnum hitasumrum hefur þeim fjölgað mjög. Talið er að á landnámsöld hafi verið heitara en oftast síðan. Því gæti vatnið verið kennt við býflugur engu síður en Mývatn við mý. Eða hvað?


28. 2, 2007
Ólafur Sigurjónsson.
Sælir.
Hvaðan kemur nafnið Jarlhettur.

Hef verið að reyna að fá uppl um það en ekki fundið.

Óli.
 

Sæll Ólafur.

Nafnið Jarlhettur er annaðhvort líkingarnafn, dregið af hettum eða höttum jarla eða af járnhöttum eins og Stefán Karlsson stakk upp á greininni Jarlhettur - Járnhettir í afmælisriti til undirritaðs 1989 (Orðlokarr.[Gefið út á vegum Árnastofnunar] 1989, bls. 43-44).

Orðið jarlhetta er annars ekki þekkt í íslensku máli, en Járnhattur (Járnhöttur) er örnefni í Mývatnssveit, hraunklettur með vörðu á. Heimildir um nafnið Jarlhettur eru ekki eldri en Íslandskort Björns Gunnlaugssonar 1844. Ekki er gefið að Járnhettir hafi orðið Jarlhettur og verður því ekki neinu slegið föstu um skýringuna.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


26. 2, 2007
Steingrímur Viktorsson

Ég var að lesa í bókinni "Einn á ferð og oftast ríðandi" eftir "Brúnar-Sigga" eða Sigurð Jónsson frá Brún. Nú las ég bókina og skoðaði Íslands Atlasinn um leið. Í bókinni segir Sigurður frá Gjörfadal sem er dalur í botni Ísafjarðar, en í Atlasinum er sagt að dalurinn heiti Gervidalur. Hvort nafnið er réttara. Ég álít að Sigurður fari rétt með.

Kveðja Steingrímur
 

Sæll Steingrímur.

Í fornritum, Fóstbræðra sögu og Grettis sögu, er nafnið í myndinni Gørvidalur. Ásgeir Blöndal Magnússon telur í orðsifjabók sinni að forliðurinn geti e.t.v. átt við mýrlendi eða þess háttar. Orðið gervi, sem einnig var til í myndinni gørvi, merkir 'búnaður' eða 'klæði' og hefur einnig haft myndina gjörvi í fornu máli. Þetta orð hefur e.t.v. haft áhrif á forliðinn í nafninu Gørvidalur, svo að til hefur verið bæði Gervidalur og Gjörvidalur. Árni Magnússon jarðabókarhöfundur skrifaði myndina Gjörfidalur þar sem skrifað hafði verið Giorvudalur í handritinu (7:462) og eins er gert í vísitasíu Brynjólfs biskups Sveinssonar 1639.

Báðar myndirnar, Gervidalur og Gjörvidalur, eru

réttlætanlegar. Jóhann Hjaltason kennari sem skrifaði Árbók Ferðafélagsins 1949, skrifar Gerfidalur (108). Á kortum hefur myndin Gjörfidalur verið tíðkuð (t.d. Uppdráttur Íslands Aðalkort bl. 1, 1: 250 000. Kmh. 1949) og í uppsláttarritinu Landið þitt Ísland, er Gjörvidalur aðalmyndin (IV:100) enda hefur heimafólk að sögn notað þá mynd á öldinni sem leið. Ekki er fráleitt að ætla að myndin Gervidalur þyki fremur niðrandi en hitt, að með henni sé verið að gefa í skyn að dalurinn og bærinn séu 'tilbúin', ekki 'ekta'!

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


16. 2, 2007
Halldór Jóhannsson

Nafnið -troppa- . Þar sem ég ólst upp voru tvö örnefini sem báru nafnið troppa. Annað var Troppa en hitt Sigmundartroppa.Hvortveggja voru klettar ?-drangar ?, sem gengu dálítið í sjó fram. Svipaðir klettar með sma nafni voru á bæ skammt frá.

 
17. 2, 2007
Halldór Jóhannsson

Ég þakka svarið varðandi "Troppu" Það var vangá hjá mér að nefna ekki hvar ég ólst upp. Ég ólst upp í Hjörsey og því erum bið að tala um sömu staðin. Sigmundartroppa er einnig í Hjörsey og skammt frá Troppu. Þar á milli er vík sem áður fyrr var aðal lending og uppsátur meðan útræði var í Hjörsey. Skýring þín á orðinu passar mjög vel aðstæður í Hjörsey.

Kveðja, Halldór Jóhannsson
 

Sæll Halldór.

Það er fróðlegt að heyra um Troppurnar. Ég veit um Troppu í Hjörsey. Tangatroppa er klettatangi á Ökrum og Guðlaugsbúðartroppa er á Skálanesi, allar á Mýrum. En hvar er Sigmundartroppa sem þú nefnir? Orðið troppa merkir 'endi á hamrabelti' líklega aðallega við sjó, e.t.v. tengt uppsátri, og er líklega skylt orðunum trumba og trumma í örnefnum þar sem trumba merkir 'nestá’, ‘klettarani’ eða 'klettanúpur' og trumma merkir 'hnúfa fremst á skerjatanga'.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


12. 2, 2007
Gunnar
Hvað þýðir bæjarnafnið Korpúlfsstaðir?
 
Gunnar

Nafnið Korpúlfur var líklegast mannsnafn í fornu máli þó að það komi ekki fyrir sem slíkt í heimildum. Annaðhvort er það dregið af orðinu korpr kk 'hrafn' eða hvk korpa 'hrukka'. Nafnið er stundum skrifað Kortólfsstaðir í heimildum frá 16. öld (kortolfsstoðvm (1234/1598) í Íslensku fornbréfasafni I:507) (= Kortúlfsstaðir á 18. öld, í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III:450). Myndin Kortúlfur er heldur ekki í heimildum sem mannsnafn. Kjalnesinga saga segir Korpúlf hafa búið á Korpúlfsstöðum, en hann gæti verið tilbúningur höfundar (Íslenzk fornrit XIV; bls. 20-22). (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 496).

Með kveðju.

Svavar Sigmundsson


31. 1, 2007
Jón Torfason

Þá er önnur spurning. Nafnið Kornsá í Vatnsdal er yfirleitt tengt við kornrækt. En mér hefur verið bent á að hugsanleg skýring sé tengsl við "kvörn" í ánni en hún rennur í þröngu gljúfri rétt ofan við bæinn. Eru til heimildir um þá kenningu?

Kær kveðja,
Jón Torfason
 

Sæll Jón.

Ég þekki ekki þessa kenningu og get ekki fundið neina umfjöllun um hana. Hinsvegar er rétt að benda á kenninguna um að nafnið Kornsá sé dregið af fuglsheitinu kárn, sbr. jaðrakárn (jaðrakan). Finnur Jónsson setti fram þessa skýringu í Orðakveri (Kaupmannahöfn 1914), bls. 45. Helgi Guðmundsson tekur þetta til umræðu í greininni Fuglsheitið jaðrakan (Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1969. Reykjavík 1969, bls. 377). Árheitið Korná er í landi Gilhaga í Skagafirði en ekki er ljóst hvað liggur að baki því heiti.

Með kveðjum. Svavar Sigmundsson


29. 1, 2007
Jón Torfason

Bær í Vesturhópi heitir Klömbur. Spurningin snýst um þágufallið. T.d. hef ég heyrt gamla menn segja "í Klömbur" en ekki Klömbrum. Getið þið veitt nokkra úrlausn.

Kær kveðja,
Jón Torfason
 

Sæll Jón.

Bæjarnafnið Klömbur í Aðaldal í S-Þing. er yfirleitt eins í öllum föllum í máli manna þar um slóðir, Klömbur, um Klömbur, frá Klömbur, til Klömbur. Hið sama er líklega uppi á teningnum í Vesturhópi. Annars hefur Baldur Jónsson fyrrv. prófessor rannsakað þetta og skrifað grein sem bíður birtingar.

Bestu kveðjur.

Svavar Sigmundsson


26. 1, 2007
Sigurður

Hvað heitir bærinn sem er á ströndumm milli djúpuvíkur og hólmavíkur, eru sunnan við Kolbeinsstað og á þessum stað eru tvö eyðibýli, eitt tréhús,nokkuð vel farið og anað sem er steinhús en er ekki alveg jafn vel farið og við hliðina er sumarbústaður(í notkun). þetta er úti á smá tanga og ég giska á að nafnið tengist eitthvað "eyjar" en er ekki allveg viss. Vitið þið hvað bærinn heitir?

 
Sigurður.

Ég geri ráð fyrir að þú eigir við eyðibýlið Eyjar sem er norðan við Asparvík.

Svavar Sigmundsson


14. 1, 2007
Sesselja Guðmundsóttir

Slokahraun er til milli Hrauns og Þórkötlustaða í Grindavík. Ætli merkingin sé sú að hraunið hafi runnið þröngt, í einskonar rennu? Vitið þið um annað slíkt á landinu, - svona í fljótu bragði?

Kveðja,
 
Sesselja.

Þetta segir um Slok í tveimur örnefnaskrám Þórkötlustaða í Grindavík:

"Utar er tangi fram í sjóinn, sem heitir Slok, og upp af honum er hraunspildan nefnd Slokahraun."

"Síðan taka við Slok og er austast Slokatá. Slokin draga nafn af áberandi soghljóði, sérstaklega undir austanátt."

Örnefnið Slok er annars til sem gilskorningar í landi Apavatns í Laugardal í Árn. "Þau renna í Smiðjuár upptök" segir í örnefnaskránni.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


14. 1, 2007
Stefán Finnsson
Daginn.

Getið þið vísað mér á aðgengilega nafnaskrá um sker við Íslandsstrendur ?

Kv.
 
Stefán.

Engin sérstök skrá um sker er til á landinu okkur vitanlega, en hugsanlega er hægt að verða sér úti um hana hjá Sjómælingum Íslands undir Landhelgisgæslunni.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


04. 1, 2007
Hólmgeir Hákonarson

Fékk eftirfarandi fyrirspurn frá frænda mínum á Húsavík:

"Biskupsás liggur á mörkum Norður og Suður-Þingeyjarsýslu. Biskupsás þessi liggur í stefnu Norður, Suður, og fer maður um hann þegar farin er gamla þjóðleiðin, milli Syðri Tungu og Fjalla í Kelduhverfi. Örnefnaskrá sem ég hef undir höndum, segir tilefni þessarar nafngiftar nú óþekkt. Biskupsás þessi er samkvæmt því sem ég hef lesið nefndur eftir Guðmundi biskupi Arasyni,á Hólum. Lesið hef ég um ferð er Guðmundur biskup fór einmitt þessa gömlu þjóðleið milli Syðritungu og Kelduhverfis, á þessum ás sem nú er nefndur Biskupsás mun hann hafa áð með sveinum sínum. Þar segir sagan að biskupssveinar hafi hlaðið vörðu sem enn stendur og nefnist biskupsvarða, ekki veit ég betur samkvæmt því sem ég hef lesið, en að bæði ásinn og varðan séu kennd við áðurnefndan Guðmund Arason. En nú er kanski komið að merg málsins, menn eru ekki á eitt sáttir um hvar þessi varða sé staðsett á Biskupsásnum sjálfum. Fáir eru lengur til frásagna af þeim mönnum sem áttu leið um Tunguheiði hér áður fyr, tveir menn eru þó kunnugastir þessum slóðum en það eru þeir Jón Ólafsson á Fjöllum og Sigtryggur í Steindal. Eftir því sem Ólafur sonur Jóns á Fjöllum sagði mér í dag, ber þeim ekki saman Jóni og pabba hvar þessi varða sé."

Nú spyr ég hafið þið hjá Örnefnastofnun einhver gögn sem sýna hvar þessi varða muni standa (eða hafa staðið) á Biskupsásnum.

Með fyrirfram þökk og bestu kveðjum
Hólmgeir Hákonarson
 

Sæll Hólmgeir.

Gleðilegt ár. Við í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum höfum því miður ekkert í okkar gögnum sem segir til um staðsetningu vörðunnar á Biskupsásnum.

Með bestu kveðjum. Svavar Sigmundsson


27. 12, 2006
Hörður Óli Guðmundsson
Sæll Svavar.

Ég sé hér meðar á síðuni að það eru til kort með örmefnum inná af Grímsnesinu. Gaman væri að eignast slík kort. gætir þú nokkuð verið svo vinsamlegur að benda mér á hvar hægt er að nálgast slík kort.

Bestu kveðjur Hörður Haga
 

Sæll Hörður.

Það væri athugandi að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins, sem hefur látið gera kortin. Annars væri hægt að hafa samband við Sigurgeir Skúlason landfræðing í Reykjavík beint.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


11. 12, 2006
Ragnar Jóhannesson

Góðan daginn. Ég var að skoða gömul póstkort frá Þingvöllum. Á tveimur þeirra voru merkt inn Helgafell . Annað var greinilega Búrfell sunnan Botnsúlna. Er það þekkt úr örnefnaskrám hjá ykkur?

bestu kveðjur
Ragnar Jóhannesson
 

Sæll Ragnar.

Við þekkjum ekkert Helgafell á þessum slóðum. Fróðlegt væri að sjá þetta póstkort. Hefur þú möguleika á að skanna það og senda okkur mynd af því?

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


07. 12, 2006
Hjalti Jóhannesson
Góðan dag.

Hafið þið á takteinum hvort bæjarnöfnin Nollur og Veisa hafa haft ákveðna merkingu?

Bestu kveðjur,
Hjalti Jóhannesson
 

Sæll Hjalti.

Nafnið Nollur var Örnefni mánaðarins á heimasíðu Örnefnastofnunar í ágúst 2004.(Sjá þar).

Veisa er bær í Fnjóskadal í S-Þing. Hans er getið í Ljósvetninga sögu. Merkingin er ‘rótvond mýri, flói’. (Margeir Jónsson, Heimar horfins tíma (1989), 228-229). Örnefnið Saurveisa er einnig til á flötum tanga milli Sjóarhúsavíkur og Hjálmarsvíkur í Þistilfirði í N-Þing.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


30. 11, 2006
Alexander Ingimarsson

Ég er með örnefnaskrá fyrir Hestfjall í Grímsnesi og jarðirnar vestanundi því fjalli, Hesti og Kiðjabergi ásamt Gíslastöðum. Þar er vísað í númer sennilega númer á landakorti eða örnefnakorti sem hefur verið gert á sínum tíma. Mig langar að eignast þetta kort og ef það er til hvar get ég nálgast það.

Þessi örnefna skrá er gefin út af Þórhalli Vilmundarsyni 1974.

Þessu er safnað saman af m.a. Gísla Guðmundssyni frá Björk, Gunnlaugi Þorsteinssyni og Halldóri Gunnlaugssyni frá Kiðjabergi í Grímsnesi.

Með þökk. Alexander
 

Sæll Alexander.

Númerin í skránni sem þú nefnir vísa ekki til korts heldur eru í hlaupandi röð innan skrárinnar og er vísað til þeirra í stafrófsskrá aftan við. Örn Sigurðsson landfræðingur gerði örnefnakort yfir Kiðjaberg 1984 og er það til hér í Örnefnasafni Árnastofnunar í Garðabæ. Auk þess hefur Sigurgeir Skúlason landfræðingur sett örnefni í Grímsnesi inn á loftmyndir.

Með bestu kveðjum. Svavar Sigmundsson


18. 11, 2006
Madlena Petorva

Getið þið bent mér á nokkur örnefni á Norðfirði (hvaðan kemur nafnið)og náttúrufyrirbæri

Með fyrirfram þökk
Kveðja,
Madlena
 

Sæl Madlena.

Við getum bent þér á lýsingu Hjörleifs Guttormssonar í Árbók Ferðafélags Íslands 2005, Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar, þar sem er kafli um Norðfjörð með mörgum örnefnum á bls. 103-147. Nafnið á Norðfirði er vafalaust til komið af því að hann er nyrsti fjörðurinn af þremur sem liggja inn úr Norðfjarðarflóa, en hinir eru Hellisfjörður og Viðfjörður.

Með kveðjum. Svavar Sigmundsson


16. 11, 2006
Pétur H. Ólafsson

Nokkru austan við bæinn Stóra-Vatnsskarð í Skagafirði er sunnan vegar allstór melur sem nefnist Norðlingur. Kunnið þið skýringu á nafninu

 

Sæll Pétur.

Líklegast er að nafnið Norðlingur sé til komið vegna lestamanna sem hafa áð þar, en Lestamannadrag er þar nærri. Uppi á melnum á að vera grjót sem menn hafa handfjatlað eins og segir í örnefnalýsingu, og talið að þar hafi líklega verið hlaðin varða eða smábyrgi. Norðlinga-örnefni eru til hér og þar um landið utan Norðurlands en ég þekki ekki neitt á Norðurlandi sjálfu annað en þetta. Í Reykjavík er Norðlingaholt og er talið að það geti eins átt við Borgfirðinga eins og Norðlendinga eða þá sem komu úr norðurátt til Reykjavíkur.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


16. 11, 2006
Dagfinnur S. Ómarsson

Hvernig varð nafnið Oddsskarð til? það er ritað á mismunandi hátt, þá sem Oddsskarð eða Oddskarð, hvort er rétt? það hefur núna síðustu ár verið að breiðast út hér á Neskaupstað að rita með 1 s-i.

kveðja.
 
Dagfinnur.

Ég hef ekki heimildir um hvernig nafnið Oddsskarð (eða Oddsdalur) varð til, en hvað sem um það er, er ljóst að eðlilegast er að skrifa nafnið með tveimur -s-um, Oddsskarð.

Með kveðjum. Svavar Sigmundsson


15. 11, 2006
Steingrímur Viktorsson

Mig langar að koma með nokkrar ábendingar til Örnefnastofnunar. Fyrir norðan Hveragerði eru tjarnir sem eru í öllum kortum sagðar vera Kattartjarnir þó alþjóð viti að þær heita Katlatjarnir. Ef ekið er austur frá Hveragerði, þjóðveg 1 kemur maður fljótt að á. Þar stendur á skilti Vegagerðarinnar að áin heiti Gljúfurholtsá. Nálægur bær heitir Gljúfurárholt, svo að líkindum heitir áin Gljúfurá.

Við höldum áfram og að næstu á, þar hefur Vegagerðin skírt ánna Bakkárholtsá, sem stenst illa. Nema að það eigi eftir að skíra Þjórsá við Þjórsártún og nefna ánna þar Þjórsártúnsá. Er það ekki í ykkar verkahring að varðveita örnefin fyrir allskonar ambögum. Ég hef t.d. heyrt þá kenningu að Selfoss hafi upphaflega verið Selfors og fors þýðir í norrænu flúðir. Fossinn er ekki til staðar en þar eru vissulega flúðir. Teljið þið þetta rétt.

Kv. Steingrímur
 

Sæll Steingrímur.

Þakka póstinn. Um Kattartjarnir og Katlatjarnir er það að segja að menn eru ekki sammála um þessi örnefni. Haft er eftir Guðmanni Ólafssyni á Skálabrekku í athugasemdum við örnefnaskrá Króks í Grafningi á þessa leið um Kattartjarnir:

"Tjarnir þessar hafa stundum verið nefndar Katlatjarnir ... og eru nefndar svo í sameiginlegri skrá Hagavíkur-, Ölfusvatns- og Krókslanda, eftir Svein Benediktsson. Guðmann telur það vera rangt. Hann telur þetta vera líkinganafn. Tjarnirnar eru mjög djúpar (gamlir sprengigígar) og dimmbláar og líkjast e.t.v. kattaraugum; það er sem maður líti í djúpblá kattaraugu, svo mikil er dýptin. Nafnið hefur líklega breytzt í Katlatjarnir, vegna þess að tjarnirnar eru gamlir gígar, katlar."

Þú segir að Vegagerðin hafi skírt ána Bakkárholtsá. Það er ekki rétt. Ekki eru svo ég viti varðveittar heimildir fyrir því að áin hafi heitið Bakkaá, en það er líklegt. Hún hefur síðan tekið nafn af bænum, Bakkárholti. Í lýsingu Ölveshrepps frá 1703 er hún nefnd "Hvammsá og líka Bakkarholtsá" (Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1979), bls. 244). Það er ekki óalgengt að upphaflegt örnefni hverfi en bæjarnafn ráði síðan ferðinni við nafngiftir, sbr. Fjallsfjall við bæinn Fjall.

