Skip to main content

Nafnfræði er ein grein málfræði. Við rannsókn á nöfnum (örnefnum, mannanöfnum, dýranöfnum og ýmsum öðrum nöfnum) er beitt málvísindalegum aðferðum en nafnfræðin hefur jafnframt náin tengsl við aðrar greinar. Saga, m.a. trúarbragðasaga, er mikilvæg grein fyrir nafnfræðina, og einnig mannfræði og félagsfræði. Greinar sem miklu máli skipta fyrir örnefnafræði sérstaklega eru fornleifafræði og búsetulandafræði. Þjóðfræði og landbúnaðarsaga eru þýðingarmiklar fyrir rannsóknir á örnefnum, dýranöfnum og ýmsum öðrum nöfnum og persónusaga og ættfræði fyrir rannsóknir á mannanöfnum.

Í nafnfræðirannsóknum felst m.a.

  • að skýra hvað nafn merkir, t.d. Gláma, Hekla, Vaglir, Ölfus; Ari, Teitur, Teódóra, Valka; Golsa, Krossa, Sleipnir, Týra
  • að finna aldur ákveðinna nafna og útbreiðslu, hvar þau hafa komið upp, hvaða menningarstraumum þau hafa fylgt, hvaða hliðstæður þau eiga sér, t.d. á Norðurlöndum og í heiminum annars
  • að lýsa mismunandi nafnmyndunum og skýra ýmis félagsleg mynstur í nafngjöfum
  • að útskýra hvaða upplýsingar nöfn veita um fólk og athafnir þess, landnám, ræktun, byggingar, samgöngur, stjórnsýslu, átrúnað og sögu lands og héraðs o.fl. o.fl.

Á heimasíðu Alþjóðasamtaka nafnfræðinga, ICOS, hefur enski nafnfræðingurinn Richard Coates einnig reynt að svara á aðgengilegan hátt spurningunni: Hvað er nafnfræði?