Skip to main content

Pistlar

Bréf Ögmundar biskups til Ásdísar systur sinnar – ÞÍ. Leyndarskjalasafn 1.22

Bakgrunn siðbreytingarinnar á Íslandi er að finna í Danmörku en henni var komið á þar í landi eftir borgarastyrjöld árið 1536. Árið 1537 flúði erkibiskupinn í Niðarósi land og Kristján III. Danakonungur varð æðsti yfirmaður kirkjunnar í hinu gamla Noregsveldi.

Diðrik frá Minden, umboðsmaður hirðstjóra Danakonungs á Íslandi, rændi Viðeyjarklaustur vorið 1539 og rak kanokana á braut en galt fyrir það með lífi sínu er ráðist var á hann og menn hans í Skálholti um sumarið. Hugsanlegt er að konungur hafi talið Ögmund Pálsson Skálholtsbiskup ábyrgan fyrir vígi Diðriks og m.a. viljað koma höndum yfir hann vegna þess.

Ögmundur var hrumur og blindur síðustu æviár sín og gat illa sinnt embætti sínu. Hann valdi því Gissur Einarsson sem eftirmann sinn — líklega án þess að gruna að hann væri mótmælandi — og samþykkti konungur val Gissurar árið 1540. Gissur tók þá við biskupsembættinu.

Konungur sendi stuðningsmann sinn, flotaforingjann Kristófer Hvítfeld, til Íslands sumarið 1541 með hirðstjórnarvald og herlið á tveimur skipum. Líklegt er að meginverkefni hans hafi verið að koma á nýrri kirkjuskipan á Íslandi. Hann sigldi inn á Hafnarfjörð seint í maí og sendi fljótlega herflokk austur í Hjalla í Ölfusi þar sem Ögmundur dvaldi hjá Ásdísi systur sinni og lét handtaka hann 2. júní og flytja um borð í skip sitt. Sagt er að Kristófer hafi heitið Ögmundi frelsi ef hann léti fjármuni af hendi og skrifaði hann þess vegna systur sinni á Hjalla bréf 9. júní 1541. Ekki er alveg víst hver skrifaði það fyrir hann en líklegt þykir að Einar Ólafsson sem þá var prestur á Görðum á Álftanesi og nefndur er í bréfinu hafi skrifað það. Þetta er með elstu bréfum sem voru skrifuð á Íslandi sem varðveist hafa á pappír og hljóðar svo:

Guðs miskunn sé oss öllum nálæg. Kæra systir. Biður ég kærliga yður að þér vilið fá í hönd síra Einari Ólafssyni mitt confert og mitt skrín og svo lyk<l>ana sem þar til heyra, og látið ekki koma þar út af, og það stóra forgyllt staup og skál sem vér eigum þar. Og allt eftir þeim reikningsskap sem vér höfum látið upp skrifa. Og til sanninda hér um þrykkjum vér vort signet á þetta bréf skrifað upp á Kristoforus skip, fimmta idus júní [9. júní] anno et ceterea 40 primo [ár o.s.frv. 40 og eitt].
Gamalt bréf úr pappír, á því eru leifar af innsigli.
Bréf Ögmundar Pálssonar til systur sinnar - ÞÍ. Leyndarskjalasafn 1.22
Þjóðskjalasafn Íslands


Einar fór með bréfið til Ásdísar og fékk gripi Ögmundar. Kristófer sveik hann hins vegar og leysti hann ekki úr haldi, heldur sigldi með hann burt. Ögmundur lést um borð — 13. júlí að því talið er — á leiðinni til Danmerkur og var jarðaður í Sórey á Sjálandi.

Bréfið er ekki aðeins merkilegt fyrir efni sitt heldur líka vegna málfarsins á því, en eins og lesendur sjá fljótt er stafsetningin nokkuð öðru vísi en nú tíðkast, t.d. er algengt á þessum tíma að sjá i á undan æ og e á eftir k og g. Jafnframt er au notað fyrir ö. Tökuorð eru nokkuð áberandi svo sem síra (komið úr fornfrönsku sire sem er komið úr latínu senior), confert sem hlýtur að merkja hér 'kofort' (komið úr dönsku koffert sem er komið úr frönsku coffre), forgylla (líklega komið úr dönsku forgylde sem er komið úr lágþýsku vorgulden), þrykkja (komið úr dönsku trykke sem er komið úr þýsku drücken), signet sem stendur fyrir ‚merki‘ (eða ‚innsigli‘) er komið úr dönsku og er þangað komið úr miðlatínu signetum (sennilega í gegnum þýsku) og jdus/idus er á latínu notað um fimmtánda hvers mánaðar ef það er mars, maí, júlí, október en þrettánda allra annarra mánaða. Hér stendur 'fimta jdus junij' og merkir þá fimm dögum fyrir 13. júní. Orðið „forgyllt“ er haft óbeygt upp á danskan hátt og einnig koma fyrir dönsk eða þýsk áhrif á orðaröð: „vér höfum látið upp skrifa“.

Bréfið er prentað í Íslenzku fornbréfasafni X. bindi, bls. 619–620 (Reykjavík 1911–1921).

Birt þann 19. júní 2023
Síðast breytt 24. október 2023