Það er í okkar verkahring að varðveita heimildir um örnefnin en við ráðum því ekki hvernig fólk kýs að nota þau. Við höfum farið yfir örnefni á kortum Landmælinga Íslands og reynt að sjá til þess að þau séu sem réttust en yfir skiltum Vegagerðarinnar höfum við ekkert að segja.

Nafnið Selfoss hefur upphaflega heitið Selfors, af því að orðið foss var í upphafi Íslands byggðar borið þannig fram. En merking orðsins hefur ekki breyst að ráði, það hefur væntanlega átt við hvers konar foss, jafnt flúðir sem háan foss. Landnámabók nefnir Fors á Síðu (Íslensk fornrit I, bls. 322-323) og eru þar sannarlega engar flúðir.

Með bestu kveðju. Svavar Sigmundsson


14. 11, 2006
Margrét Kjartansdóttir
Komdu sæll Svavar
ég vil þakka þér fyrir ábendinguna

en nú langar mig að biðja þig um nokkur örnefni í Kópavogi

Víghólar
Kársnes
Digranes
Kóavogur
af hverju draga þessir staðir nafn sitt.
kv. Margrét.
 

Sæl Margrét.

Ekki eru kunnar sagnir um Víghólana tvo, Efri- og Neðri-Víghól, en hólar með þessu nafni eru einatt taldir hafa fengið nafn sitt af því að víg hafi verið framið þar. Þórhallur Vilmundarson telur að nafnið hafi upphaflega verið Veghóll af því að kirkjuleiðin hafi legið þar um (Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, bls. 7-11).

Ekki er hægt að útiloka að einhverjir Víghólar eigi raunverulega við mannvíg því að þau urðu einmitt oft þar sem leiðir manna lágu saman.

Kársnes er fremsti hluti Kópavogsháls, og taldi Ragnar Jónsson á Bústöðum nafnið eðlilegt þar sem snjó tæki oftast af fremsta hluta nessins í norðanátt en ekki af öllum hálsinum. Hann hefur því sett nafnið í samband við mannsnafnið Kár eða Kára, vindinn, en Ragnar þekkti ekki nafnið Kórsnes þegar talað var við hann 1966. Annar heimildarmaður um örnefni í Kópavogi, Guðmundur Ísaksson, segir að nafnið sé upphaflega Kórsnes, og að það sé kennt við skúta fremst á nesinu sem nefndur hafi verið Kór, líklega vestan við hús nr. 108 við Kársnesbraut. Adolf J.E. Petersen hefur það eftir Ingjaldi Ísakssyni, að nafnið Kórsnes sé dregið af þjóðsögu sem segir að ormur hafi legið á skerjum úti fyrir nesinu þegar lágsjávað var en síðan hafi hann skriðið á land og legið í laut sem hét Kór. (Heimild: Guðlaugur R. Guðmundsson: Örnefni í bæjarlandi Kópavogs. 1990). Ekki verður skorið úr því hvor myndin er upphaflegri en ekki verður um það deilt að Kársnes er sú nafnmynd sem orðið hefur ofan á.

Digranes merkir 'hið breiða eða gilda nes'. A.m.k. þrjú önnur Digranes eru þekkt í landinu: 1) Eldra nafn á Borgarnesi í Mýr. 2) Eldra nafn á bænum Dagverðarnes í Skorradal í Borg. Þar er breið og brött bunga sem skagar fram í Skorradalsvatn. 3) Skaginn austan Bakkafjarðar í N-Múl.

Kópavogur er vafalaust kenndur við selkópa í voginum.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


14. 11, 2006
Jón Torfason

Kærar þakkir fyrir margvíslega aðstoð fyrr og síðar.

Norðan í Digramúla á Skaga í Húnavatnssýslu er hjalli, sem nefndur er Baskisvellir, Baskavellir eða jafnvel Berkisvellir. Eru til einhverjar getgátur um skýringar á þessum heitum?

Kveðja,
Jón Torfason
 

Sæll Jón.

Ég hef hvergi séð tilraunir til skýringar á þessu örnefni eða neinum myndum þess. Í örnefnaskrá eru auk þess myndirnar Bæskisvellir, Barskersvellir og Bægisskersvellir.

Ég hef enga tillögu að skýringu að svo stöddu.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


13. 11, 2006
Margrét Kjartansdóttir

Góðan dag getið þið frætt mig á götu heitinu Fagrabrekka sem er í Kópavogi með fyrir fram þökk

KV Margrét
 
Margrét.

Fagrabrekka er ekki nefnd sem örnefni í þeim skrám sem við höfum úr Kópavogi, svo að líklegt er að það hafi verið búið til í sambandi við nafngiftir á öðrum götum í Kópavogi sem hafa -brekka að síðari lið og eru í sama hverfi.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


13. 11, 2006
Jónas Sigurðsson

Ef það er til, hvar er Egilsstaðavatn ?

 
Jónas.

Egilsstaðavatn er í landi Egilstaða I í fyrrum Villingaholtshreppi í Árn. Það er fyrir neðan svonefnda Veitu.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


08. 11, 2006
Sigurlaugur

Austan við Batteríið eða Skansinn í Reykjavík var að finna vör sem hét Krummaskuð. Hver er merking þess örnefnis?

 
Sigurlaugur.

Merking nafnsins er 'eitthvað lítið og ómerkilegt', en í lýsingu á vörinni segir Þórbergur Þórðarson: "Þessi vör var þröng skonsa, sem skarst inn á milli hárra kletta" (Lifnaðarhættir í Reykjavík á síðara helmingi 19. aldar, Landnám Ingólfs II (1936-40), bls. 231.

Sbr. Einar S. Arnalds. Reykjavík. Sögustaður við Sund. 4. bindi (1989), bls. 66-67).

Með kveðju. Svavar Sigmundsson.


07. 11, 2006
Kristín Pétursdóttir
Hvað eru margir bæir sem heita Hóll?
 

Sæl Kristín.

Þú getur sjálf talið þá með því að smella á Bæjatal á heimasíðunni og slá inn Hóll í reitinn fyrir leit.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


02. 11, 2006
Árni Gunnarsson

Tilgáta að gamni mínu um nafnið Bolungavík: Bolafjall er nefnt þarna í nágrenninu. Gætu fyrstu íbúar hafa kallast Bolungar og þá væri nafn víkurinnar fengið þaðan?.

 

Sæll Árni.

Elsta mynd nafnsins er Bolungarvík, sem nefnd er í Landnámabók (Íslensk fornrit I, bls. 186). Líklegt er því að íbúarnir hafi snemma kallast Bolvíkingar, en ekki eru heimildir um að þeir hafi nefnst Bolungar eins og þú nefnir. Í Noregi voru til örnefnin Bolungareyrr og Bolungaey og voru þeir forliðir taldir geta merkt 'ungur boli' og eru þá komin hugsanleg tengsl við Bolafjall. Hins vegar hefur lengi verið álitið að forliðurinn í Bolungarvík merkti '(reka)viðarstafli'. Orðið er alltaf talið hafa verið karlkyns og því ætti eignarfall eintölu að vera Bolungs- en ekki Bolungar- sem væri fremur kvenkynsending. Líklegra er að við myndina í eignarfall fleirtölu, Bolunga- hafi snemma bæst -r- til að fylla upp í hljóðgap eins og stundum vill verða í örnefnum, þó að hið gagnstæða geti líka vissulega gerst, t.d. þegar Reykjarvík varð Reykjavík.

Með kveðjum. Svavar Sigmundsson


28. 10, 2006
Jóhann Óli

Enn um Mosfellssveitina.

Leirvogur eða Leiruvogur? Leirvogstunga, Leirvogsá, Leirvogsvatn eru til, skv. því ætti Leirvogur að vera upprunalegra? Þar eru reyndar miklar leirur.

Bestu kveðjur
Jóhann Óli
 

Sæll Jóhann Óli.

Í Landnámabók stendur Leiruvágr (Leiruvági, Leiruvágs) og Leiruvágsá (Leiruvágsár) (Íslenzk fornrit I, bls. 48-49) svo að ganga verður út frá því að það séu upphaflegu myndirnar. Síðan hefur -u- fallið niður og því er nú fram borið Leirvogur og Leirvogsá.

Með kveðjum.

Svavar Sigmundsson


26. 10, 2006
Jón Torfason
Sæl aftur.

Er til örnefnaskrá fyrir Skálmarnesmúla í Barðastrandarsýslu. Spyr vegna þess að skip strandaði þar 1902 og langar að vita hvort eitthvað væri um það í slíkri skrá.

Kveðja,
Jón Torfason
 

Sæll Jón.

Örnefnaskrá er til um Skálmarnesmúla en þar er ekkert að finna um strandið sem þú nefnir.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


26. 10, 2006
Jón Torfason
Sæl verið þið.

Nú er það spurning um eignarfallið af kirkjustaðnum Kvíabekkur í Ólafsfirði. Hvort er algengara Kvíabekkjar eða Kvíabekks.

Kveðja,
Jón Torfason
 

Sæll Jón.

Það virðist algengara að hafa Kvíabekkjar hjá heimamönnum, bæði í örnefnaskrá (Kvíabekkjartún) og í ritinu Byggðir Eyjafjarðar, þar sem talað er um Kvíabekkjardal.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


25. 10, 2006
Halldór Júlíusson

Getið þið sagt mér hvort nöfnin Eiðisgrandi og Eiðisvík eru dregin af staðarnafninu Eiði ? Ef svo er,hvaðan koma þá Eiðsgrandi og Eiðsvík ? Kveðja, H. Júlíusson

 

Sæll Halldór.

Já, þessi nöfn eru dregin af staðarnafninu, en það nafn var upphaflega Eið hvk. Þegar ákveðinn greinir bættist við orðið/nafnið: eið-ið,

færðist -i- úr greininum yfir á orðið sjálft og úr varð eiði/Eiði. En örnefnin Eiðsgrandi og Eiðsvík eru dregin af nafninu eins og það var í upphafi.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


25. 10, 2006
Sigurður Kjartansson

Heyrði nýverið að afi minn hefði alist upp á bæ sem hét Kúlga, rétt við Sandgerði á Reykjanesi. Ég er forvitinn um bæjarnafnið. Hver er merking orðsins Kúlga ? Takk fyrir.

 

Sæll Sigurður.

Ég finn ekki bæjarnafnið sem þú spyrð um en hinsvegar var til bær sem hét Kólga, skv. örnefnaskrá hér í safninu um Klöpp í Sandgerði.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


18. 10, 2006
Jón Torfason
Sæl verið þið.

Í Laxá á Ásum, rétt neðan við brúna hjá Holti, er frægur veiðistaður, nefndur Dulsar. Þarna eru flúðir og smáfossar og talsverður straumur í ánni. Eru til lík heiti annars staðar?

Kveðja,
Jón Torfason
 

Sæll Jón.

Nei, við þekkjum ekki þetta nafn annars staðar. Örnefnið Dulur er á smálæk í landi Dunkárbakka í Dal. Við hann er kennd Dulsbunga, en þar er s-ið eignarfalls-s en ekki viðskeyti eins og í Dulsar. Dulu-örnefni eru til á nokkrum stöðum og merkja t.d. staði þar sem skepnur geta dulist. Klettar í Lónakoti í Garðahreppi nefndust Dulaklettar. Á einum þeirra var grastó, sem nefndist Dula. "Um kletta þessa lá sérstakt mið, fiskimið í Lónakotsdjúpi, en þar var klettur, er nefndist Duli, og var oft fiskisælt kringum hann. Keilir um Dula nefndist fiskimiðið." (Örnefnaskrá).

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


05. 10, 2006
Jóhann Óli
Góðan dag

Getið þið frætt mig á eða bent mér á leið til að finna nafnið á sundinu milli Geldinganess og Gunnuness í Mosfellssveit. Ennfremur hvað tanginn sem gengur útí sunnan- og utanverðan Kollafjörð í sömu sveit heitir? Ég sé nafnið Afstapi á korti, á það ef til vill við þennan tanga eða höfða? Með kveðju, Jóhann Ól

Sæll Jóhann Óli.

Svo virðist sem sundið sem þú nefnir milli Geldinganess og Gunnuness sé nafnlaust.

Um Afstapa segir í örnefnaskrá Álfsness:

"Norðan við Brennumýri, norður við Kollafjörð, heitir Djúpavík. Dílatorfur eru upp af Djúpuvíkinni, en þar norður af gengur klettur fram austan við Djúpuvík, sem heitir Afstapi. Gengt er fyrir hann um fjöru."

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


02. 10, 2006
Sesselja Guðmundsdóttir

Sæl. Örnefnið Eldvarða er til í Vatnsfirði við Djúp. Varðan er hol að innan og sagt er að kveiktur hafi verið eldur í henni til þess að gefa merki (eld eða reyk). Eru til fleiri Eldvörður á landinu? Hvað segir örnefnaskrá um þessa vörðu?

Kv. Sesselja
 

Sæl Sesselja.

Í örnefnaskrá Vatnsfjarðar eftir Jóhann Hjaltason er Eldvarða ekki nefnd en Grettisvarða nefnd upp frá túninu, hol að innan fyrir ofan miðju. Ekkert er þar minnst á að eldur hafi verið kveiktur í henni. Fleiri Eldvörður þekki ég ekki en ég beini spurningu þinni til Péturs Halldórssonar í útvarpsþættinum Vítt og breitt á fimmtudögum.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


19. 9, 2006
Benedikt Þórisson

Hef áhuga að vita eitthvað um bæjarnafnið Skrapatunga í Laxárdal. Bærinn er oftast kallaður Tunga, er "Skrapa" viðurnefni? Kveðja B Þ

 

Sæll Benedikt.

Bæjarnafnið Skrapatunga er óútskýrt. Sr. Eggert Ó. Brím á Höskuldsstöðum skrifaði 1873 í sóknarlýsingu: "Skrapatunga. Óvíst er, af hverju nafnið er dregið" (bls. 135) og við það situr enn í dag. Menn geta látið sér detta ýmislegt í hug, t.d. viðurnefni, sbr. orðið skrapalaupur, en ekkert verður fullyrt.

Með kveðjum. Svavar Sigmundsson


19. 9, 2006
Helga Kress
Sæl verið þið.

Ég er að velta fyrir mér örnefnum, flestum að líkindum tilbúnum, í sögum Halldórs Laxness. Í Guðsgjafaþulu kemur sex sinnum fyrir örnefnið Giljárvallavatn, "í heiðinni fyrir ofan Djúpvík" (k. 12, s. 119). Þar er rekið andabú (sbr. k. 14, s. 145) og má "skraunglast þángað á boddíbíl" (k. 21, sl. 210). Einnig kemur einu sinni fyrir örnefnið Giljárvalladalur (k. 26, s. 263), en aldrei nein Giljá. Og nú er spurningin: Eru þessi örnefni, Giljárvallavatn og/eða Giljárvalladalur annars staðar til? Eða þá Giljá eða Giljárvellir? Djúpvík í Guðsgjafaþulu þarf ekki endilega að vera Djúpavík á Ströndum, og því gæti nefnt vatn verið hvar sem er annars staðar þess vegna.

Bestu kveðjur, Helga
 

Sæl Helga.

Við getum ekki fundið þessi örnefni sem þú nefnir úr Guðsgjafaþulu í þeim skrám sem við getum leitað í með góðu móti. Líklega eru þetta tilbúin örnefni hjá Halldóri.

Með kveðjum.

Svavar Sigmundsson


19. 9, 2006
Jón Torfason

Vitið þið um elstu heimildir um sveitarnafnið "Þing", þ.e. Sveinsstaðahrepp í Austur-Húnavatnssýslu.

 

Sæll Jón.

Við vitum ekki um eldri heimild en Jarðabók Árna og Páls frá 1713, VIII. bindi, bls. 247, um Neðri-Vatnsdalshrepp, "Það er og kallað Í Þinginu".

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


19. 9, 2006
Bjarni Gautason

Fnjóskadalur hetir fallegur dalur í Þingeyjarsveit. Kannist þið við Fnjótskadal sem eldri mynd orðsins? Hver er uppruni örnefnisins?

 

Sæll Bjarni.

Við könnumst ekki við þessa mynd nafnsins, Fnjótskadalur, fyrir Fnjóskadalur. Önnur gömul mynd nafnsins er Hnjóskadalur og koma þessar myndir báðar fyrir í Landnámabók (Íslensk fornrit I:269-271). Orðin hnjóskur og fnjóskur eru sömu merkingar, 'þurr og feyskinn trjábútur'. Nafnmyndin Hnjóskadalur hefur lifað fram að þessu og líklega enn í framburði fólks í dalnum þó að það sé ekki viðurkennd mynd í ritmáli.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


19. 9, 2006
Hrafnhildur I. Sigurðardóttir

Góðan daginn. Mig langar svo til að spyrja ykkur hvort eitthvert nafn er yfir litlu vötnin (þau eru mörg saman á þó nokkru svæði) og eru fast við veginn vinstra megin sem liggur að Skessugarði á Möðrudalsöræfum. Bara örskammt frá og ekið í suðurátt.

Bestu kveðjur og þakklæti,
Hrafnhildur.
 

Sæl Hrafnhildur

Skessugarður liggur frá austri til vesturs yfir Grjótháls. Austan hálsins er Lækjardalur og þar liggur Grjótgarðsvatn eða Grjótgarðsvötn. Mismunandi er hvort menn hafa heitið í eintölu eða fleirtölu. Nú er bara hægt að tala um eitt vatn þarna og nokkrar smátjarnir en líklegt er að vötnin hafi áður verið a.m.k. þrjú og má sjá vísbendingar um það á gömlum kortum.

Vestan við Grjótgarðsháls er Lónaflói, mýrlendi með nokkrum smátjörnum. Þar í gegn rennur áin Lónakíll. Mér finnst þó líklegra að þú sért að meina áðurnefnt Grjótgarðsvatn.

Dálítið er fjallað um þetta svæði í grein eftir Helga Hallgrímsson, Trollkonustígur og Skessugarður, sem birtist í tímaritinu Múlaþingi, nr. 30, 2003.

Þetta svæði er vel hægt að skoða í forritinu Google Earth sem fá má á netinu (http://earth.google.com/).

Kveðja, Hallgrímur J. Ámundason


13. 9, 2006
Hafsteinn Jónsson

Ég hef undir höndum sjókort frá föður mínum sem stundaði veiðar í faxaflóa allt sitt líf. Fiskimið sem hann stundaði eru öll með kennileitum í landi svokölluð innmið og útmið sem staðsettu fiskimiðin nákvæmlega. Eitt kennileiti sem hann nefndi get ég ómögulega fundið á neinu landakorti en það er "Yllir á Stóra Stell" ( Yllir ber í Stóra Stell) Hvar geta þessi kennileiti verið í fjallahringnum í kringum Faxaflóa? Bestu kveðjur Hafsteinn

 

Sæll Hafsteinn.

Stellir er miðið fyrir Sviðsbrún: "Þegar yddi á Stóra-Stelli vestan undir Akrafjalli, en austur- og vesturtakmörk voru eins og Seltirningasviðið var talið ná (haldið undan Stóra-Stelli í VSV)." (Þetta skráði Geir Sigurðsson skipstjóri í Reykjavík.)

Lúðvík Kristjánsson sýnir það á korti um fiskimið Álftnesinga í Íslenskum sjávarháttum III:176, þar sem segir: Stellir (í Skarðsheiði) undan Akrafjalli.

Erlendur Björnsson á Breiðabólstöðum á Álftanesi talaði um að á Stelli hafi verið um 30 faðma dýpi, leirbotn og fisklítið.

Fjallið upp af Leirá í Leirársveit heitir Snóksfjall. Þar uppi er stuðlabergshnúkur, sem heitir Stellir eða Snókur.

Er hugsanlegt að "yddi" hafi verið mislesið fyrir Ylli ?

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


21. 8, 2006
Daniel Johansson
Veit einhver hvað þessir fossar kallast?

