Skip to main content

Pistlar

Annáll með hendi Árna Magnússonar – AM 424 4to

Handskrifuð síða úr gömlu pappírshandriti
Handritið AM 424 4to
Mynd: SSJ

Í brunanum mikla í Kaupmannahöfn 1728 glötuðust sem kunnugt er margar bækur. Meðal þess sem brann var íslenskt skinnhandrit með alfræðiefni sem að öllum líkindum var skrifað á 13. öld. Handritið er yfirleitt kallað Resensbók og kennt við Peder Hansen Resen sem átti það og gaf Háskólabókasafninu í Kaupmannahöfn á seinni hluta 17. aldar. Áður en bókin brann hafði drjúgur hluti hennar verið skrifaður upp en ekkert handrit varðveitir þó allt efnið á einum stað heldur er búta úr því að finna í ýmsum handritum. Eitt slíkt handrit er AM 424 4to sem Árni Magnússon skrifaði en það varðveitir annál sem kallast Resensannáll eftir gömlu bókinni og Árni kallar „Annalibus Resenianus“. Annállinn nær frá árinu 228 til 1295.

            Árni Magnússon skrifaði AM 424 4to um 1724 og er uppskriftin nokkuð nákvæm eftir forritinu ef marka má orð Árna sjálfs. Á seðlum sem fylgja handritinu og geyma athugasemdir frá Árna segir hann til dæmis að hann hafi áður skrifað annálinn upp og „hafði ég þar í sums staðar misskrifað eitt eða annað, þó var það eigi víða, heldur var það sem þar í stóð, oftast accurate ritað“. Þar hafði hann einnig sleppt heilmiklu, einkum því sem honum þótti ekki varða sögu Norðurlanda, Þýskalands og Englands. Með AM 424 4to vildi hann bæta úr þessu til þess að eiga nákvæmari uppskrift og í framhaldinu segist hann hafa rifið hina uppskriftina í sundur í ágúst 1724 til þess að valda ekki ruglingi. Af uppskriftinni að dæma hefur Árni haldið tryggð við forna rithætti gömlu bókarinnar og þá hefur hann einnig auðkennt með undirstrikun þegar hann leysti úr böndum og styttingum.

            Færð hafa verið sterk rök fyrir því að Resensbók hafi verið í eigu Sturlu Þórðarsonar sagnaritara eins og kemur rækilega fram í grein Stefáns Karlssonar „Alfræði Sturlu Þórðarsonar“ frá 1988. Löngu fyrr hafði verið bent á að Resensannáll snerti mjög Sturlunga því að óvenjumargar annálsgreinar snúa að Sturlungum. Sagt er frá fæðingardögum Hvamm-Sturlu og Þórðar og Snorra, sona hans, en sjaldgæft er að burðartíð þeirra sé tilgreind í öðrum annálum. Einnig má nefna að 1283 er tiltekið andlát Þórðar, sonar Sturlu Þórðarsonar, sem ekki er getið í öðrum annálum.

            Í ljósi þess að Resensbók brann skömmu eftir að Árni skrifaði upp annálinn er uppskrift hans mikilvægari en hann hefur líklega gert sér í hugarlund. Athugasemdir Árna og nákvæmni gera það að verkum að nærri bókinni sem brann verður vart komist.

Birt þann 12. apríl 2023
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Stefán Karlsson, „Alfræði Sturlu Þórðarsonar.“ Sturlustefna. Ritstj. Guðrún Ása Grímsdóttir og Jónas Kristjánsson. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar, 1988, 37–60.

Gustav Storm, Islandske Annaler indtil 1578. Christiania (Osló): Norsk historisk kildeskriftfond: Grøndahl & søns bogtrykkeri 1888.