Skip to main content

Pistlar

Í ástarbing: María og Jesúbarnið – Lbs 3013 8vo

Snemma í sögu kristindómsins tóku að myndast sagnir sem ætlað var að fylla inn í heldur fátæklegar frásagnir guðspjallanna af hinni heilögu fjölskyldu og bernskuárum Jesú. Um fæðingu og uppvöxt Maríu urðu til helgisögur sem komið var í íslenskan búning á 13. öld (Maríu saga) og sömuleiðis þekktu miðaldahöfundar okkar til rita sem sögðu frá bernsku Krists. Slíkar sagnir héldu áfram að höfða til fólks þótt aldir liðu. Í Danmörku var prentuð árið 1508 Jesu Barndoms Bog, texti sem einkum var byggður á þýsku miðaldakvæði og endursagði hinar gömlu sögur um Maríu, Jósef og Jesúbarnið.

Jesu Barndoms Bog var þýdd á íslensku, líklega á 17. öld, en þýðingin gekk ekki á þrykk hérlendis fremur en margt annað sem ritað var, heldur dreifðist í handritum. Kunnugt er um 14 varðveitt handrit sem geyma þýðinguna en þau geta vel verið fleiri. Hér verður drepið á eitt þeirra, Lbs 3013 8vo, sem skrifað var á 18. öld og ber þess merki að Íslendingar hafi verið tregir að segja alveg skilið við Maríudýrkun eftir siðbreytingu.

Barndómssagan myndar uppistöðuna í handritinu og er fyrirsögn hennar Barndómur Christi og uppruni Maríu. Textinn er nokkuð samhljóða texta elstu handrita sem geyma íslensku þýðinguna en eitt vekur þó athygli: Í sögunni eru jarteinir sem Jesúbarnið á að hafa gert á flótta hinnar heilögu fjölskyldu til Egyptalands. Í Lbs 3013 8vo hefur frásögninni af þessum kraftaverkum verið vikið þannig við, að ljóst er að jarteinirnar verða fyrir tilstilli Maríu sjálfrar en ekki sonar hennar. Því má segja að henni sé gert hærra undir höfði í þessu handriti en í danska frumtextanum.

Barndómssagan er ekki eina efnið í handritinu sem tengist Maríu því á eftir henni koma Maríutíðir, sérkennilegur texti með fornlegum blæ, ekki síst vegna þess hvernig latínuorðum er skotið inn í hann. Andstefið er eins konar útfærsla á Maríubæn kaþólsku kirkjunnar, auk þess sem fyrstu stafir hverrar línu mynda orðin Ave Maria:

 

Ave, helgasta mey María,
vegsamleg Ísraels gloria,
ertu full af guðlegri gratia,
mildur Drottinn býr og byggir í þinni anima.
Ávallt blessuð meðal allra kvenna femina,
ræsirs hæsta drottningin í himneskri curia,
ilmandi mey af mjúkri misericordia,
ástúðleg af ágætri clementia.

Á eftir Maríutíðum kemur annar Maríutexti, kvæðið Maríudilla sem ekki er vitað til þess að hafi varðveist annars staðar. Eins og heiti þess ber með sér er það eins konar vöggukvæði, lagt í munn Maríu, og hefst svona:

Barnið eitt með blíðu hóti
borið er nú í heim af mér,
elskulegt með öllu móti,
allir mega sjá það hér,
margur trúi ég þess maðurinn njóti,
mikinn sigur ber með sér.

Jesúm þetta barnið besta
ber ég fram með nafnið frítt,
sinni ferð vill ekki fresta
að ferðast út um heiminn vítt,
náðar gáfum gjörir að nesta
nóglega með geðið blítt.

Ver velkominn sveinninn ungi
ununarsamur á alla lund,
að þér var mér aldrei þungi
alla þína burðar stund,
sætlega sé dillan sungin
sómalegasta meyjar kund.

Hér er e.t.v. ekki sérlega rismikill skáldskapur á ferð en kvæðið ber þó með sér aðlaðandi innileika. Svona er lokaerindið:

Sofðu, minnis mætin þýða,
móðurinnar vellysting,
sofðu, heill og hjálpin lýða,
hæsta föðursins dýrðlegt þing,
sofðu, laus við krankan kvíða,
kær í mínum ástarbing.

Ekki er vitað hver skrifaði handritið en svo vel vill til að í bókinni eru vísbendingar um eigendur. Neðst á bl. 26r, í lok Barndómssögunnar, er þessi vísa:

Kærlega ég þakka þér,
það mér léðir þetta kver,
listavel því lynti mér,
líka nú og óskemmt er.

 
Undir skrifar: Indriði Eggertsson á Mýri, sem áreiðanlega er Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd en þar er Indriði árið 1801 skv. Manntali, þá 11 ára. Aftast í handritinu er nafnið Guðrún Teitsdóttir; hún var á Tyrðilmýri 1835, 64 ára ekkja, skv. Manntali. Þá virðist vera tvíbýli á Mýri, Guðrún er móðir annars bóndans (Þórðar Ólafssonar), en hinn er Jón Eggertsson, bróðir Indriða.

Handritið kom í Landsbókasafnið frá Jóni Gíslasyni rektor Verslunarskólans. Jón var ættaður af Suðurlandi en kona hans, Lea Eggertsdóttir, var aftur á móti ættuð vestan af fjörðum í báðar ættir. Langamma hennar í föðurætt, Margrét Þorsteinsdóttir f. 1810 var af Snæfjallaströnd og afi hennar og amma í móðurætt, Salóme Halldórsdóttir f. 1840 og Haraldur Halldórsson f. 1833 voru í Ögri og á Eyri í Skötufirði. Með þeim erum við komin aftur undir þann tíma sem handritið var á Snæfjallaströnd. Mér þykir því líklegast að handritið hafi verið í eigu Leu, en ekki Jóns, og að það hafi gengið kvenna á milli norður við Djúp (nema þegar Indriði litli Eggertsson fékk það lánað).

Birt þann 1. desember 2017
Síðast breytt 24. október 2023