#1: http://www.flickr.com/photos/glymur/179560208/ (minn mynd)

At my site: http://www.danieldesign.se/waterfall.html)

#2: http://www.flickr.com/photos/glymur/179328052/ (minn mynd)

At my site: http://www.danieldesign.se/waterfall2.html

#3: http://www.flickr.com/photos/dirkpaessler/219885921/ (ekki minn mynd)

Vinsamlegast sendið svar á minn netfang sem þér finnast hér: http://www.danieldesign.se/contact.html

 

Mín Íslenska fossar-grúppa: http://www.flickr.com/groups/icelandicwaterfalls/

 
Bless frá Svíþjóð
/Daniel Johansson
 
Daníel

Við litum á myndirnar og komumst að þessu:

Fossinn á fyrstu mynd þekkjum við ekki. Við fengum seinna þær upplýsingar hjá þér að hann væri " north of the Öxi-pass, in the river Öxará; somewhere between Ódáðvötn and road 939's connection to road 1. Probably just north of where Yxnagilsá-innri discharges in Öxará." Okkur hefur ekki tekist að hafa upp á honum. Upplýsingar eru vel þegnar!

Fossinn á annarri mynd (sem þú staðsetur þannig: " south of the Öxi pass. Cycling-trip around Iceland 2003. Slide film") er Folaldafoss (Foal's waterfall).

Þriðji fossinn (sem þú segir að sé "somewhere along Bardaströnd near Hagi in the North-West if Iceland") heitir engu nafni en er í Fossá í Fossdal, 5 km vestan við Haga, milli bæjanna Skjaldvararfoss og Brekkuvalla. Hann er ekki nefndur Skjaldvararfoss eins og kom fram á síðunni, það er einungis nafnið á bænum.

Kveðja, Hallgrímur J. Ámundason


14. 8, 2006
Jón Ásgeir

Hvort er réttara að skrifa Ritur eða Rytur. Fjallið er á milli Jökulfjarða og Aðalvíkur.

 

Jón Ásgeir.

Réttara er að skrifa Rytur. Í Landnámu er nefndur Rytagnúpur, þar sem Geirmundur nam land "frá Rytagnúp vestan til Horns" (Íslensk fornrit I:154-155). Ásgeir Blöndal Magnússon telur að nafnið taki líklega mið af gargi fuglsins, og þá í ætt við so. rýta (Íslensk orðsifjabók, bls. 784).

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


03. 8, 2006
Sölvi Sveinsson

Komið þið sæl. Í sumar gekk ég um svæði sem takmarkast að Sólheimajökli að austan og Fúlalæk að vestan og heitir Hvítmaga. Nafnið er fallegt og vekur forvitni. Mér dettur helzt í hug að lömb sem þar gengu hafi komið vel kviðuð heim að hausti, full af mör. Samferðafólk mitt sagði að líklegra væri að féð hefði verið þrifalegt, sem mér finnst vond skýring. Er eitthvað um nafnið í örnefnaskrám ykkar? Kv. Sölvi

 

Sæll Sölvi.

Í örnefnaskrám er ekkert fjallað um nafnið sjálft, en innst í Hvítmögu að austan er Gamla-Hvítmaga. Í ritinu Landið þitt Ísland stendur hinsvegar þetta: "Tilsýndar er Hvítmaga mjög ljós yfir að líta vegna grámosaþembu sem þar gætir mjög í gróðri."

Önnur Hvítmaga er í Rangárvallasýslu, á sem rennur á afréttarmörkum Fljótshlíðinga og Rangvellinga, en ekki liggur í augum uppi hvers vegna hún heitir það.

Kveðja. Svavar Sigmundsson


25. 6, 2006
Þuríður Pétursdóttir

Hvaðan er heitið Tintron komið

 
Þuríður.

Tintron er gervigígur eða hraunketill sunnan við Gjábakka í Þingvallasveit nærri veginum að Laugarvatni. Hann er mjög djúpur með strýtulaga uppvarpi yfir opinu.

Helgi Guðmundsson skrifaði um nafnið í bók sinni Land úr landi (Háskólaútgáfan 2002), bls. 150 og telur að það sé komið úr frönsku donjon 'dýflisa, svarthol'. Merkingin getur staðist en að franskt orð liggi þar að baki verður þó að teljast nokkuð langsótt. E.t.v. er nafnið samsett en erfitt er að finna orð í íslensku sem gætu skýrt það.

Í færeysku merkir orðið tint 'mælikanna, -staukur (3 1/2 peli)' en seinni hluti nafnsins er hugsanlega trón 'hásæti', sbr. so. tróna 'hreykja sér; gnæfa yfir', og hefur þá upphaflega myndin verið *Tint-trón? En merkingarlega er erfitt að koma því heim og saman.

Svavar Sigmundsson


20. 6, 2006
Ólöf J. Sigurgeirsdóttir

Mig langar til að vita hvers vegna Köllunarklettur heitir því nafni. Ég á að vita það, en get ómögulega komið því fyrir mig.

Beztu þakkir, Ólöf
 

Köllunarklettur var við Viðeyjarsund í Reykjavík en var látinn víkja vegna framkvæmda við Sundahöfn. Nafnið mun dregið af því að þaðan var kallað á ferju til Viðeyjar til flutnings yfir sundið. (Páll Líndal, Sögustaður við Sund. 2. bindi, Reykjavík 1987, bls. 108. Kort sem sýnir Köllunarklett er nr. 11 í 4. bindi sama verks eftir Einar S. Arnalds, Lykilbók, og ljósmynd á bls. 122).

Svavar Sigmundsson


11. 6, 2006
Haraldur Erlendsson

Klúka og klukka í örnefnum. Hvernig hefur það verið þýtt?

 

Klukka er feikialgengur orðliður í örnefnum. Ósamsett er það til sem nafn á fjöllum eða klettum og samsetningarnar eru fjölmargar: Klukkuland, Klukkuhólar, Klukkhóll, Klukkuhvilft, Klukknahellir o.m.fl. Í flestum tilfellum er væntanlega um það að ræða að eitthvað í landslaginu minni á lögun (kirkju-)klukku eða klukkna. Klúka kemur sjaldnar fyrir. Það er til sem bæjarnafn á Vestfjörðum og á Austurlandi og í fleirtölu (Klúkur) í Eyjafirði (sá bær hét raunar Klúka í byrjun 18. aldar). Klúknafjall er einnig til (í Fnjóskadal). Klúka er yfirleitt talið merkja hrúgu af einhverju, t.d. af heyi, en einnig hnakk. Örnefnið skírskotar því líklega til lögunar, eitthvað í landslaginu líkist hrúgu.

Kveðja, Hallgrímur J. Ámundason


06. 6, 2006
Ómar Smári Ármannsson

Sæl, sé að þið hafið verið að velta fyrir ykkur nafninu Krýsa. Ef þið skoðið gamlar orðabækur og orðatiltæki kemur í ljós að "Krýs" er einfaldlega grunn skora í ask, sbr. grunn vík. Þar mun fyrrum hafa verið grunn vík þar sem nú er "Gamla Krýsuvík", þakin hrauni, en tóftir gamalla bæjarhúsa standa þar enn, órannsakaðar að mestu, sjá t.d. lýsingar Brynjúlfs Jónsonar og rannsóknir Hauks og Sigmundar. Aðrir hafa velt fyrir sér langsóttari skýringum sbr. vangaveltum Alexanders Jóhannessonar frá 1929 og jafnvel lýsingar Skugga. Eins og fram kemur hjá Svavari þá áætlar Ásgeir Blöndal nafnið út frá lögun víkurinnar og nafnið sé í ætt við krús og krúsa (Íslensk orðasifjabók) og er það í ætt við aðrar fornar orðskýringar.

Gullbringunafnið er til a.m.k. á tveimur stöðum í sýslunni, og einnig í Kjósasýslu. Sumir telja það nafn á lágreistu keililaga sandfelli (Gullbringu) austan Kleifarvatns, en aðrir segja það vera á hlíðinni allri austan þess, "enda glóir hún sem gull er kvöldsólin fellur á hana handan Hádegishnúks [á Sveifluhálsi]. Þeir, sem komið hafa að austan snemmmorguns, með morgunsólina að baki, sjá þvert á móti Sveifluhálsinn gullglóandi við þær aðstæður. Raunverulegrar (upprunalegrar) nafngiftar er því sennilega að finna annars staðar á landssvæðinu.

Getið þið annars sagt mér eitthvað um örnefnið "Torfdal". Þeir munu vera til víða um land, s.s. vestan í Grímarsfelli og ofan við Breiðabólstað í Ölfusi og jafnvel í öðrum örnefnum, s.s. Torfell (Torfafell), Torfellsdalur o.fl. Líklegt þykir, með vísan til örnefnalýsinga, að nafnið sé til komið vegna torf- og/eða mótöku á viðkomandi stöðum fyrrum. Gaman væri að sjá hvort staðfest vitneskja liggur víðar fyrir um nafngiftina.

Kveðja,
Ó.

01. 6, 2006
Sigurður Örn Hannesson

Góðan dag. Á Mýrum í Hornafirði er þyrping smáhóla sem nefast sörkushólar. Ég hef engan hitt sem hefur getað frætt mig á hvað sörkus þýðir eða hvaðan það er komið. Ég hef sjálfur sett fram þá kenningu (í hálfgerðu gríni) að þetta sé komið frá enskumælandi mönnum sem hefur þótt hólarnir minna á sirkustjöld. Þessi tilgáta mín hefur ekki hlotið góðan hljómgrunn í héraðinu. Getið þið hjálpað mér að ráða fram úr þessu.

Bestu kveðjur.
SÖH.
 

Sæll Sigurður

Örnefnið Sörkushólar er torskýrt. Það kemur fyrir á a.m.k. tveimur stöðum á landinu, báðum í A-Skaftefellssýslu. Aðrir hólarnir eru eins og þú nefnir á Mýrum í Hornafirði en hinir í Lóni. Það er vissulega hæpið að nafnið sé ættað úr ensku þótt ekki sé það útilokað. Líklegt er að gerð verði tilraun til að skrifa um þetta örnefni hér á heimasíðunni um næstu mánaðamót, undir Örnefni mánaðarins. Frekari upplýsingar um þetta örnefni eru vel þegnar.

Hallgrímur J. Ámundason


01. 5, 2006
Guðbrandur Sverrisson
Sæl

Örnefnaskrá fyrir Klúku í Kirkjubólshrepp í Strandasýslu er sögð vera eftir handriti Guðjóns Halldórssonar í Heiðarbæ. Sverrir Guðbrandsson fyrrum bóndi á Klúku telur líklegt að frekar muni vera um Guðjón Hjálmarsson að ræða, sem bjó í Heiðarbæ fram til 1930, einnig eru augljósar villur í örnefnaskránni sem líklega verða að skrifast á J.Hj. sem skráði eftir handriti Guðjóns.

Ég er að yfirfara örnefnaskrána ásamt foreldrum mínum og kem til með að senda Örnefnastofnun afraksturinn.

Nú langaði mig að vita hvort bara væri til ein örnefnaskrá fyrir Klúku og hvort frumrit Guðjóns væri til og þá með undirskrift og ártali.

Kveðja
Guðbrandur Sverrisson
 
Guðbrandur.

Hér á Örnefnastofnun er ekkert annað til um Klúku en þessi eina skrá. Frumrit Guðjóns er ekki til í þeim gögnum sem Jóhann Hjaltason lét eftir sig og ekki er heldur til dagbók frá hans hendi frá þeim tíma sem hann safnaði í Strandasýslu. Það er ánægjulegt að eiga von á afrakstri af þessari örnefnavinnu þinni.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


26. 4, 2006
Jón Torfason

Kærar þakkir fyrir Gildrustein.

Kúfustaðir og Skottastaðir heita bæir í Svartárdal A-Hún. Hafið þið skýringar á þeim nöfnum, og eru til fleiri bæir með þessu heiti eða örnefni þeim tengd annars staðar

 

Sæll Jón.

Skottótt er það hross kallað, sem er að mestu dökkt, nema taglið og eitthvað af lendinni. Kallast þau hross eftir lit: Skotti, Skotta og Sporður.

Theodór Arnbjörnsson frá Ósi:

Hestar. Búfræðirit Búnaðarfélagsins IV. 1931, bls. 127.

 

Bælingaþula kvífjár [...] *þú skalt liggja í þínu bæli, / [...] Biða og Kiða, / Kúfa og Dúða. Kúfa

Goðasteinn 1977, bls. 22.

 
Skotti

Ein 5 örnefni hef ég fundið þar sem Skotti er fyrri liður:

 

Skottalág (Dalgeirsstaðir, Fremri-Torfustaðahreppi).

Skottatóft (Snorrastaðir, Laugardal, Árn.) Kennd við galdramann, Skotta skv. örnefnaskrá.

Litli- og Stóri-Skotti, grasbrekkur (Hraun í Grindavík).

Skottaklettur (Kálfafellsstaður, Suðursveit)

Skottagjóta (Efri-Rauðsdalur, V-Barð.). Kennd í örnefnaskrá við Svein skotta sem var frá Skottastöðum.

 

Líklega er forliðurinn dreginn af skottóttum hesti, en ósamsettu nöfnin Skotti gætu verið af því að brekkurnar væru eins og skott en Grasgeirar eru nefndir þar nærri (örnefnaskrá Hrauns í Grindavík). Skotti gat annars merkt ‘hlaupari’ (Orðabók Björns Halldórssonar).

 
Kúfa

Aðeins 2 örnefni hef ég fundið með Kúfu- sem forlið:

 

Kúfufen, sem er pyttur (Arnarbæli, Ölfusi) og

Kúfulág (Ketilsstaðir, Mýrdal) en hún er kennd við kúfótta hryssu í örnefnaskrá.

 

Allt bendir því til að bæjanöfnin Skottastaðir og Kúfustaðir séu dregin beint af skepnum, hestum eða ám, frekar en viðurnefnum manna sem dregin væru af skepnum.

Önnur bæjanöfn með þessum forliðum eru ekki þekkt.

Kveðja. Svavar


24. 4, 2006
Karl Aspelund

Sæl veriði. Mér leikur forvitni á hvort til séu aðrar skýringar á nafninu 'Búrfell' en sú sem ég heyrði í menntaskóla og hefur alltaf þótt hálf-máttlaus: Að fjallið (fjöllin) hafi þótt vera matarkistur. Getur einhver útskýrt fyrir mér orðsifjar orðsins 'búr' í þessu samhengi?

 
Karl.

Ég reyndi að svara þessari spurningu hér í Gestabók 10. 3. 2006.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


23. 4, 2006
Friðrik Erlings

Góðan dag. Ég er forvitinn að vita hvaða örnefni eru algengust á Íslandi, hver eru næst algengust, osvfr. a.m.k. fyrstu fimm sætin. Þá er ég ekki að meina fullum fetum, heldur þau sem innihalda sama forlið, t.d. Svín, Geit, Hrút osvfr. Er nokkur möguleiki að nálgast skrá af þessu tagi?

 
Friðrik.

Engin leið er að segja til um hvaða örnefni eru algengust á Íslandi. Örnefnin sem varðveitt eru í Örnefnastofnun eru ekki ennþá skráð rafrænt og meðan svo er er ógerningur að nefna tölur um það sem þú spyrð um.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


13. 4, 2006
Gunnar Bergsteinsson

Getið þið sent mér upplýsingar um sögu Köllunarkletts í Reykjavík.

Ennfremur um Kasthvamm í Þingeyjarsveit?.
 
Gunnar.

Köllunarklettur var við Viðeyjarsund í Reykjavík en var látinn víkja vegna framkvæmda við Sundahöfn. Nafnið mun dregið af því að þaðan var kallað á ferju til Viðeyjar til flutnings yfir sundið. (Páll Líndal, Sögustaður við Sund. 2. bindi, Reykjavík 1987, bls. 108. Kort sem sýnir Köllunarklett er nr. 11 í 4. bindi sama verks eftir Einar S. Arnalds, Lykilbók, og ljósmynd á bls. 122).

Bærinn Kasthvammur í Laxárdal stendur við brekkurætur. Orðið kast getur merkt 'bunga (utan í fjallshlíð)' og má vel vera að hæðin fyrir ofan bæinn (sbr. mynd í Byggðir og bú Suður-Þingeyinga 1985, bls. 358) sé kastið sem bærinn sé kenndur við en hann standi í hvamminum.

Svavar Sigmundsson


13. 4, 2006
Kolka

Getið þið frætt mig um bæjanöfnin Kúskerpi og Gottorp. Hvað merkja þau og af hverju eru þau dregin?

 

Kúskerpi: 1) Bær í Refasveit í A-Hún. 2) Bær í Blönduhlíð í Skag. Merkingin er væntanlega sú að hagaskarpt hafi verið þar fyrir kýr, enda er sagt að túnið á Kúskerpi í Blönduhlíð sé mjög hart og grýtt (Margeir Jónsson, Heimar horfins tíma, 214-217).

Gottorp, sjá Örnefni mánaðarins hér á heimasíðunni í október 2004.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


10. 4, 2006
Jón Torfason
Sæl verið þið.

Á merkjum Flögu og Hemru í Skaftártungu er örnefnið Geldru/a-steinn eða Gildru/a-steinn. Getið þið skorið úr um hvort er réttara og hvar af er þetta dregið?

Kveðja,
Jón Torfason
 

Sæll Jón.

Örnefnið er Gildrusteinn, skv. örnefnaskrám beggja jarða. Væntanlega er það kennt við tófugildru hlaðna úr grjóti.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


04. 4, 2006
Guðbjörn Sigurmundsson

Er að spá í nöfnin Gullbringa og Krýsuvík. Gefa á út afmælisrit og ég er að velta fyrir mér krýsos­gull á grísku og gullbringu sem sýslan er kennd við. Getið þið bent mér á staði eða kannað þetta lítilega fyrir mig. Með þakklæti.

Guðbjörn
 
Guðbjörn.

Alexander Jóhannesson skrifaði 1929: Über den Namen Krísuvík. Mitteilungen der Islandfreunde XVII:36-37.

Ásgeir Blöndal er ekki trúaður á það sem A.J. heldur fram að nafnið sé dregið af nafni konu, sbr. fhþ. Crisa, heldur sé það tengt lögun víkurinnar og í ætt við krús (3) og krúsa; af germ. *kreu-s- 'beygja' og hann skrifar það Krýsuvík (Íslensk orðasifjabók, 512). Önnur

Krísuvík er í landi Þorsteinsstaða í Grýtubakkahr. í S-Þing. en þar er engin Gullbringa. Ég hef skrifað eitthvað um Gullbringu á Vísindavefnum 13.3. 2002.

Annað man ég ekki að nefna, en ég aðhyllist frekar skýringu Ásgeirs Blöndals en Alexanders.

Bestu kveðjur. Svavar


02. 4, 2006
Arend Quak

Hvað þýðir nafnið Selvogur? Has it something to do with sel 'seal'?

 

Kæri Arend.

Örnefnið Selvogur merkir 'a small bay of seals'. Fyrri liður nafnsins er selur m. Stundum er ekki auðvelt að segja til um hvort orðið sel n 'shieling' eða selur er forliður örnefnis. Í Selvogur er það augljóslega selur en t.d. í Selland er það sel.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


02. 4, 2006
Kristleifur Kristjánsson

Hvað þýðir bæjarnafnið: "Merki".

 
Kristleifur.

Merki sem bæjarnafn er sjálfsagt til komið þannig að bær hefur verið reistur við landamerki hvernig sem það merki hefur verið, varða eða þvílíkt.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


16. 3, 2006
Friðrik Erlings

 Rangá. Hvað eða hver er "röngin" og því er áin kennd við hana?

 

Merking forliðarins sem er lo. rangur er 'skakkur, snúinn, sem vindur sig'. Væntanlega er nafn á Rangá til komið vegna þess að hún rennur ekki beint.

Svavar Sigmundsson

 
18. 3, 2006
Friðrik Erlings

Enn varðandi Rangá. Eru einhver önnur dæmi um örnefni sem styðja þessa tilgátu? (þ.e. "Rang" skakkur, snúinn)?

 
Friðrik.

Orðið rangali getur merkt 'þröngur, krókóttur gangur' og örnefnið Ranghali er til í Skagafirði um bugðóttan dal, sbr. mynd í Íslandshandbókinni (1989), bls. 407.

Svavar Sigmundsson


14. 3, 2006
Jón Ingi Cæsarsson

Aðeins vangaveltur. Nafnið Lúdent..á sprengigíg í Mývatnssveit..hvað þýðir nafnið og hvaðan er það komið? kveðja og þökk.

