Skip to main content

Dygðaspegill í Dublin – Handrit Bjargar Aradóttur frá Sökku í Svarfaðardal

Í Trinity College Dublin er lítið íslenskt pappírshandrit (165x107mm) sem ber safnmarkið TCD MS 1036 (áður L.4.16). Í því er uppskrifaður dygðaspegill sem séra Jón Arason í Vatnsfirði þýddi árið 1639 en höfundur hans var þýskur prestur að nafni Lucas Martini. Dygðaspegillinn varð mjög vinsæll í Norður-Evrópu enda þýddur á ótal tungumál og margsinnis prentaður á þýsku. Hann var nokkrum sinnum gefinn út bæði á dönsku og sænsku á 17. og 18. öld en íslenska þýðingin hefur ekki komið út á prenti. Dygðaspegillinn var ætlaður ungum stúlkum til að undirbúa þær undir hlutverk guðhræddrar og siðugrar húsmóður eins og fram kemur á titilsíðu: 

Dygðaspegill eður ein kristileg og nytsamleg undirvísan fyrir allar guðhræddar meyjar og kvenpersónur, sýnandi hvílíkum dygðum þeim hæfi begáfaðar að vera. Útsettur á íslensku af þeim virðulega og mjögvellærða, gáfumgædda og guðhrædda heiðursverðuga kennimanni séra Jóni Arasyni (sællrar og blessaðrar minningar) forðum prófasti yfir Ísafjarðar- og Strandasýslum og sóknarherra að Vatnsfjarðarstað vestur við Ísafjörð. 
Tvær handritasíður

Handritið er 54 blöð að mestu skrifuð af Ara Jónssyni (1657‒1698), yngsta syni þýðandans, eins og skrifað stendur á bl. 1v: „Ari Jónsson hefur þetta skrifað sem var á Sökku í Svarfaðardal“ (sjá mynd til vinstri). Handritið hefur líklega verið skrifað á tíunda áratugi 17. aldar, a.m.k. fyrir dánarár Ara 1698. Í bandi eru leifar af ýmsum skjölum en einnig tvinn með ísaumsmynstri sem er utan um handritið sjálft. Á aftara blaðinu stendur m.a.: „Björg Aradóttir á kverið með réttu og er vel að komin.“ Björg var yngsta dóttir Ara, fædd um 1690. Mynstrið er af trúarlegum toga, skammstöfunin IHS kemur fyrir tvisvar og er á öðrum staðnum hluti af krossi (sjá mynd til hægri). IHS stendur fyrir „Jesús frelsari mannkyns“ eða á latínu „Iesus Hominum Salvator“ og er algengt að finna á trúarlegum gripum. Efst er fangamark Bjargar: „B.A.D.“ Er nokkuð ljóst að mynstrið er annaðhvort ætlað henni til að sauma út eða hún hefur skrifað það upp sjálf. Ekki er ólíklegt að Björg hafi fengið að njóta kennslu föðursystur sinnar, Ragnheiðar Jónsdóttur, biskupsfrúar á Hólum og síðar biskupsekkju í Gröf á Höfðaströnd eins og tvær eldri systur hennar, Hólmfríður og Guðrún „sól“ Aradætur. Handritið liggur í lausum örkum í umslagi en var áður heft í skinnbréf sem nú ber safnmarkið Misc. Vellum Deed 64. Ekki er vitað hvernig handrit Bjargar komst í eigu Trinity-háskólans í Dublin. 

Birt þann 12.09.2023
Heimildir

Ólafur Halldórsson. Óprentuð skrá yfir handrit í Trinity College Dublin.

Trinity College Dublin: TCD MS 1036

Þórunn Sigurðardóttir. 2012. Dyggðaspegill handa hefðarjómfrúm. Geislabaugur fægður Margaret Cormack sextugri 23. ágúst 2012, bls. 92−95. Reykjavík: Menningar- og minningarsjóður Mette Magnussen.