Skip to main content

Pistlar

Örnefni í Stíflu: landslag undir lóni

Uppistöðulón. Nær okkur er moldarbakki, fjær eru grasi vaxin fell hulin skýjum í toppinn.
Horft yfir lónið (Stífluvatn) til suðurs.
Birna Lárusdóttir

Flestar vatnsaflsvirkjanir umbylta landslagi á tiltölulega skömmum tíma með uppistöðulónum sem þekja oft stór landsvæði. Sú var raunin norður í Stíflu í Fljótum á árum síðari heimsstyrjaldar þegar stífla var reist í Fljótaá, nánar tiltekið í svonefndum Stífluhólum. Tekið skal fram að hvorki sveitin né hólarnir drógu nafn sitt af þessari manngerðu stíflu heldur höfðu þeir heitið svo frá ómunatíð, eftir því sem best er vitað. Ekki skal fullyrt hvort örnefnið örvaði menn til framkvæmda, en á þessum tíma var mikill uppgangur á Siglufirði og þörf fyrir rafmagn jókst með hverjum drekkhlöðnum síldarbátnum sem lagði að bryggju. Stífla hentaði einkar vel til stíflugerðar, en Stífluhólarnir eru gömul skriða sem lokaði mynni dalsins að stóru leyti og Fljótaá rann þar í þrengslum og myndaði foss, Skeiðsfoss. En framkvæmdin var ekki án fórna og ört hækkaði í lóninu eftir að stíflan var reist. Ár, lækir og vötn í botni dalsins flæddu yfir bakka sína og smám saman hvarf gamalkunnugt landslag undir lón: rennisléttur dalbotn, tún og fagrar engjar með blátærum ám og vötnum. Eftir stóðu rótslitnir bæir á bakka lónsins, en þeir voru alls níu talsins og eru nú allir komnir í eyði fyrir löngu.

Árið 1983 birtist merkileg umfjöllun í öðru bindi Grímnis, tímariti Örnefnastofnunar, um örnefnin sem fóru undir vatn þegar virkjað var. Byggt var á uppdrætti sem Páll Sigurðsson gerði fyrir stofnunina, en hann bjó í Stíflu um áratuga skeið. Í huga Þórhalls Vilmundarsonar, sem ritar greinargerð með kortinu, var skráning örnefna í þessu samhengi nátengd náttúruvernd. Hann telur að koma ætti í veg fyrir að staðir sem beri athyglisverð örnefni séu skemmdir að ástæðulausu en ella eigi að skrá og staðsetja örnefni á svæðum sem fyrirsjáanlegt er að verði spillt. Í lónsstæðinu í Stíflu bera örnefnin með sér að þar var hjarta blómlegrar sveitar – hagar og slægjulönd sem bæirnir skipuðu sér í kringum. Ýmiss konar fyrirbæri sem nú eru á botni lónsins báru nöfn sem mörg hver eru til vitnis um eðli svæðisins, en það var að stóru leyti votlendi (t.d. Útmýrar og Hringsflói). Sum nöfnin gefa til kynna umfang slægjulanda (Hamarsdagslátta, Þriggjadagasláttur) auk þess sem bakkar á horfnum vatnsföllum höfðu margir nöfn (Ytribakkar, Skriðubakki, Bakki) og fleiri má finna sem tengjast landslagi sem mótaðist af lækjum og tjörnum (Austuráll, Laufskálanes, Lambatangi). Þar eru einnig heiti á mannvirkjum sem hurfu í dýpið (Völugarður, Melbreiðarstekkur, Draugatóft). Austan við mitt lón var líka Einbúi, meintur haugur þræls Nafar-Helga sem var landnámsmaður í Fljótum.

Svart/hvítt kort yfir dal. Örnefni eru merkt á kortið
Örnefni á svæðinu sem fór undir lón í Stíflu.
Grímnir, 2. hefti.

Nöfnin fela í sér ýmiss konar gildi og draga upp annars konar mynd af landslagi en fengist með hlutlægum lýsingum á náttúrufyrirbærum eða gróðurfari. Náttúruverndartenging Þórhalls er áhugaverð og vekur upp ýmsar spurningar sem virðast ekki síður eiga við nú en þegar kortið var gert. Hvað verður um örnefni þegar miklar landbreytingar eiga sér stað og hvers virði eru þau í raun og veru? Hver er munurinn á því að upplifa örnefni á sínum stað og vera staddur í því landslagi sem þau tilheyra, eða að lesa þau af korti eða úr örnefnalýsingu? Síðan virkjað var í Stíflu hafa margar vatnsaflsvirkjanir litið dagsins ljós hér á landi og dæmi eru um að örnefni hafi verið kortlögð sérstaklega fyrir slíkar framkvæmdir – til dæmis á landsvæðinu sem fór undir Hálslón ofan Kárahnjúka.

Birt þann 14. ágúst 2023
Síðast breytt 24. október 2023