 

Skýringu á nafninu og hvaðan það er komið vita menn ekki með neinni vissu. Þórhallur Vilmundarson telur nafnið vera dregið af *Lútandi > *Lútendi > Lúdent og hafi orðið stúdent haft áhrif á nafnmyndina (Grímnir 2:65,91,109-110). Ekki er gefið að þessi skýring sé rétt. Ólíklegt er að –t- á harðmælissvæði verði –d- í þessari stöðu. Beyging nafnsins er á reiki, ýmist Lúdents- eða Lúdentar- í eignarfalli, sem kemur fram í samsetningum, t.d. Lúdentarhæðir í sóknarlýsingu sr. Jóns Þorsteinssonar frá um 1840 (Sókn, 118) og einnig í örnefnaskrá Voga. Þorvaldur Thoroddsen skrifar hinsvegar Lúdents-borgir 1913 (Ferðabók I:283) og sömuleiðis Steindór Steindórsson í Árbók FÍ 1934 (bls. 29).

Svavar Sigmundsson


13. 3, 2006
Örn Úlfar Sævarsson

Ölfus. Getið þið sagt mér hvaðan þetta nafn er dregið?

 

Örn Úlfar.

Merking nafnsins er umdeild. Núverandi Þingvallavatn hét áður Ölfusvatn og svo heitir enn bær í Þingvallasveit. Líklegt er því að Ölfus hafi fyrrum náð yfir núverandi Ölfus, Grafning og Þingvallasveit og afmarkast af núverandi Sogi, sem hefur þá borið nafnið Ölfusá eins og Hvítá heitir nú eftir að Sogið fellur í hana. Skýringar á nafninu er þá líklegast að leita við Þingvallavatn. Baldur Jónsson prófessor taldi að nafnið gæti verið dregið af orðinu *elfós, sbr. sænsku älvos, og væri þá átt við útrennsli vatnsins við Kaldárhöfða. (Sjá Baldur Jónsson, Ísl. tunga 4, 1963, 7-56).

Svavar Sigmundsson


10. 3, 2006
Friðrik Erlings

Eru einhverjar kenningar uppi um upprunamerkingu Búrfells-nafna á Íslandi? Ef ekki, hverja telja menn merkinguna vera?

 

Búrfell eru a.m.k. 47 talsins á landinu, nokkuð há stapafjöll mörg hver með klettum ofantil. Vel má vera að nafnið hafi upphaflega verið ósamsett, Búr, en síðari liðnum -fell, bætt við til skýringar. Búr er einmitt til sem nafn á þverhníptum klettum í sjó. Líklegt er að nafnið Búrfell sé dregið af orðinu búr í merk. 'matargeymsla', og þá helst sem stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.

(Sjá Örnefni mánaðarins ágúst 2002).

Svavar Sigmundsson


02. 3, 2006
Þorleifur Geirsson
Komið sæl
Örfá staðarnöfn á Íslandi byrja á Eski-
Hvað teljið þið að nafnið þýði?
Kv ÞG
 
Þorleifur.

Ég hef tekið saman grein um Öskjuhlíð fyrir Vísindavefinn hjá Háskóla Íslands. Þar eru vangaveltur um Eski- í Eskihlíð. [http://visindavefur.hi.is/?id=6137]

Kveðjur. Svavar Sigmundsson


27. 2, 2006
Ólafur Garðarsson

Mig vantar að vita hvaðan fjallið Brellur (eins og í ha-ll-ó) dregur nafn sitt.

Fjallið er beint fyrir ofan kauptúnið í Patreksfirði.

Einnig hvaðan hið fallega fjall Kolturshorn dregur nafn sitt.

Horn er augljóst vegna lögunar fjallsins.
 

Sæll Ólafur.

Nafnið Brellur er upphaflega Brendlur, kennt við branda í sambandi við viðarkolagerð. Framburðarbreytingin -ndl- > -l-l- er algeng á Vestfjörðum.

Orðið koltur í örnefninu Kolturshorn á sér hliðstæðu í ensku colt 'foli' (fornenska colt 'folald'). Í Færeyjum er eyja með nafninu Koltur næst Hesti. Líkingin við hest gæti hafa ráðið nafngiftinni, sbr. ýmis Hest-örnefni. Merkingin gæti verið 'bungulaga fell', sbr. nýnorska orðið kolt 'smáklettur' (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, bls. 492).

Svavar Sigmundsson


23. 2, 2006
Ásgeir Ásgeirsson

Við erum nokkur að reyna að halda gömlum upplýsingum, ekki síst örnefnum, um Fljótavík á Hornströndum til haga. Í þeim tilgangi erum við að veikum mætti að nýta okkur vefinn og höldum þar úti heimasíðunni www.fljotavik.is.

Einn flipinn þar vísar á örnefni.

Mig fýsir að vita hvort Örnefnastofnun hafi upplýsingar um örnefni á þessu svæði, og þá gjarnan hvaða heimildir. Takk fyrir. Ásgeir Ásgeirsson

 

Nú er hægt að nálgast þessar upplýsingar á vefnum á slóðinni www.fljotavik.is.


09. 2, 2006
Kjartan Pétur Sigurðsson

Á vefnum og á kortum er að finna mjög mismunandi ritun á orðunum Núpsstaðir, Núpstaðir, Núpstaðarskógur, Núpstaðaskógur, Núpsstaðaskógur ... Hver er hin eina rétta ritun á þessum orðum og hvað veldur því að það eru svona margar útgáfur í gangi?

Kjartan
www.photo.is
 

p.s. einnig er að finna víða á netinu orðið Neskaupstaður ritað sem Neskaupsstaður ... og fl. þekkt örnefni. Væri ekki ráð fyrir Örnefnastofnun að setja upp eitthvert sjálvirkt kerfi sem fer á leitarvélarnar og leitar uppi svona villur og sendir leiðréttingar á netföng þeirra sem eru með viðkomandi vefi. T.d. ef slegið er inn einhver algeng orð kerfisbundið inn í leit.is eða google.com, þá kemur upp teljari sem segir til um hversu oft viðkomandi orð er ritað. Með því móti væri hægt að útbúa samheitarorðabók sem gæfi hverju orði eða örnefni vægi eftir því hversu oft það kemur fyrir á veraldarvefnum - þetta ætti að vera frekar auðvelt að framkvæma með þeirri tölvutækni sem við höfum yfir að ráða í dag :)

 

Sæll Kjartan Pétur.

Við teljum að nafnmyndin eigi að vera Núpsstaður og Núpsstaðarskógur og höfum reynt að láta það koma fram á kortum Landmælinga Íslands sem við höfum farið yfir. Við getum ekki gert við því þó að fólk hafi aðrar myndir. Við höfum ekki í ráði að setja upp leiðréttingakerfi vegna ritháttar örnefna þó að það ætti að vera hægt tæknilega.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson


06. 2, 2006
Jóhanna V. Haraldsdóttir

Mig langar til að vita hvort til séu stöðuvötn á Íslandi sem heita Melavatn og Helluvatn. Kveðja, Jóhanna

 
Jóhanna.

Melavatn er í landi Kaldaðarness í Flóa, Árn.

Helluvatn er a.m.k á þremur stöðum:

a) Lítið stöðuvatn austan við Elliðavatn við Reykjavík og tengt því (Landið þitt Ísland III:259).

b) Á Brjánslæk á Barðaströnd.

c) Í Skógum á Fellsströnd, Dal.

Kveðja.

Svavar Sigmundsson


03. 2, 2006
Sigríður Helga Þorsteinsdóttir

Kannist þið við örnefnið Væthamarssteinar? Það kemur fyrir í ferðalýsingu úr ferð sem farin var úr Skagafirði, fram Austurdal og Fossárdal.

 

Sæl Sigríður.

Við þekkjum ekki þessa mynd örnefnisins en í greininni Kofar á Nýjabæjarafrétt eftir Hjörleif Kristinsson í Göngum og réttum IV (2. pr. 1986), bls. 132 stendur "fram af Vothamarsskeiðum á Fossárdal". Fróðlegt væri að vita hvaða ferðalýsingu þú vitnar í um myndina Væthamarssteinar.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

 
09. 7, 2007
Gísli Rúnar Konráðsson
Sæll Sigurður.

Ég var að skoða síðuna og rakst á fyrirspurn um Væthamarssteina á Fossárdal. Ég hygg að Væthamarssteinar fyrirfinnist ekki á dalnum. Fossárdalur er einn af þverdölum Austurdals í Skagafirði og skerst inn í Nýjabæjarfjall, mikil náttúruperla. Á dalnum norðanverðum, skammt neðan ármóta, eru háir klettar að ánni og úr þeim streymir mikið vatn. Það er rétt að Hjörleifur heitinn Kristinsson frá Gilsbakka nefnir fyrirbærið Vothamarsskeiðar. En í dag tala kunnugir alltaf um Væthamarsskeiðar, það gerir t.d. Stefán Hrólfsson gangnaforingi á Keldulandi á Kjálka sem smalað hefur þetta svæði í tæp sjötíu ár, sem og aðrir kunnugir gangnamenn.

Kveðja,
Gísli Rúnar Konráðsson.

29. 1, 2006
Guðbrandur Sverrisson
Góðan daginn

Ég er að leita að örnefnum í Selárdal í Hólmavíkurhreppi og rak mig strax á að Örnefnastofnun nefnir Gilstaði í Selárdal Gilsstaði ég kannast ekki við þessa stafsetningu á nafninu og leita því eftir skýringum á því. Að auki langar mig að vita hvort til séu örnefnaskrár fyrir jarðir í Selárdal, Geirmundarstaði og Gilstaði og ekki síður Kolbjarnarstaði og Kópstaði.

kveðja
Guðbrandur Sverrisson
Bassastöðum
510 Hólmavík
 

Sæll Guðbrandur

Gilsstaðir eru nefndir svo í örnefnaskrám sem til eru hér á stofnuninni. Þær eru eftir Sigurð Rósmundsson og hafa birst á prenti, í tímaritinu Viljanum 1928 og 1929. Í athugasemdum hans við örnefnaskrána frá 1977 er nafnið eins stafsett. Sigurður var á Gilsstöðum um 1906-1932. Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er bærinn hinsvegar nefndur Gilstaðir og vel kann að vera að það sé upphaflegra, a.m.k. koma fyrir örnefni með Gil- í örnefnaskrá Gilsstaða, t.d. Gilbrún, Gileyrar, Gilhólmar.

Örnefnaskrár eru til á ÖÍ fyrir bæina sem þú nefndir alla nema Kópstaði. Sá bær virðist hafa verið sel frá Bólstað í Kaldaðarneshreppi kannski fram á 17. öld en eru sagðar tóttir einar í jarðabók Árna og Páls. Hinsvegar eru enn til örnefni á þessum slóðum kennd við Kópstaði, t.d. Kópstaðafljót og Kópstaðagil.

Kveðja, Hallgrímur J. Ámundason

 
30. 1, 2006
Guðbrandur Sverrisson

Sæll Hallgrímur og þakka þér fyrir fljótt og gott svar, afkomendur Rósmundar og þar meðtaldir afkomendur Sigurðar eiga Gilsstaði enn þá, vafinn sem mér fanst geta verið á stafsetningu nafnsins er einmitt sá að Gilsstaðir eins og örnefnin sem þú bendir réttilega á eru dregin af Gilinu þ.e. Þjóðbrókargili sem er skammt fyrir framan bæinn. Kópsstaðir er ekki stór jörð og liggur milli Kópsstaðagils og Heiðargötugils og er oftast bara kallaður Partur, en þetta voru aukaatriðin í minni fyrir spurn aðalatriðið var hvort og þá hvar væri væri hægt að nálgast örnefnaskrá fyrir þetta svæði, ef hægt væri að fá send afrit af þeim skrám sem til eru þætti mér vænt um það.

Með þakklæti fyrir svörin
Guðbrandur Sverrisson

04. 1, 2006
Reynir Jónsson

Getiði frætt mig um bæjarnafnið Beinrófa?

 

Bæjarnafnið Beinrófa er ekki fullskýrt. Gísli Hjartarson segir svo frá Höfðaströnd í Jökulfjörðum:

“Í túni Höfðastrandar eru miklar bæjarrústir sem nefnast Beinrófa og er talið að þar hafi fyrrum Höfðastrandarbærinn staðið. Sagnir eru uppi um að þar hafi komið upp taugaveiki og bærinn verið færður eftir það og engu hreyft í gamla bænum af ótta við smit. Bærinn hafi síðan fallið og varðveiti öll búsgögn, amboð og annað er að búskap lýtur. Sagt er frá því í Fitjaannál, að í drepsóttinni sem geisaði 1495, hafi í Grunnavíkur- og Aðalvíkursveitum ekki lifað af nema einn maður og kvensnift. Hann nefndist Ögmundur töturkúfur og hún Helga beinrófa. Þau tóku saman og af þeim eru síðan allir norður þar taldir komnir. Sagt er að þau hafi búið á Beinrófu.” ( Frá Unaðsdal norður í Leiru. bb.is - fréttir af ferðamálum. Sbr. Guðrún Ása Grímsdóttir, Árbók Ferðafélags Íslands 1994, 62).

Í ótilgreindri heimild er talað um rana í túni sem nefnst hafi Beinrófa, og er merkingin þar væntanlega ‘e-ð mjótt eða mjóslegið’. Bólu-Hjálmar yrkir um Beinrófu: Beinróa, þú grýtt og glær, / gnagi þig djöfla tennur (Ritsafn II:290 (1949)).

Valgerður beinrófa og Þuríður beinrófa eru nefndar í heimildum (skv. Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans, www.lexis.hi.is), að viðbættri Helgu beinrófu hér að ofan, svo að nafnið virðist hafa verið þekkt sem viðurnefni en ekki í hvaða merkingu. Í A-Skaft. var orðið haft um fuglinn hávellu (Orðabók Sigfúsar Blöndals) og á viðurnefnið því e.t.v. við háværa konu.

Líklegra er að bærinn hafi verið kenndur við aðstæður á staðnum, mjótt land, fremur en að hann hafi borið viðurnefni konunnar.

Svavar Sigmundsson

 
08. 1, 2006
Reynir Jónsson

Þetta var mjög fróðlegt og skemmtilegt. Þakka kærlega fyrir góðar og gagnlegar upplýsingar.

Kveðja,
Reynir

01. 12, 2005
Sesselja Guðmundsdóttir

Daginn. Er ekki möguleiki á því að bæjarnafnið Garðar tengist herragarði= stórbýli, þó það sé nú notað í fl.?

Kv. S
 
Sesselja.

Garðar voru a.m.k. sumstaðar stórbýli, bæði hér í Garðabæ og á Akranesi, en annars staðar minni býli. Þetta þarf að athuga betur. Gleðilega hátíð. Svavar


25. 11, 2005
Ólafur Marteinson

Hvað merkir bæjarnafnið Garðar á Álftanesi, eru tengsl milli þessa örnefnis og Garðaflata austan Hjalla í Heiðmörk.

 
Sæll Ólafur.

Bæjarnafnið Garðar hlýtur að vera kennt við hlaðna garða þar sem bærinn hefur síðan staðið en margir telja að Garðar séu landnámsjörð. Garðaflatir eru mjög líklega dregnar af nafni Garða því að þar átti Garðakirkja land. Um þetta má lesa nánar í bók Guðlaugs Rúnars Guðmundssonar, Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar (2001), bls. 90 og 94.

Svavar Sigmundsson

24. 11, 2005
Guðjón Jensson

Meira um nýútkomna kortabók: gamlar leiðir á borð við Dyraveg um sunnanverða Mosfellsheiði og Síldarmannagötur frá Hvalfjarðarbotni og norður í Borgarfjarðardali eru ekki sýndar. Hins vegar eru raflínur merktar. Vel gæti eg trúað að ekki sé þetta öllum að skapi.

 

24. 11, 2005
Gunnlaugur Júlíusson

Í nýútkomnum Íslands Atlas sé ég að sveitarhlutinn Rauðisandur í V-Barð er skráður undir heitinu Rauðasandur. Hvort heitið er réttara samkvæmt örnefnaskráningu eða almennri málvenju samkvæmt gögnum stofnunarinnar?

Með fyrirfram þakklæti.
Kveðja
Gunnlaugur
 
Sæll Gunnlaugur.

Nafnið á Rauðasandi hefur verið á reiki. Það kemur aðeins fyrir í aukaföllum í fornritum, að ég held, þ.e. á Rauðasandi (oftast). Þeir sem samið hafa nafnaskrár hafa ýmist haft Rauðisandur eða Rauðasandur. Á korti Björns Gunnlaugssonar frá um 1840 er Rauðisandur nafnmyndin. Dönsku kortagerðarmennirnir höfðu hinsvegar nafnmyndina Rauðasandur og hefur hún verið lífseig á kortum. Á Ferðakorti 1 sem Landmælingar gáfu út nýlega (1:250 000) og við lásum yfir, er nafnið Rauðisandur, og þannig mælum við með því að það sé haft.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


23. 11, 2005
Gerdur Ragnarsdóttir

Hvað þyða nöfnin Elva og Elfa

 
Gerður

Nöfnin Elfa (og Elva) eru dregin af orðinu "elfur" sem merkir á.

Einnig gæti það tengst orðinu "álfur" í merkingunni huldumaður.

Einnig getur það verið stytting nafnsins "Elvira" frá Norðurlöndum og merkir hin hvíta.

Skýringin er fengin af Vefnum: www.mannanofn.com

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

22. 11, 2005
Jón Valur Frostason

Gætuð þið upplýst mig um staðsetningu örnefnisins Hraunþúfuklaustur og bent mér á lesefni um þetta örnefni

kveðja
Jón Valur
 
Sæll Jón Valur.

Hraunþúfuklaustur er í Vesturdal á Hofsafrétti í Skag. Munnmæli um að þar hafi verið munkaklaustur eru ólíkleg. Líklegra er að klaustur merki þarna 'aflokaður staður'. Um örnefnið er helst að vitna til þessara greina: Sigurjón Páll Ísaksson: Gömul heimild um Hraunþúfuklaustur, Skagfirðingabók 1986, bls. 32-56, og Kristmundur Bjarnason: Goðdæla. Hugleiðingar um fornbyggð í Vesturdal, Skagfirðingabók 2004, bls. 124 o. áfr. og rit sem þar er vitnað til.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

22. 11, 2005
Halldór Júlíusson

Gætuð þið upplýst mig um nákvæma staðsetningu örnefnisins Kleppsvík

Með kveðju
H JUL
 
Sæll Halldór.

Kleppsvík er lítil vík sem Kleppur stendur við. Staðsetninguna má sjá á korti nr. 11 í bók Einars S. Arnalds, Reykjavík. Sögustaður við Sund, 4. bindi. 1989.

[Sjá einnig: Örnefni mánaðarins í apríl 2007: Kleppur og Kleppsvík]


08. 11, 2005
Jón Svanþórsson

Getið þið gefið mér upplýsingar um hvernig örnefnið "Lak" sbr. Lakur, Lakar, Lakheiði og Lakhnúkur er til komið?

 
Sæll Jón.

Laka-örnefnin eru talin dregin af líkingu við tiltekið magahólf jórturdýra með fellingum sínum eða löfum, t.d. Lakahnúkar austan við Stórameitil á Hellisheiði í Árn. Þeir líta út eins og laki í jórturdýri. Melur í landi Hrauna í Fljótum í Skag. er líka með fellingum eins og laki.

Þessi örnefni eru þó margvísleg. Lakahnaus er t.d. þverhnípt klettahöfuð við Oddsskarð í S-Múl.

Laki er ávalur móbergshnúkur á afrétti Síðumanna í V-Skaft. og hellir í Reynishverfi í V-Skaft. heitir líka Laki.

Ekki virðist önnur skýring nærtækari en e.k. líking við þetta hólf magans.

