Orðaforði lifandi mála breytist með tímanum og það á sannarlega við um íslensku, þá tungu sem hefur verið töluð hér óslitið frá landnámi. Sífellt verða til ný orð og önnur hverfa. Í þessum pistli tilgreini ég nokkur dæmi um orð sem ekki eru lengur notuð í málinu. Ég hef sett tengla á vef Fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn (ONP) við orð sem fjallað er um en hún nær yfir elstu heimildir ritaðs máls og til miðrar 16. aldar. Þar má skoða dæmi um notkun þeirra. Stundum eru dæmi um þessi orð einnig frá seinni öldum og vísa ég þá í Ritmálssafn Orðabókar Háskólans (ROH).
Horfin orð eru hulinn menningarfjársjóður. Sölvi Sveinsson fjallar í hinni ágætu bók Geymdur og gleymdur orðaforði (2017) um mörg slík orð og einnig má til að mynda benda á bókina Perlur málsins eftir Harald Matthíasson (1996). Gaman er að velta fyrir sér slíkum orðum. Þau geta vakið hughrif og varpað nýju ljósi á hlutina.
Sum þessara horfnu orða eru svokölluð stakyrði, það er orð sem koma aðeins einu sinni fyrir í heimildum. Dæmi um slík orð í Íslensku hómilíubókinni frá um 1200 eru armvitki (kvk.) ‘samúð, miskunn’ (sbr. armvitigr (lo.) ‘góðhjartaður, vorkunnsamur’) (sjá Jóhannes B. Sigtryggsson 2021), beiðull (lo.) ‘fíkinn, áfjáður’ og ræktarþokki (kk.) ‘tryggð, trúfesta’ (einnig dæmi úr kveðskap í ROH). Í Hrólfs sögu Gautrekssonar kemur fyrir stakdæmið boðrífur (lo.) ‘örlátur’ og í Tómas sögu postula orðið sigrvegning (kvk.) ‘það að yfirstíga e-ð’ („meydomr er sigrvegning lostans oc efling truarinnar“, Unger 1874:729). Önnur orð eru mjög sjaldgæf að fornu þótt þau séu ekki stakyrði, t.d. ofsvefngi (kvk.) ‘það að sofa of mikið’ og reiðumaður (kk.) ‘borðsveinn, þjónn’.
Mörg forn tökuorð eru alveg horfin úr málinu, t.d. piktur (kk.) ‘málari’, skvíari (kk.) (einnig dæmi í ROH) ‘riddarasveinn, skenkjari’ (e. squire), stívarður (kk.) (einnig dæmi í ROH) ‘m.a. ráðsmaður’ (e. steward) og tortís (kk.) ‘kyndill’ (e. torch). Elstu dæmi um þessi orð eru frá 14. og 15. öld.
Fleiri forníslensk orð má nefna sem ekki eru lengur notuð: aldarmál (hk.) ‘óbreytanleg ákvörðun’ (einnig dæmi í ROH), annkvista (so.) ‘framfleyta, framfæra’, bági (kk.) ‘andstæðingur’‚ bramlsmaður ‘skrumari, grobbhani’, brandreið (kvk.) ‘grill, steikargrind; pyndingartól’ (einnig dæmi í ROH), brugðning ‘krenking, fordjörfun’, dagþingan (kvk.) ‘samningaviðræður, fundur; samningur’, hermd (kvk.) ‘gremja, heiftrækni’ (einnig dæmi í ROH), herneskja ‘brynja, hertygi; skari skrýddur herklæðum’ (einnig dæmi í ROH), hleytismaður ‘staðgengill’ (endurvakið af Halldóri Laxness í Gerplu, sjá dæmi í ROH), hrytur (kk.) ‘hrota’ (einnig dæmi í ROH), illtyngd (kvk.) ‘baktal, illmælgi’, kávís (lo.) ‘þrasgjarn’, lébarn ‘hvítvoðungur’ (einnig dæmi í ROH), lygð (kvk.) ‘lygi, uppspuni’ (einnig dæmi í ROH), næturelding (kvk.) ‘afturelding’ (Sölvi Sveinsson 2017:271–272), stanka (so.) ‘láta ógjarnan af hendi’, umgröftur (kk.) (sbr. grafast fyrir um e-ð) ‘ásókn, eftirleitan’, upplost (hk.) ‘fölsk frétt, orðrómur, rykti’, vábæli (hk.) ‘ófyrirséð ólukka’, ymtur (kk.) ‘orðrómur, rykti’ (einnig dæmi í ROH).
Sumir hafa reynt að endurvekja gömul orð. Konráð Gíslason gekk til að mynda mjög langt í dansk-íslenskri orðabók sinni 1851 í að endurnýta gömul horfin orð og vitnaði þá oft í forn rit sem heimildir um orðin (sjá Jóhannes B. Sigtryggsson 2017). Dæmi um þetta eru orð eins og ertravellingur (Konráð Gíslason 1851:103: „Ertemos baunagrautur, (sb. ertravellingr […])” og verplakast ‘teningakast’ (af verpill ‘teningur’) (Konráð Gíslason 1851:531: “Tærningespil verplakast (Grágás) teningakast”).
Að lokum eru hér nokkrar uppspunnar efnisgreinar í léttum dúr þar sem sum þessara orða eru endurnýtt. Þýðing fylgir á eftir innan hornklofa:
Hann var boðrífur og vildi annkvista ættingja sína. Ertravellingur og brandreiðarkjöt var á borðum.
[‘Hann var örlátur og vildi sjá um ættingja sína. Baunagrautur og grillkjöt var á borðum.’]
Bramlsmaðurinn Trump sagði að þetta væri upplost (e. fake news) og ymtur. Hann stankaði ekki völd til hleytismanna vegna vábælis. Illtyngd og umgröftur kávísra bága hefði engin áhrif á það. Sigurvegning sannleikans myndi sigra lygð þeirra.
[‘Skrumarinn Trump sagði að þetta væri falsfrétt og orðrómur/kvittur. Hann léti ógjarna af hendi völd sín til staðgengla vegna ófyrirséðrar ólukku. Baktal og ásókn andstæðinga hefði engin áhrif á það. Sannleikurinn yfirstigi lygi þeirra.’]
Mikill fjársjóður er í sögulegum orðaforða og horfin orð varpa nýju ljósi á íslensku og sýna frjómagn og endurnýjunarmátt tungunnar.
Síðast breytt 10. júlí 2024