Íslenski málbankinn verður opnaður fimmtudaginn 4. september kl. 12.10–12.40 í fyrirlestrasal Eddu, Arngrímsgötu 5.
Á dagskrá verða stuttar kynningar þar sem fjallað verður um bankann og mikilvægi hans fyrir rannsóknir og máltæknistarf á Íslandi.
Í boði er hádegishressing í lok dagskrár.
Um Málbankann
Málbankinn er nýtt vefsvæði á vegum Árnastofnunar sem hefur það að markmiði að miðla málgögnum fyrir íslensku á öruggan og aðgengilegan hátt.
Notendur geta sótt gögn í bankann en helstu markhópar eru m.a. fræðimenn og stúdentar í hug- og félagsvísindum sem rannsaka íslenskt mál og samfélag, og forritarar sem vilja nálgast gagnasöfn, líkön og verkfæri sem tengjast máltækni.
Málbankinn er á vegum CLARIN-þjónustumiðstöðvar sem rekin er á Árnastofnun í samstarfi við sjö aðrar stofnanir: Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðskjalasafn Íslands, Íslenska málnefnd, Ríkisútvarpið ohf. og Almannaróm – miðstöð máltækni. CLARIN-þjónustumiðstöðin hefur starfað frá 2017.