Kveðja. Svavar Sigmundsson
 
10. 11, 2005
Sesselja Guðmundsdóttir

Varðandi Lats umfjöllunina: Í Vatnsleysustrandarheiði er örnefnið Latur yfir hól ofarlega í heiðinni (nefndur hér neðar) og var mér sagt af gömlum bændum að þar hefðu menn fengið sér lúr af einhverjum ástæðum, e.t.v. gildum? Þeir þurftu jú að bíða eftir einhverju og nýttu því tímann. Við fyrstu skoðun virtist mér sem að í þessu tilviki (í smölun) hafi menn verið tímanlega á staðnum og því e.t.v. getað veitt sér það að vera latir, fá sér lúr. En við nánari skoðun; öllu frekar hitt að eitthvað hafi verið lengi á leiðinni, þ.e. að koma í ljós, verið hraðamælir , eins og Þór Vigfússon nefnir. Slík biðstaða getur auðvitað vel átt við bæði á landi og á sjó, þ.e. að eitthvað var lengur að koma í ljós en menn væntu eða hugðu. Tel ég það gildari skýringu nú á örnefninu Latur þó svo að við fyrstu sýn tengi maður leti við hegðun mannsins en ekki örnefnanna.

Kveðja Sesselja

08. 11, 2005
Ómar Ármannsson

Hafið þið upplýsingar um tilurð örnefnisins "Latur"? Latur er t.d. hár fjallsendi í Ögmundarhrauni, stórt bjarg í fjörunni (var þar) utan við Þorlákshöfn, klettur niður við strönd á Vestfjörðum og e.t.v. víðar.

 
Sæll Ómar.

Líklegt er að örnefnið Latur tengist umferð á sjó. Þannig er um Lat við Þorlákshöfn. Þór Vigfússon segir að hann hafi oft verið notaður sem hraðamælir. "Var talað um að róa Lat fyrir Geitafell og slögin talin í hvert eitt sinn, frá því að Geitafell fór að hverfa bak við Lat þar til það sást allt hinum megin" (Árbók Ferðafélagsins 2003, bls. 91).

Latur er líka drangur vestur af Faxanefi í Vestmannaeyjum, en sjómönnum hefur þótt hann vera latur við að hverfa fyrir Faxanefið. Klettur á Breiðafirði milli Ólafseyja og lands heitir Latur og talinn draga nafn af því að hann "gengur mjög hægt fyrir Reykjanesið þegar siglt er úr Skarðsstöð fram í Ólafseyjar" (Árbók Ferðafélagsins 1989, bls. 130; Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (2003), bls. 107). Hólmi í Suðurlöndum á Breiðafirði heitir Latur og liggur undir Skarð á Skarðsströnd. Sker á Djúpavogi í S-Múl. nefnist Latur en ekki er vitað um að það hafi verið haft til viðmiðunar (Árbók Ferðafélagsins 2002, bls. 103; Múlasýslur. Sýslu- og sóknalýsingar (2000), bls. 544). Þetta gildir þó tæpast um Lat (= Siggahól) sem er strýtumyndaður hóll í Brúnunum upp af Vatnsleysuströnd vegna þess hve langt hann er frá sjó. Hann gæti þess vegna verið kenndur við leti (Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir í vatnsleysustrandarhreppi, bls. 69).

Kveðja. Svavar Sigmundsson
 
14. 11, 2005
Ómar Ármannsson
Sæl,
bæði tvö - þakka greið svör.

Þessi skýring á örnefninu "Latur" kemur vel heim og saman við lýsingu Vigfús Einarssonar í Sunnlenskar byggðir II, 1981, bls. 94, þar sem hann lýsir aðstæðum vestan við Þjósrárós, nokkru autan við Loftsstaðasundið. Þar segir m.a.:

"Þegar mikið brim er og háflóð, vaða ólögin yfir hraunið og brotna við sandinn og valda mikilli " lá" svo vont getur verið að halda skipunum. Þurfa skiphaldsmenn að vera stinnir og vel klæddir, klofbundnir. Lendingin er ekki mjög brött og því ekki erfitt að setja skipin. Nokkru fyrir austan Loftsstaðasund hækkar hraunið, og má heita, að það endi í hraunbungu, sem er suður af Loftsstaðabænum; er þar bergstallur við sjó. Á hraunhrygg þessum er stór klettur, sem kallaður er Latur, og urðarbungan Latsgrjót. Auðgert er að miða hann við austurfjöllin. Þegar róið er til lands undan Loftsstaðasundi í norðanroki, gengur lítið, og fer Latur þá hægt fram austurfjöllin - er latur. Af þessu er nafnið dregið. Oft er það afbakað, hraunbungan kölluð Lagsgrjót og Lagsagrjót...).

Líklegt má telja að sama skýringin gildi um Lat í Ögmundarhrauni. Hefur hann þá væntanlega verið mið við erfiðan eða "hæggengan" róður að verstöðinni á Selatöngum eða nálægum stað.

Kveðja,
Ó.

23. 10, 2005
Sigþóra

Fyrir ofan Ytrafjall í Aðaldal er hnjúkur sem kallaður er Skollahnjúkur, er vitað hvaðan sú nafngift kemur? Ég hef einnig fundið í heimildum nafnið Skrattafell fyrir sama hnjúk. Með kveðju Sigþóra

Sæl Sigþóra.

Hnjúkurinn sem þú nefnir er ekki með þessu nafni í örnefnaskrá Ketils Indriðasonar frá 1960 sem varðveitt er í örnefnastofnun, en hann talar um Fjallshnjúk. Skrattafell er nafnið sem Landnámabók nefnir (Ísl. fornrit I, bls. 276). Fróðlegt væri að vita nánar um Skollahnjúk, hversu almennt það er notað. Skolli í örnefnum vísar oft til refsins.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

06. 10, 2005
Gróa Björnsdóttir

Góðan dag. Mér datt í hug að bæta einni þúfu við í Bæjatal ykkar, Þúfu í Kjós.

Þá sá ég í Bæjatali bæinn Neðra-Háls í Kjós ritaðan Neðraháls, hef aldrei séð þann rithátt fyrr. Hins vegar er Fremri-Háls í Kjós eins og ég á að venjast!

Kveðja,
Gróa Björnsdóttir
 
Sæl Gróa.

Þakka þér fyrir athugasemdirnar. Þetta hefur verið lagfært. Kveðja. Svavar Sigmundsson


03. 10, 2005
Ingólfur Guðnason

Ég er að leita að örnefnum sem vísa til lauka. Á Hólum í Hjaltadal var laukagarður og í honum byggður "salur". Getið þið sagt mér hvað þessi "salur" er og til hvers. hans mun vera getið í morðbréfabæklingum Guðbrands Þorlákssonar

kveðja Ingólfur Guðnason
 
Sæll Ingólfur.

Við höfum aðeins tvö dæmi um lauka í örnefnum sem við finnum í fljótu bragði. Annað er Laukaflatir í túninu á Bæ í Bæjarsveit í Borgarfirði. Þar hafa sprottið laukar en villilaukur var þar víða í Suðurtúninu. Þeir eru taldir vera frá tíð Hróðólfs biskups sem var í Bæ fyrir miðja 11. öld.

Laukabrekkur eru í landi Skáneyjar í Reykholtsdal og er laukurinn þar talinn frá dögum Skáneyjar-Lassa bartskera sem þar var á 16. öld.

Í morðbréfabæklingnum er minnst á sal, Stigssal, sem hafi verið náðhús (1902-1906, bls. 117) en ekki veit ég hvar talað er um að salur hafi verið í laukagarði.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


27. 9, 2005
Þorsteinn E. Arnórsson

Eru mörg örnefni sem tengjast Myllum ( kornmyllu eða þófaramyllu ) samanber Myllulækur og Myllunef.

 
Sæll Þorsteinn.

Ég hef upplýsingar um nær tug Myllu-örnefna sem ég finn í fljótu bragði í örnefnaskrám:

Myllan er í landi Ljárskóga í Dalasýslu og þar er einnig Mylluhús. Mylluhús er einnig í landi Traða í Hraunhreppi, Mýr.

Mylluklettur er í landi Skóga á Fellsströnd, Dal.

Myllulækur er í landi Næfurholts í Rang., á Valdastöðum í Kjós og á Stórahrauni í Kolbeinsstaðahreppi.

Myllupollur er á Gunnarsstöðum í Hörðudal, Dal.

Mylluskurður er í Laxárholti í Hraunhreppi, Mýr.

Myllutunga er við Bæjarlæk í Sandvík í núv. Fjarðabyggð.

Vísast eru mörg ónefnd.

Hvar er Myllunef sem þú nefnir?

Með kveðju. Svavar Sigmundsson
 
28. 9, 2005
Þorsteinn E. Arnórsson

Sæll Svavar og takk fyrir svörin. Myllunef er oft nefnt nyrsti hluti Hamarskotsklappa sem eru sunnan við gatnamót Glerárgötu og Þórunnarstrætis á AK. sjá bókina Akureyri höfuðborg hins bjarta norðurs bókaútgáfa Örn og Örlyguur 1993 e. Steindór Steindórss. bls 70 og 132 með kveðju steini

 
29. 9, 2005
Sesselja Guðm.

Daginn. Til gamans má bæta við Myllu-örnefnin hér neðar, Myllulæk og Myllulækjartjörn við Elliðavatn.

Kveðja, Sesselja

13. 9, 2005
Jón E. Ísdal

Rambaði í fyrsta sinn á vef ykkar í dag og tók þá eftir að í liðnum algengar spurningar stendur - Loðmundur er nefndur hæsti tindur Kerlingarfjalla - . Þetta er rangt. Landmælingar Íslands segja hæð Loðmundar vera 1432 m yfir sjávarmáli en nágranna hans, Snækoll, 1477 m og því hæstan tinda Kerlingarfjalla. Þetta sést vel þegar gengið er á Hánípur.

Bestu kveðjur.
 
Sæll Jón.

Þakka þér fyrir athugasemdina um Loðmund. Það verður leiðrétt sem sagt er um hæð hans.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

05. 9, 2005
Sigurður Jónsson

Ég spyr um orðið Vaglir, (Vaglaskógur) þýðingu þess. Í Færeyjum sá ég einn fundarsal nefndan Vaglir. Er þetta gamalt norrænt nafn?

 
Sæll, Sigurður.

Ég bendi þér á örnefni mánaðarins hér á síðunni í mars á þessu ári. Þar er fjallað um bæjarnafnið Vaglar/Vaglir. Kveðja,

Jónína Hafsteinsdóttir

04. 9, 2005
Ísleifur Ingimarsson

Hvað merkir orðið hringver, samanber bæjarnafnið Hringver á Tjörnesi ?

 
Sæll Ísleifur.

Tilraun til svars við spurningu þinni er að finna sem Örnefni mánaðarins á heimasíðu okkar í september. Kveðjur. Svavar Sigmundsson


08. 8, 2005
Vignir B. Árnason

Vantar að vita um 2 heiti á stöðum í landi bæjarins Hrauns austan Grindavíkur og hvort sé réttara. Növin eru: Bleikhóll eða Bleikshóll og Beinavarðarhraun eða Beinavörðuhraun (fyrirfram þökk)

 
Sæll, Vignir.

Í örnefnaskrám Hrauns í Grindavík eru nöfnin Bleikshóll og Beinavörðuhraun.

Kveðja,
Jónína Hafsteinsdóttir

03. 8, 2005
Jóhann Marinósson
Hvað þýðir örnefnið Dímon?
 
Sæll, Jóhann.

Ég vil benda þér á örnefni mánaðarins í maí 2004 hér á síðunni. Þar er fjallað um nafnið Dímon.

Kveðja, Jónína Hafsteinsdóttir

14. 7, 2005
Guðmundur Karlsson

Langar til að skjóta að ykkur einnni laufléttri: Hvað merkir "kast" í örnefnum í Skorradal, t.d. Kastamýri, Skálaköst? Þýðir það e.t.v. brekka eða hlíð?

 
Sæll Guðmundur.

Kast merkir einna helst 'bunga eða klettur (utan í fjallshlíð)', skv. Íslenskri orðabók Eddu.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson
 
22. 7, 2005
Sesselja Guðmundsdóttir

Varðandi örnefnið Kast þá er eitt slíkt hluti af Fagradalsfjalli á Reykjanesskaga, þetta er fjallbunga sem gengur út úr meginfjallinu og heitir Kast.

Kveðja. S.

28. 6, 2005
Árni Tryggvason

Getið þið frætt mig á því hvort fjallsnafnið Vífilfell sé til.

Ég stend í smá rökræðum þessa dagana vegna nafns gosdrykkjaverksmiðjunnar Vífilfell (án eignarfalls-S). En hún ku víst vera nefnd eftir Vífilsfelli hér austan við borgina. Eða svo hélt ég.

 
Árni.

Vífilfell er önnur nafnmynd fyrir Vífilsfell sem er upphaflega myndin og sú sem mest er notuð. Skv. sumum örnefnaskránum í safni Örnefnastofnunar, m.a. um Garðahverfi, er nafnmyndin Vífilfell. Ekki er vitað hversu gömul sú mynd er.

Með kveðju. Svavar Sigmundsson

14. 6, 2005
Nanna Sif

Mig langar að vita hvað hestanafnið Heikir þýðir, er til eitthvað um það.

Skv. minni vitneskju er það skrifað Heikir en ekki Heykir

Takk fyrir
 
Nanna Sif.

Ég þekki ekki hestnafnið Heikir eða Heykir. Hvar er það að finna? Það er ekki skráð í þeim bókum sem fjalla um hestanöfn og ég þekki til. Líklega er það skrifað Heykir og þá skylt so. heykjast og skylt lo. hokinn. En það er ekki víst. Nánari vitneskja um nafnið væri vel þegin.

Kveðja. Svavar Sigmundsson
 
17. 6, 2005
Sonja

Nafnið Heikir er mannanafn og er skrifað með einf. Það kemur frá Noregi og mig minnir að að hafi eitthvað með hníf að gera. Ég held að alla vega þrír beri nafnið hér á landi.


03. 6, 2005
Elísabet St. Jóhannsdóttir
Góðan daginn!

Ég bý á bænum Bitru í Hraungerðishrepp. Getið þið sagt mér hvað nafnið Bitra þýðir?

Takk fyrir
Elísabet
 
Elísabet.

Líklegast er að nafnið merki 'beiskja' eða 'næðingur', sbr. lýsingarorðið bitur.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

16. 5, 2005
Jón Jónsson
 

Á Ströndum er komin upp deila um örnefnið Ennisháls (þar sem vegurinn liggur) á milli Bitru og Kollafjarðar. Vilja sumir meina að það sé nýlegt nafn, búið til af vegagerðinni laust fyrir miðja öldina þegar vegur var lagður yfir Ennishöfða á milli Skriðinsennis og Broddadalsár og menn hættu að fara fyrir Stiga fyrir höfðann. Hið eldra nafn (og þá "réttara") sé Bitruháls segja sumir, en það var leiðin frá Stóra-Fjarðarhorni eða Hamri yfir hálsinn að Gröf í Bitru kölluð. Hafið þið einhverjar eldri heimildir um nafnið Ennisháls á milli bæja utar með fjörðunum?

 
Jón.

Við höfum engar heimildir um nafnið Ennisháls í skrám okkar. Systkini frá Skriðinsenni sem skráð hefur verið eftir (1979) nefna það hvergi, en eitt þeirra (Lýður) flutti þaðan 1948. Því er sennilegt að nafnið stafi frá vegagerðinni. Ennishöfði er nafnið sem heimildarmenn nefna.

Svavar Sigmundsson

15. 5, 2005
Matthías Kristinsson

Ég hafði aldrei heyrt fjallið Kubb nefnt Kubba fyrr en Jón Þ. Þór skrifaði það í Sögu Ísafjarðar. Hvert er hið rétta, upprunalega nafn fjallsins?

 
Matthías.

Eftirfarandi tilvitnanir eru úr örnefnaskrám í Örnefnastofnun:

“Heim af Miðmundahvilft hækkar fjallið og heitir þá Háafell (14), en svo lækkar það mikið og heitir Kubbi (15) úr því.”

(Hafrafell. Bjarni Halldórsson í Tungu skráði.)

“Til hægri heitir fjallið Kubbi (1), en til vinstri Kirkjubólsfjall (2).”

(Engidalur. Pétur Jónatansson skráði 1981.)

Á herforingjaráðskorti 1:100 000, útgefnu af Landmælingum Íslands, stendur Kubbi.

Það verður því að álíta að nafnið Kubbi sé gamalt og gott nafn.

Svavar Sigmundsson

09. 5, 2005
Ólafur Marteinsson

Hvar á landinu þekkjast örnefnin Minni Dimmuborgir og Dimmuborgir

 
Ólafur.

Auk Dimmuborga við Mývatn eru Minni-Dimmuborgir á Suðurnesjum, eins og lesa má um á eftirfarandi slóð: http://www.ferlir.is/?s­news_advanced&naid=2385

Þá er líka hægt að nefna Dimmuborgir sem nýlegt örnefni í landi Suður-Gatna í Mýrdal.

Með kveðjum. Svavar Sigmundsson

 
11. 5, 2005
Sesselja Guðmundsdóttir
Daginn.

Ég hef aldrei séð örnefnið Minni-Dimmuborgir fyrr en á FERLIRsvefnum og tel það því nýtilkomið og vafamál hvort það eigi rétt á sér. Umræddar hraunborgir eru ekki á Suðurnesjum. Jón Jónsson jarðfræðingur og sonur hans Dagur fundu þessar fallegu hraunmyndanir árið 1991 og gáfu þeim nafnið Litluborgir svona sín á milli „án þess að ætlast til að það festist við sem örnefni“ segir í grein eftir Jón.

Kveðja, Sesselja
 
Sesselja.

Þakka upplýsingarnar. Gott væri að fá að vita hvar þetta örnefni er og hvar greinin eftir Jón Jónsson birtist.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson
 

Er með greinina í ljósriti en ekki skrifað á hana úr hvaða riti hún er, líklega einhverju jarðfræði riti. Kemst að því. Þessar borgir eru gullmoli og fólk hefur verið að fela það hvar þær eru (eru fyrir ofan Hafnarfjörð) , of nálægt fólki. Sendi þér greinina við tækifæri. Kveðja,S

 

Eins og fram kemur í pósti Sesselju Guðmundsdóttur hér að framan er nafnið Minni Dimmuborgir nýtt og ekki á kortum. Jón Jónsson og Dagur Jónsson nefndu gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð Litluborgir sín á milli, sbr. grein þeirra Hraunborgir og gervigígar, Náttúrufræðingurinn 1993 [rétt 1992]; 62 (3.-4. h): s.145-155; ISSN 0028-0550. Ég þakka Sesselju fyrir upplýsingarnar.

Svavar Sigmundsson
 
12. 10, 2005
omarsmari
Sæl,

Sá eftirfarandi á "gestabókalistanum ykkar; "Ég hef aldrei séð örnefnið Minni-Dimmuborgir fyrr en á FERLIRs-vefnum og tel það því varla að þær eigi rétt á sér (SG)."

Þessu er til að svara að bæði Jón Jónsson, okkar mikilsvirtasti jarðfræðiningur, og sonur hans, Dagur, gáfu þessu sérstaka svæði, nafnið "Minni-Dimmuborgir". Nafngiftin er augljós þeim sem sem svæðið skoða. Um er að ræða gervigígaröð sem og einstakar haunmyndanir líkt og á Hraunsnesi austan Ísólfsskála og í Katlahrauni (í Ögmundarhrauni).

FERLIR hefur ávallt farð með rétt mál - þrátt fyrir misvísanir.

 
18. 10, 2005
Sesselja Guðmundsdóttir
Litluborgir =(Litli-Dimmuborgir!).

Til þess að taka af allan vafa varðandi rangnefnið Litlu-Dimmuborgir (sjá omarsmari hér neðan við) segja þeir feðgar Jón Jónsson jarðfræðingur og Dagur sonur hans í Náttúrufræðingnum 62. árg., 3.-4. h. 1993 í greininni Hraunborgir og gervigígar: '' Í sambandi við val á línustæði fyrir Búrfellslínu 3 1991 fann annar okkar (D.J.) gígasvæði austan við Helgafell við Hafnarfjörð. Okkar á milli höfum við gefið því nafnið Litluborgir án þess að ætlast til að það festist sem örnefni.'' Í lok greinarinnar segir: ''Í Litluborgum eru gjall-gervigígir og hraunborgir hlið við hlið.'' Ef einhver getur vitnað í önnur skrif þeirra feðga varðandi nafnið Litlu-Dimmuborgir væri það vel þegir.

