Skip to main content

Pistlar

Arons saga á skinni – AM 551 d β 4to

Sagan af Aroni Hjörleifssyni (1199−1255) greinir frá ungum Íslendingi, sem varð stuðningsmaður Guðmundar góða Hólabiskups í langvarandi deilum hans við Sighvat Sturluson og syni hans, Tuma og Sturlu. Aron kom við sögu afdrifaríkra atburða á Sturlungaöld, átti m.a. þátt í drápi Tuma Sighvatssonar á Hólum í febrúar 1222 og særðist alvarlega í hefndarárásinni í Grímsey í aprílmánuði sama ár. Aron var dæmdur sekur vegna dráps Tuma og eyddi næstu fjórum árum í útlegð, fór þá huldu höfði víða um land og slapp naumlega undan harðskeyttum atlögum Sturlu Sighvatssonar uns hann komst loks til Noregs árið 1226. Stuttu síðar hélt Aron í pílagrímsferð til Jerúsalem en fékk síðan vist við hirð HákonarHákonarsonar, konungs í Björgvin. Þar var Aron hafður í hávegum, náði sáttum við Þórð kakala Sighvatsson og kom tvívegis til Íslands áður en hann lést á sjúkrabeði árið 1255.

Arons saga er nú aðeins varðveitt óheil í handritum en hún var ein heimilda A-gerðar Guðmundar sögu Arasonar biskups, sem sett var saman á árabilinu 1320−1340 að mati Stefáns Karlssonar. Í inngangi að útgáfu A-gerðarinnar gerir Stefán þó ráð fyrir að stuðst hafi verið við eldri gerð Arons sögu en nú er varðveitt. Frá Aroni segir ennfremur í Sturlunga sögu, einkum þeim hluta sem byggir á Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar, en einnig kemur hann nokkuð við Þorgils sögu skarða, sem bætt var við safnið á 17. öld. Íslendinga saga Sturlu er að líkum elst þeirra varðveittu frásagna sem greina frá hlut Arons í umróti og deilum Sturlungaaldar og stendur næst þeim í tíma, talin rituð á efra aldri Sturlu sem lést árið 1284.

Arons saga í AM 551 d β 4to frá fyrri hluta 15. aldar. Af blaði 4r, línum 5−7, má lesa vísu Ólafs Þórðarsonar hvítaskálds um Aron og ferð hans til Jórsala (Jerúsalem). Vísuna er einnig að finna í Sturlungu og Guðmundar sögu A. Skinnbókarbrotið AM 551 d β 4to frá fyrri hluta 15. aldar er eina varðveitta miðaldahandrit Arons sögu og geymir nú síðasta þriðjung sögunnar. Brotið telur alls 8 blöð, á síðum 1r−6r er niðurlag Arons sögu en á síðum 6v−8v, er upphaf Þórðar sögu hreðu, sem einnig er óheil. Brotinu fylgir seðill með hendi Árna Magnússonar: „Af Arone Hiỏrleifs | syne fragment | Af Þordi Hredu (framanaf) | hefur vered eign Skal- | holltz kir kiu.“ Fyrir neðan stendur síðari viðbót frá Árna: „eda Mag. Bryniolfs helldr.“ Handritið sjálft gefur ekki margar vísbendingar um upprunastað sinn eða fyrri eigendur áður en það komst í eigu Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti. Bókfellið ber prýðilegu handbragði vitni, er hvorki yfirtaks þykkt né stíft og flest blaðanna ágætlega sveigjanleg. Skriftin er að sama skapi áferðarfalleg og skýr og virðist verk þjálfaðs skrifara.

Í handritaskrá Kålunds er AM 551 d β 4to talið frá því um 1400 en í skrá ONP er aldursmarkið fært til 1400−1450. Þar er tekið mið af skrifum Jonnu Louis-Jensen um konungasagnahandritið Hrokkinskinnu, GKS 1010 fol., sem hún álítur með sömu hendi og AM 551 d β 4to. Áður hafði Stefán Karlsson bent á að sama hönd og aðalhönd Hrokkinskinnu gæti verið á fornbréfinu AM Fasc. VIII, 7. Bréfið er ritað að Lögmannshlíð í Eyjafirði árið 1423 og er að efni til kvittun frá Ingibjörgu Loftsdóttur til handa Magnúsi Jónssyni, bónda á Grund í Eyjafirði, vegna kaupa Magnúsar á jörðinni. Auk þess segir Jonna sterk skriftarlíkindi við höndina á AM 162 H fol. sem inniheldur brot af Bárðar sögu Snæfellsáss, en fátt er vitað um uppruna eða feril þess handritsbrots.

