Skip to main content

Pistlar

Örnefni í nærumhverfi og kvæðum Jónasar Hallgrímssonar

Í tilefni af degi íslenskrar tungu 16. nóvember 2022 fjallar pistill nafnfræðisviðs að þessu sinni um örnefni í nærumhverfi og kvæðum Jónasar Hallgrímssonar. Áherslan er á tvennt. Í fyrsta lagi verður stiklað á stóru um örnefnin sem koma fyrir á þeim jörðum og stöðum á Íslandi þar sem Jónas átti heima. Í öðru lagi verður kynnt örverkefni sem höfundur pistilsins vann sem framlag til dags íslenskrar tungu og lék sér að því að kortleggja örnefni sem koma fyrir í kvæðum Jónasar. 

Jónas fæddist árið 1807 að Hrauni í Öxnadal en átti aðeins heima þar í stuttan tíma. Um örnefni Hrauns segir Bjarni E. Guðleifsson: „Líklega er rétt að segja að jörðin Hraun sé ekki mjög örnefnarík. Sérstaklega kemur það á óvart að ekki skuli vera fleiri örnefni í Drangafjallinu. Sennilega eru mjög forn örnefni glötuð og á Hraun það sameiginlegt með mörgum bújörðum á Íslandi“ (Hraun í Öxnadal, bls. 81). Þorri skráðra örnefna er reyndar frekar áberandi í öllum örnefnalýsingum sem eru varðveittar yfir jarðir þar sem Jónas átti tengsl. Engu að síður skrifar Margeir Jónsson í örnefnaskrá yfir Bakka, Háls, Hraun og Auðni að „Hraun í Öxnadal verður ógleymanlegur staður, meðan nafn Jónasar Hallgrímssonar lifir í minni íslenzku þjóðarinnar“ (bls. 8). Í þessari skrá, sem líklega er sett saman um 1940, kemur einnig fram að Hraun hét til forna Vatnsá „en ekki er vitað, hvenær nafnabreyting hefur átt sér stað á jörðinni, en tæplega er um að villast, að Hraun og Vatnsá er sama býlið, því að svo hefur ávallt verið talið, það sem elztu menn muna“ (bls. 2, sjá nánar bls. 6–7). Aðra (og yngri) skrá eftir Jóhannes Óla Sæmundsson yfir örnefni Hrauns má lesa hér.

Árið 1808 fluttist fjölskyldan að Steinsstöðum í Öxnadal og sá bær varð æskuheimili Jónasar. Hvað Steinsstaði varðar eru heldur ekki mörg örnefni skráð, eða rúmlega 30, og örnefnalýsingin er einungis til í frumriti í örnefnasafni Árnastofnunar. Þessi skrá var gerð af Margeiri Jónssyni árið 1935 eftir munnlegri frásögn Brynjólfs bónda Sveinssonar á Steinsstöðum, en einnig með tilliti til annars handrits. Líklegt er að nokkur nöfn meðal þeirra sem skráð eru hafi verið þekkt á tíma Jónasar og fjölskyldu hans. Eitt nafn er eftirminnilegt og það er Inguskeið sem er nafn á klettabandi í fjallinu ofan við fjallsræturnar sem varð til „einhverntíma í gamla daga“ þegar smalastúlka, sem Inga hét, hrapaði til bana fram af klettinum. Eftir það þótti reimt á Inguskeið.

Fimm, gömul, handskrifuð skjöl.
Örnefnalýsing yfir Steinsstaði í Öxnadal
Örnefnasafn Árnastofnunar

Eftir að faðir Jónasar drukknaði í Hraunsvatni árið 1816 var Jónas sendur í fóstur að Hvassafelli, þar sem móðursystir hans bjó, og var þar líklega fram að hausti 1820. Margeir Jónsson skráði örnefni Hvassafells árið 1938 og í þeirri skrá koma fyrir um 30 örnefni. Nokkur örnefni til viðbótar er að finna í bókinni Örnefni í Saurbæjarhreppi sem Angantýr Hjörvar Hjálmarsson og Pálmi Kristjánsson gáfu út árið 1957. Eitt þeirra, Tómasarhagi, leiðir huga manns að kvæði Jónasar ‚Tindrar úr Tungnajökli‘ – en eins og kom í ljós við vinnu verkefnisins og kortlagningu örnefna er það víst annar Tómasarhagi sem er nefndur í ljóðinu.

Vetrarmisserin 1821–1823 var Jónas í heimaskóla í Goðdölum í Vesturdal í Skagafirði. Örnefnalýsingin fyrir Goðdali eftir Margeir Jónsson inniheldur rúmlega 100 örnefni. Flest eru lýsandi (Breiðamýri, Einstigur, Háakinn, Jaðargil, Skjólhvammur) en inn á milli leynast sögur af fólki og öðrum verum: Geirheildarstígur er t.d. „árgljúfrið þrengst“ þar sem „Tröllkona með því nafni á að hafa stigið þar yfir gilið“. Síðan varð Jónas, eins og þekkt er, skólapiltur í Lærða skólanum á Bessastöðum árið 1823 allt þar til hann útskrifaðist árið 1829, en skemmtileg skrá yfir Bessastaðanöfn og kennileiti sem Kristján Eldjárn setti saman árið 1973 er að finna hér.

Einnig ferðaðist Jónas mikið, ekki síst vegna vísindastarfa sinna, og þekkti því vel til landslags og staðhátta á Íslandi. Hann notaði íslensk örnefni í ljóðum sínum á minnistæknilegan (e. mnemonic) og tilfinningaþrunginn hátt (eins og var fjallað um hér, sjá einnig Svein Yngva Egilsson, Náttúra ljóðsins. Umhverfi íslenskra skálda, bls. 21–22). Það væri ansi skemmtilegt og fróðlegt að geta séð á einu korti dreifingu allra staða sem Jónas kom á og lýsti í skrifum sínum. Það verkefni bíður betri tíma en hér er þó byrjun þar sem sjá má á korti örnefni sem koma fyrir í ljóðasafninu Annes og eyjar ásamt nokkrum öðrum kvæðum:

Á kortinu má sjá staðanöfn sem koma fyrir í ljóðunum og hefur hvert ljóð sinn lit og tákn. Ef smellt er á staði á kortinu birtast m.a. örnefni, nafn ljóðs, hnit og hlekkur á texta kvæðisins á vefsíðu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns um Jónas Hallgrímsson. Vinstra megin í glugganum er yfirlitsmynd þar sem velja má ljóð og birtast þá hlekkir á öll örnefni sem þar koma fyrir. Gjörið svo vel og til hamingju með daginn.

Birt þann 3. nóvember 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Bjarni E. Guðleifsson. Hraun í Öxnadal. Fólkvangur. Reykjavík: Hólar, 2014.

Sveinn Yngvi Egilsson, Náttúra ljóðsins. Umhverfi íslenskra skálda. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2014.  

Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, 4 bindi. Ritstjórar: Haukur Hannesson, Páll Valsson, Sveinn Yngvi Egilsson. Reykjavík: Svart á hvítu, 1989.