Kveðja, S

03. 5, 2005
Jón Torfason

Sæl verið þið. Hér á stofnuninni varð umræða um hvort segja og rita skuli Djúpavogur eða Djúpivogur. Hvort er vogurinn kenndur við dýpið í honum eða djúpin fram undan voginum.

Kær kveðja,
Jón Torfason
 

Djúpivogur er venjulega kenndur við dýpið, þ.e. af lo. djúpur en ekki af hvk. djúp. Fyrri liðurinn hefur beygst, Djúpivogur, um Djúpavog, og þessvegna hefur fólki e.t.v. fundist að hann héti Djúpavogur.

Svavar Sigmundsson

06. 4, 2005
Daði Björnsson

Ég hef forvitni á að fræðast um bæjarnafnið Kaldaðarnes sem til er á að minnsta kosti þremur stöðum á landinu. Sá bær sem ég hef sérstaklega í huga er á Ströndum og er í dag nefndur Kaldrananes en í eldri heimildum ýmist Kaldaðarnes eða Kalldadarnes.

Forvitni mín á nafninu tengist nokkurri samsvörun sem ég sé við Kaldaðarnes í Flóa.

Fremst á nesinu á Kaldrananesi á Ströndum er klettahöfði nefndur Kross sem á er helgi eða álög. þar má engu raska og ekki fjarlægja tréknippi sem stendur í vörðu efst á höfðanum ef ekki á að hljótast verra af. Meðal annars er sagt af bónda sem tók það heim og ætlaði að brenna en hafði þá svo slæmar draumfarir nóttina eftir að hann sótti það aftur í eldiviðarstaflann morguninn eftir og kom því fyrir á sínum stað aftur.

Á Kaldaðarnesi í Flóa var einnig heilagur kross sem átrúnaður og mikil helgi fylgdi í kaþólskri tíð. Við siðaskiptin var krossinn tekinn niður og fluttur í Skálholt. Það gerði Gissur biskup Einarsson, en skömmu síðar tók hann sótt og andaðist og að sjálfsögðu var það talin hefndarráðstöfun himnaföðurins. Gísli biskup Jónsson lét kljúfa helgidóminn og brenna, en almenningur hafði enn svo mikla trú á mætti krossins að sem flestir reyndu að næla sér í flís úr honum eða ösku(Tekið úr: Þorsteinn Jósepsson: Landið þitt).

Staðirnir eru einnig báðir fornir kirkjustaðir og þingstaðir,

Hvað merkir nafnið?

Gæti nafnið á einhver hátt verið tengt gamalli helgi eða átrúnaði jafnvel úr heiðni?

 
Daði.

Kallaðarnes er upphaflega nafnið á báðum þessum bæjum. Elsta dæmið um bæinn í Bjarnarfirði er úr Sturlunga sögu (Kallaðarnes), en um Kaldaðarnes í Flóa (kalldaðarnes) er dæmi frá því um 1200/afrit 1397/ (DI I:319-20 o.víðar). Auk þess er nafnið í Flóamanna sögu og í Landnámu er nefndur Kallnesingahreppr (eða Kald-). Nafnið er dregið af því að kallað var á ferjumann til að ferja yfir Ölfusá.

Matthías Helgason sem skrifaði örnefnalýsingu Kaldrananess segir að sú skýring að kallað hafi verið á ferju yfir fjörðinn geti vel staðist. "Staðhættir eru þannig þarna, að slíkt hefði vel getað átt sér stað, því stutt er úr Neshöfða yfir að Reykjarvík, en krókur nokkur að fara inn fyrir fjörð". (Grímnir 3:94-96).

-ll- breyttist stundum í -ld-, t.d. varð skillingr að skildingur, svo að ekkert er óeðlilegt við að Kallaðarnes yrði Kaldaðarnes, en síðari tíma skýringartilraun hefur gert það að Kaldrananesi. Ekki er vitað til að forn átrúnaður hafi fylgt nafninu. Líklegt er að bæjarnafnið sé eldra en kristindómurinn og að það sé tilviljun frekar en nokkuð annað að kross skuli hafa verið á báðum þessum bæjum sem ákveðin helgi hvíldi eða var talin hvíla á.

Svavar Sigmundsson
 
12. 6, 2005
Ólafur H. Torfason

Ferju-örnefnið Kallaðarnes var bæði í Bjarnarfirði og Ölfusi en tók breytingum eins og fram hefur komið í gestabókinni (06. 4, 2005). Það er kannski ekki tilviljun að á báðum stöðum er getið um krossa. Krossar voru víða eins konar siglingamerki (hafnarkrossar). Þeir voru líka reistir (og ristir) til heilla ferðalöngum á afskekktum og hættulegum slóðum. Tíðkuðust þessar venjur víða um lönd.

 
Sæll Ólafur.

Þakka þér þessa athugasemd. Það er mjög sennilegt að Kross-örnefnin tengist einmitt hættulegum stöðum. Þetta væri ástæða til að kortleggja enn betur hérlendis.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

06. 4, 2005
Guðrún
Sælir!

Vegna verkefnavinnu vantar mig upplýsingar um örnefnin: Árskógur, Svarfaður (Svarfaðardalur) og Öxnadalur. Bestu kveðjur, Guðrún

 
Guðrún.

Árskógur er samsett úr á og skógur. Svo einfalt er það.

Svarfaðardalur. Skýringin á nafninu er annaðhvort sú að áin í dalnum sem nú heitir Svarfaðardalsá, hafi heitið *Svörfuð 'sú sem spillir, umturnar' eða 'á sem vindur sig' (Grímnir 3:117), eða að viðurnefni landnámsmannsins, Þorsteins, þ.e. svörfuðr, hafi verið ástæða nafnsins. Tilgáta mín er sú að svarfaðr í merk. 'sjö tugir' eins og Snorra-Edda nefnir, geti átt hér við og þá sé átt við fjölda bæja í hreppnum. (Tímaritið Saga 1972:80).

Öxnadalur merkir 'uxadalur, nautadalur'.
Svavar Sigmundsson

05. 4, 2005
Anna Friðriks
Heil og sæl!

Getið þið gefið mér upplýsingar um hvaðan nöfnin Súlur, Hlíðarfjall, Kerling, Kaldbakur, Vaðlaheiði og Glerárdalshnjúkur koma?

Með fyrirfram þökk Anna
 
Anna.

Súlur er venjulega nafn á tveimur fjallstindum, því að það er skarðið á milli þeirra, sýlingin, sem skiptir máli og gefur nafnið.

Hlíðarfjall er líklega kennt við bæinn Lögmannshlíð.

Kerling er örnefni mánaðarins í janúar 2005 á heimasíðu Örnefnastofnunar.

Kaldbakur Nafnið er líklega dregið af því að snjór er mikill og liggur lengi fram eftir á vorin á þessum fjöllum/stöðum eða að þar hefur verið næðingssamt.

Vaðlaheiði Vaðlar eru í landi Litla-Eyrarlands í Eyf., sem Vaðlaheiði er við kennd.

Glerárdalshnjúkur er auðvitað kenndur við Glerárdal og dalurinn við Glerá. Gler getur merkt hér 'ísbreiða, svell' en einnig er hugsanlegt að vísað sé til tærleika árinnar.

Svavar Sigmundsson

13. 3, 2005
Hallfrídur D. Thorarinsdóttir-Munsch

Hvaðan kemur nafnið FJAÐRÁRGLJÚFUR?

Er fjöður eda fjörður nafngefandi?
Kvedja, Hallfrídur
 
Sæl Hallfríður.

Nafnið Fjaðrá er líklegast dregin af orðinu fjöður, og merkir nafnið þá 'hin fjaðurkennda, sveiflukennda'.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


15. 2, 2005
Ari Jóhann Sigurðsson

Ég er að velta fyrir mér nafninu Vaglar, hvort að til eru örnefni með því nafni. Hvort að ásar eða hjallar sem standa hátt hafi verið kallaðir vaglar? Dæmi: Viltu ekki hlaupa fyrir kindurnar, þær eru uppi á vöglum.

Með kveðju
Ari Jóhann
 
Ari Jóhann.

Ekki veit ég til að ásar eða hjallar hafi verið nefndir vaglar hér á landi.Orðið vagl getur merkt 'hanabjálki' eða 'hænsnaprik' og í nýnorsku 'gnæfandi klettur'. Bærinn á Vöglum í Fnjóskadal stendur hátt. (Grímnir 3:124-127). Margeir Jónsson taldi að upphaflega hefði orðið vagall sem er annars óþekkt verið í nafninu og merkr ‘(þver)slá’ og haldið hefði uppi rjáfri í húsi, enda stæði bærinn í Blönduhlíð hátt eins og Vaglar á Þelamörk (Heimar horfins tíma (1989), 218-219). Arnold Nordling skrifaði um þetta í Germanska namnstudier (Lund 1932), bls. 241-242 og Namn och Bygd 1933, bls. 33-38.

Svavar Sigmundsson

09. 2, 2005
Sigurður Örn Hannesson

Landnáma segir að Hrollaugur Rögnvaldsson byggði undir Skarðsbrekku. Er vitað hvenær umrætt skarð hlaut nafnið Almannaskarð, þ.e. hverjar eru elstu heimildir um það örnefni?

Bestu kveðjur og þakkir fyrir skemmtilega og fróðlega vefsíðu. SÖH.

Sigurður.

Ekki er vitað hvenær Almannaskarð fékk nafn sitt en það getur vel hafa gerst snemma. Mér er ekki kunnugt um eldri ritheimild en hjá Árna Magnússyni, handritasafnara (1663-1730) í ritinu Chorographica Islandica, sem gefið var út í Safni til sögu Íslands, 2. flokki. I.3, Rvk. 1955, bls. 10 og 14. Vitneskju um að farið sé úr Lóni um Almannaskarð í Hornafjörð hefur hann eftir Stefáni Pálssyni, stúdent í Kaupmannahöfn (bls. 10). Stefán var frá Valþjófsstað og kom til Kaupmannahafnar 1719. Svo gæti virst sem Árni hefði ekki þekkt nafnið fyrir, og svo mikið er víst að það kemur hvorki fyrir í fornsögum né fornbréfum.

Með bestu kveðju. Svavar Sigmundsson


03. 2, 2005
Ottó Schopka

Djúpavík á Ströndum

hvernig beygist það staðaheiti ?
 
Ottó.

Nafnið Djúpavík hefur eitthvað verið á reiki í beygingu, en heimamenn (skv. örnefnaskrá) virðast fremur líta á forliðinn sem nafnorðið djúp (hvk) en lýsingarorðið djúpur. Þessvegna segja þeir Djúpavík, um Djúpavík, frá Djúpavík, til Djúpavíkur.

Kveðjur. Svavar

11. 1, 2005
Kristján Jóhann Jónsson

Kannast einhver við örnefnið Vigdísarsteinn? Steinn þessi ætti að standa í miðju þorpinu Búðum á Fáskrúðsfirði og tengjast sögu um landnámsmann og konu hans, - þó ekki úr Landnámu.

 

Vigdísarsteinn er ekki skráður í lýsingum okkar frá Búðum.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

15. 12, 2004
Karl Gauti.
Sælir.

Ég sé að þið takið fyrir nafnið Gottorp í október. Ég hafði reyndar heyrt þetta öðruvísi, en móðir mín fæddist þarna. Ég hafði haldið að bærinn sem var byggður þarna 1795 hafi verið skýrður eftir Lárusi sjálfum, þ.e. Gottrup og síðan hafi nafnið breyst síðar eða afbakast í Gottorp, sem reyndar er til sem örnefni í Danmörku.

Kveðja.
Karl Gauti.

22. 11, 2004
Málfríður Gylfadóttir
Góðan daginn,

mig langar að vita hvort fjallið Enni í Snæfellsbæ heitir Ólafsvíkurenni eða Ennið.

Með fyrirfram þökk Málfríður
Málfríður.

Fjallið heitir Ólafsvíkurenni eða öllu heldur Ennisfjall. Ennið er sjálfsagt upphaflega aðeins sá hluti þess sem skagar þverhnípt í sjó milli Rifs og Ólafsvíkur. Nafnið Ólafsvíkurenni er sjálfsagt gefið af öðrum en heimamönnum en heima fyrir kalla menn það aðeins Enni eða Ennið.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

17. 11, 2004
Elín Gunnarsdóttir
Kæri viðtakandi.

Við erum nemendur við háskólan á Akrueyri. Við erum að gera verkefni í grendarkennslu. Við erum að skrifa um fyrrum Hrafnagilshrepp í Eyjafirði, okkur vantar skýringar á eftirfarndi örnefnum og bæjarnöfnum:

Hrafnagilshreppur,
Kerling (fjall),
Súlur (fjall),
Bóndi (fjall),
Þríklakkar (fjall),
Kristnes (bóndabær),
Klúkur (bóndabær),
Vaglir (bóndabær),
Hvammur (bóndabær),
Teigur (bóndabær),
Hjálmsstaðir (bóndabær)
Bróká

Við yrðum mjög þakklátar að fá svör við þessu sem fyrst.

Með fyrirfram þökk,
 
Elín Gunnarsdóttir

Hér verður reynt að svara einhverjum af spurningum þínum. Ég geri ráð fyrir að þú hafir aðgang að örnefnaskrá Jóhannesar Óla Sæmundssonar í Amtsbókasafninu.

Hrafnagilshreppur hefur nafn af bænum Hrafnagili.

Kerling kemur víða fyrir sem nafn á kletti, drang, fjalli eða tindi, t.d.er

drangur sem gnæfir upp úr líparítskriðu í vestanverðum Kerlingarfjöllum í

Árn. nefndur Kerling. Flt. Kerlingar eru móbergsfjöll í Vatnajökli (1270

m). Ástæða nafnsins er væntanlega líking við manneskju, í þessu tilviki

kerlingu.

Súlur (í flt.) eru til á einum níu stöðum á landinu. Orðið súla merkti í fornu máli klofið tré eða sýlt í endann (kvíslartré) og hefur orðið súla því líklega upphaflega verið haft um tvo tinda með skarði (sýlingu) á milli. Fleirtalan Súlur hefur síðan þróast út frá því að farið er að líta á hvorn tind um sig sem súlu. (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók 1989).

Bóndi (fjall),

Þríklakkar (fjall), væntanlega dregið af þrem klettaklökkum.

Kristnes (bóndabær), sbr. Landnámabók.

Klúkur (bóndabær). Skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (X:212) er nafnið Klúka. Orðið klúka merkir 'hrúga', 'lítill heybólstur'. Orðið klúkur kk. merkir 'heystabbi, kökkur'.

Vaglir (bóndabær). Orðið vagl getur merkt 'hanabjálki' eða 'hænsnaprik' og í örnefnum í Noregi gnæfandi klett. Bærinn á Vöglum í Fnjóskadal stendur hátt. (Grímnir 3:124-127). Margeir Jónsson taldi að upphaflega hefði orðið vagall sem er annars óþekkt verið í nafninu og merkr ‘(þver)slá’ og haldið hefði uppi rjáfri í húsi, enda stæði bærinn í Blönduhlíð hátt eins og Vaglar á Þelamörk (Heimar horfins tíma, 218-219).

Hvammur (bóndabær),
Teigur (bóndabær),

Hjálmsstaðir (bóndabær). Mannsnafnið Hjálmur er í Íslendingasögum, Sturlungu og í fornbréfum frá 14. og 15. öld.

Bróká Skv. örnefnalýsingu var eldra nafn Króká (skv. landamerkjalýsingu).

Með kveðju. Svavar Sigmundsson

17. 11, 2004
Garðar Þorsteinsson

Góðan dag. Við erum nemendur í Háskólanum á Akureyri og erum að vinna verkefni um Akureyri. Okkur vantar upplýsingar um örnefni s.s. Súlur, Glerá, Mannshryggur, Nóngil og Hrappsstaðarskál.

kveðja Garðar
 
Garðar Þorsteinsson

Ég geri ráð fyrir að þið hafið aðgang að örnefnaskrá Jóhannesar Óla Sæmundssonar um Akureyri á Amtsbókasafninu.

Svör við spurningum þínum eru þessi:

Súlur (í flt.) eru til á einum níu stöðum á landinu. Orðið súla merkti í fornu máli klofið tré eða sýlt í endann (kvíslartré) og hefur orðið súla því líklega upphaflega verið haft um tvo tinda með skarði (sýlingu) á milli. Fleirtalan Súlur hefur síðan þróast út frá því að farið er að líta á hvorn tind um sig sem súlu. (ÁSgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók 1989).

Glerá Glerá er einnig til í Hvammsseit í Dal. Gler getur merkt 'ísbreiða, svell' en einnig er hugsanlegt að vísað sé til tærleika árinnar. (Grímnir 1:88-89)

Um Mannshrygg hef ég ekkert að segja nema ef það væri líkingarnafn sem ég veit ekki.

Nóngil hlýtur að vera eyktarmark frá bænum (Glerá?), sól hefur verið þar yfir að sjá um nón.

Hrappsstaðarskál hlýtur að vera kennd við bæinn Hrappsstaði (Hrafnsstaði) í Glæsibæjarhreppi (sjá Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns X:192).

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

10. 11, 2004
Guðrún Kristjánsdóttir
Komið þið sæl

Í glerárhverfi á Akureyri, nánar tiltekið við Skarðshlíð, er lundur sem alltaf er kallaður Kvenfélagslundurinn. Er þetta nafn til skráð hjá ykkur ef svo er, er þá hægt að fá nánari upplýsingar um málið.

Með fyrirfram þökk
Guðrún
Guðrún.

Kvenfélagslundurinn er ekki skráður hjá okkur.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

23. 10, 2004
Jósef H.Vernharðsson

Ég er að fovitnast um nafnið Slauka.Þetta gæti verið nafn á lækjarsprænu,ármótum eða straumiðu í á eða sjó.Gamall maður í Aðalvík minnist þess að hafa heyrt um þetta nafn en ekki hvar á þessu svæði þetta gætið verið.Gaman væri að vita hvort þið vissuð um þetta.

Kveðja Jósef:
 
Sæll Jósef.

Örnefnið Slauka er a.m.k. til á þremur stöðum: 1) Lækur sem rennur úr Hestvatni í Grímsnesi í Árn og rennur í Hvítá. = Hestlækur. 2) Tangi upp af lækjarbakka á bænum Brekku í Biskupstungum í Árn. 3) Vað á Norðurá þar sem hún fellur í Hvítá í Stafholtstungum í Borg. (Sóknalýsingar Borgafjarðarsýslu). Slaukuvað er einnig á Landkvíslinni í landi Krossbæjar í A-Skaft. og hefur það verið slaukandi eða slarkandi, skv. því sem Stefán Einarsson prófessor skrifar í örnefnaskrá.

Rétt er að nefna skylt nafn, Slok sem er svæði (strandlengja) við sjóinn í Grindavík í Gull. Skylt so. sloka 'soga'. Því miður veit ég ekki um þá Slauku sem þú spyrð um og því væri gott að fá vitneskju um hana ef einhverjir þeir sem þetta sjá vita um hana.

Svavar Sigmundsson

22. 10, 2004
Jón Jónsson

Bestu þakkir fyrir skjót svör við fyrri fyrirspurn.

Nú langar mig að vita um jörðina Prestbakka í Hrútafirði. Nú er komið skilti við veginn sem á stendur Prestsbakki, en ég hef alltaf notað nafnið án þess að í því sé eignarfalls-ess í fyrri liðnum. Hafa skiltagerðarmenn eitthvað gamalt og gott fyrir sér með s-ið eða er þetta bara einhver málfræðiofstopi?

 
Sæll Jón.

Í Jarðaskrá landbúnaðarráðuneytisins 2003 er nafnið Prestsbakki og sama virðist vera um Fasteignamat ríkisins. Prestbakki á Síðu er hins vegar án -s- í þessum skrám. Árni Magnússon og Páll Vídalín hafa myndina Prestsbakki í jarðabókinni og sama mynd hefur verið tekin upp í Prestatal og prófasta eftir Svein Níelsson. Í Jarðatali Johnsens 1847 er hins vegar Prestbakki. Á nýju Ferðakorti Landmælinga Íslands 1:250.000 sem við lásum yfir, er myndin Prestbakki eins og er á eldri kortum. Vegagerðin virðist hafa farið eftir skrá Fasteignamatsins en hún hefur ekki samráð við Örnefnastofnun um nafnsetningu á skilti.

