Bókmenntasaga Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, sem varðveitt er í handritinu KBAdd 3 fol., kemur út í lok maí hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í útgáfu Guðrúnar Ingólfsdóttur og Þórunnar Sigurðardóttur. Af því tilefni fjallar handritapistill maímánaðar um þetta handrit.
Safn til íslenskrar bókmenntasögu – KBAdd 3 fol.
Safn til íslenskrar bókmenntasögu er eftir Jón Ólafsson úr Grunnavík (1705−1779), fræðimann í Kaupmannahöfn. Jón ólst upp frá sjö ára aldri í Víðidalstungu í Húnaþingi hjá hjónunum Páli Vídalín lögmanni og Þorbjörgu Magnúsdóttur úr Vigur. Liðlega tvítugur að aldri fór hann til Kaupmannahafnar til að gerast skrifari Árna Magnússonar prófessors og handritasafnara. Meðfram starfi sínu hjá Árna stundaði Jón nám í guðfræði og lauk prófi vorið 1731. Hann starfaði þó alla tíð sem skrifari og fræðimaður, lengstum sem styrkþegi Árnanefndar, en dvaldi í nokkur ár á Íslandi um miðbik 18. aldar. Bókmenntasagan er eitt af ótalmörgum ritverkum Jóns sem varðveist hafa í handritum, en aðeins fáein hafa verið gefin út á prenti, flest þeirra á vegum félagsins Góðvinir Grunnavíkur-Jóns síðastliðna tvo áratugi eða svo.
Handritið að bókmenntasögu Jóns Ólafssonar er varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir safnmarkinu KBAdd 3 fol. Yfirskrift verksins er (stytt hér): Apparatus ad HISTORIAM LITERARIAM ISLANDICAM … Opus inchoatum Hafniæ Anno M.DCC.XXX.VIII. [ísl. þýðing: Safn til íslenskrar bókmenntasögu … Vinna hófst við verkið í Kaupmannahöfn 1738]. Tildrög þess að Jón hóf að safna efni til íslenskrar bókmenntasögu er líklega að einhverju leyti beiðni frá danska prestinum og bókmenntasöguritaranum Albert Thura um upplýsingar um íslenska rithöfunda, skáld og fræðimenn, en Thura hafði hugsað sér að semja sérstakt rit um íslenska höfunda. Hann hafði þá nýlega gefið út bókmenntasöguna Idea historiæ litterariæ Danorum, sem kom út 1723, en þar er lítið eitt um örfáa Íslendinga. Eins víst er þó að Jón hafi sjálfur haft í hyggju að semja slíkt rit enda komin hefð fyrir ritun bókmenntasagna í Evrópu og fyrirmyndir hafði hann einnig frá fóstra sínum Páli Vídalín, sem samdi ritið Recensus poetarum et scriptorum Islandorum hujus et superioris seculi (Skrá yfir íslensk skáld og rithöfunda þessarar og fyrri aldar) kringum aldamótin 1700, og læriföður sínum Árna Magnússyni sem hafði lengi viðað að sér gögnum til að skrifa um íslenskar bókmenntir. Jón tók saman rit á dönsku handa Thura sem ber titilinn Kort Under-retning om nogle Lærde Iss-lændere, deres Vitas og Scripta, sammenskrevet i Kiöbenhavn Anno Christi 1738. Þetta rit er meginhluti bókmenntasögunnar eins og hún liggur fyrir í handritinu. Thura entist ekki aldur til að koma þessu riti út en Jón hélt áfram að bæta við safn sitt næstu áratugi og þá á íslensku, en einnig eru margir póstar á latínu. Í ritinu er fjallað um liðlega 100 íslenska fræðimenn, skáld og rithöfunda, en mismikið um hvern. Jón miðar umfjöllun sína við tímabilin fyrir og eftir siðaskipti, þannig er kafli um rithöfunda fyrir lúthersku siðaskiptin og annar um höfunda eftir siðaskiptin. Þá eru listar yfir rektora latínuskólanna eftir siðaskiptin og biskupa, svo nokkuð sé nefnt. Aftast er svo kafli um íslenskar skáldkonur og lærdómskonur eftir siðaskiptin en bókmenntagreinin gynæceum (kvennaskrá) hafði verið vinsæl um hríð í Evrópu og fyrirmynd Jóns er eflaust kvennabókmenntasaga áðurnefnds Alberts Thura sem var prentuð 1732: Gynæceum Daniae Litteratum.
Heimildir Jóns eru af ýmsum toga, handrit og prentaðar bækur, munnmæli og greinargerðir frá samtímamönnum. Ósjaldan vitnar hann í áðurnefnd drög Árna Magnússonar að íslenskri bókmenntasögu, sem fóru forgörðum í brunanum í Höfn 1728, og einnig í áðurnefnt rithöfundatal fósturföður síns, Páls Vídalín lögmanns. Hann notar einnig útgefin rit eins og Series dynastarum et regum Daniæ eftir Þormóð Torfason (pr. í Höfn 1702) og Runir seu Danica literatura antiqvissima eftir Ole Worm (fyrst pr. í Höfn 1636) og fleiri rit.
Handritið er 205 blöð, nýlega tölusett með blýanti. Mörg laus blöð, seðlar og smápésar með viðbótum Jóns eru inni á milli og tölusett í samfellu við upprunalega handritið. Þá eru ókjör af utanmálsgreinum í handritinu sem höfundur hefur bætt við síðar. Með handritinu liggja auk þess ýmis fylgiskjöl, m.a. eiginhandarrit Steins Jónssonar biskups að sjálfsævisögu sinni og stutt uppkast Jóns Ólafssonar að bókmenntasögunni sem Jón Helgason gerir ráð fyrir að sé uppkast að dönsku ritsmíðinni sem Jón sendi Albert Thura.
Síðast breytt 24. október 2023