Skip to main content

Pistlar

Lítið er ungs manns gaman – AM 439 12mo

Fremur lítið er um handrit frá sautjándu öld sem varðveita kveðskap skrifaðan af höfundinum sjálfum, svokölluð eiginhandarrit. AM 439 12mo er að því leyti undantekning; það er pínulítið kver sem Stefán Ólafsson (1618/1619–1688) hefur átt og skrifað í eigin kveðskap þegar hann var á unglingsaldri. Stefán var sonur prófastsins í Kirkjubæ í Hróarstungu og ólst þar upp en stundaði síðar nám í dómkirkjuskólanum í Skálholti. Dagsetningar og ártöl í kverinu sýna að það er skrifað á tímabili sem nær frá barnæsku hans heima í Kirkjubæ yfir í skólaárin í Skálholti. Fremst í kverinu stendur: „Vísnakver Stefáns Ólafssonar á Kirkjubæ anno 1636, 20. dag novembris. Stefán Ólafsson með eigin hand“. Þá var Stefán 18 ára.

Handritið vitnar um áhugamál og skopskyn Stefáns og bræðra hans en í kverinu eru meðal annars kvæði sem þeir hafa ort saman, Stefán og Eiríkur bróðir hans, t.d. Vélstapavísur. Ljóst er að þeir bræður hafa skemmt sér við að yrkja saman eða sitt í hvoru lagi gamanvísur og skop um eitt og annað sem gerðist á bænum eða í nágrenninu. Þannig er handritið eins konar sameign sem eflaust hefur verið lesið upp úr, viðstöddum til skemmtunar. Tilefnið er oft harla lítið en hversdagsleg atvik og fólk – ekki síst sérkennilegt fólk eða skrautlegar persónur – er gjarnan tekið fyrir í kvæðunum. Oft er efnið viljandi gert torskilið með því að nota orðaleiki og dulnefni. Seinna varð Stefán prestur í Vallanesi og prófastur og með bestu skáldum á sinni tíð. Það segir sig sjálft að hátindana á skáldskaparferli Stefáns er ekki að finna í þessu litla kveri.

Fyrirsagnir kvæðanna gefa nokkra hugmynd um innihald þeirra: Þessar vísur hrutu um það mikla kvef sem gekk á því ári 1636 í mánuðinum Januario, Gamanbögur um hörkulausan heimadóla og Um hrútlamb hvert vér kölluðum Dúða. Efnið er stundum frekar vafasamt og jafnvel klúrt. Má þar nefna Séra Eiríki Ólafssyni um barneign brókasjúkrar eldakonu. Mörg kvæðanna fjalla um mat, þörfina fyrir mat og matarskort, t.d. Óskagjarnrar ekkju kvæði. Þau veita innsýn í daglegt líf eins og t.d. Þegar kerti voru steypt hrutu þessar vísur til gamans, og sum kvæðin bera vitni um að vera skrifuð í Skálholti: Heim skrifaðar úr skóla þessar vísur Árna Jónssyni og Séra Eiríki Ólafssyni til um Skálholtssetu bréfamanns. Tóbak og tóbaksskortur kemur við sögu, svo og vinátta og samskipti við konur. Hér er líka nokkuð um ljóðabréf sem var vinsæl bókmenntagrein og mikið stunduð af Stefáni og frændum hans, þar á meðal sr. Bjarna Gissurarsyni í Þingmúla en þeir Stefán voru systkinasynir og skrifuðust á í bundnu máli, bæði á íslensku og latínu. Í ljóðabréfi til Guðmundar Ormssonar segir Stefán: „Klúsaðu saman kíminn óð þótt kleprótt gangi / svo kætin frá mér sturlun stangi / en styttast mætti veturinn langi“ (bl. 26r; Kvæði I, 21).

Handritið er 53 blöð og furðu efnismikið, alls eru þar 46 ljóðmæli af ýmsu tagi. Við nánari athugun kemur í ljós að þar er einkum efni eftir fjóra höfunda: Langflest kvæðin eru eftir Stefán Ólafsson, nokkur eru eftir bróður hans Eirík Ólafsson (um 1610–1690) og sum eftir þá báða saman, einnig eru nokkur eftir Eirík Ketilsson (um 1600–1647) og sex kvæði eru eftir Guðmund Erlendsson í Felli (1595–1670); þau eru í aftasta kveri handritsins, t.d. Dæmisaga af hananum og refnum og Dæmisaga um leonið, úlfinn og refinn.

Eflaust hafa ótalmörg sambærileg vísnakver sem unglingar páruðu í sér til skemmtunar verið til. Það óvenjulega við þetta litla handrit er að það skuli hafa varðveist. Það sýnir aðra hlið á stórskáldinu Stefáni Ólafssyni en þá sem hann sjálfur hefði sennilega óskað eftir að draga fram en er engu að síður merkileg heimild um hvað unglingar hugsuðu og höfðu fyrir stafni á sautjándu öld á Íslandi.

Engar myndir eru í handritinu en skraut kemur þar fyrir, t.d. fangamark Stefáns, þ.e. stafirnir S.O.S. og bókahnútar. Allmörg kvæðanna í handritinu eru birt í útgáfu Jóns Þorkelssonar, Kvæði eftir Stefán Ólafsson I−II 1885−1886, t.d. Retrogradum (vísa sem lesa má bæði áfram og aftur á bak) (Kvæði I, 52) og Um Pétur og hans flókakraga (Kvæði I, 61–64) en þar segir frá ungum manni sem var kalt á hálsinum og fékk stúlkur til að útbúa fyrir sig hlýjan kraga.

Birt þann 31. janúar 2023
Síðast breytt 24. október 2023