Skip to main content

Pistlar

Hvaða örnefni er rétt? Nokkur orð um notkun og heimildir örnefna á Reykjanesskaga

Athygli landsmanna (og heimsfjölmiðla) beinist um þessar mundir að Reykjanesskaga þar sem jarðskjálftavirkni er enn mikil og kvikugangur er að myndast á svæðinu sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili (sjá kort Veðurstofu Íslands 10. mars 2021 hér). Um þetta svæði skrifaði jarðfræðingurinn Jón Jónsson að „Samspil orsaka til breytinga á afstöðu láðs og lagar er afar flókið og ljóst er að kyrrstaða er hér ekki ráðandi“ (Árbók Ferðafélags Íslands 1984, bls. 76).

Meðal þeirra örnefna sem vakið hafa athygli eru Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun. Eins og áður hefur verið bent á (sjá hér) er hvergi að finna í heimildum skýringu á því hver þessi Þráinn var, sem skjöldurinn er kenndur við, og þar af leiðandi ekki gott að segja hversu gamalt örnefnið er. Karlmannsnafnið Þráinn er þekkt bæði í Njáls sögu og Landnámabók en samkvæmt bókinni Nöfn Íslendinga kemur nafnið ekki aftur fyrir sem eiginnafn fyrr en á 19. öld. Í manntali fyrir árið 1910 voru tveir karlar með þessu nafni (annar í Barðastrandarsýslu en hinn í Þingeyjarsýslum). Á árunum 1921–1950 báru 86 drengir nafnið Þráinn og í þjóðskrá 1. janúar 2008 voru 160 karlar skráðir með nafnið sem einnefni eða fyrra nafn, en 34 að seinna nafni (bls. 647).

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar er heitið á hrauninu talið upp ásamt öðrum hraunum í Gullbringusýslu:

„Helztu hraunbreiðurnar í Gullbringusýsla heita: Ögmundarhraun, skammt frá Krýsuvík. Það er ungt hraun og mjög ljótt. Djúpadalshraun, hinum megin Selvogsheiðar. Herdísarvíkurhraun á Selvogsheiði. Skolahraun (Skúlahraun?) er ævagamalt hraun, sem liggur vest-suðvestur af fjallinu Keili og niður til strandar, þar sem það heitir Þráinsskjöldshraun (eða Þráinskallahraun, Þ[orvaldur] Th[oroddsen]). Báðum megin Hafnarfjarðar eru ljótir hraunaflákar, Garðahraun að norðanverðu, en Vatnsleysuhraun að sunnan“ (bls. 198).

Þessi tilvísun í Ferðabókina gefur ekki hvað síst góða hugmynd um flækjurnar sem koma oft fyrir þegar upphaf og saga örnefna er rakin, t.d. varðandi stafsetningu þeirra, mismunandi nafngiftir eða orðmyndir og staðsetningu. Þorvaldur Thoroddsen getur þess að hraunið sé kallað Þráinskjöldshraun eða Þráinskallahraun af sumum (Ferðabók, bls. 182). Þess ber að geta að Þráinsskallahraun er orðmyndin sem finna má í örnefnaskrá eftir skrásetjarann Þorstein Bjarnason frá Háholti (fæddur 1900) þar sem örnefni í óbyggðinni vestur og norður frá Grindavík eru tekin saman (Lbs 2857 4to og afrit í örnefnasafni Árnastofnunar en handritið var ekki sett saman fyrr en árið 1944 þegar Landsbókasafnið fékk það að gjöf). Einnig er þessa mynd orðsins að finna í örnefnalýsingum t.d. fyrir bæinn Hraun í Grindavíkurhreppi (sjá skrárnar hér). Sesselja G. Guðmundsdóttir bendir á í riti sínu Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi að örnefnin Þráinsskjöldur og Þráinsskjaldarhraun hafi ekki þekkst í sveitinni og að „menn hér í hreppi töluðu einfaldlega um Heiðina (með stórum staf)“ (2. útgáfa, 2007, bls. 28–29).

Oft er það þannig að ekki er hægt að segja með vissu hvaða útgáfa örnefnis er ‚rétt‘ – rithættir og málvenjur eru ekki alltaf í samræmi og geta breyst í tímans rás. Örnefni eru lifandi fyrirbæri: breytileikinn er meðal þeirra einkenna sem athyglisvert er að skoða. Þau færast til – stundum vegna misskilnings, eins og virðist hafa gerst með örnefni á svæðinu sem vísa í aðra lægri hnjúka: Litli-Keilir, Nyrðri-Keilisbróðir, Syðri-Keilisbróðir, Keilisbörn, Litli-Hrútur og Stóri-Hrútur.[1] Heimildum ber ekki saman um hvort Litli-Keilir sé sama kennileiti og Nyrðri-Keilisbróðir og/eða Litli-Hrútur. Eins og Sesselja bendir á er notkun þessara örnefna og kennileitanna sem þau vísa til mismunandi eftir því hvaðan heimamenn koma (t.d. frá Vatnsleysuströnd eða Grindavík) og hvaða kynslóðum þeir tilheyra (bls. 132, 141).

Keilir er þó engum ókunnugur. Hann hefur verið notaður sem kennileiti í aldanna rás af sjófarendum (Íslendingum sem útlendingum – sem kölluðu fjallið Sykurtopp samkvæmt Sýslu- og sóknalýsingum fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu, bls. 109) til að finna fiskimið og rata, eins og Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi kvað:

Sæfarendur reyna rétt / rata‘ að lending heilir; / til að benda‘ á takmark sett / tryggur stendur Keilir‘. (Tilvísun fengin úr bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, bls. 128.)

 

1 Um notkun bandstrika í örnefnum má fræðast í grein eftir Jóhannes B. Sigtryggsson í tímaritinu Orð og tunga http://uni.hi.is/johans/files/2016/03/JBS-Ord-og-tunga-strik.pdf þar sem á bls. 160 er tekið fram að „Bandstrik er notað á milli orðliða í örnefnum og fleiri heitum þar sem síðari liður er sérnafn. Hvíta-Rússland; Syðri-Grund; Norður-Íshaf“. Í örnefnaskrám er að finna dæmi um mismunandi notkun, jafnvel í sama skjalinu: Í skránni eftir Þorstein sem vitnað var til er að finna ‚Litli-Keilir‘ en ‚Litlihrútur‘ og ‚Stórihrútur‘.

Birt þann 15. mars 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, ritstj. 2007. Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839–1855. Reykjavík: Sögufélag.

Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson, ritstj. 2011. Nöfn Íslendinga. Reykjavík: Forlagið. 2. útgáfa.

Jón Jónsson, 1984. Um heiðar og hraun. Árbók Ferðafélags Íslands. Reykjanesskagi vestan Selvogsgötu. Reykjavík: Ferðafélag Íslands.

Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007. Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins). Vatnsleysuströnd: Lionsklúbburinn Keilir. 2. útgáfa.

Steindór Steindórsson, 1975 (þýðing). Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752–1757. Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur.

Þorvaldur Thoroddsen, 1913. Ferðabók. Skýrslur um rannsóknir á Íslandi 1882–1898, 1. bindi. Kaupmannahöfn: Hið íslenska fræðafélag.