Flutningur Árnastofnunar og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands í Eddu, Arngrímsgötu 5 í Reykjavík, markar vatnaskil. Þetta er gífurlega spennandi og fersk byrjun fyrir stofnunina og tækifæri til að móta nýja framtíð. Við erum loks öll undir einu þaki eftir mörg ár dreifð á mismunandi starfsstöðvar.
Nafn hússins var valið úr fjölmörgum tillögum sem fólk sendi inn í nafnasamkeppni. Í nýjum byggingum hefur það tíðkast að sækja við nafngiftir innblástur í heiti úr íslenskri náttúru, landslagskennileiti eða örnefni. Gott dæmi um þetta er Harpa þar sem salir voru nefndir Eldborg, Silfurberg, Norðurljós og Kaldalón og fundarherbergi Nes, Vík, Vör og Sund. Með einni undantekningu (sjá hér fyrir aftan). Í Eddu eru engin stofuheiti eða heiti á mismunandi rýmum eins og er: starfsfólk talar nú einfaldlega um um „fyrirlestrasalinn“, „bókasafnið“, „kaffistofuna“, „eldhúskrókinn“ o.s.frv. Óvíst er hvort standi til að gefa stofum og öðrum vinnurýmum í Eddu nöfn og e.t.v. munu framtíðarheiti þeirra spretta upp úr jarðvegi daglegra samskipta starfsfólks.
Starfsfólk Árnastofnunar sem flutti inn í Eddu var áður á þremur starfsstöðvum: Árnagarði við Suðurgötu (handritasvið, þjóðfræðisvið, stjórnsýsla), Laugavegi 13 (orðfræðisvið, nafnfræðisvið, málræktarsvið) og Þingholtsstræti 29 (alþjóðasvið og seinna máltækniteymið). Fá heiti á herbergjum eða rýmum voru í notkun hjá starfsfólki á Laugavegi enda var stofnunin þar til húsa í minna en áratug. Samt var talað þar um „Turninn“, „Emeritusherbergið“ og „Blöndalsherbergið“. Síðasta nafnið var e.t.v. áhugaverðast. Það vísaði í verkefni sem fór fram þar inni um að gera Íslenska-danska orðabók eftir Sigfús Blöndal og Björg Caritas Þorláksson aðgengilega á vef. Nafnið hélt sér eftir að verkefninu lauk.
Allt annað gildir um Árnagarð enda var saga stofnunarinnar þar miklu lengri og hefðir um vinnurými höfðu tíma til að skjóta rótum, a.m.k. innan hópsins. Talsverð breyting varð á notkun stofa og herbergja þar á þessum áratugum og þar af leiðandi á heiti þeirra: gamli sýningarsalurinn varð að öðrum lestrarsal eða vinnurými og gamla kaffistofa varð að skrifstofu. Þar að auki hefur fólk eðlilega komið og farið og skrifstofur því verið notaðar af mörgum ólíkum starfsmönnum í sumum tilfellum. Svanhildur Óskarsdóttir (2018:79–80) skrifaði grein um „árngerzk“ nöfn í kjallara Árnagarðs og ræðir þar um uppruna nafna á herbergjum, m.a. rýmis sem hét Tröllabotnar og annars sem var kallað Rúsínulagerinn. Á hæðinni fyrir ofan tíðkuðust m.a. heitin Hundakofinn (rými þar sem spjaldskrár voru) og Kvíaveggur (yfir hillur sem þjónuðu hlutverki skilrúms í lestrarsalnum), Drottningardyngja eða Skessuhorn (fyrir þann lestrarsal sem áður var sýningarsalur), Dvalarheimili aldraðra forstöðumanna, eða DAF (sbr. Dvalarheimili aldraðra sjómanna, DAS, og happdrætti þess sem auglýsti mikið á 8. og 9. áratugnum). Rýmið við hliðina á DAF var í stuttan tíma kallað Dvalarheimili ungra framsóknarmanna eða DUF. Skrifstofur á efri og neðri hæðum hétu m.a. Grettisbæli (seinna Stafkrókur), Saurbær (seinna Kálundur eða K-lundur og síðast Kvæðakrókur) og Vindheimar (gangurinn fyrir framan var þá kallaður Vindheimamelar). Eina nafnið sem enn sem komið er hefur færst yfir götuna í Eddu er Málstofa – nafn á stærsta fundarherbergi og samkomurými stofnunarinnar þar sem gamlar prentaðar bækur eru einnig geymdar.
Aðalhlutverk allra nafna er tilvísandi. Eins og Koopman (2016:638) segir er hlutverk nafna að auðkenna einingar og aðgreina frá öðrum af sömu tegund. Einnig hafa tilvísandi nöfn oft orðbundna merkingu (e. lexical meaning or function). Í umfjöllun Koopmans (2016:639) um húsanöfn („Names of Dwellings“) flokkar hann nöfn í sex flokka eftir merkingu. Flokkun hans passar vel við greiningu á gömlum stofuheitum Árnastofnunar. Þau geta:
- vísað í útlit og/eða umhverfi > Hundakofinn, Kvíaveggur, Turninn, Vindheimar;
- visað til minningar eða minningartengds staðar > Rúsínulagerinn;
- lýst heimssýn > e.t.v. DAF, Drottningardyngja/Skessuhorn;
- sýnt tungumálakunnáttu nafngjafans, t.d. í gegnum orðaleik > flest en sérstaklega DAF, DUF, Kálundur;
- sent skilaboð til nágranna og víðara umhverfis > Málstofa, Rúsínulagerinn;
- vísað til þeirra sem íbúa (eða nota herbergi) > flest, t.d. Blöndalsherbergið, DAF, Drottningardyngja/Skessuhorn, DUF, Emeritusherbergið, Grettisbæli/Stafkrókur, Saurbær/Kvæðakrókur, Rúsínulagerinn.
Þeir sem vita um fleiri stofuheiti á fyrrverandi starfsstöðvum Árnastofnunar eru hvattir til að hafa samband við höfund pistilsins.
Síðast breytt 24. október 2023