Skip to main content

Pistlar

Riddarasögur frá Vestfjörðum – AM 593 4to

Handritið AM 593 4to er sagnahandrit frá síðari hluta 15. aldar, nú í tveimur hlutum sem merktir eru a og b. Samtals telja bækurnar núna 138 blöð en þegar handritið var heilt hafa blöðin verið fleiri, ef til vill um 172 blöð. Ein hönd er á handritinu en ekki er vitað hvað skrifarinn hét. Þó má tengja bókina við tiltekinn stað og tíma því að höndin sýnir náinn skyldleika við bréf sem ritað var í Neðra Hjarðardal í Dýrafirði 1459 og annað sem ritað var í Hvilft í Önundarfirði 1475. Einnig eru líkindi með sagnahandritinu AM 471 4to. Líklegt virðist að bæði handritin séu rituð á Vestfjörðum á þeim tíma sem bréfin benda til.

Á myndinni má sjá ýmis orð rituð með punktum þar sem við notum núna brodda, til dæmis 'brȧtt' í línu 3 (blað 3v, hluti af Viktors sögu og Blávus í handritinu). Þessi gögn frá Vestfjörðum eiga það sameiginlegt að nota víða punkta til að merkja löng (breið) sérhljóð. Fyrir málfræðinga er þetta mikilsverður vitnisburður því að handrit frá 15. öld gera almennt mjög lítið af því að greina löng sérhljóð frá stuttum. Á blaði 3r í AM 593 b 4to má til dæmis sjá þessi orð: <brȧtt>, <tȯk>, <dȯm>, <hėllde>, <ȧra>, <nė>.

Í AM 593 4to eru núna fjórar sögur, ekki allar heilar. Þær eru Mírmanns saga, Adónías saga, Viktors saga og Blávus og Sneglu-Halla þáttur. Samkvæmt hefðbundinni flokkun eru þrjár fyrstnefndu sögurnar riddarasögur en sú síðasta er flokkuð sem einn af þáttum konungasagnanna. Allar hafa þessar frásagnir helst verið hafðar til skemmtunar og afþreyingar.

Lengsta sagan í bókinni er Adónías saga en hún fjallar um borgarastríð í Sýrlandi sem einnig teygir anga sína til Spánar. Í landafræði riddarasagna er það ekki tiltökumál að flytja stóra heri þar á milli. Höfundur færist jafnan í aukana þegar kemur að bardagalýsingum og verða þær langar og litríkar. Í einni orrustulýsingunni er þessi skáldlegi kafli:

Nú verða mörg og mikil tíðindi á skammri stundu og ein af þeim þremur systrum sem örlögunum stýra fær nú eigi svo skjótt slitið örlögsþráðuna að hún þurfi nú eigi til þessa starfs fullting sinna systra. Og um síðir vinnst þeim varla að slíta utan jafnvel sem skjótast að skera því að margir deyja nú senn. Þá fellur annar er annar fær höggið, þá blæðir öðrum er annar fær bana, þá spröklar annar er annar sperrist, þá sæfist annar er annar er með öllu fullsæfður. Nú taka lík dauðra manna hvarvetna að hylja jörðina og djúpir dalir taka nú að fyllast með blóð. Jörðin hafnar nú sínum þorsta og gjörist svo sem ölóð af blóðinu. Örn og úlfur, hrafn og valur hafa svo nóg að eta og drekka, hold og blóð, að sakir fylli mega þeir varla burt komast af þeim sama velli. Og lá víða svo þykkt valurinn að varla mátti hestunum fram koma.

Hér munu það vera hinar grísku örlaganornir sem höfundur hefur í huga.

Á fyrsta blað handritsins hefur verið rituð lítil klausa með viðvaningslegri hendi og hefst hún svo: „Þessa bók þá átta eg að læra þá eg var að aldri 8 vetra gamall og var mér í fyrstu mjög þung.“ Algengast var að börn lærðu að lesa á lögbækur og varla hefur það verið auðveldara efni en riddarasögurnar sem hér eru. Og kannski hefur það hvatt nemandann til dáða að í Mírmanns sögu kemur fram að söguhetjan lærir að lesa af móður sinni 8 vetra gamall.

Haukur Þorgeirsson, maí 2018

Birt þann 1. maí 2018
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jónas Kristjánsson (útg.). 1964. Viktors saga ok Blávus. Riddarasögur II. Reykjavík: Handritastofnun Íslands.

Loth, Agnete (útg.). 1963. Late Medieval Icelandic Romances III. Jarlmanns saga ok HermannsAdonias sagaSigurðar saga fóts. Editiones Arnamagnæanæ B 22. Kaupmannahöfn: Munksgaard.

Slay, Desmond (útg.). 1997. Mírmanns saga. Editiones Arnamagnæanæ A 17. Kaupmannahöfn: Reitzel.