Af spássíum Hrokkinskinnu lásu Jonna og Stefán nöfn nokkurra eigenda bókarinnar sem höfðu merkt sér hana frá fyrstu tíð, að því er þau töldu. Elstu greinina álitu þau vera á síðu 91v þar sem fram kemur að hústrú Ingunn eigi bókina og taldi Jonna litlum vafa undirorpið að það hafi verið Ingunn Arnardóttir, (líka sögð Árnadóttir) eiginkona Magnúsar Jónssonar, bónda á Grund, þess hins sama og kemur við sögu fornbréfsins AM Fasc. VIII, 7. Hafi sami skrifari er bréfið reit og vann fyrir Magnús Jónsson að gerð Hrokkinskinnu, einnig skrifað AM 551 d β 4to, er einmitt líklegt að hann hafi verið að störfum fyrstu áratugi 15. aldar og jafnvel fram til miðbiks hennar. Ekki er hægt að tengja AM 551 d β 4to við Grundarhjón með sama hætti og Hrokkinskinnu en trúlega hefur skrifarinn einnig sinnt fleiri verkbeiðendum á starfstíma sínum.

Sem fyrr segir tilheyrði AM 551 d β 4to safni Brynjólfs biskups á 17. öld og var bókin þá heilli, þótt týnst hefði innan úr Arons sögu á tveimur stöðum. Séra Jón Erlendsson í Villingaholti, einn skrifara Brynjólfs, afritaði skinnbókina einhvern tímann á árabilinu 1639−1665 (AM 212 fol.) og hafa allar síðari uppskriftir sögunnar verið taldar runnar frá afriti Jóns. Það er nú einnig óheilt og þarf þ.a.l. að leita fanga víðar í síðari alda handritum eftir texta skinnbókarinnar eins og hann var á 17. öld. Vigurbók, AM 426 fol., rituð á árabilinu 1670−1682 að undirlagi Magnúsar Jónssonar í Vigur, hefur jafnan verið höfð til hliðsjónar við útgáfu Arons sögu en textaeyðurnar tvær verið fylltar efni úr Guðmundarsögu A. Þá útgáfuhefð mótaði Guðbrandur Vigfússon sem gaf Arons sögu tvívegis út sem viðauka við útgáfu stærri verka, fyrst með Biskupasögum 1858 og síðan Sturlunga sögu 1878.

Alls eru nú 26 handrit Arons sögu þekkt í söfnum innan lands sem utan, auk eins útdráttar á dönsku, en skyldleiki þeirra hefur ekki enn verið kannaður til hlítar. Þau handrit sem tilheyra erlendum söfnum koma ýmist úr fórum innlendra eða erlendra fræðimanna en handritin sem varðveitt eru í Landsbókasafni–Háskólabókasafni benda til þess að sagan hafi tilheyrt þeim sagnasjóði sem miðlað var í uppskriftum hér á landi allt fram á 19. öld. Þar finnast einnig óbirtar rímur af Aroni, ortar af Guðrúnu Þórðardóttur (f. 1816) sem lengi var húsfreyja á Valshamri, en sá bær kemur við sögu Arons. Af handritakostinum að dæma er Arons saga bæði varðveitt sem viðfangsefni fræðimanna, einkum frá 17 öld, en einnig sem óheil saga í höndum skrifandi fólks sem miðlaði henni ásamt öðru efni í handritamenningu síðari alda.

Birt þann 1. mars 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Kålund, Kristian. 1889. Katalog over den arnamagnæanske handskriftsamling. I. bind. Udgivet af Komissionen for det arnamagnæanske legat. Kaupmannahöfn, Gyldendalske boghandel.

Louis-Jensen, Jonna. 1977. Kongesagastudier. Kompilationen Hulda-Hrokkinskinna. Bibliotheca Arnamagnæana. Vol. XXXII. C.A. Kaupmannahöfn, Reitzels boghandel A/S.

Ordbog over det norrøne prosasprog. Registre. 1989. Udgivet af Den arnamagnæanske komission, Kaupmannahöfn.

Porter, John. 1970–73. Some aspects of Arons saga Hjörleifssonar. Saga-Book XVIII:136–166.

Porter, John. 1993. Arons saga Hjõrleifssonar. Medieval Scandinavia. An Encyclopedia:21–22. Ritstj. Philip Pulsinano og Kirsten Wolf. New York, Garland.

Stefán Karlsson. 1963. Islandske originaldiplomer indtil 1450. Tekst. Editiones Arnamagnæanæ, Series A, vol. 7. Kaupmannahöfn, Munksgaard.

Stefán Karlsson. 1983. Inngangur. Guðmundar sögur biskups I. Editiones Arnamagnæanæ, Series B, vol. 6. bls. cxliv–clxviii. Kaupmannahöfn, C. A. Reitzels forlag.