Svavar Sigmundsson

21. 10, 2004
Jón Jónsson

Undir tenglinum algengar spurningar kemur fram að líklega eigi að skrifa Djúpavík sem Djúpuvík í öðrum föllum en nefnifalli. Ég hef vanist hinu, að fara til Djúpavíkur og tala um Djúpavík. Stend í þeirri trú að víkin sé kennd við djúp í firðinum en ekki það hversu djúp víkin er, sbr. Grunnavík (veit ekki hvað Grunnavíkur-Jón segði um að vera kallaður Grunnuvíkur-Jón). Gaman væri að heyra frá ykkur um þetta.

Sæll Jón.

Eins og við tökum fram á heimasíðunni er eitthvað á reiki hvort Djúpavík er Djúpuvík í aukaföllum eða Djúpavík. Í örnefnaskrá Kjósar, sem Símon Jóh. Ágústsson skrifaði, segir hann "til Djúpavíkur". Systir hans, Sveinsína Ágústsdóttir (f. 1901) segir í athugasemdum við skrána að alltaf hafi verið sagt Djúpuvík þangað til þar kom byggð 1934 (1980). Í símtali 1986 áréttaði hún að víkin héti Djúpuvík og farið hafi verið út í Djúpuvík frá Kjós. "Er hún var spurð um tilefni nafnsins Djúpuvík, kvaðst hún telja líklegt, að það væri af því að víkin er girt af brattri hlíð og háum hömrum, hún væri eins og dýpt inn í landið." (Guðrún S. Magnúsdóttir).

Með bestu kveðjum. Svavar Sigmundsson


21. 10, 2004
Arnar Jónsson
Góðan daginn.

Ég þarf að vita hvort rétt sé að skrifa Birgisvík eða Byrgisvík. Um er að ræða eyðijörð í Árneshreppi á Ströndum.

 
Sæll Arnar.

Menn hafa hallast að því að skrifa Byrgisvík enda er ritað þannig í handritum Landnámabókar (Íslensk fornrit I, bls. 198). Örnefnið Byrgi virðist þó ekki vera til þar, skv. örnefnaskrám.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


07. 10, 2004
Ásgeir Gunnarsson
Sæl verið þið. Hvað þýðir orðið Gottorp?
 
Sæll Ásgeir.

Bæjarnafnið Gottorp var gefið af Lauritz Gottrup lögmanni á Þingeyrum 1694 eða 95 þegar hann byggði upp eyðibýlið Þórdísarstaði og nefndi eftir sér, en nafnið er til í Suður-Slésvík, Gottorp Slot. Fyrri liður nafnsins er talinn mannsnafnið Goti en seinni liðurinn þorp. Um þetta má lesa í grein eftir undirritaðan og í annarri eftir Wolfgang Laur í NORNA-rapporter 76, Nordiske torp-navne, Uppsala 2003, bls. 167-169 og 227.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


20. 9, 2004
Sigurður Ingvarsson

Fyrir norðan Efstadalsfjall er vatn sem ýmist er nefnt Vatnsheiðarvatn eða Prestvatn. Ég hef heyrt þá skýringu að við vatnið hafi prestur orðið úti á ferðalagi milli Miðdals og Úthlíðar. Einnig er höfði á norðaustan Efstadalsfjalli nefndur Presthöfði. Gætuð þið sent mér frekari upplýsingar, t.d. nafn á presti, hvenær og hvar hann gegndi embætti og hvenær hann varð úti?

Kveðja, SI
 
Sigurður.

Ekki er vitað með vissu hvaða prest er átt við, en tveir prestar í Miðdal eru sagðir hafa drukknað í Brúará og gæti það hafa verið kveikjan að þessum nöfnum.

Annar var Ólafur Gíslason á 16. og 17. öld. Hann var orðinn prestur í Miðdal 1570. Hans er getið í Alþingisbókum Íslendinga IV:406 (fyrir árið 1618). Hinn er Eiríkur Hermannsson (d. 25. nóv. 1694). Hann vígðist 1688 sem aðstoðarprestur að Miðdal. Þetta má sjá í ritinu Prestatal og prófasta, bls. 88-89 og í Íslenskum æviskrám. 

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


23. 8, 2004
Bjarmi Sigurgarðarsson

Langar að vita tilurð nafnsins Kerling á samnefndu fjalli við botn Glerárdals ofan Akureyrar.

kk.Bjarmi
 
Sæll Bjarmi.

Kerling kemur víða fyrir sem nafn á kletti, drang, fjalli eða tindi, t.d.er drangur sem gnæfir upp úr líparítskriðu í vestanverðum Kerlingarfjöllum í Árn. nefndur Kerling. Flt. Kerlingar eru móbergsfjöll í Vatnajökli (1270 m). Ástæða nafnsins er væntanlega líking við manneskju, í þessu tilviki kerlingu.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


18. 8, 2004
Sigríður Jansen

Finnst bæjarnfnið Hálsendakot á skrá. Í Miðdölum var hjáleiga sem var til fram undir 1900 nefnd þessu nafni

 
Sæl Sigríður.

Hálsendakot var nýbýli úr Snóksdal, byggt fáum árum fyrir 1703, þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín tóku saman jarðabókina sem við þá er kennd (VI. bindi (1938), bls. 25).

Kveðja. Svavar Sigmundsson

17. 8, 2004
Bjarmi Sigurgarðarsson
Hvernig er nafnið Tröllaskagi komið til?
og hvað var þessi fjallabálkur nefndur áður
kk.Bjarmi
 
Sæll Bjarmi.

Hannes Pétursson skáld segir í grein sinni Nýlegt örnefni (Skagfirðingabók 17:92 (1988)), að Pálmi Hannesson hafi gefið nafnið og ber Steindór Steindórsson fyrir því. Hins vegar segir Valgarður Egilsson í Árbók Ferðafélagsins 2000 að Helgi Pjeturs muni hafa gefið nafnið fyrir um 100 árum (bls. 122). Nokkuð víst er að skaginn hefur verið nafnlaus áður.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


06. 8, 2004
Leif Færregaard Jensen

In Laxdøla saga, chapter 76, is told about the drowning of Thorkil Eyolfsson in Breidifjörd or Hvammsfjörd. The sword Sköfnung was found at Sköfnungsey. Is this a place-name known today ? If so, on what map can it be found ?

 
Kære Leif.

Sköfnungsey kendes ikke som stednavn nu. Der er forskellige meninger om hvor Sköfnungsey har været. Man har gættet at det er nuværende Ölvessker, ca 1 kilometer nord for Stafey. Det kan ses på Uppdráttur Íslands 1:100 000 Blað 24 Fellsströnd fra Geodætisk institut/Landmælingar Íslands, nord for gården Valshamar på Skógarströnd. Dette kan man læse nærmere om i Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1886, s. 68-76 (Sigurður Vigfússon), og Árbók Ferðafélags Íslands 1989, s. 101 (Árni Björnsson) med kort på s. 96. Præsterne Jón Gíslason og Þorleifur Jónsson skrev i deres sognebeskrivelse over Hvammsprestakall 1839: "nokkuð utar Ölvessker, sem fyrrum nefndist Sköfnungsey, því rak Sköfnung í stokki þar, þegar Þorkell drukknaði á samnefndum boða, sem þar liggur sunnar." (Dalasýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska Bókmenntafélags 1839-1855. Einar G. Pétursson sá um útgáfuna. Reykjavík 2003, s. 75).

Jeg håber dette hjælper, men du er velkommen at skrive igen hvis du behöver nærmere forklaringer.

Mange hilsener. Svavar Sigmundsson.


01. 7, 2004
Ingi Bogi Bogason

Hvernig skal rita Kolgrafa(r)fjörður? Er það með eignarfallserri í fyrri lið eður ei?

Kv. - Ingi Bogi Bogason
 
Ingi Bogi.

Við viljum hafa myndina Kolgrafafjörður, sem kenndur er við bæinn Kolgrafir.

Kveðja. Svavar

15. 6, 2004
Ásgeir Eiriksson

Hver er uppruni orðsins Faxaflói og eru einhver tengsl við Faksebugt á Sjálandi?

 
Sæll Ásgeir.

Óvíst er hve gamalt nafnið Faxaflói er. Eldra nafn var Faxaós, sem fyrir kemur í Fjarðatali, e.t.v. frá því um 1200 og í Landnámu. Nafnið Faxaflói er a.m.k. í Ölfusvatnsannál Sæmundar Gissurarsonar (um 1698-1762) í eftirriti frá um 1790 (Annálar 1400-1800 IV:357). Í Lýsingu Útskálaprestakalls 1839 er nafnið Faxabugt (Landnám Ingólfs III, bls.157). Á kortum frá 18. öld er Faxafjörður og enn á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844 en Faxaflói kemst varla á kort fyrr en eftir 1900. Hugsanlegt er að Faxa-nafnið sé dregið af örnefninu Fax (Eyjarfax sem er nyrsti hluti Stafholtseyjar í Borg. og Nesfax norðan ár), í Andakíl í Borg. (Sbr. Kristian Kålund, Íslenzkir sögustaðir I (1984), bls. 225). Þar eru stórir móar og grasgefnir en mjög grasgefið svæði getur heitið Föxur (‘litlar tjarnir vaxnar stör’). Orðið fax getur líka merkt ‘straumröst í miðri á’ eða ‘óslegin grasmön’ (Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, 167; Íslensk orðabók Eddu). Í Stafholtsey var til forna þingstaður Þverárþings og er hugsanlegt að ósinn þar hafi verið kenndur við áðurnefnd Föx en síðan farið að ná til alls fjarðarins eða flóans vegna þess hve þekktur staðurinn var.

Í Danmörku eru Fakse-örnefni talin dregin af orðinu fax í eldri dönsku í merkingunni ‘manke, mankehår’ (Bent Jörgensen, Dansk stednavneleksikon [I] (1981), bls. 35, þ.e. fax á íslensku.

Með bestu kveðju. Svavar Sigmundsson


31. 5, 2004
Margrét Erlingadóttir

Hvaðan koma nöfnin Margrétarfell og Margrétarvatn á Steingrímsfjarða

rðarheiði.Til gamans má geta þess að Margrét amma mín(1899-1992)gisti á heiðinni 1924 á leið sinni frá Ísafirði að Stað í Steingrímsfirði.

 

Þessi örnefni eru nefnd í örnefnalýsingu Steingrímsfjarðarheiðar eftir Magnús Sveinsson sem birtist í blaðinu Viljanum, 8. árg., 4.b., árið 1930. Engar athugasemdir eru þar um uppruna nafnanna né í öðrum þeim heimildum sem okkur eru tiltækar hér á Örnefnastofnun. Á korti Herforingjaráðsins frá 1944 er aðeins nefnt Margrétarvatn.

Við getum því ekkert sagt um það hvort þau tengjast ferð ömmu þinnar eða ekki. En ef þú kemst að einhverju frekar um þetta væri okkur þökk á að vita af því.

Með bestu kveðjum. Svavar Sigmundsson


27. 5, 2004
Sigríður Jansen

Hver er merking orðsins Snókur, sbr. Snóksdalur. Hvar eru elstu heimildir um Snóksdal í Miðfirði skráðar? Eru fleiri staðir á landinu með heitið Snókur í einhverri samsetningu? Kærar þakkir. Frábær síða

 
Sigríður.

Takk fyrir það sem þú segir um heimasíðuna. Hvar er Snóksdalur í Miðfirði? Þetta hef ég að segja um Snók:

Snókur

1) Sérkennileg klettastrýta vestur af Skarðsheiði í Borg.

2) Fjall upp af Lónafirði í Jökulfjörðum í N-Ís. (Mynd í Árbók 1994:83).

3) Hnjúkur í Fljótum í Skag.

4) Einstætt fjall innarlega við Siglufjörð í Eyf.

5) = Vinstrarsnókur.

Orðið merkir upphaflega 'tota, endi á e-u', t.d. á vinstur. Sbr. Snóksdalur og Snóksey og Snókagjá á Þingvöllum. Snókshólmi í Elliðaám er nokkru fyrir neðan Árbæjarhólma. Snókur merkir ‘fjallstindur, klettastrýta; hali, rani, e-ð langt og mjótt sem gengur út frá e-u stærra, t.d. fjalli’. Snókafell í Afstapahrauni er með rana eða háls út frá sér. Snókalönd í landi Hafnarfjarðar eru óbrinnishólmi og út úr honum skaga margar totur. Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur telur Snóka-örnefni dregin af jurtinni snókahvönn.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


05. 4, 2004
Gudrun Kloes

Sælt veri fólkið, er til örnefni sem heitir Þriggja-skóa-heiði, ef já, hvar er staðurinn? Eða þriggja-skóa-leið? Kv. Gudrun

 
Sæl Gudrun.

Það er líklega ekki til sem örnefni en orðin voru notuð sem mælieining, svo og svo marga skó (þ.e. roðskó) þurfti til að komast yfir heiði eða einhverja leið. Þetta var fyrst og fremst á Vestfjörðum, þar sem steinbítsroð var notað en þar veiddist steinbíturinn helst.

Bestu kveðjur og gleðilega páska. Svavar


29. 3, 2004
Valur Þór Hilmarsson

Á kaffistofunni er deilt um örnefnið Moldhaugaháls eða Moldhaugnaháls í Eyjafirði. Bæði nöfnin eru notuð í daglegu tali en hálsinn er kenndur við bæinn Moldhauga. Er annað eða bæði nöfnin rétt?

 
Valur.

Nafnmyndin Moldhaugnaháls hefur verið til a.m.k. frá því í byrjun 18. aldar (1712) (Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns X:183) og hefur því unnið sér hefð. Þó að nafnið sé dregið af Moldhaugar og hafi upphaflega verið Moldhaugaháls hefur þróunin orðið eins og um kvenkynsorð væri að ræða, e.t.v. vegna brottfalls -h- í framburði /moldaugaháls/ sem hefur orðið Mold(h)augnaháls.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


14. 3, 2004
Guðmundur Magnússon

Hve víða hér á landi þekkist örnefnið Keldudalur? Er það mjög gamalt?

 
Sæll Guðmundur.

Mér telst til að a.m.k. 9 Keldudalir séu til í landinu:

1) Bær í Rípurhreppi í Skag.

2) Eyðijörð undir Álftagróf í Dyrhólahr. í V-Skaft.

3) Dalur í Þingeyrahr., V-Ís., þar sem m.a. er Hraun í Keldudal.

4) Mýrarstykki tvö í landi Eyvindartungu í Laugardal í Árn., Heimri- og Ytri-Keldudalur.

5) Mýrarsund í landi Þórisstaða og Bjarnastaða í Grímsnesi í Árn.

6) Lægð í landi Geldingaár í Leirár- og Melasveit í Borg.

7) Í landi Miðhóps og Grafar í Húnaþingi vestra.

8) Í landi Snæringsstaða í Svínavatnshr. í A-Hún.

9) Í Hofsafrétt í Skagafirði.

Örnefnið Keldudalur í Dýrafirði kemur fyrir í fornsögum, og ekkert er því til fyrirstöðu að önnur hafi verið til frá fornu fari.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


12. 2, 2004
Jón Bergvinsson

Góðan dag, mig langar til að vita hvort flæðiskerin meðfram Eiðisgrandanum í Reykjavík heita eitthvað og ef svo er hvað heita þau? Með fyrirfram þökk Jón Bergvinsson

 
Jón Bergvinsson.

Skerin eru kölluð Litla- og Stóra-Eiðssker (það litla nær landi í Káravík nærri Eiðsvör) (Einar S. Arnalds. Reykjavík. Sögustaður við Sund. Lykilbók, kort nr. 7). Guðlaugur R. Guðmundsson sá um örnefnin á kortunum.

Á sjókorti Sjómælinganna nr. 362, endurskoðað í júní 2003 er skerið eitt og nefnt Eiðissker.

Svavar Sigmundsson

13. 11, 2003
Helga Hinriksdóttir

Eins og svo margir er ég að vinna ritgerð og mig vantar að vita hvaðan nöfnin Vatnsnes, Þrælsfell, Káraborg og Útibliksstaðir eru komin. Takk fyrir.

 
Helga Hinriksdóttir

Þú spyrð um nokkur örnefni. Hér eru drög að svari.

Vatnsnes, samsett af vatn og nes. Ef um er að ræða Vatnsnes í Húnavatnssýslu á nafnið líklega við Vesturhópsvatn frekar en Sigríðarstaðavatn.

Þrælsfell, samsett af þræll og fell. Ekki er vitað um tilurð nafnsins þarna. Annað Þrælsfell er í Bólstaðarhlíðarhr. í A-Hún. og um það er sú þjóðsaga að þrælar frá nokkrum bæjum hafi barist þar og séu heygðir þar.

Káraborg, klettaborgin í vesturbrún Vatnsnesfjalls, í Grafarlandi, hefur ekki verið skýrð svo ég viti. Kárastaðir eru þar nærri og væntanlega hefur hún verið í landi þeirrar jarðar upphaflega. Hvort um er að ræða mann að nafni Kára eða hvort Kári sem vindurinn hafi verið ástæða nafnanna verður ekki fullyrt.

Útibliksstaðir, nefnast líka Útibleiksstaðir. Tekið er fram í umfjöllun um bæinn í Húnaþingi II, 530, að útsýn sé allt fram til heiða og austur um Vatnsnesfjall. Líklegra er að nafnið Útibliksstaðir sé upphaflegra og bendi til útsýnisins.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

11. 11, 2003
Anna Rósa Friðriksdóttir

Er að vinna að ritgerð um Glæsibæjarhrepp og vantar svo upplýsingar um hvaðan nöfn bæjanna: Glæsibær, Dagverðareyri, Helluland, Skipalón og Hlaðir eru talin vera komin af.

 

Glæsibær er til á þremur stöðum á landinu , tveir í Skagafirði og sá í Eyjafirði. Merkingin er annaðhvort ‘glæsilegur bær’ eða ‘bær þar sem útsýni er gott’. Í nýnorsku er sögnin glöse, sem merkir ‘stara, horfa í kringum sig’, sbr. örnefnið Glöshaugen í Þrándheimi og kirkjustaður í Þrændalögum í Noregi. Á báðum stöðum er gott útsýni.

Dagverðareyri er kennd við dagverð ‘máltíð kl. 9 að morgni’.

Helluland er samsett af hella og land, en bærinn stendur á klapparholti.

Skipalón er samsett af skip og lón. Nefnt Lón í Landnámu.

Hlaðir er staður (upphlaðinn) þar sem vörum hefur verið skipað upp, af orðinu hlað hvk. sem hefur orðið kvk. í flt. í nafninu Hlaðir. Hörgá hefur verið skipgeng þangað upp. Sbr. Stokkahlaðir. Nafnið hefur haft ýmsar myndir um dagana: Hlöð, Hlöður, Hlaðnir. Að fornu var örnefnið Hlaðir í Noregi, sbr. Heimskringlu.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson

03. 11, 2003
Inga Kristjánsdóttir

Getið þið sagt mér eitthvað um Víghóla í Kópavogi?

 
Sæl Inga.

Víghólar í Kópavogi eru tveir, annars vegar Efri-Víghóll þar sem Digraneshálsinn er hæstur. Hann er friðlýstur. Hins vegar er Neðri-Víghóll skammt sunnan Digranesvegar. Nafnið Víghóll er til víðar á landinu. Um nafnið er það að segja að það hefur verið sett í samband við orðið víg, og eru sums staðar munnmæli um að fornmaður sé dysjaður í hól með því nafni. Þó fylgir ekki slík sögn Víghólum í Kópavogi. Heimildir um þá eru ekki eldri en frá síðustu öld. Þórhallur Vilmundarson skrifaði grein sem heitir Víghóll í Lesbók Morgunblaðsins 26. mars 1994, þar sem hann ræðir þetta nafn og önnur Víghóls-nöfn. Hann telur að nafnið hafi upphaflega verið Veghóll enda standi hólar þessir oft við alfaraleið. Nokkur Víga-örnefni eru til í landinu, Vígabjarg, Vígakelda, Vígaflöt. Tilgátan um að Veghóll hafi alls staðar orðið Víghóll er ekki óyggjandi. Ekki er ósennilegt að vígaferli hafi átt sér stað við einhverja af þessum hólum, því að víg hafa ekki síst orðið þar sem menn hafa mæst á alfaraleiðum.

