Skip to main content

Pistlar

Hunangshella

Birtist upphaflega í desember 2018.

Í bókinni Litla skinnið eftir Jón Thorarensen frá Kotvogi (1982:80) er á einum stað fjallað um notkun nafnanna Suðurnes og Innnes og sömuleiðis skýrð afmörkun Rosmhvalaness:

Hin ævaforna skipting milli Innnesja og Suðurnesja sem var skýrt ákveðin alla tíð var þessi:

Innnes frá Elliðaám að Hvaleyrarholti fyrir sunnan Hafnarfjörð.

Suðurnes frá Hvaleyrarholti að Selatöngum austan við Grindavík.

Hluti af Suðurnesjum heitir Rosmhvalanes. Það er sá hluti Reykjanesskagans, sem liggur fyrir norðvestan línu þá sem hugsast dregin frá Hunangshellu í Ósabotnum í Háaleitisþúfu (nú eyðilögð en var austast á Keflavíkurflugvelli) og úr Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík.

Þannig eru því öll byggðahverfin frá Leiru og allt suður að Stafnesi á Rosmhvalanesi.*

Þess er reyndar að gæta að nafnið Innnes gat einnig náð yfir stærra svæði og þannig líka átt við Kjalarnes og Akranes eins og fram kemur í Lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu (samin á árunum 1782–84) eftir Skúla Magnússon landfógeta (1935–36:7). Á hinn bóginn virðist nafnið Suðurnes ekki alltaf hafa náð yfir jafnstórt svæði og Jón Thorarensen gerir ráð fyrir. Bæði Skúli fógeti (1935–36:7) og Sigurður B. Sívertsen (2007:72), sem ritaði lýsingu Útskálaprestakalls árið 1839, lýsa notkun nafnsins þannig að það hafi átt við svæðið utarlega á norðanverðum Reykjanesskaga. Ágætt yfirlit um notkun nafna á svæðinu er einnig að finna í grein Kristjáns Eldjárn um Skagagarðinn sem birtist í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977.

Örnefnið Hunangshella er forvitnilegt. Í örnefnalýsingu Kirkjuvogs í gamla Hafnahreppi segir:

Þá er að fara aftur niður að Ósabotnum. En Ósabotnar heitir innst í Ósunum. Syðst, þar sem vegurinn beygir fyrir Ósana, er slétt klapparholt með smávatni á. Þetta heitir Hunangshella og er hraunklöpp. Sagan segir, að finngálkn (afkvæmi tófu og kattar) hafi lagzt á fénað manna og gert mikið tjón. Var reynt að vinna það. Gekk það illa, þar til maður nokkur smurði hellu þessa með hunangi, en í það var dýrið mjög sólgið. Skaut hann svo dýrið með silfurhnöppum, þegar það kom til að gæða sér á hunanginu.

Þessa sögn er einnig að finna í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (1954 I:611) líkt og má lesa hér.

 

*Í þessari tilvitnun hef ég leiðrétt ritháttinn „Romshvalanes“ í „Rosmhvalanes“. Í bók Jóns koma þessir rithættir fyrir sitt á hvað. Samhljóðarunan –sm– er óvenjuleg í íslensku og víxl sm > ms í stöðu á eftir sérhljóði væri afar eðlileg hljóðbreyting. Því er ekki ósennilegt að framburðurinn /Romshvalanes/ hafi verið algengur þegar þetta nafn var meira notað og að það skýri þennan rithátt. 

Birt þann 20. mars 2019
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Jón Árnason (útg.). 1954. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, 2. útg. sem Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust. Bókaútgáfan Þjóðsaga, Reykjavík.

Jón Thorarensen frá Kotvogi. 1982. Litla Skinnið eða blöndukúturinn. Nesjaútgáfan, Reykjavík.

Kristján Eldjárn. 1977. Skagagarður – fornmannaverk. Páll Jónsson (ritstj.) Landið og heimahagar. Árbók 1977. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.

Sigurður B. Sívertsen. 2007. Útskálaprestakall. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson (ritstj.) Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839–1855. Sögufélag, Reykjavík.

Skúli Magnússon. 1935–36. Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landnám Ingólfs I. Ingólfur, Reykjavík.

Örnefnaskrá yfir Kirkjuvog eftir Ara Gíslason. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.