Skip to main content

Handritapistlar

Riddarasögur frá Vestfjörðum – AM 593 4to

Handritið AM 593 4to er sagnahandrit frá síðari hluta 15. aldar, nú í tveimur hlutum sem merktir eru a og b. Samtals telja bækurnar núna 138 blöð en þegar handritið var heilt hafa blöðin verið fleiri, ef til vill um 172 blöð. Ein hönd er á handritinu en ekki er vitað hvað skrifarinn hét. Þó má tengja bókina við tiltekinn stað og tíma því að höndin sýnir náinn skyldleika við bréf sem ritað var í Neðra Hjarðardal í Dýrafirði 1459 og annað sem ritað var í Hvilft í Önundarfirði 1475. Einnig eru líkindi með sagnahandritinu AM 471 4to.

Arons saga á skinni – AM 551 d β 4to

Sagan af Aroni Hjörleifssyni (1199−1255) greinir frá ungum Íslendingi, sem varð stuðningsmaður Guðmundar góða Hólabiskups í langvarandi deilum hans við Sighvat Sturluson og syni hans, Tuma og Sturlu. Aron kom við sögu afdrifaríkra atburða á Sturlungaöld, átti m.a. þátt í drápi Tuma Sighvatssonar á Hólum í febrúar 1222 og særðist alvarlega í hefndarárásinni í Grímsey í aprílmánuði sama ár.

Dýrlingar og helgisögur í AM 657 c 4to

Handritið AM 657 c 4to var skrifað á síðustu áratugum 14. aldar. Það er 51 blað en blöð vantar bæði framan af, aftan af og innan úr því. Handritið inniheldur niðurlag sögu heilags Mikaels höfuðengils, Maríu sögu egypsku, Eiríks sögu víðförla og B-gerð Guðmundar sögu góða. Maríu saga egypsku (sem ekki má rugla saman við Maríu Magdalenu) er saga af iðrandi vændiskonu sem gerist einsetukona í eyðimörk; sagan var þýdd úr latínu á 13. öld. Hinar þrjár sögurnar eru frá 14. öld. Mikaels saga var samin af Bergi Sokkasyni ábóta, en talið er að hann hafi samið allnokkrar helgisögur á fyrri hluta 14.

Í ástarbing: María og Jesúbarnið – Lbs 3013 8vo

Snemma í sögu kristindómsins tóku að myndast sagnir sem ætlað var að fylla inn í heldur fátæklegar frásagnir guðspjallanna af hinni heilögu fjölskyldu og bernskuárum Jesú. Um fæðingu og uppvöxt Maríu urðu til helgisögur sem komið var í íslenskan búning á 13. öld (Maríu saga) og sömuleiðis þekktu miðaldahöfundar okkar til rita sem sögðu frá bernsku Krists. Slíkar sagnir héldu áfram að höfða til fólks þótt aldir liðu.

Mikilvæg heimild um siðaskiptin á Íslandi

Í tilefni þess að 500 ár eru liðin frá því að Marteinn Lúther hóf siðbót sína var Margrét Eggertsdóttir fengin til að skrifa pistil um handrit sem tengist siðaskiptatímanum á Íslandi.

AM 215 fol. Mikilvæg heimild um siðaskiptin á Íslandi

Stjórn — AM 227 fol.

AM 227 fol. er í hópi glæsilegustu handrita í hinu mikla safni Árna Magnússonar og ber íslenskri bókagerð um miðbik fjórtándu aldar fagurt vitni. Nú eru í bókinni 128 blöð en nokkuð hefur glatast úr henni og ekki ósennilegt að upphaflega hafi blöðin verið í námunda við 150. Handritið geymir þýðingu á nokkrum bókum Gamla testa­ment­isins með ívafi skýringargreina úr lærdómsritunum Historia scholastica eftir Petrus Comestor og Speculum historiale eftir Vinsentíus frá Beauvais.

Gísla saga klippt og skorin — AM 445 c I 4to

Sumar fornsögur eru okkur kunnar í fleiri en einni gerð. Gott dæmi um það er Gísla saga Súrssonar en handrit hennar eru líka til vitnis um það hve varðveisla sagnanna er oft gloppótt. Gísla saga er varðveitt í heilu lagi á skinnbókinni AM 556 a 4to, sem stundum er nefnd Eggertsbók eftir einum eiganda sínum, Eggerti Hannessyni hirðstjóra (d. 1583). Önnur skinnbók með sögunni var í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn síðla á 18. öld en týndist svo. Af henni eru sem betur fer til afrit en þau voru gerð eftir að eyða var komin í söguna svo ekki er allur texti þeirrar gerðar til.