Kveðjur. Svavar

05. 10, 2003
Ása Björg

Er að vinna í ritgerð um Kelduhverfi og vantar að vita hvaðan bæirnir Sultir, Auðbjargarstaðir og Víkingavatn draga nafn sitt af. Gætuð þið hjálpað mér?

 
Ása Björg.

Hér koma tilraunir til skýringar á örnefnunum sem þú baðst um.

Sultir Jörðin er nefnd Sultur í Jarðabók 1760 og í Jarðatali Johnsens 1847 en Sultir í Jarðamati 1861. Merking orðsins sult er í Kelduhverfi ‘klettakvos’.

Auðbjargarstaðir Jörðin er vafalítið kennd við konu að nafni Auðbjörg. Nafnið er þekkt í fornritum og í Noregi.

Víkingavatn Bærinn gæti dregið nafn af víkingum, en oftast er orðið víkingur í eintölu í örnefnum. Þó var til Víkingalækur á Rangárvöllum, sem síðar var nefndur Víkingslækur. Víkingur getur líka verið nafn á duglegum hesti auk þess að vera mannsnafn.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

16. 9, 2003
Valgeir Jónsson

Ég hef verið að leita hvar Dúkskot hafi verið í Reykjavík. Getið þið nokkuð svalað þeirri forvitni minni.

 
Sæll Valgeir.

Dúkskot var þar sem nú er Vesturgata 13. Um það má lesa nánar í bók Páls Líndals, Reykjavík. Sögustaður við Sund. III: 149 (Örn og Örlygur 1988).

Svavar Sigmundsson

28. 7, 2003
Auður Margrét Möller

Ég er að leita að örnefnum úr Strandarhöfði/ höfða vestur Landeyjum, og gjarnan að fá staðfestinu á hvort af ofangreinum nofnum er rétt . Í landamerkjalýsingu frá lokum 19 aldar er bærinn nefndur Strandarhöfði en er í dag kallaður Strandarhöfuð.

 
Auður Margrét Möller.

Upphaflega nafnið á bænum er Strandarhöfuð. Þannig er það í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá byrjun 18. aldar og í síðari jarðabókum, Johnsen 1847 og Nýrri jarðabók 1861. Vegna notkunar nafnsins í þágufalli, (á) Strandarhöfði, hefur komið upp myndin Strandarhöfði sem nefnifallsmynd. En réttara er að hafa myndina Strandarhöfuð.

Kveðja. Svavar Sigmundsson

09. 7, 2003
Björk Jónsdóttir
Var ekki Lyngberg bær í Öskjuhlíð?

Mig vantar örnefni úr Öskjuhlíð vegna nýrar nafgiftar á Vesturhlíðarskóla, þar sem starfsemi í húsinu breytist í haust

Björk Jónsdóttir
Skólastjóri
 
Björk.

Lyngberg er örnefni skammt austan Nauthólsvíkur, austan við farveg Heita lækjarins. Þau voru upphaflega tvö, Efra- og Neðra-Lyngberg. Sjá nánar Páll Líndal: Reykjavík. Sögustaður við Sund III:54 og kort Guðlaugs R. Guðmundssonar nr. 9 í IV:171. Ekki verður séð að það hafi verið bær.

Svavar Sigmundsson

07. 7, 2003
Anna Ásgeirsdóttir

er til eitthvað fjall sem heitir eitthvað hollu-bolla-skollafjall, eða eitthvað í þá áttina. Ég rakst einu sinni á það á ferðalagi þegar ég var lítil að ferðast með fjölskyldunni og myndi gjarnan vilja vita hvað það heitir og hvar það er... (Það var skrifað á útsýnisskífu)

Anna.

Þú átt sennilega við Jarpkollupollafjall (Jakkollupollafjall) í Kelduhverfi í N-Þing. sem er á útsýnisskífu. Örnefni með þessum forlið eru til fleiri, t.d. Jarpkolluflá á Víðidalstunguheiði í Hún. Líklega er um að ræða nafn á hryssu.

Svavar Sigmundsson

30. 5, 2003
Jósef H.Vernharðsson

Varðandi svæðið sem er í daglegu tali er kallað Hornstrandir , vil ég spyrja. Hvar telur Örnefnastofnun að mörk Hornstranda séu samkvæmt gömlum munnmælum.

Ég hef spurtst fyrir um þessi mörk og telja þeir sem vita um það að þau séu frá Kögri til Geirólfsgnúps.Nú er farið að nefna allt svæðið frá Bjarnanúp og allt svæðið norðaustur af , Hornstrandir. Ég er ekki sáttur við að það sé verið að breyta örnefnalýsingum.

Kveðja Jósef H. Vernharðsson.
Sæll Jósef.

Það er skilningur okkar á Örnefnastofnun að Hornstrandir nái aðeins vestur að Kögri, sbr. umfjöllun Guðrúnar Ásu Grímsdóttur í Árbók Ferðafélagsins 1994, bl. 9-11. Þess verður hinsvegar vart að fólk noti Hornstrandir æ meir ranglega um Aðalvík og Jökulfirði.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson

12. 5, 2003
Jóhann Árnason

Hef gengist í það fyrir norskan kunningja minn að grenslast fyrir um nafnið Dvergasteinn, annað hvort sem bæjarnafn eða örnefni. Ef enginn getur tjáð mér það hér á síðunni, getið þið bent mér á aðra staði á netinu sem ég gæti notað til leitar.

Kveðjur, Jóhann

Dvergasteinn er heiti á a.m.k. þremur bæjum á landinu: 1) Í Álftafirði í Súðavíkurhreppi, 2) í Kræklingahlíð í Eyjafirði og 3) í Seyðisfirði. Auk þess eru einhver hús í þéttbýli sem heita svo. Ég hef annars fundið örnefnið Dvergastein á sex stöðum við tölvuleit í söfnum okkar en ég get ekki leitað í nærri öllu safninu á þann hátt. Þessir staðir eru: 1) Flagbjarnarholt í Rang., 2) Oddi á Rangárvöllum, 3) Næfurholt á Rangárvöllum, 4) Laxárdalur í Gnúpverjahreppi í Árn., 5) Flatey á Breiðafirði og 6) Hraun í Keldudal í V-Ís.


17. 5, 2003
Sesselja Guðmundsdóttir

Hér kemur eitt ´bótarörnefnið´ til [Örnefni mánaðarins: Bót, maí 2003]. Í Hvassahraunslandi, Vatnsleysustrandarhr. er til Hvassahraunsbót eða Bótin og segir í örnefnalýsingu 1980: „ Inn með sjónum eru fyrst Básar (76) eða Hvalbásar (77). Þar rak hval. Þá tekur við Bótin (78) eða Hvassahraunsbót (79).“

 
05. 5, 2003
Sesselja Guðmundsdóttir

Mig langar til þess að bæta einu nafni við örnefni mánaðarins [Bót, maí 2003] og er það Seljabót á mörkum Herdísarvíkur og Krýsuvíkur (og eða á sýslumörkum Árnes- og Gullbringusýslu). Svo gleðst ég yfir nýja vefritinu Nefni, allur fróðleikur vel þegin. Kveðja.


28. 4, 2003
Gunnar Gunnarsson

Ég er að leita að staðarnafninu Starkaðarhús. Annað hvort í Árnessýslu ellega á Álftanesi. Er það til á skrá hjá ykkur?

Kveðja
Gunnar Gunnarsson
 
Sæll Gunnar.

Starkaðarhús eru til á Stokkseyri og voru til í Hraungerðishreppi í Árn. Síðarnefndi bærinn var líka nefndur Starkarhús, og var hjáleiga frá Hraungerði, en hefur vafalítið verið upphaflega Starkaðarhús.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


24. 4, 2003
Hrafn Arnarson

Hversu algengt er staðarheitið/örnefnið Mjóistígur?

Hvar er Mjóistígur á landinu?
kveðja , Hrafn Arnarson
Sæll Hrafn.

Ég hef aðeins fundið tvö dæmi um Mjóastíg í rafrænum söfnum okkar. Annars vegar er örnefnið í landi Holts og Álftagrófar í Dyrhólahreppi í V-Skaft. Hins vegar er það austast á Ál(f)sey í Vestmannaeyjum. (Sbr. Þorkell Jóhannesson: Örnefni í Vestmannaeyjum, bls. 64.)

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson


12. 3, 2003
Pétur Bjarnason

Getið þið upplýst mig um bæjarnafnið "Belgsstaðir". Líklega verið á Vestfjörðum, e.t.v. sunnanverðum um 1880. Mögulega þó í Dalasýslu.

Með þökkum
Pétur Bjarnason
 
Pétur.

Belgsstaðir eru hvorki til á Vestfjörðum né í Dalasýslu. Líklegra er að átt sé við Belgsdal í Saurbæ í Dölum. Belgsstaðir voru hinsvegar til í Innri-Akraneshreppi, og Belgsholt er í Melasveit.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson.


07. 3, 2003
Haukur Hannesson
Sæll Svavar.

Gæturðu sagt mér hvernig vaninn er að fallbeygja nafnið Vaglir (á Þelamörk)?

Með kveðju, Haukur Hannesson.
Sæll Haukur.

Ég hef ekki dæmi um þolfallsmynd af eimitt þessu bæjarnafni en af nafninu Vaglir í Hrafnagilshreppi er þolfallið Vagli hjá Árna Magnússyni og Páli Vídalín í Jarðabók X:211. Þess vegna þykir mér rétt af hafa þá mynd um Vagli á Þelamörk líka.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson.


06. 3, 2003
Lárus S. Guðjónsson

Í Gunnlaugssögu fer Þorsteinn Egilsson að bæ undir Valfelli er að ''Grenjum'' heitir, og síðar með Gunnlaugi í Langavatnsdal að seli er nefnt er ''Þorgilsstaðir'' Eru þessi nöfn þekkt í dag?

Er Leiruvogur fyrir neðan Heiði ós Leirvogsár og Heiði Hellisheiði?

Sæll Lárus.

Bærinn Grenjar var í Álftaneshreppi, nú Borgarbyggð og Þorgilsstaðir (í Langavatnsdal) voru í Neshreppi innan Ennis, nú Snæfellsbæ. Fyrir neðan heiði merkir líklega Mosfellsheiði.

Kveðjur. Svavar Sigmundsson.

06. 3, 2003
Ólafur K. Nielsen

Hólmsfjörður, hvar er hann? Bessastaðir eru sagðir standa þar nærri. Er þetta mögulega Skerjafjörður?

Sæll Ólafur.

Ég hef ekki getað fundið nafnið Hólmsfjörður. Að mörgu leyti er líklegra að átt sé við Eiðisvík eða hluta hennar en Skerjafjörð. Hólmurinn, Grandahólmi, var upphaflegi kaupstaðurinn í Reykjavík áður en hann flutti í Örfirisey. Hólmasund heitir á milli Grandahólma og Akureyjar. Helgi Þorláksson hefur skrifað um Hólminn við Reykjavík í Safni til sögu Reykjavíkur. Reykjavík í 1100 ár. 1974. Fróðlegt væri að vita um heimild þína fyrir þessu nafni.

Bestu kveðjur. Svavar Sigmundsson.


26. 2, 2003
Kristín Inga
Hvaðan er nafn Úlfarsfells komið?
Kristín Inga.
 

Úlfarsfell kemur hvorki fyrir í Landnámabók né fornsögum eða annálum, en Úlfarsá er nefnd í Landnámabók. Úlfarsfell er nefnt í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 (Íslenskt fornbréfasafn II, 220), og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 (III, 310). Nafnið er vafalítið dregið af mannsnafninu Úlfar, sbr. Úlfarsá, en fjórir eru nefndir með því nafni í Landnámu.

Svavar Sigmundsson
 
Kristín Inga.

Þegar ég svaraði fyrirspurn þinni um Úlfarsfell hugsaði ég aðeins um Úlfarsfell í Mosfellssveit. Mér láðist að geta þess að Úlfarsfell er bæjarnafn í Helgafellssveit á Snæfellsnesi, og það er nefnt þegar í Landnámabók.

Svavar Sigmundsson.

27. 1, 2003
Lárus S. Guðjónsson

Þakka þér svarið Svavar. Er Gilhagi ekki líka til á tveim stöðum í Hrútafyrði. Í Prestbakkasókn og upp undir Holtavörðuheiði með land að Hrútafjarðará. Ég vil meina að afi minn ( látinn fyrir mína fæðingu), hafi búið þar. Kveðjur Lárus.

 
Til viðbótar við fyrra svar:

Bakkasel er einnig til í Norðfirði og í Fnjóskadal.

Gilhagi er einnig til í Vatnsdal,Bæjarhreppi í Strand. og í Ölfusi.

Kveðja. Svavar Sigmundsson.

26. 1, 2003
Lárus S. Guðjónsson

Hvar á landinu þekkjast bæjarnöfnin Smyrlaberg, Bakkasel og Gilhagi,

 

Bærinn Smyrlaberg er í Torfalækjarhreppi í A-Hún.

Þrír bæir hafa haft nafnið Bakkasel: 1) Í Öxnadalshreppi í Eyf.

2) Í Nauteyrarhreppi í N-Ís.

3) Í Bæjarhreppi í Strand.

Nafnið Gilhagi er til á tveimur stöðum:

1) Í Lýtingsstaðahreppi í Skag.

2) Í Öxarfjarðarhreppi í N-Þing.

(Ath. að hér er miðað við gamla hreppaskipan.)

Kveðjur. Svavar Sigmundsson.


15. 1, 2003
Guðmundur Gíslason

Hvenær koma Hárlaugsstaðir fyrst fyrir sem bæjarnafn og af hverju er nafnið dregið?

Hárlaugsstaðir koma fyrst fyrir 1524, svo vitað sé, í bréfi sem Ögmundur biskup Pálsson skrifaði (Íslenskt fornbréfasafn IX:256). (Í bréfi 1534 eru þeir reyndar nefndir Jarnligstaðir sem er væntanlega ritvilla.) Jörðin er síðan nefnd í Alþingisbókum 1579 en skrifað þar “Hardlaugstöðum” (I:375). Hún er nefnd í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (I:356-7), sóknalýsingu Bókmenntafélagsins frá um 1840 og í Jarðatali Johnsens frá 1847, skrifað Harlaugstaðir. Ekki er hægt að vita með vissu af hverju nafnið er dregið, en mannanöfnin Harðlaugur og Hárlaugur koma eðlilega upp í hugann. Þau nöfn koma þó ekki fyrir sem mannanöfn í neinum eldri heimildum.

Svavar Sigmundsson

13. 1, 2003
Herdís Guðmundsdóttir
Hvað merkir bæjarnafnið Gaul ?
 

Halldór Halldórsson prófessor skrifaði um nafnið Gaul í Staðarsveit, og komst að þeirri niðurstöðu, að nafnið væri runnið frá norskum landnemum sem hefðu viljað halda einhverjum nafntengslum við heimabyggð sína, Gaular í Noregi. Þetta tekur hann sem dæmi um að landnámsmenn hafi flutt inn nöfn frá heimabyggðum sínum án þess að nafnið eigi við einhver sérstök einkenni staðarins á Íslandi (Ævisögur orða, 193).

Þórhallur Vilmundarson taldi líklegt er að gaul merkti ‘foraðsmýri’ og fjallaði í því sambandi um bæjarnafnið Gaularás (Gularás) í Austur-Landeyjum og Gaulverjabæ í Flóa (Grímnir 2:75-78). Nafnliðurinn Gaul kemur einnig fyrir í landi Hafnar í Sléttuhreppi í N-Ís., þar sem er Gaularás og þar hjá Gaularásvatn (Örnefnaskrá). Hugsanlegt er að vatnið hafi upphaflega heitið Gaul eins og líka gæti hafa verið á Gaul í Staðarsveit, þar sem Gaul hefði verið nafn á flóasundinu sem Gaulartjörn er í, skv. örnefnaskrá Gaular.

Orðið gaul kemur annars fyrir sem forliður orða eins og gaulgötugur, gaulopinn, þar sem það merkir ‘op’, og skv. orðabókum getur gaul einnig merkt ‘gátt’, dyrnar standa upp á gaul (Íslensk orðabók).

Svavar Sigmundsson

01. 1, 2003
Lárus S. Guðjónsson

Gleðilet ár og ég þakka fyrir skjót svör við kvabbi á liðnu ári. Því er best að byrja árið á kvabbi:

Borgarhrauns í Langa-Vatnsdal er er getið í Þjóðsögum J.T. Hvaða Langa-Vatnsdal er átt við?

Er örnefnið Bráðræði í Reykjavík bæjarnafn og hvar er það?

Með kæru þakklæti

Sæll Lárus og gleðilegt nýtt ár.

Langavatnsdalur sem þú spyrð um, er upp af Mýrum í Mýrasýslu. Sagnir eru um að kirkja hafi verið á Borg í Langavatnsdal en bærinn Borgarhraun er ekki þekktur. (Sjá nánar Árbók Ferðafélags Íslands 1997, Í fjallhögum milli Mýra og Dala; Sveinn Níelsson, Prestatal og prófasta, 133.)

Bráðræði var þar sem nú heitir Bráðræðisholt milli Hringbrautar og Grandavegar. (Sjá Einar S. Arnalds, Sögustaður við Sund. Lykilbók, Kort 4 og 7.)

Með kveðju. Svavar Sigmundsson

17. 9, 2002
Lárus .Guðjónsson

Er örnefnið Gáshöfði (ekki Gáshöfn) til hér á landi. Nafn þetta er á færeyskum báti, sem er í smíðum.

Kveðja Lárus S. Guðjónsson
 
Lárus.

Nei, Gáshöfði er líklega ekki til á Íslandi, né heldur Gæshöfði. Við höfum leitað í söfnum okkar en ekkert fundið.


08. 8, 2002
Ásgeir Ásgeirsson

Var að fara yfir stórgrýtisurðina Dynjandisheiði og kom þá að Penná eða Pennu. Vitið þið hvað penna þar er?

 

Sæll Ásgeir.

Áin Penna sem rennur um Penningsdal (Peningsdal, sem kenndur er við búpening) og niður í Vatnsfjörð er kennd við dalinn, stytting úr Penningsdalsá.

Kveðja.

Svavar Sigmundsson.


18. 6, 2002
Ásgeir Ásgeirsson

Ekki getið þið frætt mig á því hvernig örnefnið Hvalvörðugilslækur (í Öræfum) er til komið? Hvort Öræfingar hafa skorið rekinn hval á fjöru, selflutt hann heim, urðað eitthvað í gilinu og reist vörðu við, hvort hér er um mið að ræða eða hvað hvalir eru yfirhöfuð að gera uppi í giljum?

Með kveðju og von um að eitthvert vit sé í þessu skemmtilega nafni.
 
Sæll Ásgeir.

Eftirfarandi kaflar eru í örnefnaskrá Hofs í Öræfum sem hér er til:

"Hvalvarða (20), er framan við gilkjaft, er þar við þjóðveginn í Dýjakrók. Sú saga er sögð, að skessa hafi haft aðsetur í Hvalvarðargili þegar sr. Gísli Finnbogason, sem nefndur var Svarti-Gísli, var prestur í Sandfelli. Hafi hann mætt skessu eitt sinn er hann var á leið að Hofi til messugerðar, þar sem hún var á leið af fjöru með hvalkálf á baki. Varð presti þá að orði: „Þessu hefur þú stolið af minni fjöru.“ „Nóg er eftir handa þér, Svarti-Gísli,“ svaraði skessan. Hafi prestur þá eftir messu farið á fjöru og fundið þar reyði mikla."

"Þar austar er keilumyndað líparítfjall sem heitir Goðafjall (100). Það er heldur lægra en Hrútsfjall. Suðvestan í því heita Ljótuklettar (101). Austan við Goðafjall er Hvalvarðargil (102); þar átti skessan heima sem fyrr var getið í sambandi við hvalinn."

Mér hefur ekki gefist tóm til að skoða málið betur en skal láta þig vita ef ég verð einhvers vísari.

Kveðja. Svavar Sigmundsson