Skip to main content

Pistlar

Stækkum Íðorðabankann

Fjölmargar orðanefndir og áhugasamir einstaklingar hafa lagt mikið af mörkum til þess að efla íslenskan orða- og hugtakaforða á ýmsum fræði- og starfsgreinasviðum með því að taka saman íðorðasöfn og birt þau í Íðorðabankanum. Slíkt er gríðarlega mikilvægt til að íslenska dafni sem tungumál og hægt verði að nota hana á öllum sviðum samfélagsins. Enn vantar þó íðorðasöfn á ýmsum sviðum, t.d. í efnafræði og heimspeki.

Upphaf

Útstöð frá því um 1980. Lítill skjár í þykkri plastumgjörð með áföstu lyklaborði.
Útstöð frá því um 1980
Wikimedia Commons

Hugmyndin um íslenskan íðorðabanka kom fyrst fram á fundi Íslenskrar málnefndar með orðanefndum í nóvember 1979 og ári síðar var skipuð undirbúningsnefnd til að kanna leiðir til að koma íðorðabankanum á fót. Markmiðið með honum var að auðvelda aðgang að sérfræðilegum og starfsbundnum orðum og heitum sem getur verið erfitt að finna í prentuðum bókum. Á þessum tíma var internetvæðing Íslands ekki hafin og menn hugsuðu sér að íðorðabankinn yrði geymdur í miðlægri tölvu með aðgangi í gegnum útstöðvar.

Opnun 1997

Allt frá árinu 1979 var hugmyndinni um íðorðabankann haldið vakandi og hugað var að gerð hans með hléum allar götur síðan. Stórstígar framfarir í tölvutækni, svo sem tilkoma Internetsins, og myndarlegir styrkir úr Lýðveldissjóði 1995 og Málræktarsjóði 1996 gerðu loks kleift að hrinda verkefninu í framkvæmd og langþráðu markmiði var náð 15. nóvember 1997 þegar íðorðabankinn var opnaður. Hann kallaðist þá Orðabanki Íslenskrar málstöðvar en Íslensk málstöð var skrifstofa og framkvæmdastofnun Íslenskrar málnefndar. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók við rekstri íðorðabankans 1. september 2006.

Árið 2019 var heiti íðorðabankans breytt í Íðorðabankinn og fékk hann þá einnig nýtt veffang: idord.arnastofnun.is.

Lýsing og notkun

Skjáskot af leit í Íðorðabankanum. Leitarorðið er „askja“.

Íðorðabankinn er safn um 70 íðorðasafna á fjölbreyttum efnissviðum sem orðanefndir eða einstaklingar hafa tekið saman. Flest íðorðasöfnin eru tvímála (íslensk/ensk) en sum eru margmála (með 3–11 tungumál). Skilgreiningar eru skráðar í um helmingi íðorðasafnanna.

Unnt er að leita í öllum söfnum Íðorðabankans í einu og án þess að velja leitarmál. Í niðurstöðulista má síðan sía eftir einstökum orðasöfnum og raða eftir tungumálum. Notendur geta þannig smellt á orðasafnshnapp og einskorðað sig þannig við það safn. Í niðurstöðulista getur notandi valið á milli þess að fá knappan lista með grunnupplýsingum sem sýnir meira á skjánum eða ítarlegri lista þar sem auknar upplýsingar um hvert hugtak sjást.

Tveir meginhlutar

Reitir á bakenda Íðorðabankans. Búið er að skrá orðið „járnskortsblóðleysi“.

Íðorðabankinn hefur tvo meginhluta. Annars vegar er svokallaður birtingarhluti sem er hinn sýnilegi íðorðabanki sem almennir notendur geta haft lesaðgang að á vefsíðunni idord.arnastofnun.is. Þar má finna bæði íslensk og erlend íðorð og fá aðrar þær upplýsingar sem skráðar hafa verið um flettiorðin.  

Hinn meginhluti Íðorðabankans er svokallaður vinnsluhluti sem er skráningarkerfi eða sérhæfður hugbúnaður til þess að semja orðasöfn og halda þeim við. Ritstjórar íðorðasafna, sem vilja birta efni sitt í Íðorðabankanum, geta fengið aðgang að skráningarkerfinu. Vinnsluhlutinn skiptist í mismunandi svæði sem hvert og eitt tilheyrir ritstjóra tiltekins íðorðasafns og engir aðrir hafa aðgang að. Þegar vinnu við íðorðasafn lýkur er það flutt yfir í birtingarhlutann. Einnig er hægt að birta einstaka hluta íðorðasafna þegar þeir eru tilbúnir.

Viltu leggja inn í Íðorðabankann?

Við viljum stækka Íðorðabankann og höfum áhuga á að komast í samband við fleiri sérfræðinga á efnissviðum sem vantar í Íðorðabankann. Framar var nefnt að það vantaði til að mynda orðasöfn yfir mikilvæg svið eins og heimspeki og efnafræði. Dæmi um önnur svið, sem vantar orðasöfn yfir, eru bókmenntafræði, ferðamálafræði, félagsráðgjöf, fjölmiðlafræði, kvikmyndafræði, matvælafræði og næringarfræði.

Ef þið eigið í fórum ykkar óbirt íðorðasafn eða hafið ábendingu um efnissvið sem vantar í Íðorðabankann þá megið þið gjarna hafa samband við Ágústu Þorbergsdóttur ritstjóra Íðorðabankans (agusta.thorbergsdottir@arnastofnun.is). Við veitum fúslega ráðgjöf við stofnun orðanefnda og aðstoð við að hefja starfið.

Birt þann 21. nóvember 2022
Síðast breytt 24. október 2023