Rímnahandrit gengu manna á milli á dögum rímnaskemmtana sem tíðkuðust á Íslandi um aldir. Mörg þeirra hafa varðveist til vorra daga en hafa lítið verið handleikin um langt skeið. Eitt þeirra er hið látlausa handrit AM 611 d 4to, sem geymir rímur eftir Kolbein Grímsson (um 1600‒1683), sem ýmist var kallaður jöklaraskáld eða jöklaskáld.
Handritið geymir einungis rímur sem Kolbeinn orti út frá Grettis sögu Ásmundarsonar og má ætla að það hafi verið notað af kvæðamönnum sem kváðu fyrir heimilisfólk á síðkvöldum á meðan aðra skemmtun var varla að hafa á bæjum landsins. Handritið er elsta handrit að þessum rímnabálki Kolbeins um Gretti og er talið vera frá tímabilinu 1658‒1700. Fimm yngri handrit sömu rímna hafa varðveist, eitt þeirra skrifað af Sighvati Grímssyni Borgfirðingi á 19. öld. Kolbeinn mun hafa lokið við að yrkja rímurnar árið 1658. Það kemur fram í vísu á öftustu blaðsíðu handritsins:
16 hundruð alda ár,
eru og standa 50 fleir,
átta fundin auk þess klár
yggir blanda hróð ei meir.
Upplýsingarnar um hvaða ár Kolbeinn orti rímurnar gefa vísbendingar um aldur skáldsins og á hvaða árabili hann mun hafa fæðst, en hann kveðst í rímunum vera „nær sextugs aldri“ á þeim tíma sem hann er að yrkja. Ekki er vitað hvort þetta handrit rímnanna hefur verið skrifað stuttu eða löngu eftir að Kolbeinn lauk við að yrkja rímurnar. En Kolbeinn þessi varð þjóðsagnapersóna og hafa sagnir af honum ratað í ýmis þjóðsagnasöfn. Frægasta sagan af Kolbeini tengist viðskiptum hans við Kölska en þeir munu hafa kveðist á um nótt á Þúfnabjargi á Snæfellsnesi. Þar bjargaði Kolbeinn sál sinni með því að kasta fram fyrriparti sem skrattinn réð ekki við að botna.
Handritið að Grettisrímum Kolbeins Grímssonar samanstendur af 32 pappírsblöðum. Það er þéttskrifað með mikið bundinni og smágerðri fljótaskrift sem teljast má nokkuð dæmigerð fyrir ritunartímann, þar sem fljótaskrift barst til Íslands frá Danmörku á fyrri hluta 17. aldar. Alþýðumenn héldu almennt lengur í fornleg skriftareinkenni en skólagengnir menn og því koma fornleg einkenni eins og engilsaxneskt f og eldri gerð af æ ekki á óvart á blöðum handritsins.
Rímur Kolbeins eru að mörgu leyti góður fulltrúi fyrir 17. öldina og í þeim má merkja tískustrauma þessa tíma. Sem dæmi um nýsköpun skáldsins má nefna nýjan rímnahátt sem Kolbeinn bjó til og nefndi eftir sér kolbeinslag. Hann fól einnig nafn sitt í einu erindi rímnanna (bl. 32r) og má strax kenna þar kol í myndinni sem brugðið er upp í fyrstu vísuorðunum:
Glæða leifa safn um síð
sjáðu grefur þjóð í láð,
flæða sveifar blaktan blíð
báðum gefur skautum gráð.
Annað sem komst í hámæli í rímnagerð á þeim tíma sem Kolbeinn var mikilsvirkt skáld var að kveða eina vísu í rímu dýrar en aðrar. Þannig verða bragarhættir rímnaskáldsins fleiri en rímurnar ef gengið er út frá þeirri meginreglu að skipt sé um bragarhátt við upphaf nýrrar rímu í bálki. Slíkt erindi kemur fram í lok annarrar rímu Kolbeins um Gretti þegar hann víkur frá brag rímunnar og yrkir samhent, klifað:
Ef ljóða hlíðir þulum þjóð,
þjóð mun stríðum hafna móð,
móð af sníða fræðin fróð,
fróðir sníða lýðir óð.
Engar þekktar heimildir greina frá því hver verkbeiðandi Kolbeins var þegar hinar 20 rímur um Gretti voru ortar. Skáldið mærir þann mann hóflega og segir það hafa verið blíðan vin, sem bað hann um „að setja upp á sónar dyn / söguna af Gretter sterka.“ Þar sem vitað er að Brynjólfur Sveinsson biskup fór fram á að Kolbeinn setti saman rímurnar af Sveini Múkssyni, sem eru taldar vera frá miðri 17. öld, er hugsanlegt að hann sé einnig verkbeiðandi í tilfelli Grettisrímna. Íslendingasögur höfðu á þessum tíma aðeins í fá skipti verið nýttar sem efniviður í rímur. Þó eru til eldri Grettisrímur eftir óþekktan 15. aldar höfund. Á 17. öld verða Íslendingasögur algengari sem efniviður rímna og virðist Kolbeinn hafa lagt nokkuð til þeirrar tísku því einnig eru þekktar eftir hann rímur af Gunnari Hámundarsyni, einni helstu söguhetju Njálu. Þær rímur er talið að Kolbeinn hafi ort fyrir Magnús Jónsson, sýslumann Strandasýslu. Sá var stórauðugur jarðeigandi og bjó um tíma á Snæfellsnesi þar sem Kolbeinn ól manninn lengst af. Magnús var lögmaður á Alþingi er síðasti líflátsdómurinn fyrir galdur á Íslandi var kveðinn upp. Það er áhugavert því Kolbeinn Grímsson hafði orð á sér fyrir að vera kraftaskáld og búa þar með yfir einhvers konar galdri. Þeir verkbeiðendur sem vitað er um að hafi átt viðskipti við Kolbein Grímsson, valdsmenn á borð við biskup og sýslumann, hafa að líkindum ekki talið stafa nokkra ógn af þeirri fjölkynngi sem jöklaraskáldið kann að hafa búið yfir.
Síðast breytt 24. október 2023