Skip to main content

Pistlar

Hilmir snýr heim

Band Hrokkinskinnu.
SSJ

Hrokkinskinna er stórvaxið íslenskt konungasagnahandrit. Handritið var ritað í upphafi fimmtándu aldar en Þormóður Torfason sagnfræðingur fékk það á Íslandi 1662 og færði Danakonungi. Bókin hefur lengi verið varðveitt í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn en er nú komin aftur til Íslands í stutta heimsókn og er til sýnis í Eddu.

Í Hrokkinskinnu er að finna sögu Noregskonunga frá og með Magnúsi góða (1024–1047), syni Ólafs Haraldssonar helga. Konungasagnaverkið sem Hrokkinskinna varðveitir er aðeins til í einu öðru handriti en það handrit er nefnt Hulda. Verkið sjálft hefur því fengið hið dálítið óþjála nafn Hulda-Hrokkinskinna. Upphaf sögunnar er glatað úr Huldu og þar er því Hrokkinskinna ein til frásagnar og sérstaklega dýrmæt.

Peningur með andliti Magnúsar Ólafssonar.
Peningur með andliti Magnúsar Ólafssonar.
Wikipedia / Nordisk familjebok

Frásögn Hrokkinskinnu hefst austur í Garðaríki eða Rússlandi. Þar er Magnús Ólafsson í fóstri, tíu ára drengur. Eftir að Ólafur helgi, faðir Magnúsar, féll í orrustunni á Stiklastöðum hafa Norðmenn verið undir danskri stjórn og una því illa. Einn daginn koma norskir höfðingjar til Garðaríkis til að sækja Magnús litla. Ætlun þeirra er að taka Magnús til konungs yfir Noregi og brjótast þar með undan dönskum yfirráðum.

Konungshjónin í Garðaríki eru treg til að afhenda Magnús og minna á að norsku höfðingjarnir snerust gegn föður hans og drápu hann. Þau vilja þó Magnúsi vel og láta að endingu sannfærast um að Norðmönnum sé alvara um að taka hann til konungs.

Norðmenn sigla með Magnús austan úr Garðaríki til Svíþjóðar. Siglingar eru mikið yndi hirðskáldanna og um þessa ferð eru fyrstu vísurnar sem koma fyrir í Hrokkinskinnu. Þar á meðal er vísa eftir íslenska skáldið Arnór Þórðarson úr kvæði hans Hrynhendu. Þessi vísa er ekki varðveitt í neinu handriti nema Hrokkinskinnu en fyrri helmingur hennar er svona:

Herskip vannt af harða stinnum
hlunni geyst í Salt it Eystra;
skjǫldungr, stétt á skǫrum hvéldan
skeiðar húf með girzku reiði.

Kvæðið er ort undir lokin á ævi Magnúsar og hefur þá verið flutt honum sjálfum. Hann er hér ávarpaður og látið heita svo að hann hafi hrundið skipinu af stað út í Eystrasaltið. Skipið er sagt „með girzku reiði“, sem sagt með rússneskum seglabúnaði. Væntanlega hefur þó drengurinn Magnús ekki sjálfur verið í stöðu til að gefa skipanir.

Norska skipið Draken Harald Hårfagre.
Langskipið Draken Harald Hårfagre. Smíðað í Noregi árið 2012 með byggingartækni miðalda.
Wikimedia Commons / Odd Roar Aalborg

Þegar siglt hefur verið með Magnús til Svíþjóðar tekur við bið. Meiningin er að fara landleiðina til Noregs en á móti liði Magnúsar á að koma flokkur Norðmanna undir forystu Kálfs Árnasonar. Magnús og menn hans þurfa því að bíða í Svíþjóð. Um þetta vitnar Hrokkinskinna einnig í Arnór Þórðarson og aftur í vísu sem hvergi er annars staðar varðveitt. Hér er seinni helmingur hennar:

Nótt beið ok dag dróttins
dygg ferð Jaðarbyggva;
fýst bað gramr í geystu
gífrs veðri sér hlífa.

Þessi vitnisburður er óvenjulegur. Venjulega tala hirðskáldin um óbilandi hugprýði konunganna en hér er svo að sjá sem Magnúsi sé ekki rótt. Í máli skáldanna er hugurinn kallaður vindur tröllkonu og þannig ber að skilja „gífurs veður“ í þessari vísu. Það er stormasamt í huga hins unga konungssonar og hann biður um að sér sé hlíft.

Hrokkinskinna.
Hrokkinskinna á sýningunni Heimur í orðum.
Trausti Dagsson

Vera kann að Magnúsi hafi ekki litist vel á að Kálfur Árnason væri væntanlegur að sækja hann. Kálfur var meðal leiðtoga þeirra Norðmanna sem snerust gegn Ólafi Haraldssyni og sá sem hjó hann banahögg. Blendnar tilfinningar hlýtur Magnús að hafa haft til þessa málatilbúnaðar og skiljanlegt að hann hafi ekki beðið Kálfs með tilhlökkun.

Það gengur eftir að Kálfur Árnason og mikið lið hans kemur til móts við Magnús og síðan heldur öll fylkingin til Niðaróss. Þar er haldið þing og Magnúsi gefið konungsnafn. Hann eignast síðan allan Noreg „orrustulaust með fagnaði landsmanna og allrar alþýðu því allir vildu heldur þjóna Magnúsi konungi frjálslega en þola lengur danskra ofsa og yfirgang“. Drengurinn er þá orðinn konungur en Kálfur og aðrir ráðgjafar stjórna í raun landinu. Sagan segir svo frá því hvernig Magnús fullorðnast og brýst undan því að vera strengjabrúða föðurbana síns.

Birt þann 1. desember 2025
Síðast breytt 1. desember 2025
Heimildir

Arnórr jarlaskáld Þórðarson, Magnússdrápa 3. 2009. Útg. Diana Whaley. Poetry from the Kings’ Sagas 2. Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages 2. https://skaldic.org/m.php?p­verse&i=1592

Arnórr jarlaskáld Þórðarson, Hrynhenda, Magnússdrápa 4. Útg. Diana Whaley. Poetry from the Kings’ Sagas 2. Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages 2. https://skaldic.org/m.php?p­verse&i=1574&x=0&v­t

Fornmanna sögur, eptir gömlum handritum. Sjötta bindi. Kaupmannahöfn 1831. https://baekur.is/bok/eb19bbca-438e-4199-9cec-9d0b3c6dd0f8/6/6/Fornmanna#page/n5/mode/2up

Hrokkinskinna, GKS 1010 fol. Ljósmyndir. https://sprogsamlinger.ku.dk/q.php?p­ds/hjem/mapper/35431

Louis-Jensen, Jonna. Kongesagastudier. Kompilationen Hulda-Hrokkinskinna. Kaupmannahöfn 1977. https://timarit.is/page/7622415?iabr­on#page/n3/mode/2up/