Handritið AM 395 fol. er þverhandarþykkt sagnahandrit skrifað á árunum 1760−1766 fyrir Jón Árnason (1727−1777), sýslumann á Ingjaldshóli.
Handritið er í upprunalegu alskinnsbandi, titill er framan á kápu og nafn eiganda með gyllingu. Aftan á kápu má sjá leifar af gyllingu sem virðist hafa verið skafin burt, en þó má þar grilla í orðin: Snæfells ness Sýslu Herads Rettar … aftasta orðið er torlesið. Í handritinu sjálfu eru svo laglega skreyttir upphafsstafir og titlar, og sumstaðar glitrar á blekið í titlunum, eins og glimmer væri ísett í blekið. Líklegast er þetta glitur þó aðeins vegna aldurs bleksins og efnasamsetningar þess. Jón Árnason sýslumaður er sagður hafa verið „hinn mesti skartmaður“ og ber handritið vitni um skrautgirni hans, sem og áhuga á sögum.
Handritið er blaðsíðumerkt frá bls. 5−780, en þar sleppir blaðsíðumerkingum. Handritið telur þó alls 980 blaðsíður. Það hefur einnig verið blaðmerkt síðar með blýanti, og þar sem blaðsíðumerkingum skrifara sleppir hefur viðeigandi tölum verið bætt við með blýanti. Fremri hluta handritsins (bls. 5−350) hefur Þorkell Sigurðsson, bóndi á Hömrum í Hraunhreppi, skrifað. Ekki er vitað hver skrifaði aftari hluta handritsins (bls. 353−979) en hann er þó allur með einni hendi. Þó nokkuð er um eyður í handritinu, til dæmis þar sem skilið er á milli fyrri og síðari hluta handritsins, en einnig innan sagna þar sem vantað hefur í textann. Þá eru eyður einnig skildar eftir fyrir skreytta upphafsstafi, og á einum stað má sjá tvær eyður þar sem klárlega er gert ráð fyrir myndskreytingu. Til þess kom þó aldrei að fyllt væri í þessar eyður.
Handritið inniheldur Íslendingasögur, fornaldarsögur og riddarasögur, alls 23 sögur. Handritið ber með sér að vera samsett, því röð sagnanna í handritinu fer ekki eftir ritunartíma. Aftan við Svarfdæla sögu, sem er þriðja sagan í handritinu, stendur: „Framanskrifuð saga var 1764 svoleiðis sem sjálf sýnir, skrifuð á vart 4 dögum af ÞS“. Aftan við Vopnfirðinga sögu, sem er sú áttunda í handritinu, stendur: „Þessi saga og næsti þáttur framan hana, eru skrifuð eftir manuscripto Séra Jóns Halldórssonar (hálærðs manns) prófasts, að Hítardal – og enduð á Ökrum d. 21sta Martii 1762 af ÞSigurðssyni.“ Hér er átt við Vopnfirðinga sögu og Brandkrossa þátt. Sögurnar eru þó með sömu hendi og nokkuð ljóst að Þorkell Sigurðsson hefur skrifað þær allar, en hann virðist hafa unnið að uppskriftum þeirra yfir þó nokkurt skeið, með hléum. Engar dagsetningar eða ártöl er að finna á síðari hluta handritsins, en þó virðist ljóst að sá hluti hefur verið skráður um svipað leyti og hinn fyrri, þar sem spássíumerkingar í handritinu eru með sama móti í báðum hlutum þess. Vísur innan sagna í seinni hluta handritsins eru skrifaðar með annarri hendi en aðaltexti þeirra sagna, en sú hönd er keimlík þeirri á fyrri hlutanum. Þá hefur handritið verið bundið inn fljótlega eftir að skriftum lauk, því utan á kápunni er ártalið 1766.
Upphaf Hrómundar sögu Gripssonar: „Sagann af Hromunde Greipssyne“. Ljósm. Jóhanna Ólafsdóttir. Einna áhugaverðast við handritið AM 395 fol. er tilraun sem gerð er aftast í handritinu til að flokka sögurnar eftir sannleiksgildi. Þar hefur textum handritsins verið skipt upp í þrjá hluta og eru sögurnar ekki listaðar í þeirri röð sem þær birtast heldur er þeim endurraðað til að endurspegla sannleiksgildi þeirra. Fyrsti flokkur er sagður innihalda sannar sögur en í þeim hluta eru listaðar upp Íslendingasögurnar Ljósvetninga saga, Valla-Ljóts saga, Svarfdæla saga, Flóamanna saga, Gunnars saga Keldugnúpsfífls, Finnboga saga ramma, Brandkrossa þáttur og Vopnfirðinga saga. Í fyrsta flokknum eru sögurnar taldar upp í þeirri röð sem þær koma fyrir í handritinu. Það er einmitt þessi hluti handritsins sem Þorkell Sigurðsson mun hafa skráð. Annar flokkur er sagður innihalda sögur sem eru blandaðar, bæði sannar og lognar, en allar eiga þær það sammerkt að teljast til fornaldarsagna nú á dögum. Í þeim flokki eru listaðar upp: Hrómundar saga Gripssonar, Áns saga bogsveigis, Bragða-Ölvis saga, Hálfdanar saga Eysteinssonar, Friðþjófs saga frækna og Hervarar saga og Heiðreks. Sögurnar í öðrum og þriðja flokki eru ekki taldar upp í þeirri röð sem þær birtast í handritinu, svo ljóst er að skrifari hefur raðað þeim eftir flokkunarkerfi sínu. Þriðja flokk sagna nefnir skrifari lygasögur en í þeim flokki telur hann upp: Mírmanns sögu, Kirjalax sögu, Elís sögu og Rósamundu, Fertrams sögu og Plató, Úlfs sögu Uggasonar, Ála flekks sögu, Clarus sögu, Parcevals sögu og Ívens sögu. Aftast er svo registur, eða efnisyfirlit, yfir allar sögur handritsins þar sem sögurnar eru taldar upp í þeirri röð sem þær koma fyrir í handritinu.
Jón Árnason sýslumaður réð til sín skrifara og lét þá skrifa upp fyrir sig bækur. Hann var líka ötull rímnasafnari og gaf út bókina Historisk Indledning til den gamle og nye isl. Rettergang árið 1762 í Kaupmannahöfn. Jón var mikill áhugamaður um bókmenntir, „hann átti talsvert bóka- og handritasafn“, en eftir andlát hans endaði safnið á uppboði í Kaupmannahöfn, þann 4. janúar 1779, þar sem Jón sýslumaður hafði safnað upp miklum skuldum fyrir andlát sitt. Á uppboðinu var handritið AM 395 fol. selt á 3 ríkisdali. Síðar eignaðist Birgir Thorlacius (1775−1829) prófessor handritið og frá honum virðist það hafa ratað til Det Kongelige Nordiske Oldskrift-Selskab. Þá eignaðist Árnasafn í Kaupmannahöfn handritið árið 1883 og að lokum fékk Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi handritið afhent þann 24. nóvember 1994.
Síðast breytt 24. október 2023