Skip to main content

Leysar og leysigeislar

Á Vísindavef HÍ má finna svar eftir Jón Gunnar Þorsteinsson við spurningunni Hvað er mjög sterkur laser lengi á leiðinni til tunglsins? Eins og Jón Gunnar bendir á „er ljósið það eina sem getur ferðast á ljóshraða“ og því var svarið við spurningunni um það bil 1,3 sekúndur. Ég stenst ekki mátið að bæta við frekari fróðleik úr svari Jóns Gunnars – sem m.a. vitnar til Ara Ólafssonar:

Leysir er íslenskun á enska orðinu „LASER“ sem er skammstöfun á „Light Amplification by Stimulated Emission of Radiation“. Eins og fram kemur í svari Ara Ólafssonar við spurningunni Hvernig er leysiljósið unnið? er „LASER“ í raun rangnefni. Leysirinn er nefnilega annað og meira en magnari því hann er líka sveiflugjafi: „Í stað „Amplification“ (mögnun) hefði átt að standa „Oscillator“ (sveiflugjafi), en við það yrði skammstöfunin LOSER, sem þótti ekki við hæfi.“

Hvaða erindi á þessi fróðleikur í málræktarpistil á vef Árnastofnunar?

Orðin leysisgeisli og leysir í Tímariti verkfræðinga 1970

Meðal fjöldamargra spurninga um málnotkun og stafsetningu sem stofnunin hefur fengið á undanförnum áratugum er sú hvort finna megi afgerandi málfræðileg rök fyrir því að íslenskur ritháttur sé leysir fremur en leisir. Svarið er ekki augljóst. Tvíhljóðinu [ɛi:] sem á ensku er táknað með a í laser má koma til skila í íslensku hvort heldur er með ey eða ei (sbr. orðasamböndin um þetta leyti, á næsta leiti). Báðir kostirnir, ey og ei, eru sem sé jafn langt eða jafn stutt frá ensku fyrirmyndinni í laser

Elsta dæmið sem ég fann á Tímarit.is um umfjöllun um laser á íslensku er frá 1970, í 55. árgangi Tímarits verkfræðinga. Hér hafa höfundar fréttarinnar ritað leysisgeisli og leysir:

Áhugavert er að í efnisyfirliti 55. árgangs Tímarits verkfræðinga er aftur á móti að finna ritháttinn leisigeisli með vísan til fréttarinnar hér fyrir ofan.

Leisigeisli skrifað með einföldu i í Tímariti verkfræðinga 1970

Hér er sem sé annars vegar haft leysisgeisli, með ey og með s á orðhlutaskilum, og hins vegar ritað leisigeisli, með ei og án s. Slíkt ósamræmi, m.a.s. í sama riti, fylgir því oft þegar verið er að þreifa sig áfram með ný orð og frágang þeirra.

Sé litið á notkunartölur undanfarna hálfa öld á Tímarit.is virðast fréttarhöfundarnir í verkfræðingaritinu með tímanum hafa haft betur með sitt ey. Á hinn bóginn hafa efnisyfirlitshöfundarnir haft vinninginn hvað varðar orðmyndunina, án s. Almennt er skrifað og sagt leysigeisli fremur en leysisgeisli en í frágangi á prentuðu máli virðist rithátturinn með ey miklu algengari en með ei, sé tekið mið af leit á Tímarit.is: leysigeisli 110 dæmi, leisigeisli 6 dæmi.

Í Íðorðabankanum sést að langoftast hafa höfundar íðorðasafnanna valið ritháttinn leysir (Eðlisfræði, Raftækniorðasafn, Tölvuorðasafnið, Stjörnufræði, Sjómennsku- og vélfræðiorð, Læknisfræði). Eingöngu Tannorðasafn gefur leisir.  

Þegar ný hugtök koma fram sem þarf að fjalla um á íslensku er oft reynt að þýða heitin eða koma til skila með orðum og orðhlutum sem fyrir eru í málinu (sbr. veraldarvefur), en stundum er erlent heiti tekið í meginatriðum eins og það kemur fyrir en ritháttur, beyging og framburður felldur að venjum viðtökumálsins (sbr. píanó). Orðið laser mátti aðlaga þeim íslenska beygingarflokki sem til dæmis tækniorðin spennubreytir og beinir tilheyra. Í þeim tilteknu dæmum er stafsetningin þó tæpast álitamál; orðið spennubreytir er byggt á sögninni að breyta og orðið beinir er leitt af sögninni að beina. Tökuorðið leysir eða leisir, aðlagað úr ensku skammstöfuninni laser, á hins vegar engar slíkar orðsifjalegar frænkur í íslensku. Þar af leiðandi kemur upp spurningin um rithátt með ey eða ei.

Ef til vill má líta svo á að leysir hafi verið ættleiddur í orðafjölskyldu orðsins ljós vegna merkingartengslanna þar sem fyrirbærið laser er einhvers konar ljósgjafi. Sú nálgun mælir vissulega með rithættinum með ey. Orðin leysir og ljós gætu þá kinkað kolli hvort til annars í orðabókinni á svipaðan hátt og til dæmis Geysir og gjósa.

Birt þann 21.06.2022