Margir þekkja örnefnasafnið sem er varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og var gert aðgengilegt að stórum hluta á vefsíðunni nafnið.is í árslok 2020. Það er afrakstur umfangsmikillar söfnunar sem átti sér að miklu leyti stað á árunum 1930–1970 á vegum Hins íslenska fornleifafélags, Þjóðminjasafns og ungmennafélaga og í kjölfarið vinnu starfsmanna Örnefnastofnunar við að bæta og auka fyrirliggjandi gögn í samvinnu við heimildarmenn um land allt. Langflestar örnefnalýsingar hafa verið vélritaðar upp á býsna staðlað form. Þær eru yfirleitt heildstæðar og ítarlegar lýsingar á landsháttum sem örnefnin eru fléttuð inn í og geyma þannig ekki aðeins upplýsingar um örnefni heldur einnig margvíslegt samhengi þeirra í tíma, rúmi og tengslaneti mannfólksins. En fleira leynist í skúmaskotum skjalaskápanna. Í grunngögnum safnsins, sem nýlega voru yfirfarin vegna fyrirhugaðra flutninga í ný húsakynni stofnunarinnar, eru varðveitt ýmiss konar skjöl og handrit sem liggja safninu til grundvallar og gefa færi á að ígrunda betur einkenni þess og komast í meira návígi við safnara og heimildarmenn. Oft fæst þar skemmtileg og óvænt innsýn í efnismenningu og framgang söfnunarinnar og sömuleiðis má finna þar upplýsingar sem hafa ekki ratað í opinberu gögnin, enda hafa þau tæpast þótt eiga heima þar. Hér verða gefin örfá dæmi úr þessum hluta safnsins.
Samskipti við bændur
Margar lýsingar í safninu hafa borist frá heimildarmönnum, stundum eftir krókaleiðum, en oft voru örnefnasafnarar líka á ferð um sveitir og bönkuðu þá upp á á hverjum bæ. Eins og nærri má geta gekk söfnunarstarfið ekki alltaf hnökralaust fyrir sig. Stundum gekk illa að ná í heimildarmenn, sumir lofuðu öllu fögru en „sviku“ þegar til kom eða voru einfaldlega of uppteknir við bústörf, til dæmis bóndi nokkur norður í Grýtubakkahreppi sem gat ekki gefið sér tíma í örnefnaspjall því hann þurfti að passa að kýrnar hlypu ekki á rafmagnslínu sem verið var að leggja. Ósjaldan þurfti að ganga á eftir fólki til að ná upplýsingum og biðst Ari Gíslason, einn afkastamesti örnefnasafnarinn, til að mynda afsökunar á lélegum heimtum á bæ einum í Skorradalshreppi og segir að þar sé líklega allt brenglað „þó ekki sé það mér að kenna, ég hef aldrei verið yfirsetukona og kann ekki að taka með töngum“. Á öðrum bæ í sömu sveit þótti honum hins vegar nóg um áhuga heimilisfólksins sem umkringdi hann og gjammaði hvað ofan í annað. Þannig gat það verið: ýmist í ökkla eða eyra. Jóhann Hjaltason, sem safnaði örnefnum víða á Vestfjörðum, greinir í skjali einu lítillega frá starfi sínu á Langadalsströnd á árunum milli 1930 og 1940, en þar sýndi einn viðmælandi hans örnefnum mjög takmarkaðan áhuga en vildi helst ræða erlend málefni, enda var hann víðlesinn í norskum og dönskum dagblöðum. Taldi Jóhann að aðeins hefði um 1/8 af örnefnum á jörðinni skilað sér í skrána, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hans til að beina bóndanum á rétta braut.
Nefna má annars konar sýnishorn af forvitnilegum grunngögnum safnsins, þ.e. athugasemdir með örnefnalýsingum til viðtakenda á Örnefnastofnun. Ein slík hefur borist frá Steinólfi Lárussyni í Fagradal á Skarðsströnd sem biðst velvirðingar á útganginum á blöðunum sem hann sendi en „hvolpur náði í bréfið á meðan ég var að bíða eftir póstinum og reif allt sundur“. Hitt er blað frá Jónasi Jóhannssyni á Valþúfu sem lofar að reyna að „pína út úr körlum nokkur örnefni“, þ.e. ef hann haldi sjón.
Gögn með ýmsu lagi
Eins og gefur að skilja hafa ekki allir sem skrifuðu upp örnefni átt kost á góðum pappír. Dæmi eru um að örnefnalýsingar hafi verið páraðar í stílabækur sem innihalda líka annars konar efni, t.d. markaskrár og upplýsingar um fallþunga lamba að hausti. Örnefni hafa sömuleiðis verið hripuð aftan á aðgöngumiða á kvöldvöku í Sjálfstæðishúsinu. Kápublaði úr kveri með gamanrímum eftir Stephan G. (útg. 1914) hefur líka verið fórnað á altari örnefnasöfnunar, svo dæmi séu nefnd.
Að lokum má nefna skemmtilegt handrit að örnefnalýsingu, frá Skjaldabjarnarvík sem er nyrsti bær í Árneshreppi á Ströndum. Hún er ekki orðmörg en þó þrungin merkingu þegar rýnt er í frumhandritið – þótt það bæti í sjálfu sér engu við textann sem var fyrir löngu skrifaður upp og má lesa hér. Þar dregur Jóhanna Hallvarðsdóttir (f. 1895) fram úr stopulu minni örnefni úr æsku sinni, en hún fluttist burt úr sveitinni 10 ára gömul. Ritað er skjálfandi hendi með rauðum penna en aðeins fá orð í hverja línu og víða bil á milli svo að hrynjandin verður með allt öðrum hætti en þegar vélritaða útgáfan er lesin – næstum eins og ljóð:
Norður Tún
Stólpalækur með smiðju-
mó og leir, börnin
bjuggu brauð úr
Áarvík Nordalsá
Grindarhorn og Blettur
Yst undir Geirhólms gnúp
alt með sjó ...
o.s.frv.
Þessi ríkulegu gögn bíða frekari athugunar, en ljóst er að þau geta varpað margvíslegu ljósi á tilurð örnefnalýsinganna sem oft eiga sér flókinn bakgrunn.
Myndir: Birna Lárusdóttir
Síðast breytt 24. október 2023